23. apríl 2007

Sannleikurinn sagna bestur?

Rúnar Atli var á leið upp í rúm áðan. Lítið nýtt kannski þar, hann gerir þetta jú á hverju kvöldi.

En í kvöld var eitthvað svo mikill sperringur í honum. Hann spígsporaði um öll gólf, fettur í baki og með mallann litla út í loftið.

"Hva, voða ertu með stóran malla," verður mér að orði.

"Já, eins og pabbi!" svarar guttinn að bragði.

Æ, æ.

22. apríl 2007

Talnaruglingur

Síðustu daga hefur Rúnar Atli verið að telja á fullu. Mikið sport var til dæmis í dag að telja upp á fimm og þjóta síðan af stað og hlaupa eins hratt og hann gat.

Þó er einn galli á gjöf Njarðar. Talningin fer fram á ensku og hljóðar yfirleitt svo:

One,three, four, five!

Sem sagt, vantar tvo...

... en hann hleypur jafnhratt fyrir því.

20. apríl 2007

Afmæli!

Fimmtán ára!

Barasta fimmtán ár frá því hún Tinna Rut kom í heiminn. Ótrúlegt en satt.


Við Rúnar Atli vöktum hana klukkan sex í morgun til að fylgjast með henni opna gjafirnar. Okkur fannst það bara gaman. En eins og sést voru menn auðvitað mishressir.

Um leið og ég spurði Rúnar Atla hvort við ættum ekki að vekja Tinnu Rut til að opna pakkana, þá spratt hann á fætur. Ekki málið. Auðvitað átti að vekja Tinnu.Hún fékk grænt flísteppi og mynddisk frá Rúnari Atla. Frá foreldrunum fékk hún græjur í herbergið sitt, en hún hefur látið lítið ferðatæki duga sér. Nú hins vegar drynja djúpir bassatónar úr herberginu hennar. Allt önnur gæði og hún var fjarska glöð með gjafirnar sínar.

Auðvitað þurfti að hjálpa við að opna gjafirnar eins og gengur. „Opna saman,“ var aðalfrasinn hans Rúnars Atla.

Síðan var farið í skólann. Þar var hálfgerður frídagur - íþróttadagur - og allir áttu að mæta í íþróttafötum í skólann. Skólataskan var ekki einu sinni tekin með í skólann. Auðvitað gaman á afmælisdeginum þegar svoleiðis er.


Síðan í kvöld fara 15 krakkar út að borða á tex-mex stað sem heitir Spur. Þar er nefnilega sungið fyrir afmælisbörnin. Tinna Rut þarf ekki einu sinni að borga. Munur að eiga góða vini.

Enda þetta með smáskilaboðum frá henni fimmtán ára dóttur minni:

16. apríl 2007

Nostalgía

Æ, mikið var ég þreyttur í morgun.

Í gærkvöldi sat ég við tölvuna og var eitthvað að skoða mbl.is. Rek þá augun í bloggsíðu þar sem minnst er á Vancouver Canucks, íshokkílið Vancouverbúa. Álpast ég til að skoða síðuna, en hún er skrifuð af íslenskri konu sem stundar nám við háskóla í Vancouverborg.

Sem ég byrjaði að lesa um hin og þessi kennileiti borgarinnar fór fullt af minningum að hrúgast upp. Gleymdi ég mér gjörsamlega við lesturinn og fór ekki upp í rúm fyrr en eftir miðnætti. Gekk síðan ekkert að festa svefn, og var því hálfpirraður þegar klukkan hringdi 20 mínútum fyrir sex. Óvenjuseint þar sem Rúnar Atli fer ekki í leikskólann á mánudögum. Sem betur fer í þetta sinn.

Ég leiði ekki oft hugann til áranna í Vancouver, en þegar það gerist, þá eru alltaf góðar minningar. Svona líf í rósrauðu ljósi. Þrátt fyrir peningaleysi námsáranna og skort á ýmsum veraldlegum gæðum, þá leið okkur yfirleitt ósköp vel þarna.

Náttúran ægifögur eins og meðfylgjandi mynd af háskólasvæðinu ber með sér.En hvað var svona gott við staðinn?

Jú, í fyrsta lagi fæddist jú Tinna Rut þar, sem hlýtur að teljast hápunktur verunnar þarna.

Síðan voru dæturnar á þeim aldri þegar lífið er svo skemmtilegt og margar skemmtilegar minningar tengjast þeim.

