30. desember 2006

Sumarfrí

Hér á suðurhveli jarðar er sumarleyfistími og því við hæfi að skreppa í smáferðalag. Við tvíbíluðum til búgarðar sem heitir Omaruru Game Lodge. Á ýmsu gekk á leiðinni. Vilhjálmur var búinn að finna styðstu leiðina á kortinu, en reyndar svokallaðir „D“ vegir góðan hluta leiðarinnar. Þessir D vegir eru malarvegir, svona misgóðir. Hvað um það, af stað var lagt um hádegisbil á annan í jólum. Ferðin gekk bara vel. Sáum við gíraffa utan vegar og auðvitað var stöðvað til að virða þær skepnur fyrir sér. Síðan var haldið áfram, þar til allt í einu varð stærðarinnar pollur á vegi okkar. Annar bíllinn rúllaði létt yfir, enda fjórhjóladrifinn jeppi, en hinn... við reyndum ekki einu sinni. Nú voru góð ráð dýr. Við skoðuðum kortið og sáum að hægt var að taka á sig krók. Við beint í það. Ýmsir smápollar urðu á vegi okkar, jeppinn öslaði í gegn og litli bíllinn fleytti kerlingar yfir.

En svo kom reiðarslagið. Risapollur, sjálfsagt 30 sm djúpur og ekkert nema drulla og leðja. Því var ekkert hægt að gera nema snúa við og finna „C“ veg. Þessi útúrdúr var svo sem ekkert mjög langur á namibískan mælikvarða, svona rétt eins og leiðin frá Reykjavík til Grundarfjarðar.

Ferðin gekk síðan áfallalaust fyrir sig þar til komið var til Omaruru, lítils bæjarfélags um 15 km frá búgarðinum. Smekklegur bær og þar sem ég er að rúnta í gegn og virða fyrir mér byggingar bæjarins, hringir gemsinn. „Það er sprungið á þeim litla!“

Því var snúið við og tekið við að skipta um dekk. Gulla hafði reyndar valið fínan stað fyrir svona lagað. Beint fyrir utan lögreglustöð bæjarins. Lögguliðið stóð þarna og fylgdist með aðförunum. En við þurftu svosum ekki að óttast að vera rænd á meðan.

Smáupplýsingar fyrir einn fastan lesenda þessara dagbókarfærslna: Þegar búið var að skipta um dekk þá var ég leiddur að garðslöngu lögreglustöðvarinnar til að geta þvegið mér um hendur. Vegamót hvað?

Við komumst síðan á leiðarenda svona u.þ.b. þremur tímum seinna en áætlað var. Rétt fyrir kvöldmat.

En á búgarði þessum kemst maður í nána snertingu við dýr landsins eins og sést á myndunum. Bæði spjóthafur (e. oryx) og hvítan nashyrning.

Látum myndirnar enda þessa færslu.



25. desember 2006

Jóladagur


Þá er aðfangadegi ársins 2006 lokið. Fínn matur og fullt af pökkum. Kærar þakkir til allra sem sendu okkur pakka og jólakveðjur.

Var að líta áðan yfir gjafirnar mínar og ég hef tekið eftir ákveðinni hneigð frá bókagjöfum til kvikmynda á mynddiskum. Það virðist sem auðveldara sé að velja myndir heldur en bækur. Ég held þetta sé svipað hjá mér sjálfum, valdi örugglega fleiri kvikmyndir heldur en bækur í jólapakka sem við gáfum. Sjálfsagt er þetta eitthvað fyrir félagsfræðinga til að skrifa lærðar greinar um.

Við Gulla skruppum svo í búðina áðan. Já, á jóladag. Ein matvörubúðin í hverfinu var opin til 13:00 í dag. Og það var allt brjálað að gera tuttugu mínútum fyrir lokun. Hmm, skyldu íslenskir verslunareigendur vera að missa af einhverju?

24. desember 2006

Dýrðlegt veður

Þá eru þrír tímar í jólin. A.m.k. hér í Namibíu. Ætli séu ekki fimm
tímar á Íslandi...

Hér gerði úrhellisskúr áðan. Alveg stórkostlegt, því þá datt hitinn
niður í 26-27 gráður. Alveg temmilegt og fínt upp á kvöldið að gera.

Hér liggur maður á bæn að biðja um rigningu. Ekki alveg það íslenskasta.

Annars var jólasteikin að fara í pottinn. Hamborgarahryggur keyptur í
Namibíu. U.þ.b. 750 krónur á kílóið kostaði hann. Hangikjötið fyrir
jóladag var soðið í gærkvöldi. Það var nú ekki keypt í Namibíu.
Reyndar ekki. Í morgun elduðum við brönsj, kanadískar pönnukökur og
beikon. Það dugir fram að kvöldmat, enda hægt að dýfa í nammiskálina
ef með þarf.

Pakkarnir liggja í stofusófanum og bíða þess að fara undir tréið.
Rúnar Atli virðist átta sig svolítið á þessu. A.m.k. skilur hann að
einhver bið er í gangi og að svo megi opna jólapakkana. Forvitnilegt
verður að sjá hvort hann muni tapa sér í kvöld.

21. desember 2006

Þögnin rofnar

Þá heyrist loksins píp frá manni. Búið að vera vandamál með
nettenginguna, var sambandlaus heimavið í rúman hálfan mánuð. En þau
mál komin í lag.

Allt í góðum málum annars. Öll fjölskyldan á staðnum og amman líka.
Við Gulla stungum af í tvær nætur í síðustu viku til að halda upp á
tuttugu ár í hjónabandinu. Fórum á stað sem heitir Sossusvlei,
kannski 350 km fyrir sunnan Windhoek. Sátum þar hönd í hönd með gin
og tónik að horfa á sólarlagið. Mjög flott.

Núna er verið að hefja jólaundirbúning, en reyndar er búið að vera
svo heitt að maður getur sig varla hreyft þegar loftkælingar hverfa
úr augsýn. Nær 40 gráðum en 30 marga daga. En við eigum nú fastlega
von á því að jólin komi nú á réttum tíma, þrátt fyrir sól og hita.

28. nóvember 2006

Komnir aftur út

Það hafðist að komast alla leið frá Akranesi til Windhoek. Gekk bara vel, svona almennt. Í Flugleiðavélinni sofnaði Rúnar Atli skömmu fyrir lendingu - yfir Hollandi nánar tiltekið - og var ekki mjög sáttur við að mega ekki sitja í fanginu á mér þegar farið var að lækka flug. Við komum okkur svo á hótelið. Fórum fyrst í sjoppu og keyptum okkur vatn og pitsusneið og samloku. Síðan upp á herbergi. Hann sonur minn tók stúlkurnar í hótelmóttökunni og vafði um fingur sér. Svo kvaddi hann þær meira segja með -bæ- og ég heyrði aðra segja -ó, þessi drengur bjargaði deginum mínum :-) Góður gaur.

Við sváfum síðan á þriðja klukkutíma, fórum í bað og sturtu - alveg fílefldir að því loknu. Rúnar Atli sá síðan McDonald's skilti á meðan við röltum um flugvöllinn og við fórum þangað og fengum okkur að borða. Hann var alveg með á hreinu að þetta McDonald's merki þýddi matur og það góður matur. Ekki veit ég hvernig hann er búinn að komast að þessu, því ekki er McDonald's í Namibíu.

Svo erum við að sýna brottfararspjöldin okkar einhvers staðar á flugvellinum og stúlkan sem skoðar þau fer allt í einu að tala við Rúnar Atla. Á þýsku. Ég held hún hafi spurt hvort hann hefði það ekki bara gott, en er þó ekki viss. Guttinn lítur niður á tær sér og svarar - Ja. Bara upp á þýskuna! Það virtist sem hann skildi hvað hún sagði. Ótrúlegt. Hér bögglast maður sjálfur við að reyna að skilja hvort verið sé að bjóða manni að hita pitsusneiðina eða ekki, en sá stutti - ekkert mál. Bara svara - ja.

Annars varð hann hræddur einu sinni. Við erum búnir að fara í gegnum vopnaleitina í Frankfurt og ég er með handtöskuna í hendinni og færi mig að öðru borði sem er þarna. Ég þurfti nefnilega að setja aftur á mig beltið, en það var greinilega var mjög grunsamlegur hlutur. Rúnar Atli áttar sig ekki á hvert ég fór og rak upp þvílíkt skaðræðisöskur að ég tók alveg undir mig stökk. Þarna var svo margt að sjá fyrir hann og svo þegar hann lítur þar sem ég hafði staðið, þá er bara allt í einu annar maður þar. Auðvitað krossbrá drengnum. Hann róaðist nú fljótt.

Flugið frá Frankfurt gekk mjög vel. Um mig fór kannski ekki mjög vel, enda sætin eru nú ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég náði kannski þremur og hálfum tíma með hléum, en Rúnar Atli svaf sjö tíma í striklotu. Gott í tæplega tíu tíma flugi. Missti hann meira að segja af morgunmatnum. Svo komumst við strax í gegnum vegabréfsskoðunina. Konan þar, sem var mjög þurrkuntuleg á svip, var farin að brosa út í annað út af Rúnari Atla. Oft gott að hafa svona gaur með sér. Töskurnar okkar tvær voru svo númer fjögur og fimm - kannski fimm og sex - á færibandinu þannig að engin bið var. Ég skellti Rúnari svo á háhest til að forðast tollinn, og viti menn, það svínvirkaði.

Krakkargemlingarnir hafa sína kosti.

19. nóvember 2006

Erfiðisvinna

Þá er líkamsræktin mín fyrir vikuna búin. Fór út - á sunnudagsmorgni - að skófla snjó. Ákvað að vaða í þetta áður en færi að frysta á nýjan leik. Mokaði frá innkeyrslunni, en byrjaði þó á því að hreinsa frá sorptunnunni. Ekki vill maður hafa sorphirðina á móti sér, svo mikið er víst.

Fór varlega í moksturinn. Enn er í fersku minni Þorláksmessa fyrir nokkrum árum, en þá var ég í Grundarfirði þegar fór að snjóa. Ég út að moka, eins og lífið ætti að leysa. Endaði ekki betur en svo að ég fór í bakinu. Komst ekki til hnykkjara fyrr en milli jóla og nýárs, enda var ég orðinn eins og vinkill í laginu. Tók marga mánuði að verða góður á nýjan leik.

Í dag gætti ég mín því á að pústa oftar en ekki, rétta úr bakinu og horfa til himins. Enda í fínu lagi núna.

Skellti líka upp spegli og veggljósi í baðherberginu. Bar líka silíkon meðfram sturtubotninum, en eitthvað virtist farið að leka þar.

Nóg að gera hjá húseiganda.

Nú er það svart...

... ja, eða hvítt...

Hvað er eiginlega í gangi? Kafsnjór á Akranesi í morgun þegar stigið var framúr rúminu. Skaginn sem er einhver snjóléttasti staður landsins. Rúnar Atli á bara ekki orð yfir þetta. Starði agndofa og opinmynntur á gröfu sem var á fullu að ryðja Stillholtið og Brekkubrautina. Við skruppum síðan í bakaríið og guttinn vildi sko engan veginn ganga í snjónum. Hallala - í lauslegri þýðingu: halda á mér.

Nú væri fínt að hafa namibíska jeppann. Ég renni um götur Akraness á fjölskyldukagganum, Chrysler Caravan, sem fer reyndar létt með snjóinn, enda á splunkunýjum vetrardekkjum. En það væri nú gaman að vera á fjórhjólajeppa, neita því nú ekki.

Annars er Rúnar Atli með einhverja óværu. Háan hita og kastaði upp í gærkvöldi. Vonandi nær hann að sofa þetta úr sér á næsta degi eða tveimur.

18. nóvember 2006

Jólamatur

Fór á jólahlaðborð í gær. Kannski fullsnemmt, en það kom ekki að sök. Staðurinn var Skíðaskálinn í Hveradölum. Ég hef nú ekki komið þangað í mörg ár. Fyrir bruna. Mjög flott þarna inni og maturinn góður. Kostur var að ekki voru langar biðraðir, þ.a. ég fór nokkrar ferðir og þurfti ekki að hrúga öllu á diskinn í einni ferð.

Kom svo heim um hálfeitt um morguninn og þá var standandi partý heima. Nei, ekki hún Dagmar Ýr, heldur Gulla... Fullt af barnaskólakennurum sem skemmtu sér vel, ekki vantaði það. Heldur var þetta óvænt, en bara gaman.

Nú er kominn morgunn, og enn kolniðamyrkur.

17. nóvember 2006

Frost á Fróni

Úff, það er kalt á klakanum þessa dagana. Rúnar Atli, kallanginn, fékk alveg áfall í gær þegar við komum út úr Leifsstöð. Ekki nóg með að væri kalt, heldur líka brjálað rok. Hann vissi bara ekki hvaðan á sig stóð veðrið - í bókstaflegri merkingu.

En ferðalagið gekk mjög vel. Við sváfum mestan tímann af fluginu til Frankfurt. Ég svaf svosum ekki vel, en svaf þó. Rúnar Atli sofnaði klukkan tíu að kvöldi að þýskum tíma og ég þurfti að vekja hann hálffimm - klukkutíma fyrir lendingu. Síðan tók ég dagherbergi á flugvallarhótelinu og þar sváfum við í góða tvo tíma. Fórum í bað og sturtu og vorum alveg endurnærðir þegar biðröðin hjá Flugleiðum hófst. Hún var auðvitað lengi þ.a. við verðlaunuðum okkur með MacDonald's.

