24. júlí 2006

Matarboð

Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. Toppurinn var þó ostakaka sem ég eyddi góðum hluta morgunsins í að útbúa. Tókst alveg glettilega vel, þótt ég segi sjálfur frá. Grillaði svo skötusel eftir einhverri uppskrift úr Gestgjafanum. Tandori kjúkling líka og eitthvað fleira.

Svo var setið við nýja borðið frameftir kvöldi og kjaftað og svoleiðis. Nýju garðhúsgögnin reyndust vel, ekki síst vínvagninn...

Setti gemsann svo á hljótt áður en farið var í rúmið. Fékk nefnilega einhver sms sem bentu til þess að ákveðnir „vinir“ væru að skemmta sér í sumarbústað einhvers staðar á Fróni. Ég er af reynslu farinn að vita hvað klukkan slær, enda sá ég í morgun að einhver hafði hringt kortér fyrir eitt um morguninn að namibískum tíma.

Þá var ég löngu sofnaður.

Og svaf vært.

21. júlí 2006

Búðaráp og ÞEIR

Fórum í búðarölt í dag. Ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Höfum nú oft gert
þetta á föstudagseftirmiðdögum, en skrifstofan hjá mér er lokuð eftir
hádegið. Byrjum hálfátta á morgnana til að bæta það upp.

Hvað um það, hvað um það. Við fórum sem sagt í búðir. Fórum í Wernhil
kringluna og erum búin að fara í tvær búðir og á leið í þá þriðju,
þegar kona vindur sér að mér og spyr, næstum með þjósti, hvort ég eigi
þennan dreng þarna. Þessi drengur var Rúnar Atli sem var einhverjum
skrefum á eftir mér. Stundum þýtur hann framúr og stundum dregst hann
afturúr, svona eins og gengur. Jú, jú, ég kannast við að eiga hann. „Þú
verður að gæta hans betur, ÞEIR grípa börnin og hlaupa,“ sagði hún.

Ókeiiii...

Henni þótti greinilega fullmikið kæruleysi að leyfa drengnum að rölta
um sjálfum. Ég, hins vegar, gat nú ekki alveg áttað mig á hverjir ÞEIR
væru eiginlega. Horfði svona aðeins í kringum mig eftir þetta,
laumulega að sjálfsögðu, en sá ÞÁ hvergi. Aðallega var fjölskyldufólk á
röltinu þarna og einhverjir krakkar, táningar, að drepa tímann. Ósköp
svipað og í Kringlunni eða Smáralindinni.

Ég mun svipast eftir ÞEIM í framtíðinni.

19. júlí 2006

Bíltúr

Við Gulla skruppum í bíltúr í dag. Ég þurfti að fara til Usakos, sem er
í rúmlega 200 km. fjarlægð frá höfuðborginni. Sáum slæðing af bavíönum
á leiðinni, virtust hafa hrakist í átt að veginum vegna sinuelda sem
eru ekki óalgengir á þessum árstíma.

Ég heimsótti leikskóla sem við styrkjum í Usakos. Oft er erfitt að fara
í svona heimsóknir því manni eru sagðar sögur af börnunum. Ekki
skemmtilegar sögur, heldur sagt frá því hvaða foreldrar hafa eyðni, hvaða börn hafi misst foreldri, eitt eða bæði, úr eyðni og
líka hvaða börn hafa eyðniveiruna í sér. Get ekki annað en hugsað
hversu heppin við séum.

Kíktum á rússneskan snikkara sem hefur aðsetur í Karibib, bær 30 km.
nær höfuðborginni heldur en Usakos. Hann smíðar ótrúlegustu hluti úr
því hráefni sem Namibía býður upp á, s.s. steinum, dýrahornum og
skinnum. Þarna eru einhver þau flottustu húsgögn sem ég hef á ævi minni
séð, a.m.k. þau óvenjulegustu. Stólfæturnir eru úr kuduhornum, það eru
snúnu dýrahornin, ofboðslega flott. Við eigum örugglega eftir að versla
eitthvað af honum áður en yfir lýkur hér í Namibíu. En það erfiða
verður að velja hvað eigi að kaupa.

15. júlí 2006

Stundum er maður bara þreyttur

Dagar lengjast

Þá er háveturinn smám saman að hörfa. Enn er svolítið kalt á morgnana, en þó ekki eins og var fyrir nokkrum vikum. Dagarnir eru smátt og smátt að lengjast og við að byrja að undirbúa vorkomu. Í gær fórum við og fjárfestum í garðhúsgögnum, borði og stólum. Úr tré, enda orðin virkilega þreytt á plastdraslinu sem maður hefur bögglast með ár eftir ár. Engu að síður þarf nú að gæta að því að skrúfur séu fullhertar og vorum við Rúnar Atli settir í það eins og sést. Gulla var sennilega upptekin með gin og tónik...


Síðan lét ég gamlan draum rætast og notaði grillið til að malla pottrétt. Hér í Namibíu, og reyndar í Suður Afríku, er mikil hefð fyrir svona eldamennsku. Notaðir eru sérstakir pottar í svonalagað, potjie kallast þeir, borið fram „pojkí“ og eins og sést á myndinni er grillið okkar útbúið með króki fyrir þesskonar pott.