Við eignuðumst mjög góða vini þarna, sérstaklega ein hjón sem áttu dætur á svipuðum aldri og við. Ferðuðumst við mikið með þeim og voru tjaldútilegur það sem blífaði. Þarna lærði maður að höggva við í varðeldinn, kveikja upp eld og sitja og glóða sykurpúða.

Ja, við vorum reyndar aldrei mjög hrifin af sykurpúðunum, en það var engu að síður einhver sérstök stemming sem fylgdi því að tálga grein og stinga í sykurpúðann og halda yfir eldinum.

Síðan var jú allt til alls í borginni, og bókabúðirnar, maður minn, algjör himnasæla að dunda sér tímunum saman í þeim.

Lengst af ókum við um á 78 módeli af svörtum tveggja dyra Chrysler LeBaron, alveg víðáttustórum. Hann var svolítið dyntóttur greyið og átti Gulla það stundum til, komin sex til átta mánuði á leið, að þurfa að opna húddið og stinga skrúfjárni ofan í blöndunginn til að loft kæmist að þegar bílnum var startað. Fólki varð stundum starsýnt á þessa kasóléttu konu sem stóð í bílaviðgerðum. En í gang fór bíllinn alltaf hjá henni.

Síðan átti framrúðan bílstjóramegin það til að opnast að fyrirvaralausu, og lítið mál var ef lyklarnir læstust í bílnum. Maður bara stakk fingrum milli pósts og rúðu og þrýsti henni niður og þar með var hægt að opna bílinn innan frá.

Einhvern veginn var lífið þægilegt og áhyggjulítið. Við áttum heima í Vancouver í fimm og hálft ár og vorum orðin eins og innfædd þarna. Á þeim tíma hefðum við alveg verið til í að ílengjast þar.

Stundum höfum við velt því fyrir okkur hvað hefði gerst ef við hefðum vitað áður en við fluttum út að Tinna Rut væri á leiðinni. Hefðum við farið út í óvissuna? Við munum aldrei vita svarið, en líklega væri lífið öðrum vísi á einhvern hátt.

En, eitt er þó víst. Í kvöld verður farið snemma í bólið.

15. apríl 2007

Uppskerutími nálgast

Vér bændur hér í sunnanverðri Afríku erum farnir að huga að uppskerutíma. Tíðin hefur verið ágæt hér í Windhoek, þótt annars staðar í landinu hafi verið fullþurrt. Síðan berast fréttir af fuglafári sem éti kornin af maísstönglum, en við höfum verið blessunarlega lausir við þau óféti.

Nú fer að líða að því að glóaldin verði fullþroska á ökrunum okkar hér í Windhoek. Af þessu tilefni fórum við Rúnar Atli á stúfana til að kanna ástandið. Eins og sést á myndinni er eitt og eitt glóaldin orðið þroskað, og smakkaðist mjög vel, en aðeins þarf að gefa lengri tíma áður en hægt verður að hefjast handa við tínslu af alvöru.Hjá okkur eru tvö glóaldintré og síðan er eitt mandarínutré. Einhverjir fleiri ávextir vaxa hjá okkur á akrinum, en ekki gafst tími að þessu sinni að fullvissa sig á því hvurslags ávexti þar um er að ræða.

Kominn var nefnilega síestutími hjá honum Rúnari Atla.

Svo þurfa bændur að hvílast sem aðrir.

14. apríl 2007

Bílasýning

Í morgun brá ég mér á bílasýningu með dóttur minni og syni.

Okkur líst þannig á að þegar móðir barnanna kemur hingað í sumar þá verði að fjárfesta í bifreið handa henni. Sjálfsagt best að búið sé að því áður en hún kemur.

Hún eiginkona mín er nefnilega ekki beinlínis þekkt fyrir þolinmæði, hef ég heyrt utan að mér.

Hvað um það, þetta er nú ekki einfalt mál, að velja ökutæki.

Bifreiðin þarf að vera lítil, þ.a. að auðvelt sé að finna bílastæði og eins til að vefja sig áfram á háannatíma í Windhoek.

Þó þarf að vera hægt að koma börnunum fyrir, og síðan þarf auðvitað að vera pláss fyrir pinklana úr verslunarleiðöngrum.

