29. september 2012

Boltaleikur

Rúnar Atli mætir á fótboltaæfingar á laugardagsmorgnum. Æfingarnar byrja klukkan níu fyrir hádegi og eru þá búnar áður en verður of heitt.

Í morgun var lítið mót í gangi. Tveir aðrir skólar mættu á svæðið og voru spilaðir nokkrir stuttir leikir. Gamanið bara í fyrirrúmi.

Rúnar Atli spilaði í marki að þessu sinni og stóð sig vel. Einn leikurinn tapaðist reyndar með fimm marka mun, en sá stutti bjargaði a.m.k. sjö sinnum á góðan hátt. Bjargaði því sínum mönnum frá niðurlægingu.

Hér er smásyrpa af honum að spyrna boltanum frá marki. Góður galli, íslensku landsliðssokkarnir, Leiknisbuxur og ManUtd-buff. Hummel skór, en þeir eru fáséðir hér.

 

15. september 2012

Ný græja

Gulla er græjugella innst inni. Hún vildi ekki viðurkenna það á árum áður, en er núna komin úr skápnum með þetta.

Í dag minntist ég á við hana að ég hefði séð hamborgarapressu í búð einni hér í Lílongve. Skemmst er frá að segja að klukkustund síðar var frúin búin að eignast græjuna.

Þetta var líka síðasta eintakið í búðinni, svo nauðsynlegt var að bregðast snöggt við...

En þetta er græjan:

Flott tæki verður að viðurkennast.

Fyrir einhverja undarlega tilviljun stóð til að grilla hamborgara í kvöldmatinn.

Þeir tókust að sjálfsögðu frábærlega vel.

Nú er bara að fara að búa til sitt eigið hakk. Í sumar þegar ég átti leið um Jóhannesarborg, keypti ég hakkara til að festa á Kitchenaid hrærivélina okkar, en við höfum ekki enn prófað að hakka kjöt.

Nú er komið tilefni til þess.

Æ, æ, hvað varð um bensínið?

Eftir svona fjóra mánuði með nægu bensíni á bensínstöðvum, þá eru allt í einu farnar að myndast biðraðir aftur. Síðustu daga sé ég 20-40 bílaraðir við margar stöðvar.

Ömurlega fúlt.

Einn bensíninnflytjandi sem ég kannast við sagði að líklega væri þetta tímabundið ástand.

Líklega.

Fjölgun í fjölskyldunni (staðfest)

Fyrir einhverjum dögum ýjaði ég að því að fjölga myndi í fjölskyldunni. Í gær varð þessi spá staðreynd.

Tveir hundar búnir að bætast við.

Núna er mikið stuð. Kettir og hundar hvæsa og gelta hver um annan þveran. Snúlla, stóri Labradorinn, er sú eina sem tekur þessu öllu með stóískri ró. Sallý og Kisi, hins vegar, eru ekki alveg eins róleg yfir þessu. En sjálfsagt eiga skepnurnar eftir að venjast hver annarri.

Hér er hann Ríkó - gæti kannski heitað Rikki á íslensku:

Svo hún Bounty (frb. Bántí), hvolpafulla tíkin. Ekki skil ég alveg nafngiftina hennar. Og ekki alveg með íslenskt nafn á takteinum. Lesendur geta kannski stungið upp á einhverju, sem að Rúnar Atli tekur svo til skoðunar.

Ekki veit ég hvað við gerum þegar hún gýtur. Gulla og Villi, stórbændurnir, að taka á móti hvolpum... Sé það ekki alveg gerast. En maður harðnar víst við hverja þraut.

Greyin eru ósköp vinaleg. Hér er ein mynd af þeim sleikjandi hönd ljósmyndarans.

Galsinn var orðinn svo mikill að Bounty þurfti að standa á afturlöppunum fyrir ljósmyndarann.

Svo er að sjá hvort við náum öll að lifa saman í sátt og samlyndi

9. september 2012

Æjæjæ, strákaafmæli

Strákaafmæli.

Sægur af átta ára guttum.

Meir'ena seg'aða.

Rúnar Atli hélt upp á afmælið sitt á föstudagseftirmiðdaginn. Sumir gestir komu strax eftir að skóla lauk, um hálfeitt, en afmælið stóð til klukkan fimm. Átti a.m.k. að gera það, þótt síðustu gestirnir hefðu ekki farið fyrr en að ganga sjö.