Spes fyrir Tinnu Rut.

Síðan var Rúnar Atli ekki alveg sáttur við öryggiseftirlitið. Þegar öryggisvörðurinn mundaði málmleitartækið í áttina að honum, þá missti minn maður alveg sjálfstjórnina. Ekki var betra meðan var verið að skoða mig. En það hafðist nú.

Flugleiðaflugið var fínt, rúsínur og cheerios fyrir Rúnar Atla. Hann var mjög imponeraður með allar þær flugvélar sem hann sá. Flugvél - Ísland, var viðkvæðið hjá honum í tvo daga fyrir brottför. Nú er hann sem sagt kominn.

Síðan fórum við snemma í rúmið í gærkvöldi og sváfum frameftir að namibískum tíma.

En skidekoldt...

12. nóvember 2006

Hreinlæti

Rúnar Atli fór í bað áðan. Þykja nú ekki stórar fréttir, því það
gerir hann flesta daga. En núna var að renna í baðið og hann að
striplast á baðherbergisgólfinu, þegar ég þarf að hlaupa eftir
einhverju. Kem til baka og heyri að það rennur vatn í klósettkassann.
Minn hafði sem sagt sturtað niður.

Af hverju sturtaðirðu?, spyr ég.

Fávitaleg spurning, greinilega, því hann svarar: pissa.

Nú varstu að pissa? spyr ég.

Jah, segir hann.

Og hvar pissaðirðu?, spyr ég.

Hann fer með mig að hliðinni á klósettinu og sýnir mér hróðugur poll
sem er þar. Ekta karlmaður að hitta ekki oní.

En, hann sturtaði. Og setan var niðri.

Alveg eins og á að gera þegar búið er að pissa.

Snilld veðurfréttamanna

Heitt, heitt, heitt.

Síðustu þrjá daga verður veðrinu hér best lýst á einn hátt: heitt.

Skv. weather.com er 32 stiga hiti í Windhoek í dag. Og, já, það
fylgir með að ekki sé nóg með að það sé 32 stiga hiti, heldur finnst
fólki hitinn vera 32 stig.

???

Hvaða viska er nú þetta? Eru ekki 32 gráður 32 gráður?

Þetta kallar maður að gera einfalt mál flókið.

Ég ætla að skella loftkælingunni í gang í svefnherberginu og leggjast
ofaná sængina mína og gá hvort mér líði ekki betur eftir svona
hálftíma hraðkælingu.

11. nóvember 2006

Genin

Stundum veltir maður því fyrir sér hvað sé í genum barnanna manns.
Hversu mikið læra þau af umhverfinu og hversu mikið bara er hreinlega
til staðar.

Við Rúnar Atli fórum í verslun í morgun. Ég sé þar ágætis hatta til
verjast sólinni. Svonefndir krikkethattar, með stærðarinnar börðum
allan hringinn. Ef þið hafið einhvern tímann álpast til að sjá brot
af krikketleik þá kannski munið þið eftir svona höttum. Ég spyr
drenginn hvort hann vilji nú ekki svona hatt, en við höfum rætt það
svolítið að hattar séu nauðsynlegir þegar verið sé úti hér.

Neeeiii, hann virtist ekki fíla þetta alveg. Lái honum hver sem vill,
þetta eru ekki beint hattar sem sjást í tískublöðum. Kannski er í
genunum að líka bara ekki við krikket og allt sem þeirri íþrótt
tengist. Gæti verið.

Drengurinn rekur hins vegar augun í húfur úr einhvers konar ullar-
eða bómullargarni. Þær leist honum á. Endaði ég á því að kaupa tvær
húfur handa honum. Hvor kostaði svo sem ekki nema 70 krónur. En ég
fór að velta þessu fyrir mér. Ekki eru þetta mjög sniðugar húfur í
því veðri sem hér ríkir núna, en þær munu áreiðanlega gangast í næstu
viku þegar við komum til Íslands. Kannski eru einhver Íslendingagen á
ferðinni hér.

Veit það ekki.

Kannski hefur hann bara séð einhverjar rapparamyndir hjá Tinnu Rut en
þessir blessuðu rapparar hafa jú oft svona húfur dregnar niður í augu.

Veit ekki meir.

En drengnum verður vonandi ekki kalt á eyrunum í næstu viku.

10. nóvember 2006

Þungir þankar


„þér finnst mjög stutt síðan þú varst 22 ára?“ spyr minn elskulegi bróðir. Við mikinn fögnuð minnar enn elskulegri systur.

Hmm, já, ekki finnst mér langt síðan. Steinn Steinarr orti einhvern tímann ljóð sem heitir Barn. Þar lýsir hann því hvernig ævi manns rennur hjá. Síðasta versið hljóðar svo:

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöld!

Sem sagt, sögumanni finnst hann enn vera lítið barn þegar hann í raun er orðinn gamall maður. Páll Rósinkrans syngur þetta ljóð á plötunni Tónmilda Ísland.

Um 22 ára aldur gifti ég mig, vann í Teppalandi, bjó í lítilli kjallaraíbúð á Kambsvegi 11, átti sjálfskiptan Mitsubishi Tredia (reyndar átti Gulla hann), var barnlaus, hafði einu sinni farið til útlanda í þrjár vikur, fór í ljós reglulega, gekk um í mittissíðum leðurjakka og skóm með litlum dúllum á ristinni, átti til að fara á böll í Hollywood og á Broadway, hafði aldrei átt tölvu og kunni ekki á svoleiðis grip, lagði bleikt uppúrklippt teppi á svefnherbergið og gólfdúk með danssporum á eldhúsgólfið, átti bankareikninga í Búnaðarbankanum, Verslunarbankanum og Útvegsbankanum.

Já, mér finnst stutt síðan.

8. nóvember 2006

Ha, mamma þín í ljósum?

Fór út að borða með allan krakkaskarann áðan. Rúnar Atla, Tinnu Rut
og vinkonurnar tvær að heiman. Síðasta kvöldið þeirra tveggja hér. Á
meðan við erum þar fæ ég sms frá Gullu: Var í einkaþjálfun, alveg
búin, er að fara í ljós. Eða eitthvað í þessa áttina.

Vinkonurnar horfðu á Tinnu Rut: Fer mamma þín í ljós??? Tinna Rut
horfði á mig: Pabbi, fer mamma í ljós???

Ég rifjaði upp fyrir þeim þegar ég var á að giska 22 ára gamall og
stundaði grimmt, ásamt eiginkonunni, ljósastofur bæjarins. Þetta
fannst stúlkunum vægast sagt ótrúlegt. Mamma þín og pabbi í ljósum???
Tinna Rut gat lítið sagt.

Af hverju er svona erfitt að trúa þessu?

Hvað gerðist eiginlega frá því ég var 22 ára?

5. nóvember 2006

Hvert liggur leið?

Evel Knievel taktar

Tinna Rut lenti í ævintýri á fjórhjóli á laugardaginn. Hún fór ásamt Sölku og Möggu á fjórhjól í eyðimörkinni.




Hún var síðust í röðinni og svo drap hjólið hennar allt í einu á sér. Fararstjórinn tók ekki strax eftir því en skipaði síðan Sölku og Möggu að halda kyrru fyrir og fór að leita. Hjólið fór ekki í gang, þ.a. hann brunaði með hana aftan á til að sækja nýtt. Síðan var þotið til baka til að hitta þær tvær. En á leiðinni þá velti Tinna fjórhjólinu.

Takk fyrir.

Hún gætti sín ekki á að slá nægjanlega af í beygju og rúllaði því um koll. Hún er öll aum í vinstri hliðinni, en ekkert alvarlegt. Hefði getað farið verr, engin spurning. Hann var víst alveg í rusli gaurinn sem var að lóðsa þær. En þær héldu síðan áfram og skemmtu sér mjög vel. En Tinna Rut haltrar svolítið núna og er á fá stóran marblett á lærinu.

Íþróttameiðsl hafa alltaf þótt töff.

4. nóvember 2006

Fílaminni

Oft er sagt að fílar gleymi aldrei. Ég veit ekki hvort sú sé raunin
með Rúnar Atla, en minnugur er hann.

Þannig var að í dag sátum við á veitingastað í Swakopmund. Tinna Rut
og vinkonur hennar voru á trémarkaðnum, en við Rúnar Atli ákváðum að
fá okkur eitthvað í gogginn, enda farið að draga að hádegi. Nema
hvað, allt í einu vindur sér að mér maður og spyr hvort þetta sé ekki
herra Wiium. Ég jánka því auðvitað. Kannast við andlit mannsins
einhvers staðar frá, en kem honum ekki fyrir mig alveg strax. Hann
spyr síðan hvort sé ekki í lagi með handlegg sonar míns. Þá kviknar
allt í einu á perunni hjá mér. Þarna var læknirinn kominn sem kippti
Rúnari Atla aftur í olnbogaliðinn í júní.

Við ræddum nokkur kurteisisorð, eins og gengur. Sé ég þá allt í einu
að skeifa er farinn að myndast á Rúnari Atla og neðri vörin farin að
skjálfa. Fer hann síðan allt í einu að hágráta. Var greinilegt að
líka hafði kviknað á perunni hjá honum. Leist honum greinilega ekki á
blikuna, hefur líklega haldið að læknisskoðun myndi fara fram þarna á
veitingastaðnum. Tók góða stund að ná drengnum niður og tókst ekki
fyrr en læknirinn var horfinn á braut.

2. nóvember 2006

Brottför

Gulla komin út á flugvöll. Ætli sé ekki klukkutími í brottför hjá
henni þegar þessar línur eru skrifaðar. Kveðjustundirnar eru líklega
það erfiðasta við fjarbúðina. En núna huggar maður sig við að stutt
er í að við Rúnar Atli komum til Íslands. Eftir tvær vikur verðum við
líklega að renna í hlaðið á Stillholtinu.

Þangað til...

31. október 2006

Jóhanna að fitna?


Á sinni nýendurvöktu dagbókarsíðu er Jóhanna systir eitthvað að velta því fyrir sér hvort hún sé að fitna.

Þar sem ég á, í mínu myndasafni, myndir sem geta varpað ljósi á þessar vangaveltur þá þótti mér við hæfi - ja, annað hefði verið siðlaust - að birta þær hér. Hér er um að ræða mynd sem tekin var í Noregi í ágúst 2005. Varla hefur hún skánað síðan þá. Veit ekki meir.

En hér kemur sem sagt þessi mynd. Vil ég benda fólki á að horfa vel og vandlega neðarlega á myndina. Hún Jóhanna opinberar sig á mjög smekklegan hátt með því að láta skína í bert - sjást á milli laga.

Stundum er sagt að ein mynd segi meira en þúsund orð. Hvað segja tvær þá mikið? Fín spurning á stærðfræðiprófi. Hér kemur nefnilega önnur mynd, þar sem búið er að einangra meinið, ef svo má segja.



Dæmi nú hver fyrir sig.

29. október 2006

Íslandsför

Um miðjan nóvember þarf ég að fara á námskeið. Ekki styttra en til
Íslands, takk fyrir. Mæti ég til Íslands 16. nóvember ef spár
standast og fer aftur 27. sama mánaðar. Rúnar Atli kemur með, en
Tinna byrjar í prófum 15. nóvember og kemst því ekki í þessa ferð.

Ætli maður hitti ekki eitthvað af sínum tryggu dagbókarlesendum í
ferðinni.

Reikna með því.

Vonbrigði

Lögðum af stað til Etosha þjóðgarðsins á föstudaginn. Þar er verið að
betrumbæta gistiaðstöðu og þurftum við því að gista rétt utan garðs.
Þar var þessi fíni matsalur, þar sem þjónar og kokkar mættu við
upphaf máltíðar og tóku lagið fyrir gesti. Mjög sérstök upplifun, en
skemmtileg. Síðasta lagið af þremur var óður til hins ágæta suður-
afríska líkjörs, Amarúlla. Gaman.

Hins vegar var nokkuð af skorkvikindum þegar tók að skyggja. Vorum
við ósköp fegin því að sofa undir moskítóneti þá nóttina.

Síðan á laugardag var ekið inn í garðinn. Hófst dagurinn á rigningu,
sem vissi ekki á gott. Fór þannig að okkur gekk bölvanlega að finna
nokkur dýr og urðum við með miklum vonbrigðum með þessa ferð. Ekki
einn einasti fíll. Ekki einu sinni gíraffi sýndi á sér hálsinn. Að
vissu leyti endaði þetta því sem fýluferð.

En svona er víst lífið. Ekki alltaf eins og best verður á kosið.

24. október 2006

Útskrift

Þá er hún Gulla mín komin með meistaragráðu í félagsfræði!

Ég missti á útskriftinni sem haldin var 21. október, en fékk nokkrar myndir og hér er ein.

Til hamingju, Gulla.

23. október 2006

Mamman mætt

Þá er Gulla mætt á svæðið. Með fríðu föruneyti. Samanstendur það af
tveimur vinkonum Tinnu Rutar sem náðu að safna sér sjálfar fyrir
ferðalagi hingað.

Geri aðrir betur.

Ferðalagið gekk alveg ágætlega, ef frá skilið er vesen vegna
handfarangurs í London. Þau mál redduðust að lokum, en ekki þó fyrr er
tvisvar hafði verið staðið í sömu biðröðinni. Sagan segir að í fyrra
skiptið hafi röðin verið einn kílómetri að lengd, og í seinna skiptið
þrír kílómetrar. Hvorki meira né minna.

