31. mars 2011

Hvítt eða rautt?

Nei, ekki áfengi... hvað eruði að hugsa eiginlega?

Fyrir þremur tímum eða svo tók Rúnar Atli svokallað beltapróf í karate. Hann, sem byrjandi, hefur haft hvítt belti. Nú var spurningin hvort hann næði prófi til að fá næsta lit fyrir ofan.

Rautt belti er það næsta í röðinni.

Síðustu tvær vikur hefur ríkt nokkur spenningur vegna prófsins. Slatti af armbeygjum verið tekinn heima fyrir og ýmsar fleiri æfingar ástundaðar.

Nú var stóra stundin runnin upp.

Fyrst þarf auðvitað að hita upp með armbeygjum og fleira í þeim dúr.


Einbeitingin er mikil. 

Svo þarf að teygja vel á öllum vöðvum svo allt fari nú á besta veg.



Ýmsar þrautir þurfti að leysa af hendi, t.d. fara í kollhnís. Ekki mikið mál.


Svo þarf að setja sig í karate-stellingar. Flottur og fagmannlegur drengurinn.

 

Auðvitað náði piltur settu markmiði. Hér sést hann stoltur taka við prófskírteininu úr hendi prófdómarans og rauða beltinu sjálfu úr hendi kennarans síns.


Hér er svo allur hópurinn sem þreytti prófið með árangur erfiðisins


Búinn að setja upp rauða beltið. Enginn byrjandi lengur.


Svo er það sjálft prófskírteinið.

13. mars 2011

Margt leynist í ferðatöskum

Rakst á opna ferðatösku áðan. Hún er í eigu ferðalangs frá Vestfjörðum. Merkilegt þótti mér að brauðrist virðist hluti af staðalferðaútbúnaði fólks af þeim slóðum.

Spenningur út'á landi

„Vitiði hvað gerðist á mánudaginn var?!“ spurði systir mín okkur rétt í þessu.

Best að taka fram að systirin er utan af landi, Vestfjörðum nánar tiltekið.

Henni var mikið niðri fyrir.

„Nei,“ sögðum við hin, „hvað gerðist?“

„Ég vann í bingó!!“

Nefnilega...

... spennandi líf vestur á fjörðum.

8. mars 2011

Snjór og meiri snjór

Það kyngir naumast niður snjó þessa dagana. Fyrir fyrrum Namibíubúa er þetta skemmtileg upplifun. Að vísu er skjólklæðnaði ábótavant. Ekki væri vitlaust að leita sér að kuldaskóm, sé ég gjörla. Tók aukasokkapar með í vinnuna í morgun, enda fylltust skórnir af snjó. Verð nú að þakka eiginkonunni þá hugmynd.

Á svona snjóadegi er fínt að ferðast í strætó. Út um gluggann á vagninum fylgdist ég með ýmsum misskemmtilegum uppákomum þeirra sem voru á eigin bílum. Þó nokkuð margir sátu fastir í innkeyrslum og fórnuðu höndum yfir þeim örlögum sínum. Umferðin gekk hægt og var þung, en strætisvagninn ruddist áfram og var ekki langt á eftir áætlun. Svo vakti athygli mína hversu margir nenna ekki að sópa snjónum almennilega af bílunum sínum. Sumir með smágægjugat á framrúðunni og nenna ekki að sópa af öðrum gluggum.

Ég átti sem sagt áhyggjulausa ferð í vinnuna og naut þess að hlusta á KK í útvarpstækinu mínu.

6. mars 2011

Hvalir í Kolgrafafirði

Eftir miklar bolluveislur (jamm, fleiri en eina) í Grundarfirði í morgun, þá lögðum við af stað heim fljótlega eftir hádegið. Þegar við nálguðumst brúna fínu yfir Kolgrafafjörðinn þá rákum við augun í hvali rétt fyrir utan brúna.

Ég er nú enginn hvalasérfræðingur, en gat ekki betur séð en þetta væru háhyrningar. Þarna var þónokkur fjöldi, ekki undir tíu stykki. Allt morandi í fugli líka, þ.a. greinilega var fiskur þarna sem hægt var að gæða sér á. Við stöðvuðum bílinn og horfðum í góða stund. Alveg þótti okkur magnað að sjá þessar skepnur svona nálægt.

Sem ég skrifa þetta, dettur mér í hug að myndavélin og aðdráttarlinsan voru með í för.

Æ, stundum er maður hálfmisheppnaður :-)

Hvín í Grundarfirði

Kominn vestur til Grundarfjarðar. Hótel mamma þessa helgina.

Við lögðum af stað um tvöleytið, en þá var farið að hvessa allhressilega. Skv. veðurupplýsingaskiltinu í Mosfellsbænum voru 42 metrar á sekúndu í hviðum undir Hafnarfjalli. Lengst af gekk ferðin þó stórslysalaust fyrir sig. Fengum þó á okkur eina hressilega hviðu undir Hafnarfjallinu. Náði sú að snúa þurrkublaðinu bílstjóramegin við, þ.a. ég þurfti að stökkva út og snúa við blaðinu. Vindurinn var þvílíkur að ég náði vart andanum og fannst mér ég standa í grjóthríð. Þetta voru þó bara regndropar sem skullu á mér með þvílíku offorsi að sem grjót væri.

Við komumst að öðru leyti klakklaust til Borgarness og fínt var að setjast inn á Geirabakarí og fá sér aspassúpu og brauð. Ekki má gleyma ástarpungunum sem aldrei svíkja.

Reyndar, þegar við Rúnar Atli vorum að hlaupa eftir bílaplaninu fyrir utan bakaríið þá sá kvikindið hann Kári sér leik á borði og blés svo hressilega á pilt að hann tókst hreinlega á loft og endaði kylliflatur á stéttinni. Sem betur fer hélt ég í hönd drengsins, en annars væri hann sjálfsagt enn á lofti einhvers staðar yfir vesturlandi.

Ferðin gekk síðan tíðindalaust fyrir sig þar til við komum að lokum Vatnaleiðarinnar. Frá Berserkjahrauni og alla leið til Grundarfjarðar var hinn hressilegasti sunnanstrekkingur þvert á veginn. Lulluðum við rétt á 50 km hraða og tóku síðustu 20 km næstum því hálftíma.

En á leiðarenda komumst við og sitjum nú í góðu yfirlæti á Smiðjustígnum. Þessi fínasti lambahryggur með stökkri puru rann ljúflega niður í kvöldmatnum. Rúnar Atli tók karate-sýningu fyrir ömmu sína og á morgun verður bollubakstur. Ríkir mikil eftirvænting hjá ýmsum vegna hans.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...