Fimmtán guttum var boðið í afmælið. Tveir mættu ekki, en einn lítill bróðir fékk að fljóta með. Að Rúnari Atla meðtöldum voru því fimmtán strákar í veislunni. Nóg var að gera og hamagangurinn mikill. Leist mér um tíma ekkert á að húsið og okkar dót bæri nokkurn tímann aftur sitt barr. Mikill handagangur í öskjunni og enginn leið að fylgjast með öllum.

Við Gulla vorum svona frekar afslöppuð með þetta allt saman. Ég held ég hafi aldrei áður byrjað að baka afmælistertu þegar klukkutími var búinn af veislunni. Samt var tertan tilbúin á réttum tíma. Geri aðrir betur. Vanur maður, auðvitað.

Við vissum auðvitað að einhverjir yrðu glorhungraðir svona rétt eftir skólann og því hafði Gulla útbúið bunka af kjúklingaleggjum og samósum. Sem var eins gott.

Planið var að drengirnir yrðu sem mest úti. Nóg pláss er í garðinum og við leigðum hoppukastala, sem vakti mikla lukku. Svo var fótboltamark í einu horni garðsins, trampólínið dregið fram sem og borðtennisborð sem við eignuðumst einhvern tímann. Svo hafði Gulla upp á náungum sem koma með fullt af málningarströngum strekktum á ramma og hjálpa krökkum að mála mynd eða tvær. Auðvitað var svo líka andlitsmálari á svæðinu.

Sem sagt heilmikið um að vera. Enda var engin afmælisveisla í fyrra. En þrátt fyrir allt útidótið þurftu kapparnir að grandskoða allt dótið hans Rúnar Atla og er ekki ofsögum sagt að herbergið hans Rúnars Atla hafi litið út eins og eftir sprengingu. Svei mér þá.Hér náðust nokkrir á mynd önnum kafnir við að fara í gegnum dótið.



En þetta var gaman, þrátt fyrir öll lætin. Sumir fengu sér andlitsmálingu og fór afmælisbarnið í fararbroddi.


Ljón vildi drengurinn vera og málarinn var ekki í vandræðum með það. En þetta tók nokkurn tíma, skal ég segja ykkur. Svona leit hann út að lokum:


Dúlleríið á handarbökunum eru einhverjir Stjörnustríðsgeislagræjur. Sjáiði, maður kreppir hnefana og út skýst geisli. Svona:


Félaganum var sem betur fer ekki meint af þessari geislameðferð.

En andlitsmálarinn var nokkuð fær, verður að segjast. Hér er einn vinur Rúnars Atla, Remi heitir hann, og ekki var hans útlit síðra en hjá Rúnari Atla.
Flott, ekki satt?

Svo eftir heilmikil læti var komið að tertunni. Súkkulaðiterta auðvitað. Ekki til að tala um að hafa neitt annað. Eins og sést á næstu mynd átti Gulla fullt í fangi með að afgreiða kökusneiðar og drykki til allra:


„Gemmér, gemmér...“

Æ, en að veislu lokinni vorum við gjörsamlega búin. Öll sömul. Enda var hugmyndin með að hafa veisluna á föstudegi sú að við hefðum tvo daga í kjölfarið til að jafna okkur.

Það var fínt.

Nú er bara ár í næstu veislu.

5. september 2012

Skyldi fjölga í fjölskyldunni bráðum?

 
Ha, nei, auðvitað á enginn von á börnum!

Það sem ykkur dettur í hug, tsk, tsk.

Nei, við vorum að koma úr smábíltúr. Vorum að skoða hunda... og mér sýnist allt benda til að fljótlega fjölgi í fjölskyldunni um tvo.

Rico heitir annar hundurinn og hinn heitir Bounty. Tjáváva hundar.

Og ef það skyldi ekki vera nóg, þá er Bounty tík og líklega hvolpafull...

Hvað skyldu dæturnar segja nú?

Aldrei fengu þær hunda eða ketti.

Ó, já, ekki má gleyma að um daginn eignuðumst við annan kött. Kisi heitir hann og varð munaðarlaus þegar vinir okkar fluttu heim til Íslands.

Heyrðu, svo er auðvitað einn hani á bænum og fimm hænur og mér skilst á Gullu að hún ætli að kaupa 20 unga til viðbótar.

Ja, hérna. Hvar endar þetta eiginlega?

Tuttuguogsex hænur, tveir kettir, þrír hundar og kannski fleiri hundar á leiðinni.

Já, hvað skyldu dæturnar eiginlega segja?