Við létum verða okkar fyrsta verk að kíkja á nýja húsið tilvonandi. Ég
hef nú ekkert rætt það í þessum dagbókarbrotum, en af ýmsum ástæðum var
húsið okkar ekki alveg nógu hentugt. Stendur það nú til bóta. Gullu
leist ljómandi vel á nýja húsið og efumst við ekki um að í því mun
okkur líða vel. Þangað flytjum við líklega 1. desember.

Rúnar Atli er virkilega ánægður með að hafa endurheimt mömmu sína.
Hoppar hann og skoppar um allt af gleði.

Mamman er víst alltaf best.

22. október 2006

Kona - halló!

Eins og gengur þá skreppum við oft í búðir. Rúnar Atli vill þá gjarnan
halda á einhverju sem á að kaupa. Stundum er hann t.d. að drekka djús í
búðinni sem þarf síðan að greiða við kassann. Þá segi ég oft við hann
að nú skuli hann láta konuna hafa hvað sem hann nú er með. Það þurfi að
borga. Gerir hann þetta yfirleitt möglunarlaust.

Í morgun kíktum við í bókabúð og fékk hann eina bók. Hélt hann á henni
á meðan við Tinna Rut vorum að skoða bækur og blöð fyrir okkur. Svo
komum við að kassanum og þurftum að bíða þar aðeins. Fer þá ekki
drengurinn að kalla, kona, kona! Enginn hér skilur þetta, þ.a. ég segi
svo við Rúnar Atla, afhverju segirðu ekki halló við konuna? Hann prófar
það, og viti menn, konan svarar hello til baka.

Flott fannst honum þetta. Síðan erum við aðeins á rúntinum og Rúnar
Atli með opinn glugga. Við staðnæmumst á rauðu ljósi þegar hann fer
allt í einu að gjamma út um gluggann: Kona, halló, kona!

Ég ýtti snöggt á bensínið og brunaði í burtu.

Mósambík

Skrapp í skottúr til Mósambíkur í vikunni. Var boðaður á fund þangað.
Fór á miðvikudagseftirmiðdegi héðan, flaug í tvo tíma til
Jóhannesarborgar, en þar er helsti skiptiflugvöllur svæðisins. Þurfti
að bíða nokkuð þar, en vélinni til Mapútó seinkaði um heilan
knattspyrnuleik. Flugið til Mapútó var síðan ekki nema þrjú kortér eða
svo. Þá tók við bið eftir vegabréfsáritun. Tók biðin annan
knattspyrnuleik. Kom svo á hótelið rúmlega 10 um kvöldið.

Sá lítið af landinu. Fór á milli hótels og fundarstaðar nokkrum sinnum,
kom á tvo matsölustaði og sá eina rannsóknastofu og
eftirlitsskrifstofu. Sú síðastnefnda er reyndar í rauða hverfi
borgarinnar. Ég var þar rétt eftir hádegi, þ.a. ég varð nú bara að taka
orð leiðsögumannsins trúanleg hvað þessa kvöldstarfsemi áhrærir. Svo í
gærmorgun var mætt út á völl í Mapútó klukkan fimm að morgni og komið
til Windhoek rétt eftir hádegi.

Frekar tíðindalítil ferð sem sagt. En þarna væri gaman að koma sem
ferðamaður. Hótelið var á ströndinni, Indlandshafsströnd, og greinilega
nokkuð af ferðamönnum sem koma þarna. Seinna.

17. október 2006

Áhyggjuefni?

Fór og lét klippa mig í dag.

Síðan ég kom hingað í byrjun árs þá hef ég tekið upp á þeim sið,
kannski ósið, að þegar ég er búinn í hárgreiðslunni, þá panta ég mér
alltaf tíma fjórum vikum síðar. Á sem sagt alltaf einn tíma í
hárgreiðslu útistandandi.

Flottur.

En í morgun tók fyrst steininn úr. Ég pantaði mér tíma um miðjan
nóvember, en lét ekki staðar numið þar. Nú á kappinn tíma 14. nóvember
og líka 16. desember.

Ástæða til að fá áhyggjur? Veit ekki. Hvað skyldi Gestur Einar segja um
svona lagað?

Er hins vegar alltaf flottur um hárið.

3. október 2006

Sterkur og stór og fleiri myndir



Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Jæja, þá líður að jólum. Fór í búð áðan, Game, nánar tiltekið fyrir þá
sem til þekkja. Þar er allt á fullu við að setja upp jólatré... Hmm, 3.
október og allt komið í fullan gang fyrir jólin.

En ætli maður kaupi sér ekki gervitré að þessu sinni. Eitt stórt! Kom
með einn kassa af jólaskrauti með mér hingað út. Þarf maður ekki bara
að fara að opna hann og skoða?

Vonandi að maður nái að halda jólaskapinu fram yfir 24. desember...

28. september 2006

Ferðalag

Var að koma úr ferðalagi. Fór af stað á bílaleigubíl klukkan fimm í
gærmorgun. Ók sem leið lá suður á bóginn. Tók fimm hundruð kílómetra á
fjórum tímum sléttum. Svo það sé nú á hreinu, þá er hámarkshraði á
þjóðvegunum hér 120 km/klst.

Ég átti fundi í Keetmanshoop klukkan tíu í gærmorgun og var ég mættur
um klukkutíma fyrr. Þokkalegasti bær, Keetmanshoop, a.m.k. svona við
fyrsta rúnt um bæinn. Hef ekki komið þarna nema einu sinni eða tvisvar
og þá bara til að kaupa bensín. Að fundi loknum hélt ég ferð minni
áfram til Luderitz, en þar átti ég fund klukkan þrjú. Frá Keetmanshoop
til Luderitz eru 350 km, þ.a. þar voru tveir tímar og 30 mínútur til
viðbótar í akstri. Nú var sko gott að hafa iPodinn minn nýja sem ég
keypti í Fríhöfninni á leiðinni út um daginn. Keypti mér líka svokallað
iTrip sem gerir kleyft að hlusta á iPodinn í gegnum útvarpið í bílnum.
Hrein snilld.

En mikið er nú Namibía flott land. Sumstaðar er landslagið svo
stórbrotið að maður á bara ekki orð.

En ég var sem sagt á þessu fundarstússi. Fór svo í skoðunarferð um
fátækrahverfi Luderitz með manni af bæjarskrifstofunni. Sama er hversu
oft maður kemur í svona hverfi, alltaf er það jafnnöturlegt. Þvílík
heppni að maður skyldi álpast til að fæðast á Íslandi. Ef þið spáið í
það, þá eru líkurnar á því að fæðast þar frekar litlar. Sex milljarðar
manns búa á jörðinni, og reyndar svolítið meira, og 300.000 af þeim búa
á Fróni. 0,005% líkur á að vera Íslendingur.

En kannski getum við eitthvað aðstoðað þetta fólk, þótt í litlum mæli
sé.

Flaug svo heim í dag og mikið var gott að komast aftur heim. Þoli ekki
hótelherbergi, hreint út sagt.

Síðan á morgun liggur leiðin norður í land, til Opuwo í Himbalandi.
Þangað eru u.þ.b. 670 km, ef minnið bregst ekki, svo aftur þarf að
keyra. Er með iPodinn í hleðslu...

23. september 2006

Salernisferðir

Hann sonur minn er eitthvað farinn að spá af alvöru í þetta með
koppinn... Hann er farinn að setjast svolítið á hann á kvöldin. Talar
líka svolítið um þessi mál, pissa og kúka og þar fram eftir götunum.

Svo í dag, sjálfsagt um fjögurleytið kemur hann til mín og fær því
framgengt að ég taki af honum bleyjuna, því hann þurfi að kúka. Nú, ég
fer og fylgist með gutta þar sem hann baksar með koppinn. Vandamálið
hjá honum er að hann situr ekki meira en svona þrjár sekúndur í einu á
koppnum. Þá þarf að færa hann til, nú eða setja fótinn ofan í hann, eða
setja hann á höfuðið. Eða bara eitthvað.

Eftir einhverja stund gefst ég upp á þessu og segi honum að láta mig
vita þegar hann vilji fá bleyju. Hann var þegar þarna er komið sögu
allsber. Síðan fer ég að lesa Moggann á tölvunni. Eftir smástund kemur
hann vælandi efst í tröppurnar, útataður í einhverju brúnu... Haldiði
að hann hafi ekki kúkað á mitt hjónaherbergisgólfið...

Ég þýt auðvitað til og skelli honum ofan í baðkarið og spúla drenginn
hátt og lágt. Hann var nú ekki sáttur við þá meðferð get ég sagt ykkur.
Finn síðan teppahreinsi og náði þessu bara öllu úr teppinu. Vann jú í
Teppalandi á sínum tíma og þurfti stundum að ráðleggja fólki í gegnum
síma með blettahreinsun úr teppum.

Svo fór ég að segja við hann að hann mætti ekki kúka á gólfið - neih,
sagði hann - hann yrði að kúka í koppinn - jáh, sagði hann. Hann var
svo ræfilslegur karlanginn að það var algjör bíó. Hann greinilega
skammaðist sín niður í tær.

En ég var nú ánægður með að hann skuli koma svona áður en hann kúkar.
Hann vissi greinilega hvað var að fara að gerast hjá sér, þ.a. kannski
verður hægt að venja hann af bleyjunni innan of langs tíma, hver veit.
Ég er svona að velta fyrir mér að taka bara eina helgi í þetta einhvern
tímann á næstunni. Undirbúa þetta svona eins og klippinguna, sem sagt
ræða þetta einhverja daga á undan og byrja svo bara
föstudagseftirmiðdag að hafa ekki bleyju á honum.

Vandamálið er bara að finna góða helgi. Leyfi ykkur að fylgjast með
þessum málum.

Klipping

Í morgun var loksins látið verða af því að fara með Rúnar Atla í klippingu. Útaf krullunum hans hef ég ekki alveg treyst mér útí þetta sjálfur. Ræddi fyrir nokkru við dömuna sem klippir mig alltaf og samdist okkur til að ég mætti bara með Rúnar Atla þegar ég færi í klippingu og svo sæjum við til.

Í morgun, sem sagt, rann þessi dagur upp. Ég var búinn að undirbúa Rúnar Atla í marga daga til að þetta kæmi honum nú ekki á óvart. Hann er jú frekar hvekktur á ókunnugu fólki sem ætlar að gera eitthvað við hann, alveg síðan hann fór í sprautupakkann fyrir Namibíuferðina.

Honum leist nú ekki alltof vel á þegar hárið á mér var þvegið. Grét örlítið, en hætti því svo. Síðan sat hann við hliðina á mér þegar ég var klipptur. Virtist nú ekkert rosalega spenntur. Lét sig þó hafa það að koma í fangið á mér og var frekar duglegur á meðan hann var klipptur. Einstaka grátsvetta kom, en ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ekki mátti gleyma að fá fyrsta lokkinn og var ég með lítinn poka til að safna hári í. Var það gert svikalaust.

Núna er guttinn mjög hreykinn af sjálfum sér, og má það líka alveg.


19. september 2006

Símatími

Alveg er nú þetta blessaða símaforrit, Skype, frábært. Ég tók mig til
og skellti nokkrum evrum inn á skæpið til að geta hringt í heimasíma
beint út tölvunni. Nú er ég búinn að prófa að hringja í nokkur númer,
bæði heima á Fróni og einnig í Svíþjóð og er ég mjög ánægður með gæðin.
Einna verst kom út að hringja í farsíma í Svíþjóð. Þegar ég sá síðan að
hringing í svoleiðs græju er næstum 20-falt dýrari en að hringja í
heimasíma í því mæta (hóst, hóst) landi, þá ímynda ég mér ekki að ég
geri þetta aftur.

Talandi um kostnað. Samtals hef ég talað í 45 mínútur síðan ég fór að
prófa þetta. Ekki er þetta nú dýrt, heilar 152 krónur hef ég greitt
fyrir þessi símtöl.

Ætli þetta sé ekki bara ódýrara en að hringja innanlands á Íslandi?

17. september 2006

Menning

Í dag fórum við Rúnar Atli á lista- og menningarhátíð Windhoekborgar.
Hún er haldin á hverju ári, hófst í þetta sinn á fimmtudaginn var og
lauk í dag. Við sátum í tvo og hálfan tíma og hlustuðum á ýmsar
tónlistaruppákomur. Hver hljómsveit/kór/einstaklingur hafði u.þ.b. tíu
mínútur til að syngja, þ.a. við heyrðum í nokkrum fjölda atriða. Fæstir
voru með hljóðfæri, heldur var bara söngur. Fæstir sungu á ensku, þ.a.
ég var sjaldnast með á hreinu hvað lögin fjölluðu um. Grunar mig þó að
mörg hafi verið dýrðarsöngvar um drottinn.

Ég skemmti mér bara ágætlega, ekki síst við að fylgjast með áhorfendum.
Oft var mikið hrópað og kallað og klappað þegar vel tókst til og oft
tekið undir þegar þekkt lög voru sungin.

Fyrir framan okkur var lítil stelpa, sennilega á svipuðum aldri og
Rúnar Atli. Skemmtilegt var að fylgast með henni því ef lögin voru
skemmtileg að hennar mati þá stóð hún í sætinu sínu og dillaði sér og
klappaði. Greinilega tónlistin í blóð borin.

