29. nóvember 2007

28. nóvember 2007

Ljósaperurnar


Í stofunni hjá okkur er nokkuð hátt til lofts. Ein hæð var látin hverfa þegar húsið var tekið í gegn og því er í raun tvöföld lofthæð.

Mjög flott.

En galli er þó á gjöf Njarðar, nefnilega að ekki er alltof létt verk að skipta um ljósaperur. Ég er hálflatur við þetta. Leiðist að hanga í stiga og reyna að vinna uppfyrir mig.

Tinna Rut tók sig því til - með stuðningi móður sinnar - og skellti sér upp í stigann í gærkvöldi. Auðvitað var tuðað yfir því að faðir hennar gerði þetta ekki. Hún lét sig þó hafa þetta og nú eru allar perur í góðu lagi.

A.m.k. á þessum vegg...

25. nóvember 2007

Tíunda bekk lokið

Þá eru prófin hjá Tinnu Rut búin. Tíundi bekkur yfirstaðinn og nú tekur við sumarfrí fram í miðjan janúar. Mikil ánægja að þessi prófraun sé yfirstaðin, bæði hjá Tinnu Rut sem og foreldrunum. Nú eru bara tvö ár eftir þar til stúdentsprófið, ja, eða ígildi þess, verður komið í hús.

Íslandsferðin er næst á dagskrá, rétt rúmar tvær vikur í brottför frá Namibíu. Við hlökkum öll til að komast í svalt veður og jólaskammdegi með tilheyrandi ljósadýrð. Sama hversu lengi við búum hér, þá er einfaldlega stórfurðulegt að heyra jólalög og skoða jólaskreytingar í 32 stiga hita.

12. nóvember 2007

Úgandaferðin, smáviðbót

Eitthvað dróst að „framkalla“ myndir frá Úganda. Hér kemur ein af henni Gullu við miðbaug:


Með annan fótinn á suðurhveli og hinn á norðurhveli. Vetur öðrum megin og sumar hinum megin...

7. nóvember 2007

Gróðurhúsaáhrifin

Hér er búið að vera þokkalega heitt undanfarna daga. Við höfum rætt svolítið við Rúnar Atla að hitt og þetta geti bráðnað þegar sólin er svona heit.

Hann hefur líka svolítið verið að spá í muninn á strákum og stelpum, en munurinn liggur auðvitað í hvort fólk sé með sponna eða pjásu. Þetta er svolítil spurning um hvort hægt sé að skipta um græjur, t.d. með því að toga nógu fast í sponnann.

Nóg um það. Við sátum öll fjölskyldan í bílnum um daginn og eitthvað barst hitinn í tal. Segir þá guttinn: "Ef sponninn bráðnar, þá fæ ég pjásu!"

Það er nefnilega það.

Nú er loksins komin skýring á gróðurhúsaáhrifunum.

Þetta er auðvitað rauðsokkuplott til að losna við okkur karlmenn!

4. nóvember 2007

Ferming

Nú er farið að vora í Windhoek. Eins og fylgir vorkomunni annars staðar, þá er tími ferminga runninn upp. Og í dag fórum við í eina slíka.

Sonur hennar Lidiu, húshjálparinnar okkar, var nefnilega að fermast í dag. Fyrir langalöngu var Lidia búin að spyrja mig hvort ég gæti mætt í ferminguna og tekið fyrir sig myndir. Ekki mikið mál þótti mér.

Við reyndar bökuðum líka tvær tertur og gáfum henni til að bjóða fólki upp á. Íslenskar tertur að sjálfsögðu.

En, við Gulla mættum klukkan átta í morgun fyrir utan kirkjuna. Athöfnin átti að hefjast níu, en samist hafði um að við mættum fyrr til að taka myndir. Hins vegar gekk það ekki, því öll börnin voru komin inn í kirkjuna og mátti ekki hreyfa þau þaðan.

Heilmikið af fólki var mætt þetta snemma og stóð fyrir utan kirkjudyrnar. Voru sungnir sálmar af miklum móði og var Rúnar Atli alveg bergnuminn af söngnum. Okkur Gullu voru boðin sæti á fremsta bekk, en við afþökkuðum gott boð því við höfðum grun um að athöfnin tæki nú góða stund.

Var því gripið til þess ráðs að hún Lidia myndi senda okkur sms þegar tími væri á myndatökur.

Hvað gerði fólk fyrir tíma sms-a?

Um 11-leytið kemur kallið. Við aftur af stað. Þá ber ekki öðrum vísi við að ég er dreginn inn í kirkjuna og barasta alveg upp að altari. Múgur og margmenni var þarna og þurfti ég að biðja a.m.k. tvisvar afsökunar á að hafa stigið ofan á tær. Þregslin voru mikil eins og sést hér.


Þarna sést hluti af kirkjunni og er megnið af þeim sem á myndinni sjást fermingarbörn.

Sem sagt, ég er dreginn alveg í hið allra heilagasta og er kominn bak við prestinn.

Bíddu, sagði ég prestinn?

Ég meinti prestana. Þarna var akkorðsvinna í gangi. Þrír prestar fermdu í einu, ja, eða skiptust á. Fleiri prestar voru þarna, þ.a. jafnvel virtist vera einhver varamannabekkur í gangi. Hvað um það, hvert barn rétti prestinum miða með nafni sínu og fleiri upplýsingum og presturinn lagði síðan hönd á höfuð barninu og las upp einhvern fermingarpistil. Um leið og það var búið, þá tók næsti prestur við, en á meðan las fyrsti presturinn yfir blaðið hjá næsta barni, til að vera tilbúinn þegar röðin kæmi að honum á nýjan leik.

Vonandi átta lesendur sig á þessu.

En, þetta var ekki allt. Á bak við prestana stóðu síðan ættingjar með myndavélar. Maður reyndi sem sagt að halla sér á milli prestana á réttu augnabliki til að ná mynd af fermingarathöfninni. Menn voru með allt frá farsímum upp í fínar myndavélar. Var heilmikill handagangur í öskjunni á bak við prestana þegar myndasmiðir voru að tryggja sér rétta stöðu og síðan þurfti að mjaka sér í burtu þegar búið var að smella af.

Heilmikill æsingur. Síðan var mikið skvaldur í kirkjunni og jafnvel verið að tala við kunningjana sem biðu fyrir utan kirkjugluggann.

Morgan heitir sonur hennar Lidiu sem var að fermast, og eins og sést hér, þá er þetta stilltur piltur og mikið prúðmenni.


Eða hvað?

Hér er mynd af honum nokkrum klukkutímum eftir athöfnina, og nú er stíllinn orðinn annar... Kominn í tölu fullorðina.


Athöfnin hófst klukkan níu, eins og áður sagði, og lauk ekki fyrr en þrjú! Sex tímar, ekki minna.

Við fórum síðan heim til Lidiu og kíktum í kaffi. Þar var mikið fjör og ég beðinn að taka myndir á myndir ofan. Fannst mér það hið besta mál, enda eignaðist ég margar fínar myndir í Namibíusafnið mitt.

Síðan er víst brúðkaup í maí, og hver haldiði að eigi að mæta með myndavélina??

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...