30. júní 2007

Gleraugnaglámur

Rúnar Atli fékk í dag dótalæknistösku. Í Tumi fer til læknis á hann Tumi nefnilega læknisdót sem hann notar til að lækna bangsa, og Rúnari Atla hefur langað í svona nokkuð.

Í töskunni voru gleraugu, sem Rúnari Atla finnast „rosa töff.“

23. júní 2007

San fólk

Fór í tveggja daga ferðalag í síðustu viku að heimsækja tvö þorp Sanfólks. Skemmst er frá að segja að lífsskilyrði þessa fólks eru alveg hræðileg. Eiga hreinlega ekki neitt og erfitt að sjá útleið. Engu að síður er bjart yfir fólkinu og það er brosmilt.

Tók svolítið af myndum og ákvað að setja nokkrar hér inn. Gaman var hversu mikla ánægju fólkið fékk frá því að sjá myndir af sjálfu sér í myndavélinni. Algengt var að það hrópaði upp yfir sig, og skipti ekki máli hvort um var að ræða börn eða fullorðna.


20. júní 2007

Verkefni 2

Í dag er skiladagur á öðru verkefni ljósmyndanámskeiðsins. Hér er önnur myndin sem ég skilaði inn vegna þess verkefnis. Við Rúnar Atli vorum að bíða eftir að Tinna Rut væri búin í skólanum og þá kom þetta tækifæri upp. Sem betur fer var ég með myndavélina innan seilingar.

19. júní 2007

Sokkurinn...

Var úti í bæ í dag.

Sat lokaður inn í herbergi, einn ásamt ungri ljóshærðri konu. Frá henni kom eftirfarandi beiðni, með seiðandi röddu:

„Viltu fara fyrir mig úr skónum...

...og hægri sokknum.“

Eitthvað afbrigðilegt í gangi þarna, eða hvað?

Nei, þetta var nú ósköp saklaust. Eins og hvert mannsbarn ætti að geta áttað sig á var þarna næringarfræðingur á ferð.

Það er víst þannig að þröngur hægri sokkur hefur áhrif á taugar sem senda hungurskilaboð beint til heilans...

Nei, þvílíkt bull.

Þarna þurfti að tengja mig við eitthvert tæki og voru skynjarar settir á hægri fót og hægra handarbak. Tækið las síðan alls kyns upplýsingar um mig, fitu- og vatnsmagn líkamans og eitthvað heilmikið fleira.

Útkoman var nú ekkert sérlega góð fyrir mig. U.þ.b. þriðjungur af mér er fita... geðslegt eitthvað. Til að viðhalda núverandi þyngd þarf ég víst að innbyrða rúmlega 2.100 kílókaloríur á dag. Ég hef greinilega gert það lengi, því þyngdin mín hefur lítið breyst undanfarna mánuði. Nú er planið víst að koma mér niður í u.þ.b. 1.700 kkal á dag. Í næstu viku fæ ég plan í hendurnar. Svo er bara að sjá hvernig gengur.

Ég verð nú að viðurkenna að þessi næringarfræðingur virðist ekki vera með neinar öfgar. Vonum það besta.

18. júní 2007

Ísland hvað?

Oft er maður jú stoltur af Íslandinu sínu og þeim vörum sem útlendingar tengja við landið okkar fornfræga. T.d. var ég staddur í stærðar kvöldverði um daginn og hitti einn stórlax úr namibísku viðskiptalífi.

„Já,“ sagði hann, „ertu frá Íslandi. Eitt af fyrirtækjunum okkar hefur keypt mikið af tækjum í verksmiðjuna sína frá ykkur.“

„Marel?“ spurði ég.

„Akkúrat,“ var svarið.

Útrásin hefur gert það að verkum að margir kunna einhver skil á Íslandi og þekkja jafnvel íslensk fyrirtæki. Ekki bara Björk.

En fyrr í kvöld rak mig í rogastans. Ég var staddur í sjoppu einni hér í bæ, hornabúðinni eins og hún nefnist í daglegu tali okkar. Þar rakst ég á eftirfarandi vöru í hillunni:


Eins og sjá má, þótt frekar óskýrt sé, nefnist svitalyktareyðir þessi Iceland, eða Ísland. Það sem vakti þó sérstaka athygli mína var Playboy kanínan sem skreytti þessa svitalyktareyðisdós.

Ekki er Björgólfur búinn að kaupa Hugh Hefner út?

Fyrsti í rækt

Mætti í fyrsta tímann í heilsuræktinni í dag. Nokkuð langt síðan síðast... En þetta var ágætt. Ég var leiddur í gegnum létt prógramm, svitnaði varla. Finn samt að einhverjir strengir eru að byrja að gera vart við sig.