16. september 2006

Svíagrýla...

Ég hef nú aldrei þótt neinn sérstakur Svíavinur. Ýmislegt er nú sjálfsagt ágætt við Svíaríki, t.d. er svilkona mín, hún Pía, alveg stórfín. Reyndar er hún Finni að hálfu. Gæti haft eitthvað að segja, veit það ekki.

En svona almennt væri niðurstaða utanaðkomandi skoðunarmanns líklega að Svíþjóð sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.

Sérstaklega á þetta auðvitað við um íþróttir. Kannski er allt annað við Svíþjóð í fínu lagi. En á íþróttasviðinu, nei, mér líkar bara ekki við sænsk landslið af neinu tagi. Svíar eru náttúrulega svo hryllilega montnir þegar kemur að íþróttum að það slær meira að segja út höfðatölurembing okkar Íslendinga. Þá er nú mikið sagt, en samt satt.

Þið getið því ímyndað ykkur hvernig mér líður þessa dagana... Ástandið er nefnilega þannig að í þau skipti sem ég geng með syni mínum að fataskápnum hans og spyr hvaða föt hann vilji fara í, þá segir hann: „Dodda, Dodda.“ Er hann að skírskota til þess að móðurbróðir hans, Doddi, hefur gefið honum föt sem hann vill endilega fara í.

Kannski væri þetta ekki í frásögur færandi, nema fyrir þær sakir að þessi föt eru tvær sænskar fótboltalandsliðstreyjur og einar stuttbuxur við. Ég þarf sem sagt að taka út treyjurnar tvær og leyfa syninum að velja hvora hann vill. Síðan þarf að klæða hann í þessa múderingu. Ég get svo svarið fyrir það að svitinn sprettur út á andlitinu á mér við að klæða drenginn í, og helst þarf ég að fá mér gin og tónik til að ná hjartslættinum niður.

Ekki bætir úr skák að önnur treyjan er með nafni sænsks leikmanns á bakinu. Sá spilar auðvitað með Arsenal, af öllum liðum. Þvílík örlög að þurfa að ganga í gegnum svona lagað. Doddi gætti sín auðvitað á því að láta merktu peysuna vera það stóra að hún nær niður að hnésbótum á vesalings barninu.

Best að fara að panta tíma fyrir Rúnar Atla strax hjá Dr Phil og Oprah...

14. september 2006

Bíladella

Rúnar Atli er nú alveg frábær. Fyrr í dag var ég að sækja hann af leikskólanum. Við erum með ákveðna rútínu þar sem ég læt hann hafa bíllykilinn og svo opnar hann bílinn þegar við komum út á plan.

Í dag þó brá hann út af vananum og lét mig hafa bíllykilinn til að geta lokað hliði sem er þarna, en það er með krók í góðri hæð fyrir hann. Síðan þegar hann er búinn að loka vill hann ekki fá lykilinn aftur. Mjög óvanalegt.

Hann stendur bara við hliðið og bendir eitthvað og segir „pló, pló“.

Ég skil ekki neitt í neinu en fæ hann nú til að leggja af stað í áttina að bílnum, svo við löbbum aðeins lengra. Enn vill hann ekki lykilinn, stoppar aftur og bendir:

Pló, pló, pló

Ég fer því að horfa betur í kringum mig og sé að hann er að benda á fólksvagn af Póló gerð! Pló var semsagt Póló.

Það er nefnilega Póló í vinnunni hjá mér og ég nota þann bíl stundum. Sótti Rúnar Atla á honum fyrir nokkrum dögum. Lykillinn á þeim bíl er nefnilega svo flottur að Rúnars Atla mati. Ef maður ýtir á lítinn takka þá skýst lykillinn út. Hann vildi sem sagt svoleiðis lykil, úr því hann sá Póló á staðnum.

Að lokum tókst mér að sannfæra hann að koma í Toyotuna eins og venjulega.

En drengur þekkir greinilega bílana sína.

9. september 2006

Komin til Windhoek

Komin á leiðarenda eftir langt ferðalag. Það fyrsta sem ég gerði eftir
að koma aftur hingað var að koma börnunum í rúmið og fór síðan í sturtu
sjálfur. Reyni ekki að lýsa vellíðaninni þegar ég setti á mig
svitalyktareyði og rakspíra. Líkamsanganin var nefnilega orðin
fullsterk...

Ferðalagið gekk annars alveg ágætlega. Auðvitað komu tímabil sem ég var
orðinn frekar þreyttur og pirraður. Sér í lagi um þrjúleytið í nótt að
namibískum tíma. Þá var Rúnar Atli búinn að sofa í tvo tíma, þar af
þann seinni í fanginu á mér, og fór að brjótast um. Það var alveg
lífsins ómögulegt að koma mér fyrir á þannig hátt að hentaði okkur
báðum. Á þessum tímapunkti vorum við búin að vera í langa fluginu í
u.þ.b. fjóra tíma og ég sá fram á fimm tíma til viðbótar í þessu
pyntingartæki sem flugvélasæti eru. Mig grunar satt að segja að þeir
sem hanni þessi sæti hafi aldrei flogið langflug. Og alls ekki með
börn. T.d. er lífsins ómögulegt að fá arminn milli sætanna að haldast
uppi þ.a. hægt sé að treysta að hann komi ekki húrrandi niður. Síðan er
lagið á þessum sætum bara aldeilis ómögulegt. Svipað og
tannlæknastólar, búnir til eftir einhverri meðaltalspersónu sem er bara
ekki til.

En það fór betur en á horfðist, mér tókst að koma Rúnari Atla þannig
fyrir að hann gat sofið áfram og ég dottað með. Hins vegar slappar
maður engan veginn af þegar barnið er sofandi við hliðina á manni og
gæti dottið niður á gólf... En guttinn svaf örugglega í fimm og hálfan
tíma og var bara hress á milli. Reyndar kastaði hann upp í lendingu, en
það reddaðist nú. Blauttissue og bréfaþurrkur ávallt tilbúnar :-)

Tinnu Rut leið heldur ekki vel þegar hún vaknaði rétt fyrir morgunverð.
Munaði minnstu að hún kastaði upp, en það leið svo hjá. Nóg að gerast.

Á Íslandi lentum við í heilmikilli töf. Flugmaðurinn virðist hafa
einhverjar ákveðnar 15 mínútur til að koma sér af stað. Einhverra hluta
vegna dróst það hjá okkur og það þýddi bara klukkutíma seinkun. Og
allir komnir út í vél. Þannig að við sátum í klukkutíma í vélinni fyrir
utan Leifsstöð. Æðislega gaman, eða hitt þó heldur. En Rúnar Atli var í
stuði og eftir matinn svaf hann í góðan klukkutíma.

Á Gatwick var drengur dúndurhress. Hann hljóp um alla rangala sem við
þurftum að fara. Ég held ég hafi bara ekkert haldið á honum. Svo hagaði
hann sér vel á eðalstofunni, reyndar svolítið hvell röddin stundum, en
ekkert sem var neinum til ama.

Alveg er frábært að sjá muninn á Rúnari Atla núna og í janúar þegar við
fluttum. Núna spáir hann svo mikið í flugvélarnar og allt sem í þeim
er. Hann lærði núna af reynslu að ekki borgar sig að kalla á
flugfreyjurnar að óþörfu :-) Sá takki var ó-ó eftir það. Síðan spennti
hann á sig beltið og hlýddi orðalaust að ekki mátti taka borðið út fyrr
en sætisbeltaljósið væri farið. Gaman að þessu.

Í heildina gekk ferðin bara vel. Smáleiðindakaflar, en ekkert sem er
ekki þegar farið að gleymast.

8. september 2006

HA?

Forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu hljóðaði svo:

„Fyrirliði íslenska landsliðsins ósáttur í leikslok og strunsaði beint út af vellinum: Áhorfandi slasaðist í stúkunni.“

Naumast þetta hefur verið struns á honum Eiði Smára! Oft hefur verið talað um að eiga fótum sínum fjör að launa, en þessi áhorfandi hefur greinilega verið með náladofa í fótunum og ekki náð að forða sér úr vegi Eiðs Smára.

Hvernig er eiginlega með prófarkalestur? Ég meina, á forsíðunni...

7. september 2006

Frændurnir

Rúnar Atli kynntist mörgu fólki í Íslandsförinni. Flott fannst honum að hitta Loga Snæ, einn gaur í sinni líkamsstærð. Fór vel á með þeim eins og sést.

Sundgarpar

Við Rúnar Atli höfum tekið sundið með trompi þessa daga á Fróni. Að undanskildum laugar- og sunnudegi höfum við farið í sund á hverjum einasta degi. Ég sé líka mikla breytingu á honum. Fyrsta daginn var hann límdur við mig, grét í sturtu, og var bara almennt ekki sáttur við suma hluti tengda sundferðinni. Í dag, hins vegar, réð hann sér ekki fyrir kátínu í lauginni. Lét sig fljóta á meðan ég var eitthvað að sniglast í kringum hann. Heimtaði margoft að fá að hoppa af bakkanum útí laugina og vildi svo endalausar ferðir í rennibrautinni. Meira að sega reif hann mig úr heita pottinum, sem er okkar afslöppun, til að fara eina bunu til viðbótar. Og sturtan... ekkert mál.

Nú er stefnan að reyna að fara sem oftast í þær tvær sundlaugar í Namibíu sem eru upphitaðar. Önnur er u.þ.b. 90 km fyrir norðan Windhoek, Gross Barmen heitir staðurinn, nálægt Okahandja fyrir þá sem hafa komið í heimsókn. Hin er svipaða vegalengd í suðurátt, í Rehoboth.

Kannski við förum bara núna á sunnudaginn til Gross Barmen, hver veit?

Líður að heimför

Þá er Íslandsheimsókninni að ljúka. Búið að vera gaman, en kannski fullstutt. Í dag hefur verið þeytingur. Klára allt sem þarf að klára. Byrjaði eiginlega í gær þegar ég sló blettinn. Alla 600 fermetrana eða hvað þetta nú er. Svo í dag þurfti að gera við vatnsdæluna sem sér um að húsið fari ekki á flot. Einhver gáfaður hafði notað venjulega kló og vafið einangrunarlímbandi utanum. Svo gaf þetta sig undan veðri og vindum einhvern tímann í sumar og sló allt út í kjallaranum. En nú er þetta komið í lag. Svo þurfti að fara með dót á haugana og setja upp hillur í herberginu hennar Dagmarar. Síðan þurfti að skjótast á pósthúsið og einnig fara í Tryggingarmiðstöðina, því ein taskan kom seint. Einhverjar bætur þarf að fá vegna þess. Annar bíllinn þurfti í viðgerð líka...

Nú sit ég hér dauðþreyttur og pikka þetta inn, en hún Gulla mín er að elda fiskibollur handa okkur. Þannig gómsæti fæst ekki í búðum í Namibíu.

29. ágúst 2006

Afmæli

Litli guttinn orðinn tveggja ára!

Afmælisdagurinn hefur verið frekar slappur það sem af er útaf
ferðalaginu í kvöld. Greinilega þótti Rúnari Atla þetta slæmt mál, því
hann heyrðist syngja: „...birthday to you...“

Sem sagt, þarf að syngja afmælissönginn sjálfur!

Styttist...

Þá styttist í brottför, u.þ.b. fjórir tímar þar til vélin fer af stað.
Ekki farið að setja ofan í töskur ennþá... En mun gerast á næsta
hálftíma eða svo. Auðvitað komin spenningur í liðið.

28. ágúst 2006

Ofurhugar!

Haldið var niður til strandar um helgina. Svíarnir sem voru hér í heimsókn fóru niðureftir á föstudeginum, með Tinnu Rut sem leiðsögumann. Auðvitað var farið á fjórhjól, hvað annað. Við Gulla og Rúnar Atli héldum síðan niðureftir á laugardeginum. Sá dagur, 26. ágúst, nefnist hetjudagurinn hér í Namibíu og er verið að minnast fallinna stríðhetja. Hvað um það, sum okkar strandarfara sýndum hetjuskap á þessum degi, enda ekki annað við hæfi.

Við fórum í svokallað „foefie“-brun (fbr. fúfí). Einhverjum manni í Swakopmund datt það snallræði í hug að tengja vírspotta á milli tveggja fjallstinda og bjóða fólki að renna sér eftir þessu. Auðvitað gegn greiðslu. Við fórum sem sagt af stað til að prófa þetta ævintýri. Doddi og Gulla reyndar gugnuðu á þessu. Jæja, þau sýndu reyndar aldrei neinn áhuga, verður að viðurkenna. Ég, Pía, Emil og Tinna héldum hins vegar á vit ævintýranna með bros á vör. Reyndar var brosað mismikið þegar verið var á leið upp fjallið. Þurftum við að feta einstigi með hyldýpi á aðra hönd, svo ekki mátti skrika fótur. Hafðist nú að komast á leiðarenda og þá gaf að líta. Þarna var vírinn vafinn utan um klett og síðan lá hann yfir að hinum tindinum, einn kílómetra í burtu. Ekki var stutt til jarðar, svo ekki sé meira sagt. Mun þetta vera lengsta svona strengjabrunbraut í allri veröldinni.