 

4. september 2012

Lílongve logar - og allt vatnslaust

Reyndar logar borgin ekki bókstaflega. Hins vegar logar allt í verkföllum opinberra starfsmanna í Lílongve sem og í öðrum stórum byggðakjörnum í landinu. Nokkuð er orðið síðan þetta hófst, en kveikjan er gengisfelling sem varð á gjaldmiðli Malava, kvakanum, í apríl og því gengissigi sem í kjölfarið fylgdi. Er nærri lagi að kvakinn hafi fallið um 70% gagnvart bandaríkjadal.

Eins og við Íslendingar þekkjum mætavel þá fylgir verðbólga gengisfalli. Því hafa Malavar fengið að kynnast undanfarna mánuði. Tölur frá hagstofu Malaví gefa til kynna að verðbólga í júlí hafi verið tæplega 22 prósent. Hefur hún vaxið hröðum skrefum frá í apríl og ekkert sem bendir til að henni linni í bráð.

Auðvitað kemur þetta við almenning. Þegar nýtt fjárhagsár hófst hjá ríkinu malavíska hinn 1. júlí sl. þá kynntu stjórnvöld launahækkanir opinberra starfsmanna. Meðaltalshækkunin var 21%, mest hjá lægst launuðum, ríflega 40%, en minni eftir því sem laun hækkuðu. Starfsmenn fyrirtækja í eigu ríkisins fengu mun minna, 5%.

Skemmst er frá að segja að launþegar eru ekki sáttir. Starfsmenn ýmissa opinberra fyrirtækja og stofnana hafa farið í verkföll undanfarnar vikur. Þetta hefur ekki haft mikil áhrif á fólk almennt, þar til starfsmenn vatnsveitu Lílongve fóru í verkfall og kröfðust 30% launahækkunar í stað þeirrar 5% sem þeir höfðu fengið. Innan tveggja daga var öll borgin orðin vatnslaus. Einum eða tveimur dögum seinna var búið að semja um 25% launahækkun og starfsmenn mættu aftur til vinnu. Manni datt nú bara í hug íslenskir mjólkurfræðingar og þeirra verkföll hér á árum áður.

Þar með kom vatnið aftur, ekki satt?

Ó, nei, ekki er það nú svo gott. Til að borgin hafi nægjanlegan vatnsþrýsting til að þjónusta allri borginni þá þarf ákveðið lágmarksmagn í vatnstanka borgarinnar. Hægara sagt en gert virðist vera að ná því vatnsmagni eftir að tankarnir tæmast. Í okkar húsi kemur vatn inn í einhverja klukkutíma á sólarhring, yfirleitt að nóttu til. Líklega eru fjórir dagar síðan verkfalli lauk, en við sjáum enga breytingu á ástandinu.

Við erum þó heppin því við höfum forðatank á lóðinni okkar. Líklega komast 5.000 lítrar í hann, ef hann nær að fyllast. Í tankinn safnast vatn þegar vatnsveitan hleypir vatni til okkar. Þegar ekkert vatn kemur inn á lóðina þá rennur vatnið úr tankinum í kranana okkar. Við höfum því vatn til að fara í sturtu og til helstu nauðsynja. Þó sé ég mikið eftir vatninu sem sturtast niður úr klósettkassanum...

Í dag settum við í eina þvottavél... annars er handþvegið.

Sumir eru ekki jafnheppnir og við. Þeir sem enga forðatanka hafa mega sætta sig við að hafa ekki vatn í krönunum megnið af sólarhringnum.

Við nældum okkur að auki í þrjár 200 lítra tunnur af vatni sem við notum við uppvask og vökvun á matjurtagarðinum. Við notum vatnið úr forðatankinum eins sparlega og hægt er og vonum á kvöldin að nóg dælist í tankinn á nóttunni til að duga næsta dag. Enn sem komið er hafa þær vonir ræsts.

En mikið er maður háður vatni. Rafmagnsleysi er miklu auðveldara viðfangs. Að komast ekki í sína daglegu sturtu er skelfilegt. Við vorum ekki nægjanlega vakandi þegar verkfallið hófst og áttuðum okkur ekki á því í heilan dag að ekkert vatn kom inn til okkar. Því kláraðist vatnið úr forðatankinum. Engin sturta í tvo daga, bara einhver þvottapokaþvottur.

Óskemmtilegt.

Nú er bara að vona að vatnsveitan nái að safna því vatni sem til þarf til að allt komist aftur í lag.