Það var heilmikið af fólki í ræktinni, allt frá einhverjum súperíþróttamönnum í namibískum landsliðstreyjum upp í áttræðar konur. Allt þar á milli, og líka ég. Hver þjálfari leiðbeinir slatta af fólki í einu og róterar á milli þeirra. Kannski sex til tíu manns. Ekki alveg einkaþjálfun, en alveg fínt engu að síður. Næsti tími er svo á miðvikudag og svo koll af kolli.

14. júní 2007

Heilsuræktin

Fyrir nokkru fór hnykkjarinn minn, ósköp kurteislega, að forvitnast hvort ég stundaði nú einhverja hreyfingu, svona líkamsrækt skiljiði. Nei, ekki kannaðist ég nú við að gera mikið af því.

Þannig fór því að hann gaf mér resept á líkamsrækt... verst að ekki séu bara til einhverjar töflur.

Fyrr í vikunni mætti ég í þessa rækt og spjallaði þar við mann nokkurn og endaði það með því að í dag fór ég síðan í heilsutékk til að komast að hvort ég væri hæfur til að stunda líkamsræktina.

Mér var skellt á hjól, en ekki þó fyrr en búið var að líma á mig eina átta skynjara og tengja við eitthvað undratæki sem sá um að mæla allskyns upplýsingar um heilsufar mitt.

Þetta var nú ekki alveg án fórna, því þjálfarinn hóf allt í einu á loft rúningaklippur og rakaði skallabletti í minn fína bringuhárvöxt. Breytti engu þótt mér þætti þarna vegið að manndómi mínum. Skynjararnir mæla víst ekki vel í gegnum frumskógarvöxt.

Ég lét mig því hafa þetta, en er farið að klæja svolítið í þessa bletti núna. Svona ykkur að segja er þetta stórglæsilegt í speglinum, en ekki orð um það meir.

Síðan var blóðþrýstingurinn mældur, 138 yfir 90. Mér fannst þetta nokkuð hærra en vant er. Mig minnir að vera yfirleitt með 120, kannski 125, yfir 80. Kannski heilbrigðisfólkið sem les þessar dagbókarfærslur segi skoðun sína á þessum tölum. Auðvitað gæti verið að áfallið við blettabringuskallana hafi haft einhver áhrif á þrýsinginn. Hver veit?

Nóg um það.

Ég hjólaði í 20 mínútur á mismunandi hraða. Mælitækið vann yfirvinnu að mér sýndist og þjálfarinn tók nokkrum sinnum blóðþrýstinginn á meðan á þessu stóð. Hann var nú sáttur við útkomuna og sagði mér að það væri enn einhver hreysti sem byggi í mér. A.m.k. sýndi ég öll réttu viðbrögðin hvað varðar hjartslátt og þrýsting við auknu og minnkandi álagi.

Í næstu viku verður byrjað og eftir þrjá mánuði fer ég aftur í svona tékk.

Ég ræði seinna um næringarfræðinginn...

13. júní 2007

Húsið á sölu!

Úff, þá er húsið komið á sölu!

Undarleg tilfinning að einhver annar gæti bráðum verið eigandi að Stillholtinu. En svona er lífið, sífelldum breytingum háð.

11. júní 2007

Kaffi og ljósmyndun

Jæja, í gær lét ég loksins verða af því. Kaffivél keypt... ferfalt húrra fyrir Villa!!

Þetta er voðalega fín vél, held ég a.m.k., DeLonghi heitir tegundin og er, hvað sem öðru líður, frá Ítalíu. Við erum meira að segja búin að útbúa kaffihorn í eldhúsinu og eru allar kaffigræjurnar þar, tilbúnar í tuskið.

Við helltum því upp á nokkra bolla í gær, en þessi vél er þeirrar náttúru gædd að vera bæði kaffivél upp á gamla móðinn og einnig expressóvél. Við Dagmar Ýr fengum okkur því þetta fína cappucino í gær, æðislega gott.

Vorum snobb fram í fingurgóma og gæddum okkur á einhverju dýrindis ítölsku kaffibrauði með. Nammi, namm.

Tinna Rut hins vegar er meira upp á gamla móðinn og hellti uppá „venjulegt“ kaffi og drakk með bestu lyst. Síðan gerði hún kaffivélina tilbúna í gærkveldi og kom upp eins og svefngengill um klukkan sex í morgun og kveikti á henni. Gat því fengið sér tíu dropa áður en haldið var í skólann.

En síðan get ég líka sagt frá því að í síðustu viku skráði ég mig á fjögurra vikna ljósmyndanámskeið. Þetta er fjarkennslunámskeið, betri myndir kallast vefsíðan. Þarna eru víst voðalega frægir ljósmyndarar að kenna okkur aulunum. Er boðið upp á nær óendanlegan fjölda af námskeiðum, en ég valdi námskeið sem snýr að uppstillingu á myndefninu. Líst mér vel á þetta og eyddi stórum hluta helgarinnar að taka myndir.