Mönnum leist þannig á að ég væri þyngstur... og átti því að fara fyrstur. Leiðsögumaðurinn sagði að það væri til að sjá hversu langt ég færi upp hinum megin, því þær upplýsingar kæmu sér vel fyrir samstarfsmenn hans sem höfðu þann starfa að hala okkur niður að ferð lokinni. Mig grunaði þó að hugmyndin væri sú að ef sá þyngsti kæmist á leiðarenda án þess að strengurinn gæfi sig þá væru hinir nokkuð öruggir.

Jæja, ég var beislaður upp og síðan látinn góssa af stað. Er skemmst frá að segja að eftir fyrstu metrana var þetta virkilega skemmtilegt. Þjóta þarna áfram á fleygiferð - frjáls eins og fuglinn. Nær maður víst 70-80 km hraða á klst. á þessari braut.

Tinnu Rut leist ekki á þetta, en lét sig engu að síður hafa það að fara niður. Myndin hér að neðan sýnir hana að ferð lokinni, með sólgleraugu að sjálfsögðu. Hún var ánægð að ferð lokinni, ekki síst þar sem Doddi frændi þorði ekki.

13. ágúst 2006

Breytingar

Kominn sunnudagsmorgunn. Við Rúnar Atli vöknuðum fyrstir, bökuðum vöfflur og hámuðum þær í okkur með sultutaui. Drukkum te með. Lítið af vöfflum eftir handa hinum ;-)

Annars er ég með hálfgerða strengi í framhandleggjunum. Þannig er að Tinna Rut hefur um nokkurt skeið akíderað fyrir því að skipta um herbergi. Hún hefur augastað á herbergi bróður síns. Auðvitað er hún búin að plana allt og sér fyrir sér að hann, kallanginn, lendi í minnsta herberginu í húsinu. Eftir eldhússkipulagið í gær, þá voru hönnunarsellurnar í fullum gangi hjá okkur öllum og ákveðið var að drífa bara í þessu. Helsta vandamálið var að Tinna Rut sankar að sér alls konar &#8222verðmætum&#8220 og því tók nokkurn tíma að vinna að þessu. Ég fór í að skrúfa í sundur barnarúmið og setja það aftur saman. Síðan þurfti að burðast með stærðarinnar skáp sem Tinna Rut vildi endilega fá með sér. Við drösluðum honum upp tröppurnar fimm í herberginu gamla, einungis til að uppgötva að hann komst ekki út um dyrnar. Góð ráð voru dýr, en sem betur fer eru dyr út í garðinn sem hægt var að nota. Skápurinn fór því aftur niður, út um garðdyrnar, upp tröppur á veröndina, þaðan inn í stofu, upp fleiri tröppur, inn ganginn og komst svo loksins á leiðarenda. Skýrast strengirnir í framhandleggnum af þessu.

En flutningarnir kláruðust að mestu leyti í gær. Einungis tölvuborðið eftir. Nú verður sem sagt skrifstofan okkar í gamla herberginu hennar Tinnu, Tinna komin í gamla herbergið hans Rúnars Atla og svo Rúnar Atli kominn í gömlu skrifstofuna. Hann svaf vært í nótt. Þegar við spurðum hann hvort hann hefði sofið vel, sagði hann: Jáhh.

12. ágúst 2006

Eldhúsmál

Skömmu eftir við fluttumst hingað, þá ræddi ég um eldhúsið við eiganda hússins sem við búum í. Mér þótti það alveg mega við smávegis upplyftingu, appelsínugular skáphurðir og gular veggflísar. Eitthvað frá fyrri hluta áttunda áratugarins, ef ekki eldra. Eigandinn, sem er ósköp almennileg kona, þrátt fyrir að vera fasteignasali :-) , melti þetta í einhverja mánuði og ákvað svo að láta skipta um skápahurðir og borðplötur. Skemmst er frá að segja að hún varð mjög óánægð með útkomuna, og eftir fundarhöld með mér og eiganda eldhúsinnréttingaverslunar þá var ákveðið að við Gulla færum að skoða eldhúsinnréttingar. Við eyddum tveimur tímum í morgun í versluninni og virðist allt stefna í gjörbyltingu í eldhúsmálum.

Þetta var nú svolítið merkileg lífsreynsla. Að ákveða hvernig maður vill hafa eldhúsið sitt, en þurfa ekki að borga neitt. Hafa engan snefil af tilfinningu fyrir verðum. En við ákváðum bara að njóta þess. Líklega ekki oft sem svona tækifæri gefst.

En svolítið er skondið með konuna sem á húsið. Hún rekur fasteignasölu, sem fyrr sagði, ásamt nokkrum sonum sínum. Hún er voðalega sparsöm, af gamla skólanum segir hún, og vill alltaf reyna að nýta það sem fyrir er. Synir hennar hins vegar, skilja ekkert í þessum nánasarhætti í móður sinni og reyna að telja henni trú um að best sé að henda út gömlu drasli og setja nýtt í staðinn. Þeir virðast hafa vinninginn sem stendur í eldhúsmálum, enda var móðirin mjög ósátt við eldhúsið eftir breytingarnar. Við njótum því góðs af sem stendur.

9. ágúst 2006

Merkisdagur

Gulla minnti mig á það í morgun að í dag eru nákvæmlega 15 ár síðan við
lögðumst í víking og fluttumst til Vancouver. Meiningin var að vera
eitt ár í námi þar og koma svo heim. Tólf ár liðu hins vegar áður en
haldið var heim og síðan eftir tvö og hálft ár heima var aftur lagst í
víking.

Einhverja skýringu hljóta sálfræðingar að eiga á svona löguðu.

Flakk

Sælt veri fólkið.

Undanfarið hef ég verið á endalausum þeytingi í vinnunni. Í síðustu
viku júlímánaðar þurfti ég að fara til Lüderitz, sem er eins mikið útúr
og hægt er hér í Namibíu. Ég þarf að fara þangað öðru hverju og flýg
yfirleitt. Í þetta sinn var ákveðið að keyra og nýta ferðina til
fundarhalds í bæ einum á leiðinni. Til að komast til Lüderitz frá
Windhoek þarf að aka 850 kílómetra. Aðeins. Þetta ferðalag tók þrjá
daga, einn dag í akstur suðureftir, einn til funda, og einn til aksturs
aftur heim. Kom heim undir kvöldmat á fimmtudegi. Síðan á sunnudeginum
var aftur lagt af stað. Nú var hins vegar stefnt norður á bóginn, til
bæjar sem heitir Oshakati. Þangað er nú styttra, ekki nema 750
kílómetrar u.þ.b. Þar eyddi ég fjórum nóttum og kom aftur heim á
fimmtudaginn í síðustu viku. Sýnist mér að aksturinn hjá mér hafi
slagað hátt í 4.000 kílómetra á þessum níu dögum.

Í dag þurfti ég svo á fund í Usakos. Þangað eru ekki nema 211
kílómetrar, svo ég skaust þangað bara eftir hádegið. Lagt af stað
rúmlega tvö, fundur hófst kortér fyrir fimm í rúman hálftíma og svo
brunað til baka. Kominn heim rétt eftir kvöldmat. Það tekur varla að
nefna svona ferðir.

24. júlí 2006

Matarboð

Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. Toppurinn var þó ostakaka sem ég eyddi góðum hluta morgunsins í að útbúa. Tókst alveg glettilega vel, þótt ég segi sjálfur frá. Grillaði svo skötusel eftir einhverri uppskrift úr Gestgjafanum. Tandori kjúkling líka og eitthvað fleira.

Svo var setið við nýja borðið frameftir kvöldi og kjaftað og svoleiðis. Nýju garðhúsgögnin reyndust vel, ekki síst vínvagninn...

Setti gemsann svo á hljótt áður en farið var í rúmið. Fékk nefnilega einhver sms sem bentu til þess að ákveðnir „vinir“ væru að skemmta sér í sumarbústað einhvers staðar á Fróni. Ég er af reynslu farinn að vita hvað klukkan slær, enda sá ég í morgun að einhver hafði hringt kortér fyrir eitt um morguninn að namibískum tíma.

Þá var ég löngu sofnaður.

Og svaf vært.

21. júlí 2006

Búðaráp og ÞEIR

Fórum í búðarölt í dag. Ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Höfum nú oft gert
þetta á föstudagseftirmiðdögum, en skrifstofan hjá mér er lokuð eftir
hádegið. Byrjum hálfátta á morgnana til að bæta það upp.

Hvað um það, hvað um það. Við fórum sem sagt í búðir. Fórum í Wernhil
kringluna og erum búin að fara í tvær búðir og á leið í þá þriðju,
þegar kona vindur sér að mér og spyr, næstum með þjósti, hvort ég eigi
þennan dreng þarna. Þessi drengur var Rúnar Atli sem var einhverjum
skrefum á eftir mér. Stundum þýtur hann framúr og stundum dregst hann
afturúr, svona eins og gengur. Jú, jú, ég kannast við að eiga hann. „Þú
verður að gæta hans betur, ÞEIR grípa börnin og hlaupa,“ sagði hún.

Ókeiiii...

Henni þótti greinilega fullmikið kæruleysi að leyfa drengnum að rölta
um sjálfum. Ég, hins vegar, gat nú ekki alveg áttað mig á hverjir ÞEIR
væru eiginlega. Horfði svona aðeins í kringum mig eftir þetta,
laumulega að sjálfsögðu, en sá ÞÁ hvergi. Aðallega var fjölskyldufólk á
röltinu þarna og einhverjir krakkar, táningar, að drepa tímann. Ósköp
svipað og í Kringlunni eða Smáralindinni.

Ég mun svipast eftir ÞEIM í framtíðinni.

19. júlí 2006

Bíltúr

Við Gulla skruppum í bíltúr í dag. Ég þurfti að fara til Usakos, sem er
í rúmlega 200 km. fjarlægð frá höfuðborginni. Sáum slæðing af bavíönum
á leiðinni, virtust hafa hrakist í átt að veginum vegna sinuelda sem
eru ekki óalgengir á þessum árstíma.

Ég heimsótti leikskóla sem við styrkjum í Usakos. Oft er erfitt að fara
í svona heimsóknir því manni eru sagðar sögur af börnunum. Ekki
skemmtilegar sögur, heldur sagt frá því hvaða foreldrar hafa eyðni, hvaða börn hafi misst foreldri, eitt eða bæði, úr eyðni og
líka hvaða börn hafa eyðniveiruna í sér. Get ekki annað en hugsað
hversu heppin við séum.

Kíktum á rússneskan snikkara sem hefur aðsetur í Karibib, bær 30 km.
nær höfuðborginni heldur en Usakos. Hann smíðar ótrúlegustu hluti úr
því hráefni sem Namibía býður upp á, s.s. steinum, dýrahornum og
skinnum. Þarna eru einhver þau flottustu húsgögn sem ég hef á ævi minni
séð, a.m.k. þau óvenjulegustu. Stólfæturnir eru úr kuduhornum, það eru
snúnu dýrahornin, ofboðslega flott. Við eigum örugglega eftir að versla
eitthvað af honum áður en yfir lýkur hér í Namibíu. En það erfiða
verður að velja hvað eigi að kaupa.

15. júlí 2006

Stundum er maður bara þreyttur

Dagar lengjast

Þá er háveturinn smám saman að hörfa. Enn er svolítið kalt á morgnana, en þó ekki eins og var fyrir nokkrum vikum. Dagarnir eru smátt og smátt að lengjast og við að byrja að undirbúa vorkomu. Í gær fórum við og fjárfestum í garðhúsgögnum, borði og stólum. Úr tré, enda orðin virkilega þreytt á plastdraslinu sem maður hefur bögglast með ár eftir ár. Engu að síður þarf nú að gæta að því að skrúfur séu fullhertar og vorum við Rúnar Atli settir í það eins og sést. Gulla var sennilega upptekin með gin og tónik...


Síðan lét ég gamlan draum rætast og notaði grillið til að malla pottrétt. Hér í Namibíu, og reyndar í Suður Afríku, er mikil hefð fyrir svona eldamennsku. Notaðir eru sérstakir pottar í svonalagað, potjie kallast þeir, borið fram „pojkí“ og eins og sést á myndinni er grillið okkar útbúið með króki fyrir þesskonar pott.

Ég kveikti upp í spýtukubbunum um eittleytið og var maturinn síðan tilbúinn um hálffimm. Ekkert liggur á í svona eldamennsku og þykir hið mesta fúsk að reyna að flýta fyrir eldamennskunni. Pojkíinn þarf tíma, það er einfaldlega bara þannig. En ég sauð lambaframhryggjarsneiðar, kryddaðar með ýmsum austurlenskum kryddum og síðan var ýmislegt grænmeti í pottinum líka. Tókst þetta nokkuð vel þótt einstaka byrjendaklaufaskapur hafi gert vart við sig. En gómsætt var þetta og hér sést Gulla skenkja Rúnar Atla mat á diskinn sinn. Auðvitað setið við nýja borðið.

7. júlí 2006

Grillað

Skömm er frá því að segja hversu slappur ég hef verið í
grillmenningunni frá því ég flutti hingað fyrir réttum sex mánuðum. Nú
er Namibía þvílíkt grillland, alltaf eru menn að kveikja í sprekum til
að glóðarsteikja mat og ekki er verra að setja pottrétt yfir eldinn og
sitja með bjór í þrjá tíma og horfa á mallið í pottinum. Nei, ég keypti
mér ekki grill fyrr en um síðustu helgi, takk fyrir.

