23. september 2006

Klipping

Í morgun var loksins látið verða af því að fara með Rúnar Atla í klippingu. Útaf krullunum hans hef ég ekki alveg treyst mér útí þetta sjálfur. Ræddi fyrir nokkru við dömuna sem klippir mig alltaf og samdist okkur til að ég mætti bara með Rúnar Atla þegar ég færi í klippingu og svo sæjum við til.

Í morgun, sem sagt, rann þessi dagur upp. Ég var búinn að undirbúa Rúnar Atla í marga daga til að þetta kæmi honum nú ekki á óvart. Hann er jú frekar hvekktur á ókunnugu fólki sem ætlar að gera eitthvað við hann, alveg síðan hann fór í sprautupakkann fyrir Namibíuferðina.

Honum leist nú ekki alltof vel á þegar hárið á mér var þvegið. Grét örlítið, en hætti því svo. Síðan sat hann við hliðina á mér þegar ég var klipptur. Virtist nú ekkert rosalega spenntur. Lét sig þó hafa það að koma í fangið á mér og var frekar duglegur á meðan hann var klipptur. Einstaka grátsvetta kom, en ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ekki mátti gleyma að fá fyrsta lokkinn og var ég með lítinn poka til að safna hári í. Var það gert svikalaust.

Núna er guttinn mjög hreykinn af sjálfum sér, og má það líka alveg.


Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...