Ég kveikti upp í spýtukubbunum um eittleytið og var maturinn síðan tilbúinn um hálffimm. Ekkert liggur á í svona eldamennsku og þykir hið mesta fúsk að reyna að flýta fyrir eldamennskunni. Pojkíinn þarf tíma, það er einfaldlega bara þannig. En ég sauð lambaframhryggjarsneiðar, kryddaðar með ýmsum austurlenskum kryddum og síðan var ýmislegt grænmeti í pottinum líka. Tókst þetta nokkuð vel þótt einstaka byrjendaklaufaskapur hafi gert vart við sig. En gómsætt var þetta og hér sést Gulla skenkja Rúnar Atla mat á diskinn sinn. Auðvitað setið við nýja borðið.

7. júlí 2006

Grillað

Skömm er frá því að segja hversu slappur ég hef verið í
grillmenningunni frá því ég flutti hingað fyrir réttum sex mánuðum. Nú
er Namibía þvílíkt grillland, alltaf eru menn að kveikja í sprekum til
að glóðarsteikja mat og ekki er verra að setja pottrétt yfir eldinn og
sitja með bjór í þrjá tíma og horfa á mallið í pottinum. Nei, ég keypti
mér ekki grill fyrr en um síðustu helgi, takk fyrir.

Mér til málsvarnar verður að segjast að ekki er mjög gaman að grilla
fyrir sjálfan sig aleinan, því Tinna Rut mín er ekkert ofboðslega
spennt fyrir svona mat. Því hef ég ekki látið verða af þessu fyrr en
núna, þegar konan er mætt á svæðið. Fjárfesti í nákvæmlega eins grilli
og við áttum hér í den, svona fyrir þær fáu hræður sem mættu í heimsókn
og muna eftir þessu. Fínt grill, með snúningsklemmu og svo er krókur
fyrir pottinn, ef ég fer einhvern tímann útí svoleiðis ævintýri.

Ég grillaði sem sagt um síðustu helgi, en rak mig á það að um
hálfsexleytið er komið kolniðamyrkur og því erfitt að sjá hvernig
gengur með steikurnar. Þetta tókst nú ágætlega engu að síður, en
óþægilegt að elda eftir lyktarskyni einu saman. Svo grillaði ég aftur í
dag, en ekki fyrr en búið var að fjárfesta í nauðsynlegu grilláhaldi.
Nefnilega ennisljósi, halogenperuljós fest með teygju yfir höfuðið.
Gegt kúl, eins og mér skilst sé sagt. Þetta var þvílíkur lúxus að því
fá bara engin orð lýst. Nú lýsir maður, þó ekki gegnumlýsir, steikurnar
og veit upp á hár hvenær þær eru tilbúnar.

Þannig þið sem ætlið að mæta í heimsókn getið farið að hlakka til
safaríkra grillkræsinga.

6. júlí 2006

Rúnarsíska

Undanfarið hefur Gulla staðið fyrir mikilli herferð að kenna syni sínum
fleiri orð. Hefur honum farið mikið fram, a.m.k. eru foreldrarnir
þeirrar skoðunar. Það er ótrúlegt hvað eyru foreldranna eru næm fyrir
örlitum hljóðbreytingum sem gjörbreyta merkingu orðanna og þar með er
komið nýtt orð í orðasafnið.

Eitt orð hefur þó furðað okkur undanfarið. Veit ég varla hvernig á að
skrifa þetta, en helst hljómar það „glogb-glogb.“ Ekki leikur neinn
vafi á hvað drengurinn er að tala um. Þegar þetta „glogb-glogb“ er
notað, þá vill hann fá mjólk. Mikið höfum við velt því fyrir okkur
hvernig stendur á þessari undarlegu málnotkun drengsins. Ekki líkist
þetta mjólk, eða milk, eða Milch. Nei, helst vorum við á því að þetta
hlyti að vera Damaramál vinnukonunnar og barnfóstrunnar. Í hádeginu á
miðvikudag er Lidia að strauja skyrturnar mínar og einhverra hluta
dettur mér í hug að spyrja hana hvernig maður segi mjólk á hennar máli.
Ekki man ég lengur hvaða orð hún notaði, en minnir það hafi byrjað á
„dæ“ eða a.m.k. í þá áttina. Hljómaði ekkert líkt „glogb-glogb.“ Enn
var málið orðið dularfyllra. Svo heyrum við að Lidia er að segja
eitthvað við hana Floru sem kemur hálfskömmustuleg inn í eldhús og fer
að segja okkur frá því að hún hafi kennt drengnum þetta orð. Það þýði
reyndar ekki neitt, en henni fannst einn daginn svo fúlt að hún skilji
ekki það sem Rúnar Atli segir við hana að hún ákvað að búa til nýtt orð
sem hann skildi ekki. Það var „glogb-glogb“. En ekki dreymdi hana um
hversu miklu ástfóstri hann tæki við orðið.

Margt er undarlegt í kýrhausnum.

Leikkonan

Dagmar - kortér í frumsýningu... „break a leg...“

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...