Mér til málsvarnar verður að segjast að ekki er mjög gaman að grilla
fyrir sjálfan sig aleinan, því Tinna Rut mín er ekkert ofboðslega
spennt fyrir svona mat. Því hef ég ekki látið verða af þessu fyrr en
núna, þegar konan er mætt á svæðið. Fjárfesti í nákvæmlega eins grilli
og við áttum hér í den, svona fyrir þær fáu hræður sem mættu í heimsókn
og muna eftir þessu. Fínt grill, með snúningsklemmu og svo er krókur
fyrir pottinn, ef ég fer einhvern tímann útí svoleiðis ævintýri.

Ég grillaði sem sagt um síðustu helgi, en rak mig á það að um
hálfsexleytið er komið kolniðamyrkur og því erfitt að sjá hvernig
gengur með steikurnar. Þetta tókst nú ágætlega engu að síður, en
óþægilegt að elda eftir lyktarskyni einu saman. Svo grillaði ég aftur í
dag, en ekki fyrr en búið var að fjárfesta í nauðsynlegu grilláhaldi.
Nefnilega ennisljósi, halogenperuljós fest með teygju yfir höfuðið.
Gegt kúl, eins og mér skilst sé sagt. Þetta var þvílíkur lúxus að því
fá bara engin orð lýst. Nú lýsir maður, þó ekki gegnumlýsir, steikurnar
og veit upp á hár hvenær þær eru tilbúnar.

Þannig þið sem ætlið að mæta í heimsókn getið farið að hlakka til
safaríkra grillkræsinga.

6. júlí 2006

Rúnarsíska

Undanfarið hefur Gulla staðið fyrir mikilli herferð að kenna syni sínum
fleiri orð. Hefur honum farið mikið fram, a.m.k. eru foreldrarnir
þeirrar skoðunar. Það er ótrúlegt hvað eyru foreldranna eru næm fyrir
örlitum hljóðbreytingum sem gjörbreyta merkingu orðanna og þar með er
komið nýtt orð í orðasafnið.

Eitt orð hefur þó furðað okkur undanfarið. Veit ég varla hvernig á að
skrifa þetta, en helst hljómar það „glogb-glogb.“ Ekki leikur neinn
vafi á hvað drengurinn er að tala um. Þegar þetta „glogb-glogb“ er
notað, þá vill hann fá mjólk. Mikið höfum við velt því fyrir okkur
hvernig stendur á þessari undarlegu málnotkun drengsins. Ekki líkist
þetta mjólk, eða milk, eða Milch. Nei, helst vorum við á því að þetta
hlyti að vera Damaramál vinnukonunnar og barnfóstrunnar. Í hádeginu á
miðvikudag er Lidia að strauja skyrturnar mínar og einhverra hluta
dettur mér í hug að spyrja hana hvernig maður segi mjólk á hennar máli.
Ekki man ég lengur hvaða orð hún notaði, en minnir það hafi byrjað á
„dæ“ eða a.m.k. í þá áttina. Hljómaði ekkert líkt „glogb-glogb.“ Enn
var málið orðið dularfyllra. Svo heyrum við að Lidia er að segja
eitthvað við hana Floru sem kemur hálfskömmustuleg inn í eldhús og fer
að segja okkur frá því að hún hafi kennt drengnum þetta orð. Það þýði
reyndar ekki neitt, en henni fannst einn daginn svo fúlt að hún skilji
ekki það sem Rúnar Atli segir við hana að hún ákvað að búa til nýtt orð
sem hann skildi ekki. Það var „glogb-glogb“. En ekki dreymdi hana um
hversu miklu ástfóstri hann tæki við orðið.

Margt er undarlegt í kýrhausnum.

Leikkonan

Dagmar - kortér í frumsýningu... „break a leg...“

28. júní 2006

Ferðalagið - þriðja og lokafrásögn

Við fórum í aðra hristingsferð á fimmtudeginum og síðan á föstudeginum
ókum við norður í land, nær alla leið til Angóla, og fikruðum okkur svo
í austurátt. Hef nú litlu frá að segja frá þessum dögum sem heima á
hér. En síðan á laugardeginum þá fórum við í Etosha þjóðgarðinn. Nóg
komið af vinnu hjá mér og tími til kominn að slaka aðeins á. Við mættum
í garðinn klukkan ellefu og vorum síðan í góða fjóra tíma að aka til
baka í vestur þar til við komum að næturstað.



En eitt er á hreinu núna eftir þessa ferð. Uppáhaldsdýrin hans Rúnars
Atla eru ekki fílar eða gíraffar eða antílópur eða sebrahestar. Nei,
uppáhaldið hans er „muuh.“ Já, beljur. Jæja, kannski ætti ég frekar að
segja nautgripir. Í þessari ferð sáum við mýgrút af nautgripum og
alltaf fannst drengnum þeir jafnspennandi. Leiðsögumanninum okkar í
Etanga fannst allt jafnmerkilegt að hann skyldi þekkja nautgripi og það
úr mikilli fjarlægð. Og ef hann sá önnur dýr, asna eða geitur, þá vissi
hann að þetta var ekki „muuh.“

Í Etosha ókum við fram á einn fíl, eins og myndin hér gefur til kynna.
Við stöðvuðum bílinn og horfðum okkur máttlaus, ja, við Gulla, en Rúnar
Atla fannst þetta frekar lítið spennandi. A.m.k. gaf hann lítið út á
þennan grip. Fíllinn var þarna rétt við veginn að narta í laufblöð og
grasstrá og skipti sér lítið af okkur. Alltaf finnst mér jafnlygilegt
að sjá fíla og gíraffa. Sér í lagi ef þau taka upp á því að skokka af
stað. Það sér maður gíraffana gera oft. Og síðan þegar þeir glenna í
sundur framfæturna til að fá sér að drekka. Ótrúlegt að fylgjast með
þessu.



Við komum síðan að gististaðnum. Við fengum fínan kofa, rétt hjá
vatnsbólinu, svo það var stutt að fara til að sjá hvort eitthvað
spennandi væri í gangi. Við komumst að því að Rúnar Atli er eiginlega
aðeins of ungur fyrir svona vatnsbólagláp. Hann nefnilega skilur ekki
af hverju maður á endilega að hvísla þegar verið er að fylgjast með
villtum dýrum við vatnsból. Öðru ferðafólki þótti ekkert spennandi
þegar það hélt niðri í sér andanum og allt í einu heyrðist skærri
barnaröddu: „mamma“, eða „pabba.“ Mjög lítill húmor fyrir svona löguðu.
Hann fór því snemma að sofa þetta kvöldið.

Við kíktum öðru hverju á vatnsbólið. Sáum fílahjörð og ýmis fleiri dýr.
En hápunkturinn voru ljón sem mættu allt í einu á svæðið. Við misstum
nú af aðalstuðinu, þegar ljónin tvö nældu sér í eina antilópu þarna við
vatnsbólið, springbok var þetta. Ég hins vegar sá þegar þau voru að
gæða sér á þessu í mestu makindum. Ég hef ekki séð ljón áður svona úti
í náttúrunni og ótrúlegt var hvað þau féllu inn í umhverfið. Þau voru
svona 3-400 metra frá okkur, en maður sá þau varla. Ekki fyrr en ég
náði í sjónauka áttaði ég mig á því hvað þau voru með. Þetta var
svolítið óraunverulegt að sitja þarna öðrum megin við steinvegg og
örfáa metra í burtu hafði antílópan nýlega týnt lífi og var étin fyrir
framan okkur. Undarlegt.

En við áttum fína kvöldstund þarna. Grilluðum okkur mat og höfðum það
bara gott. Lögðum svo snemma af stað á sunnudeginum til baka, komin með
heimþrá, og ókum bara í einni lotu heim á leið. Vorum komin til
Windhoek skömmu fyrir hádegi.

Allt í allt ókum við 2.400 kílómetra á þessari viku. Enda vorum við
þreytt þegar heim kom.

27. júní 2006

Ferðalagið - önnur frásögn

Svo hófst vinnan. Fundur sem átti að vera klukkan níu frestaðist fram
yfir hádegi, en í staðinn var farið með okkur í sýnistúr um bæinn. Við
byrjuðum á því að rekast á þorpshöfðingann úr þorpinu sem við erum að
vinna í, Etanga heitir það, svo við hann var spjallað. Alltaf undarlegt
að tala við fólk þegar þarf túlk. Ég á alltaf í erfiðleikum með að nota
aðra persónu í svoleiðis samtali, því ég hef á tilfinningunni að ég sé
að tala við túlkinn og nota því þriðju persónu um viðmælandann. Sama
hvað ég einbeiti mér að því að breyta þessu þá gengur það mjög illa.

Hvað um það, síðan hittum við nokkrar konur frá Etanga. Þær klæðast á
hefðbundinn Himba hátt, og búnar að smyrja á sig kreminu rauða. Þessar
konur voru að koma með lasið barn á spítalann og höfðu búið um sig í
kofaskrifli á lóð sem þorpshöfðinginn á. Kofinn samanstóð af
trjágreinum og ullarteppum. Þarna voru þær búnar að búa í einhvern tíma
og sáu fram á að vera í viku til tvær til viðbótar. Þær báðu túlkinn
okkar fyrir alla muni að biðja fjölskylduna sína í Etanga að senda sér
eina geit með næstu bæjarferð. Geitina er nefnilega hægt að selja og
kaupa síðan mat og aðrar nauðsynjar. Fyrir góða geit fást um 300
Namibíudalir, u.þ.b. 3.300 krónur.

Síðan fórum við aðeins útfyrir Opuwo og gengum á fjöll. Ja, aðeins upp
í hlíðarnar. Þar hittum við fólk sem var langt að, býr í 2-300 km
fjarlægð frá bænum. Þeirra ættbálkur er flinkur í að búa til skartgripi
og koma þeir því alla leið að heiman, búa til skartgripi úr járnarusli
og selja. Síðan þegar hagnaðurinn er orðinn nægur, þá er verslaður
matur fyrir hann og síðan farið heim með matinn.

Síðan hittum við það sem hér kallast „hefðbundinn læknir,“ gætum kallað
grasalækni, eða jafnvel skottulækni. Þessi hafði öðlast sínar
læknagáfur þegar frændi hans, sem verið hafði læknir, lést. Eftir það
varð þessi maður læknir. Hann var nú ekki mjög gamall, kannski rúmlega
þrítugur og hálfu höfði hærri en ég. Athygli mína vakti að undir
hefðbundnum himbaklæðunum var hann í Inter Milan treyju. Hann varð nú
hálffúll út í mig þegar ég færði honum ekki neitt að gjöf. En svo er nú
það.

Næsta dag, miðvikudag, var svo lagt af stað til Etanga. Það var nú
meira ferðalagið. Vegalengdin var eitthvað rúmir 100 km, en þvílíkan
tíma sem ferðalagið tók. Vegirnir voru, ja, ég veit ekki alveg hvernig
ég á að lýsa þeim, nema kannski að á stórum köflum voru þetta eiginlega
ekki vegir. Mikið af grjóti og holum og sums staðar vantaði bara í
veginn. Iðulega vorum við að drattast þetta á 30-40 km hraða og fannst
stundum að fullhratt væri ekið. Sem betur fer er Hiluxinn góður í svona
hluti.



Við skoðuðum fjóra færanlega leikskóla, þ.e.a.s. 25 fermetra tjöld sem
eru notuð fyrir leikskóla. Himbarnir eru hirðingjar og færa sig því oft
úr stað. Þá þarf leikskólinn að færast líka. Rúnari Atla leist ekki
alveg á þessa hluti í byrjun, en svo þegar hann sá leikföng, þá hægt og
rólega færði hann sig upp á skaftið. Var frábært að sjá glókollinn hann
umkringdan 20-30 hörundsdökkum börnum.



En ekki væri þetta líf mikið fyrir okkur. Við einn leikskólann kom
kvennasendinefnd sem bað um aðstoð við borun eftir vatni. Þær þurfa
nefnilega á hverjum degi að arka langar leiðir og fylla 25 lítra brúsa
af vatni og koma honum aftur til baka í húsið sitt. Langar þeim í
vatnsbrunn með dælu og vatnsleiðslu inn í þorpið. Munið þetta næst
þegar þið burstið tennurnar eða farið í sturtu.

Síðan lentum við í sjúkraflutningum. Vorum við spurð hvort við gætum
keyrt ungabarn og móður þess til Etanga, en þar er heilsugæslustöð. Jú,
jú, ekki var það neitt vandamál. Farið var að búa um hana aftur á
pallinum á bílnum og áður en ég vissi af voru fimm manneskjur komar um
borð, innan um allt okkar hafurtask. Síðan var þjösnast yfir holt og
hæðir, steina og holur, með þetta fólk innanborðs. Voru þau ósköp ánægð
yfir því hversu ferðin tók stuttan tíma. Þarna er lítið um bílaferðir,
oft líða dagar án þess að bíll keyri um þessa vegi. Engir símar eru
þarna og bara mest lítið samband við umheiminn.

Til baka komumst við á gistiheimilið um kvöldmatarleytið og vorum við
alveg búin eftir ferðalagið. Held ég við höfum öll verið steinsofnuð
fljótlega upp úr átta um kvöldið.