Og á meðan logar allt í verkföllum annarra. Nýjust fréttir voru að borgarstarfsmenn í hinni stóru borginni í landinu, Blantyre - sorphirðumenn og fleiri - væru farnir í verkfall. Og þeirra kröfur?

150% launahækkun!

Já, sæll.

Afmælisdagafrétt - seint um síðir

Ekki er einleikið hversu illa gengur að skrifa eitthvað skemmtilegt á þessar síður. Framtakssemin alveg að kála manni.

Eða þannig sko.

Á morgun er vika síðan sonur minn ungur átti átta ára afmæli. Og ekki eitt orð um það hér. Fyrr en nú.

Hverslags er þetta eiginlega?

Spenningurinn var þó nokkur hjá sumum síðasta sjö ára daginn. Við feðgarnir skelltum í skúffuköku seinnipart þess dags, en hana átti að fara með í skólann handa bekkjarsystkinum.

Á afmælisdeginum var ekki mikið mál að vakna.

Hér til hliðar er fyrsta myndin af átta ára gutta. Tekin rúmlega fimm að morgni. Allir í góðu stuði.

Hárið kannski aðeins út í loftið, en hva, hverju búist þið við svona snemma morguns?

Eitt verð ég í framhjáhlaupi að segja syni mínum til hróss. Alveg heyrir til undantekninga að hann sé ekki kátur og glaður. Og alltaf skal hann vera tilbúinn í grallaraskap.

Flottur fír.

En tvær ástæður voru fyrir því að dagurinn var tekinn snemma. Svona klukkutíma fyrr en venjulega. Fyrri ástæðan var að klára þurfti að ganga frá skúffukökunni.

Auðvitað sá afmælisbarnið um að smyrja súkkulaðikreminu á. Aldrei að vita nema faðirinn tæki upp á því að stelast í kremið. Hvað veit maður?


Skúffukakan heppnaðist vel hjá okkur feðgum. Í það minnsta leit hún mjög vel út. Ég fékk auðvitað ekki að smakka.

Hin ástæðan fyrir því að dagurinn var tekinn snemma var að geta opnað pakkana áður en klukkan yrði sjö og tími til að leggja af stað í skóla. Eftir kökuskreytingar var því sest við borðstofuborðið með pakkana.


Pakkarnir þóttu reyndar í smærra lagi þennan afmælisdaginn, en þó áttuðu menn sig greinilega á því að stærðin skiptir ekki endilega máli. Innihaldið er jú mikilvægara.

Ég ætla nú ekki að eyða tímanum að telja upp gjafirnar, nema þó að dreng þótti flott að fá þrjár Andrésar Andar syrpur frá frændunum þremur í Eyjabakkanum.


Takið líka eftir að á þessum tímapunkti var drengur orðinn vatnsgreiddur og flottur. Handverk móðurinnar að sjálfsögðu.

Að pakkaopnun lokinni var borðaður morgunmatur og síðan lagt af stað í skólann. Vinirnir voru greinilega með á hreinu hvaða dagur var því menn kepptust við að óska til hamingju.

Rétt fyrir fyrstu frímínútur mætti ég síðan í skólastofuna með skúffukökuna flottu. Við búum svo nálægt skólanum að ég rölti mér út með kökuna á brauðbretti og ekkert yfir henni. Enda alltaf gott veður í Lílongve og ekki þýðir að skemma kremið með plastpoka eða einhverju álíka.

Hér sést afmælisbarnið umkringt bekkjarsystkinum sínum. „Hann á afmæli í dag,“ sungið hástöfum. Á ensku auðvitað.


Svo var blásið...


Öll kertin náðust í fyrstu tilraun.

Takið eftir hvað kakan er flott skorin. Kennarinn greip boltann á lofti þegar hann sá kökuna og lét krakkana reikna ýmis dæmi sem tengdust fjórum sinnum sjö. Ekki slæmt að taka smá hugarreikning áður en maður fær köku.

Í kvöldmat bauð piltur foreldrum sínum á indverskan veitingastað. Ekki slæmt val það hjá honum. Eigandi staðarins varð kátur þegar hann frétti hver hefði valið staðinn og þakkað afmælisbarninu kærlega fyrir.

Dagurinn var í alla stað góður og glaður piltur lagði höfuðið á kodda um kvöldið og sofnaði eins og skot.

Uppskera dagsins hjá elsku Gullu

Segir ekki myndin allt sem segja þarf?

 

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...