6. júlí 2006

Rúnarsíska

Undanfarið hefur Gulla staðið fyrir mikilli herferð að kenna syni sínum
fleiri orð. Hefur honum farið mikið fram, a.m.k. eru foreldrarnir
þeirrar skoðunar. Það er ótrúlegt hvað eyru foreldranna eru næm fyrir
örlitum hljóðbreytingum sem gjörbreyta merkingu orðanna og þar með er
komið nýtt orð í orðasafnið.

Eitt orð hefur þó furðað okkur undanfarið. Veit ég varla hvernig á að
skrifa þetta, en helst hljómar það „glogb-glogb.“ Ekki leikur neinn
vafi á hvað drengurinn er að tala um. Þegar þetta „glogb-glogb“ er
notað, þá vill hann fá mjólk. Mikið höfum við velt því fyrir okkur
hvernig stendur á þessari undarlegu málnotkun drengsins. Ekki líkist
þetta mjólk, eða milk, eða Milch. Nei, helst vorum við á því að þetta
hlyti að vera Damaramál vinnukonunnar og barnfóstrunnar. Í hádeginu á
miðvikudag er Lidia að strauja skyrturnar mínar og einhverra hluta
dettur mér í hug að spyrja hana hvernig maður segi mjólk á hennar máli.
Ekki man ég lengur hvaða orð hún notaði, en minnir það hafi byrjað á
„dæ“ eða a.m.k. í þá áttina. Hljómaði ekkert líkt „glogb-glogb.“ Enn
var málið orðið dularfyllra. Svo heyrum við að Lidia er að segja
eitthvað við hana Floru sem kemur hálfskömmustuleg inn í eldhús og fer
að segja okkur frá því að hún hafi kennt drengnum þetta orð. Það þýði
reyndar ekki neitt, en henni fannst einn daginn svo fúlt að hún skilji
ekki það sem Rúnar Atli segir við hana að hún ákvað að búa til nýtt orð
sem hann skildi ekki. Það var „glogb-glogb“. En ekki dreymdi hana um
hversu miklu ástfóstri hann tæki við orðið.

Margt er undarlegt í kýrhausnum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þetta orð(áður en ég var búin að lesa allt) var hljóðið sem börnin gefa svo oft frá sér þegar þau fá sér að drekka og þá reyndar ekki bara mjólk en það er "glogg glogg" þegar þau kingja, gerði mér því í hugarlund að þarna væri einhver tenging, en veit ekki hvað konan var að hugsa þarna.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...