26. júní 2006

Ferðalagið - fyrsta frásögn

Við lögðum af stað nokkuð eftir hádegi á sunnudegi fyrir viku. Tinna
Rut kom ekki með, bæði vegna skóla og eins hafði hún takmarkaðan áhuga,
svo ekki sé sterkar kveðið að orði. Flora tók að sér að vera í húsinu á
meðan, þ.a. Tinna yrði nú ekki alein. Fyrsta daginn ókum við u.þ.b. 350
km. Lítið markvert gerðist á leiðinni, við kíktum þó í eina heimsókn á
stað sem heitir Otjiwarongo, og um kvöldmatarleytið komum við á fyrsta
næturstað, Ombinda heitir gististaðurinn, rétt utan við bæ sem ber
nafnið Oujto. Þar var flott þjónusta, heljarinnar matseðill, og vorum
við hrifin af þessu stað. Flott villibráðarsteik og fleira nammigott.

Að loknum morgunverði næsta dag, var síðan haldið af stað á ný. Ókum
við svipaða vegalengd og deginum áður, en nú var meirihluti leiðarinnar
malarvegur. Síðan var um 50 km. kafli sem miklar framkvæmdir eru í
gangi, sennilega á að leggja bundið slitlag fljótlega, og gekk ferðin
frekar hægt. Við komum að lokum til áfangastaðar, Opuwo, um miðjan
eftirmiðdag. Opuwo er sérkennilegur staður. Svipað og á Íslandi virðist
alltaf vera rok þarna og þar sem flestar götur eru ekki malbikaðar, þá
þyrlast oft upp sandurinn og berst yfir allt. En þarna úir og grúir af
fólki, allskonar fólki. Opuwo er þjónustumiðstöð nærliggjandi sveita og
því er mikill erill og fólk kemur hvaðanæva að. Þarna rekst maður á
fólk í jakkafötum, fínpressuðum. Reyndar er lítið af þess háttar
fuglum. Og síðan fólk í hefðbundnum himbaklæðum, og svo bara er öll
flóran þar á milli. Þessi fjölbreytileiki í útliti fólks gerir Opuwo
mjög sérstakan bæ fyrir utanaðkomandi. En í augum heimafólks er ekkert
undarlegt við þetta. Á þessu svæði Namibíu býr fátt af hvítu fólki.
Rúnar Atli vakti því nokkra eftirtekt og sýndist manni að margir, sér í
lagi krakkarnir, hefðu varla nokkurn tímann séð barn af okkar
litarhætti, og einnig virtist ljós háralitur hans vekja eftirtekt. Ekki
dró úr athyglinni, að drengurinn var nokkuð pirraður þegar við fórum í
matvörubúð og tók smáraddbandaæfingu, foreldrunum til mikillar ánægju.
Var guttinn orðinn það reiður, að hársvörðurinn varð rauður... stuð.
Þetta jafnaði sig nú síðan allt að lokum.

Meira síðar.

25. júní 2006

Komin heim

Rétt að láta vita að við erum komin heim eftir vikuferðalag. Erum ánægð
en þreytt. Mun skella inn einhverjum ferðasögum á næstunni.

18. júní 2006

Gulla komin

Í gærmorgun lenti Gulla heilu og höldnu hér í Windhoek. Flugið gekk
ágætlega, þótt ekki væri mikil hvíld á langa fluginu. Miklir
fagnaðarfundir urðu, en Rúnari Atla fannst greinilega undarlegt að
mamma hans væri bara allt í einu komin. En sú undrun hvarf fljótlega og
nú límir hann sig við mömmu sína.

Að sjálfsögðu var byrjað að fara á kaffihús, enda eldsnemma morguns.
Já, ég ætti kannski að nefna að ég, Tinna Rut og Rúnar Atli vorum mætt
út á völl tíu mínútum áður en vélin lenti. Bara svo það sé nú allt á
hreinu.

Haldið var upp á 17. júní hér í Windhoek, en allir fjórir íslenskir
starfsmenn ÞSSÍ í Namibíu áttu fjölskyldumeðlimi í flugvélinni sem
Gulla kom með og því þótti tilvalið að hittast seinnipart dags og halda
upp á lýðveldisdaginn. Ekki fór mikið fyrir rigningu og roki hér. Ef
einhver vildi vita það.

Í dag á síðan að leggja af stað í langan leiðangur. Ég þarf að skoða
verkefni lengst norður í landi og ákváðum við að gera túristaferð úr
þessu að hluta. Hugmyndin er að enda í Etosha þjóðgarðinum og leyfa
Rúnari Atla að sjá fíla, gíraffa og fleira í þeim dúr. Við komum ekki
til baka fyrr en eftir viku, svo líklega verður þessi dagbókarsíða
þögul næstu vikuna.

Þar til næst.

16. júní 2006

Útungunarparadísin Namibía

Oft hefur nú verið rætt um að gera Ísland að einhvers lags skattaparadís til að draga að erlenda kaupahéðna og ríkisbubba. Einstaka sinnum hefur vaknað svona umræða hér í Namibíu líka. En nú virðast mál vera að þróast þannig að öðrum vísi paradís verði hér: útungunarparadís.

Mér kom þetta í hug þegar ég hlustaði á útvarpsfréttirnar á leiðinni í vinnuna í morgun. Fór þulurinn að segja frá því að söngfuglinn síkviki, Britney Spears, hefði haft samband við aðstoðarráðherra ferðamála í Namibíu og spurt hvort hún mætti ekki koma til Namibíu og fæða sitt annað barn hér. Á hún víst von á sér í október.

Varla vissi ég hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég heyrði þessa frétt. Undanfarið hef ég verið duglegur við lestur slúðurblaðanna sem hún dóttir mín kaupir í viku hverri, og verð ég að viðurkenna að af öllum þeim stjörnum sem skrifað er um þá vorkenni ég henni Britney einna mest. Virðist vera almennt eineltisleyfi á hana og þeim mun verr sem hún lítur út á myndum, þeim mun betra. Man ég ekki eftir einni einustu slúðurgrein sem rakkar hana ekki niður, hvort sem er fyrir að vera slæm móðir, að hugsa ekki um útlitið eða bara að vera einfaldlega sú ömurlegasta af öllu ömurlegu.

En forvitnilegt verður að sjá hvort einhver alvara er í þessu, eða hvort þetta er einfaldlega gabb. Ferðamálaráðuneytið er núna í óðaönn að reikna út efnahagslegan ágóða landsins af komu Jolie og fylgdarliðs. Er álitið að fjöldi bandarískra ferðamanna muni snaraukast í kjölfar veru þeirra hér.

Mun Britney hafa sömu áhrif?

Styttist biðin

Þá er að styttast í hana Gullu. Nú er hún sjálfsagt komin langleiðina til Keflavíkur. Hún lendir hér korter fyrir
átta í fyrramálið og þá verður gaman. Mikill spenningur hérna megin.
Meira að segja Rúnar Atli veit að eitthvað mikið er í gangi sem tengist
mömmu hans.

Annars er hann farinn að tengja tölvuna og mömmu sína saman. Undanfarna
daga höfum við spjallað saman í gegnum Skype og Rúnar Atli hefur
iðulega verið á staðnum. Nú, ef ég sest við tölvuna, kemur hann
hlaupandi, bendir á tölvuna og hrópar „Mamma, mamma."

13. júní 2006

Bati gengur vel

Svona rétt að láta vita að Rúnar Atli braggast vel. Hann er farinn að nota handlegginn á fullu og sést varla að nokkuð hafi verið að. Gott mál.

11. júní 2006

Góður endir

Allt virðist nú vera að komast í lag hjá honum Rúnari Atla. Við mættum
á spítalann rétt fyrir klukkan eitt eftir hádegi, og fljótlega þar á
eftir vorum við komin á dagdeildina. Þar fékk Rúnar Atli aðgang að
þessu fína skærgula rimlarúmi. Það versnaði nú í því þegar átti að
skipta um föt á drengnum. Hann harðneitaði spítalanærfötum, barðist um
á hæl og hnakka, svo ég hreinlega gafst nú upp. Þetta voru nú ekkert
mjög sexí nærur þannig ég skildi drenginn nú ósköp vel.

Eftir einhverja stund fórum við inn á skurðdeildina. Þar var ég klæddur
upp í grænan slopp, hárnet og skóhlífar sem hefðu hæft ágætlega á
norðurskautinu. Meira að segja Rúnar Atli fór að hlæja þegar hann sá
múderinguna á mér. Góður með sig, losna við spítalanærurnar og hlæja
svo að mér.

Svona um korter yfir tvö var svo kallað í okkur inn á skurðstofuna og
svæfingalæknirinn útskýrði allt fyrir okkur. Ég sat með Rúnar Atla í
fanginu og setti grímuna fyrir andlitið á honum og svo bara sofnaði
hann þarna í fanginu á mér. Auðvitað sýndi hann mótþróa fyrst, en það
dugði nú skammt. Hann fékk sínu framgengt með nærurnar, en hér var sko
ekkert elsku mamma neitt.

Síðan fór ég fram og beið. Biðið var nú ekki nema örfáar mínútur, því
læknirinn var snöggur að þessu. Hann sagði að þetta hefði gengið vel,
en hann var búinn að segja mér að ef illa gengi gæti þurft að opna
handlegginn. Sem betur fer þurfti ekkert svoleiðis. Hann sagði mér að
áður en hann byrjaði þá gat hann sett olnbogann í 90 gráðu horn, þá
læstist allt. Þegar hann var búinn að smella þessu á sinn stað, þá var
hægt að beygja olnbogann alveg eins og ætlast er til.

Síðan var bara að bíða eftir að drengurinn vaknaði. Þegar mér var
farinn að lengja biðin fór ég að tala við hann og viti menn, opnar hann
bara augun. Góð tilfinning það. Síðan fórum við aftur á dagdeildina og
vorum þar í einhverja stund á meðan hann var að jafna sig. Útskrifaður
klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú.

Svo var bara að labba og borga, litlar 45 þúsund krónur. Svo er bara að
senda reikninginn til Íslands og vona að einhver sé til í að taka þátt
í þessu ævintýri.

En það varð strax mikill munur á Rúnari Atla. Svona klukkutíma eftir að
við komum heim var hann farinn að nota hendina, auðvitað ekki eins og
hún ætti að vera en mikil framför samt. Svo er hann allur krambúleraður
eftir lækninn, verður sjálfsagt marinn og blár næstu daga.

En allt er gott sem endar vel.

Birtir til

Jæja, þá birtir nú aðeins til í málum Rúnars Atla. Hann fór úr
olnbogaliði er nýjasta sjúkdómsgreiningin. Réttara sagt fór mjóa beinið
í framhandleggnum úr liði. Þetta er víst langt frá því að vera óalgengt
með börn á þessum aldri. Gerist oft þegar foreldrar rykkja í hönd eða
úlnlið barnins. T.d. ef barnið hrasar þá kippir maður oft á móti, þá
getur þetta gerst. Síðan ef börnunum er lyfti upp úr rúminu á
handleggjunum, þá getur þetta komið fyrir líka. Það finnst mér líklegt
að hafi gerst í tilviki Rúnars Atla, því hann var rétt kominn upp úr
rúminu þegar ég kem heim. Og þá sást þetta fyrst. Karlanginn.

Læknirinn reyndi að kippa honum í liðinn í morgun, en það tókst ekki.
Hann sagði að þegar liðnir væru tveir sólarhringir væri þetta orðið svo
stíft og bólgið að erfitt væri að koma beininu aftur til baka. Því þarf
að svæfa drenginn og gera þetta síðan.

Eigum við tíma núna klukkan tvö eftir hádegi, eitt að íslenskum tíma,
og mæting klukkutíma fyrr. Við vonum það besta, að sjálfsögðu, en
léttirinn er mikill að komið skuli vera á hreint hvað sé í gangi.

Úrslit 4-2!

Nei, ekki er nú átt við opnunarleik HM í Þýskalandi, þótt úrslitin séu
þau sömu.

Hún Tinna Rut hefur um nokkura mánaða skeið stundað knattspyrnuæfingar
með stúlknaliði framhaldsskóla heilags Páls. Fyrir nokkrum vikum hófst
síðan keppni milli framhaldsskóla landsins og er þar um að ræða stúlkur
undir 17 ára aldri. Tinna Rut ætti reyndar, sem og margar stöllur
hennar, að vera í undir 15 ára hópi, en þar vantar lið til að keppa
við. Fyrstu tveir leikirnir töpuðust án þessa að valkyrjur heilags Páls
næðu að koma knettinum í mark mótherjanna. Þriðji leikurinn vannst
síðan, en það kom til vegna þess að mótherjinn mætti ekki. Síðan kom að
fjórða leik. Það var gegn hinum svonefnda þýska skóla, en leikskólinn
hans Rúnars Atla er deild innan þess skóla. Er skemmst frá að segja að
nú small sóknarleikur okkar stúlkna saman og vannst leikurinn með
fjórum mörkum gegn tveimur. Mikil var gleðin í herbúðum heilags Páls.

Tinnu Rut finnst þetta nokkuð skemmtilegt. Keypti sér knött um daginn
til að æfa sig heima fyrir. Hún spilar vinstra megin á miðjunni og
finnst því að æfa þurfi upp knatttækni vinstri fótar sem er ekki hennar
aðalfótur.

Svo er bara að taka næsta leik!

10. júní 2006

Kúkur á klaka...