Hvernig tengist þetta kaffivélinni?

Jú, ég var í vandræðum með eitt verkefnið og ákvað því að prófa að notfæra mér nú nýlagaðan kaffibolla. Varð útkoman þessi:


Maður er víst svolítið sérstakur er manni sagt...

Nýr BloggMeister

Hún Dagmar Ýr var að byrja á 153. bloggsíðunni sinni - pælingarnar mínar. Pælingarnar hennar, auðvitað, ekki mínar.

Ókey, kannski ekki 153, en langleiðina.

10. júní 2007

Mjólk er góð

Dætur okkar Gullu hafa ekki verið miklir mjólkurþambarar. Kalkið fékkst aðallega í mjólkinni sem sett var út á morgunkornið. En aðra sögu má segja af syni okkar. Hann er sko til í að drekka glogguglogg, en hann notar enn eitthvað orð í þá veru yfir mjólk. En honum finnst mjólk góð.

Þarf nokkuð frekar vitnanna við?

8. júní 2007

Fleyg orð

„Maður verður þunglyndur bara við að horfa á bókina, skilurðu”

Þessi fleygu orð hrutu af vörum Dagmarar Ýrar þegar hún opnaði Sjálfstætt fólk eftir Laxness, en þá bók þarf að lesa fyrir sumarnámskeið sem hún er í.

7. júní 2007

Uppeldisaðferðir

Þættinum hefur borist bréf.

Torskilin þykir víst athugasemd Davíðs bróður um uppeldisaðferðir okkar hjóna.

Hér sést uppeldisaðferð eiginkonunnar...


...Arsenal treyja!

Ef barnið hlaut ekki varanlegan skaða af þessu þá hvílir mikil blessun yfir því.

En ekki gafst frúin upp!

Nokkrum mánuðum seinna náðist þessi mynd


Nei, þið sjáið á síðustu færslu hversu drengurinn er miklu öruggari með sig í Manchester United treyju.

Ég verð víst að láta fylgja sögunni að móðirin útvegaði honum þessa Man Utd treyju.

Batnandi fólki er best að lifa.

5. júní 2007

Vetur konungur mættur

Þá er komið að því. Vetrarveður í Windhoekborg og íbúar búa sig kvíðafullir undir kuldakast.

Í dag fór hitinn víst eingöngu í 16 gráður á Celsíus og á morgun er ólíklegt að hann fari yfir 13 gráðurnar. Yfir hánóttina er búist við að hitinn nálgist frostmarkið, en fari þó líklega ekki undir.

Við Rúnar Atli ákváðum því að kveikja upp í arninum í fyrsta sinn í þessu húsi. Eldspýtur fundust reyndar ekki, en dagblaði var bara stungið á hellu á gaseldavélinni og þar með var það mál leyst. Einu vonbrigðin voru að viðarkubbarnir voru af skornum skammti. Við verðum að birgja okkur upp á morgun.


Rúnar Atli er að átta sig á að það er ekki bara á Íslandi sem er kalt.

En svona kuldi er ekkert grín hér. Stór hluti fólks býr jú í hreysum og litlir möguleikar til upphitunar. Eins er töluvert af götubörnum sem eiga ekki í mörg hús að venda. En við vonum það besta fyrir þeirra hönd.

4. júní 2007

Afmælispakkar

Þá er hún Dagmar Ýr orðin 19 ára gömul.

Þegar hún fæddist var ég 23 ára gamall og móðir hennar nýorðin 21 árs. Smávegis vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Blómarósin tók daginn rólega, svaf til hádegis og naut þess bara að vera til.

Afmælispakkar voru síðan opnaðir upp úr klukkan fimm um eftirmiðdaginn. Eins og sést var ákafur aðstoðarmaður henni til fulltingis. Sá hinn sami aðstoðaði einnig við að pakka inn, þ.a. hann kom að flestum hliðum málsins.


Síðan var haldið á Yang Tze, uppáhalds kínverska veitingastaðinn í borginni. Það var snætt af bestu list, súrsætt svínakjöt og kjúklingur, karrínautakjöt og núðlur og hrísgrjón.

Held ég að afmælisbarnið hafi bara verið sátt við daginn.

Þá var kátt...

Fyrir nokkrum dögum, á öðrum degi hvítasunnu til að vera nákvæmur, birtust gestir af Seltjarnarnesi og úr vesturbæ Reykjavíkur upp á Akranesi.

Ætti ég nokkuð að nefna að þennan sama dag tapaði KR fyrir Víkingi, 2-1? Nei, ætli ég láti það ekki eiga sig.