Æ, ekki leið mér nú vel í gær. Kom heim í hádeginu og þá var Rúnar Atli
eitthvað svo undarlegur. Ég fór að fylgjast betur með honum og sá þá að
hann hlífði alveg hægri hendinni, hreyfði hana bara ekki neitt. Þarna
var hann nývaknaður, svo mér datt nú í hug að hann hefði legið illa, en
þetta lagaðist ekki og hvein í honum ef eitthvað var komið við
handlegginn.

Ég ákvað að bíða ekkert, enda föstudagseftirmiðdagur, og fór beint til
læknis með drenginn. Heimilislækninum fannst þetta allt mjög undarlegt
og sendi mig til barnalæknis. Ég ætti kannski að nefna að fyrir svona
tíu dögum stakk mænusótt sér niður hér í fátækrahverfi borgarinnar. Eru
tíu ár síðan síðasta tilfelli fannst. Tókst nú ekki að greina hana fyrr
en á miðvikudaginn var og eru allir mjög taugaveiklaðir vegna þessa.
Eitt einkennið er lömun útlima og því þótti nú réttara að skoða þetta
betur. Barnalæknirinn skoðaði Rúnar Atla frá toppi til táar, en fannst
ekkert benda til mænusóttar, því engin önnur einkenni er drengurinn
með. Hann er líka bólusettur upp í topp fyrir þessari óáran svo ekki á
hann að geta fengið þetta næstu tíu árin eða svo.

Drengurinn er ekki með neina áverka, en auðvitað detta manni ýmsir
möguleikar í hug þegar svona gerist, sumir verri en aðrir. Við fórum
svo aftur til læknisins í morgun, en hann er á vakt á slysavarðsstofu
hér á besta spítalanum í bænum. Þar var í morgun ekki þverfótað fyrir
foreldrum með lítil börn sín. Allir með miklar áhyggjur vegna
mænusóttarinnar. Rúnar Atli hafði ekki tekið neinum breytingum frá í
gær, svo læknirinn bað mig að koma með saursýni frá drengnum, tvö með
a.m.k. 24 tíma millibili. Þau eru notuð til að prófa fyrir
mænusóttinni. Mikil áhersla var lögð á að kæla sýnin niður og koma með
þau vel kæld. Því fyrirsögn þessarar dagbókarfærslu. Þetta var mjög
athyglisvert að nota hálfa klemmu til að skammta úr bleyjunni ofan í
glasið sem ég fékk. Síðan að ganga frá þessu tryggilega innan um ísmola
og koma þessu á slysadeildina. Skemmtilegt.

En segjast verður að Rúnar Atli er þrælhress. Þetta virðist ekkert fara
í skapið á honum. Stundum gleymir hann sér reyndar og þá finnur hann
til. En þó virðist hann nú aðeins vera farinn að nota hendina til að
styðja við hluti, svo ég vona nú það besta. Mér virðist þetta líkjast
einna helst tognun. Þetta er nú heldur öfgakennd leið til að gera
drenginn örvhentan.

Við eigum að mæta í fyrramálið á nýjan leik og síðan verða sjálfsagt
teknar röntgenmyndir á mánudag ef allt er óbreytt. Sú deildin er lokuð
um helgar nema í neyðartilvikum og þetta telst nú ekki alveg svoleiðis.
Sem betur fer.

6. júní 2006

Afmælissöngur

Kæra Dagmar Ýr.

Ég er nú ekki söngmaður mikill. Var reyndar um tíma í skólakór MR og
varð svo frægur að syngja á sviðinu í Háskólabíói. Hætti auðvitað á
toppnum eins og allir þeir langbestu.

En hvað um það, hvað um það.

Í dag syng ég ekki fyrir marga, ja, bara fyrir múttu þína. Skoðaðu
bloggið 20. apríl - enginn afmælissöngur þann daginn.

Hún móðir þín er sérstök og einstök og ...

Þinn faðir

Tölvufælni og símatap

Eitthvað hef ég verið latur að sitjast niður við tölvuna undanfarna
daga. Tinna Rut er eitthvað farin að færa sig upp á skaftið og farin að
liggja í tölvunni kvöld eftir kvöld. Æ, það pirrar mig reyndar ekki,
þegar ég nenni eiginlega ekki að setjast við hana hvort sem er. Stór
hluti vinnudagsins fer fram andspænis tölvuskjá, og stundum er því
ágætt að fá sér frí þegar heim er komið.

Í kvöld hins vegar er annað upp á teningnum, Tinna Rut búin að liggja í
símanum í allt kvöld inni í herberginu sínu og tala við einhverja vini
sína. Hún er hálffúl í skapinu því hún varð fyrir því að gemsanum
hennar var stolið í dag. Jamm, stolið. Hún var á fótboltaæfingu og
þjálfarinn, sem venjulega geymir símann hennar, mætti aðeins of seint.
Hún vafði gemsanum því inn í upphitunartreyjuna og setti við
hliðarlínuna. Mundi svo ekkert eftir símanum þegar þjálfarinn mætti
loksins. Svo í lok æfingar þá var gemsinn horfinn. Greinilega er búið
að taka kortið úr, því ekki næst í númerið ef prófað er að hringja.
Útaf þessu er stúlkutetrið nokkuð niðurdregið í kvöld. Skal engan
undra.

28. maí 2006

Nasistar

Bara svona útaf þessum nasistaathugasemdum, þá má vekja athygli á því
að Tinna Rut og Adolf Hitler eru bæði fædd 20. apríl.

Ef einhverjum finnst það merkilegt.

Sorgarsagan um hárið...

Eins og sést á myndum hér á síðunni er hún Tinna Rut búin að vera að
stunda tilraunastarfsemi á hárinu á sér. Allt í lagi með það. Eða
hvað?

Önnur önnin hófst í skólanum hennar um miðjan maí, 16. dags þess
mánaðar að mig minnir. Þá voru einhverjir dagar liðnir síðan
sköpunarverkið í hárinu leit dagsins ljós. Nú, svo líður tíminn, og
síðan er það 24. maí, að einn kennari víkur sér að henni Tinnu Rut og
segir henni að háraliturinn samræmist ekki skólareglum! Úbbs, þar fór
nú það. Ekkert þýðir að áfrýja svona dómum. Skv. óformlegum reglum
hefur Tinna Rut núna eina viku til að kippa málum í liðinn. Því bendir
allt til þess að í komandi viku verði hárið hennar einlitt á nýjan
leik. Ef ekkert verður gert þá má eiga von á brottvísun úr skóla...

Örlítið meiri agi sunnan við miðbaug.

26. maí 2006

Afmæli!

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í DAG,
hún á afmæli hún Gulla!
hún á afmæli í dag.

Hún er kornung í dag
hún er kornung í DAG,
hún er kornung hún Gulla!
hún er kornung í dag.

Gulla mín. Innilega til hamingju með daginn!

25. maí 2006

Alveg obbosslega frægur

Ég hef nú lítið gert af því að skrifa um vinnuna mín hér. Finnst það
ekki alveg passa inn á þessar síður, svona yfirleitt. En á mánudaginn
fór ég á fund sem varð skemmtileg lífsreynsla. Ég fór nefnilega að
spjalla við forseta Namibíu útaf ákveðnu verkefni sem við erum að vinna
að. Efnið skiptir ekki máli hér, en þar sem umdæmisstjóri stofnuninnar
þurfti að fara til Íslands þá kom í minn hlut að mæta forsetanum einn.
Mér fannst það nú ekkert merkilegt í sjálfu sér, ekkert frekar en
margir aðrir fundir sem ég fer á. En það var gaman að spjalla við hann.

Ég hefði nú ekkert farið að tala um þetta hér, nema vegna þess að
heilmikið mál var gert úr þessum fundi. Sjálft NBC - namibíska RÚV -
mætti nefnilega á staðinn. Myndaði í bak og fyrir meðan við forsetinn
vorum að heilsast. Ekki nóg með það, heldur var tekið viðtal við mig að
loknum fundi og birtist það víst um kvöldið og aftur í morgunþætti
þeirra daginn eftir.

Alveg obbosslega frægur... næstum eins og mexíkósku dömurnar...

Tinna Rut tollir í tískunni

Langt hlé

Nokkuð er orðið síðan síðasti pistill kom inn. Er einkum um að kenna
veikindum sem drógu úr mér allan mátt í hátt í 10 daga. En nú er piltur
orðinn hress á nýjan leik og vonandi fara pistlarnir að seytla inn á
netið, hvort sem það er nú öðrum til ánægju eður ei.

Veikindin, já, er eitthvað skemmtilegt að tala um þau? Fékk sýkingu af
einhverju tagi og sennilega hefur kvefpest í ofanálag lagt mig í rúmið.
Hálsinn á mér tvöfaldaðist. Jæja, kannski smáýkjur, en hann bólgnaði
a.m.k. töluvert. Ég fór til læknis á mánudag í síðustu viku og var bara
sendur beint heim. Síðan mætti ég ekki í vinnu fyrr en á föstudegi.
Þoldi það nú ekki betur en svo að seinnipart þess dags sat ég ýmist eða
lá hríðskjálfandi og varla í þessum heimi. Gott að vinnukonurnar báðu
ekki um peningalán þann eftirmiðdaginn. Svo allt í einu klukkan tíu um
kvöldið þá rénaði af mér og ég kenndi mér ekki nokkurs meins. Síðan þá
hefur allt verið á uppleið. Mætt í vinnu eins og herforingi, alveg
stáli sleginn.

Annars eru alls kyns pestir í gangi hér núna. Það snöggkólnaði um
daginn og hefur verið skítkalt um leið og sólin sest. Síðan eru skólar
nýbyrjaðir eftir nokkuð frí og það kann aldrei góðri lukku að stýra.
Hettusótt gengur víst á leikskólanum hans Rúnars Atla, en hann virðist
ætla að sleppa í þetta skiptið.

Látum þetta duga um sjúkdóma og svoleiðis í bili og vonandi verða næstu
pistlar um skemmtilegri málefni.

16. maí 2006

Ja, nú er það svart

Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug fyrir nokkrum dögum þegar ég
ætlaði að athuga klukkan hvað Evrópusöngvakeppnin væri á BBC Prime. Ég
gat bara ekki séð neitt um þessa keppni, hvorki í sjónvarpsvísinum, né
á dagskrárrásinni í sjónvarpinu, hvað þá heldur á heimasíðu BBC Prime.
Loksins tókst mér að finna spurt og svarað síðu og þá kom í ljós að
söngvakeppnin verður því miður ekki sýnd í Afríku þetta árið.
Aaarrrgggghhhh!

Við Tinna Rut fórum að flippa skelfingu lostin á allar þær evrópsku
stöðvar sem við náum, en horfum aldrei á vegna tungumálaörðugleika.
Fundum ekkert. En nú virðist vera að rofa til. Ég fór á heimasíðu
gríska ríkisútvarpsins, því náum við, og get ekki betur séð en
söngvakeppnin verði sýnd þar! Þvílíkur léttir, en örugglega verður
svolítið stress fram á fimmtudagskvöldið hvort þetta sé nú ekki
örugglega rétt.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á grísku.

Ekki er lítið á sig lagt til að fylgjast með.

15. maí 2006

Krankleiki

Í morgun pantaði ég mér tíma hjá lækni. Gerist nú ekki oft, líklega
fékk Gulla áhyggjur þegar hún frétti af þessu. En þannig var að á
laugardagsmorguninn var þá vaknaði ég með þessa líka leiðindahálsbólgu
og beinverki um allan skrokk. Lá ég bara fyrir frá 11 til
kvöldmatarleytis, og glápti á sjónvarp. Leið barasta ekki vel. En
reiknaði nú með að þetta yrði orðið betra á sunnudeginum. En svo varð
ekki. Uppúr hádegi var ég orðinn mjög slappur og lagðist hreinlega upp
í rúm. Byrjaði að lesa Da Vinci lykilinn og hætti ekki fyrr en sú bók
var búin, allar 593 blaðsíðurnar. Nú í morgun leið mér lítið betur. Hef
átt í erfiðleikum með að kyngja mat og hef lítið sofið undanfarnar tvær
nætur.

Ég hringdi því í lækninn. Venjulega batnar mér svona smálegt á
sólarhring eða tveimur, en nú var sá þriðji byrjaður og mér leið ekkert
betur, jafnvel verr ef eitthvað var. Læknirinn skoðaði mig og sýnist
þetta vera einhver bakteríusýking. Ég var sendur í blóðprufur, tvær svo
flóknar að senda þarf blóðið alla leið til Höfðaborgar. Útkoman úr því
fæst ekki fyrr en á miðvikudag.

Síðan var ég rekinn heim og sagt að mæta ekki til vinnu í a.m.k. tvo,
jafnvel þrjá daga. Má alls ekki stressa mig - streyta æsir víst upp
svona sýkingar - þ.a. ég á að slaka á. Fékk auðvitað minn skammt af
meðulum og dæli þeim í mig með reglulegu millibili.

Þegar ég sagði Tinnu Rut að nú mætti ekki stressa mig upp og allir
yrðu því að gera það sem ég bið um, spurði hún: „Væri þetta líka svona
ef ég væri með svona sýkingu?“ Bíddu, nú við, hvað lá þarna að baki.
„Jú, væri sama hvað ég bæði um, væri mér leyft að gera allt?“ Hmm, ég
var nú ekki viss um það, „...t.d. tattú...“ Nei, sagði ég, þú yrðir svo
spennt ef við segðum já að þú myndir öll stressast upp og verða
veikari, og því yrðum við að segja nei samkvæmt læknisráði.

Snöggur að hugsa hann Villi þarna.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...