En ýmislegt var sér til gamans gert. Snæddar pitsur af Galito, en borgarbörnin hafa aldrei kynnst öðru eins gómsæti. Einnig var farið í svokallaðan skotleik, en leikur sá gengur út á að dúndra brennóbolta eins fast og mögulegt er í aðra leikmenn. Spilaðir voru nokkrir leikir og bar þannig við að Ívar og Elli tóku þátt í hluta af einum þessara leikja.

Takið eftir, hluta af einum leik. Ég ætla nú ekkert að fara út í það af hverju þeir spiluðu ekki meira. Læt lesendum eftir að ímynda sér hvaða ástæður lágu þar að baki.

Hvað um það, pistlahöfundur býr svo vel að eiga nokkura ára Sony myndavél og dró gripinn upp við þetta tækifæri.

Eins og sést, spilaði Elli leikinn af mikilli einbeitingu og innlifun. Sést hér þegar hann undirbýr eitt af sínum frægu þrumuskotum í átt að Ívari.


Ívar, hins vegar, hefur verið í mikilli þjálfun undanfarið. Hefur mikið stundað jóga og teygjuæfingar. Eins og sést á lipurleik þessa drengs, vel á fimmtugsaldri, hefur erfiði þetta skilað góðum árangri. Hann vatt sér því fimlega undan þessari illkvittnu árás Seltirningsins.


Skömmu síðar náði fyrrnefndur Ívar taki á brennóboltanum og nú átti sannarlega að sýna Ella hvar Davíð keypti ölið. Var allur drengsins kraftur lagður í þetta skot og gott betur. Enda sést að ungviðið, Rúnar Atli og Ari Sveinn, horfir á þessi undur og stórmerki í agndofan. „Skyldum við nokkurn tímann geta skotið jafnfast og þessi jötunn?“ Lá við að myndavélin næði ekki að festa boltann á stafræna tölvuskrá, en Sony klikkar þó ekki. Stríðsöskur það sem Ívar lét frá sér við þetta tækifæri greindist víða og kom fram á jarðskjálftamælum á Havaí eyjum bandaríkja Norður Ameríku. Nötruðu rúður í húsum á Akranesi.


Hins vegar var afl skotsins þvílíkt að ekki náðist á stafræna tölvuskrá hvar boltinn endaði eða hvernig Elli brást við þessari ógurlegu og heiftugu árásargirni sem þarna beindist gegn honum.

Þarf því að taka orð mín trúanleg fyrir því, að eins og KR-inga er siður, lagði drengurinn á flótta. Hér sést síðan þegar hún Ingunn er, u.þ.b. klukkustund síðar, að reyna að ná föður sínum úr fylgsni sínu.


Veit ég ekki hvernig mál þetta fór, því þegar ég yfirgaf Ísland tveimur dögum síðar hafði enn ekki tekist að ná Ella undan pallinum. Lifir hann víst á pitsu- og brauðstangarmolum sem féllu milli stafa á pallinum.

Vonandi verður hann kominn fram um jólin.

3. júní 2007

Bakari

Á morgun, reyndar bara eftir rúma klukkustund, er stór dagur. Eldri dóttir mín verður 19 ára. Takk fyrir.

Ber afmælið upp á mánudag eins og glöggir lesendur hafa ábyggilega áttað sig á. Ekki kannski allra skemmtilegasti vikudagur til að eiga afmæli á. Því spurði ég tilvonandi afmælisbarn hvort ekki ætti að baka tertu fyrir hana í dag. Jú, jú, það fannst Dagmar Ýr góð hugmynd, og bað um rjómatertu með jarðaberjum.

Svo vel bar í veiði að tveimur mínútum fyrr hafði ég verið að skoða nákvæmlega þess háttar tertu í grillblaði Gestgjafans. Sunnudagskaka heitir sú, og hentaði því vel, því hugmyndin var að baka og borða í dag.

Við Rúnar Atli náðum því í þeytara, egg, sykur og annað tilheyrandi og hófum okkar störf. Eins og sést var einbeitingin mikil. Ekki skemmir að hann fékk bók á Íslandi sem fjallar um bakstur, Tumi bakar, og er sú í miklu uppáhaldi þessa dagana.


Hér sést svo útkoman. Ekki illa útlítandi þriggjalaga rjómaterta. Bakarinn sleikir enda út um.


Að sjálfsögðu var við hæfi að skella kossi á tilvonandi afmælisbarn, hvað annað?


Við fengum okkur síðan tertu í eftirrétt með kvöldmatnum. Rann ljúft niður skal ég segja ykkur.

1. júní 2007

Íslenskukennsla

Í gær var ég að skipta á Rúnari Atla og eitthvað fannst honum aðfarirnar harkalegar og kvartaði. Ég baðst náttúrulega afsökunar og sagði: „sorrý.“

Hann horfði á mig og sagði síðan:

„Nei, pabbi segja fyrirgefðu.“

Úbbs.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...