Erfitt er að finna bíl sem uppfyllir þetta. Ég gleymdi víst að taka fram að verðið þarf líka að vera skikkanlegt.

Við fórum sem sagt á bílasýninguna til að skoða úrvalið og möguleikana í stöðunni.

Hann Rúnar Atli, hver annar, datt síðan niður á lausnina.

Ford er málið, og týpan kallast Bantam. Hljómar líkt og Batman...

Hér er mynd af kagganum:Eins og sést nægjanlegt rými fyrir pinklana, hægt að stafla von úr viti.

Ha?

Börnin?

Hvar þau eiga að vera?

Ekki vandamál. Rúnar Atli sýnir hér hver venjan er í sunnanverði Afríku, og sjálfsagt þekkist þetta á fleiri stöðum.Sjálfsagt er ekkert mál að bolta niður barnastól á pallinn.

En síðan skipti Rúnar Atli um skoðun og vill kaupa þetta ökutæki handa móður sinni...„Ha,“ spurði Tinna Rut, „heldurðu að mamma gæti verið á mótorhjóli?“

Ég hélt það nú. Hún er nú megasvöl hún Gulla.

Kannski fær hún Kawasaki í afmælisgjöf.

13. apríl 2007

Nesið

Seltjarnarnesið er lítið og lágt,
lifa þar fáir og hugsa smátt.

Ef ég man rétt þá orti meistari Þórbergur eitthvað í þessa áttina.

Af hverju dettur mér þetta í hug núna?

Jú, ég fékk tölvupóst frá nesinu í dag. Vinir okkar sem eru að hugsa um að koma í heimsókn á næsta ári. Ekki slæmt.

En, ég var beðinn um að setja mynd af húsinu sem við búum í á netið. Ætli það skipti einhverju máli hvernig við búum? Húsin eru jú ósköp fín á nesinu.

Kannski eru hlutirnir öðrum vísi í Afríkunni, hver veit?

Jæja, en ég ákvað að verða við beiðninni. Hér kemur því mynd af húsinu og fína borðinu sem við borðum við þegar veðrið er gott.

Verið velkomin!

Plástraæði

Hann Rúnar Atli er kominn með nýja maníu.

Plástraæði.

Í hvert skipti sem farið er í bíltúr þá vill hann fara og kaupa plástra. Sér í lagi, auðvitað, þegar hann er með einhverjar skrámur. Það gerist nú nokkuð oft. En skrámurnar eru þó ekkert aðalatriði, hann vill bara fá fullan kassa af plástrum til að geta opnað þá.

Síðan setur hann kannski tíu plástra á sig, hér og þar, og tekur restina af plástrunum og límir þá saman. Þetta er það skemmtilegasta sem hann gerir núna. Engin spurning.

Síðan á hann það til í gæsku sinni að vilja plástra aðra meðlimi fjölskyldunnar.

En í gær tók síðan nýtt við. Þá uppgötvaði hann að þar sem pabbi hans er með eitthvað af hárum á fótunum þá er mjög gaman að líma plásturinn á og rífa síðan af.

Aftur og aftur.

Þetta þykir honum hin besta skemmtun eins og meðfylgjandi myndskeið ber með sér.

11. apríl 2007

Slúðrið í Windhoek

Namibía er ekki öðrumvísi er aðrir staðir. Fólki finnst gaman að lesa um annað fólk.

Í blöðunum hér eru síður með fólki í fréttum; myndir teknar á mannamótum, afmælum, partíum o.s.frv.

Þó á maður ekki alveg von á því að sjá fjölskyldumeðlimi á þessum síðum, eða hvað?

Sú var þó reyndar raunin í síðustu viku eins og hér má sjá:Í lauslegri þýðingu er hér sagt frá turtildúfunum Rashid nokkrum Muhamedrahimov og Tinnu Wiium sem eru hér á góðri stundu. Þó ekki í Grundarfirði.

Rashid þessi er víst rússneskur og segja sögur að hann sé tengdur mafíósum síns heimalands. Er það gott? Veit það bara ekki.

En fyrirspurnum skal beint til hennar Tinnu minnar - tölvupóstfang: springbok hjá strik.is

9. apríl 2007

Áhrifamáttur sjónvarpsins

Á þeim örfáu árum síðan ég var gutti hefur ýmislegt breyst í sjónvarpsmálum Íslendinga. Þegar ég var á aldur við Rúnar Atla þá voru reglulegar útsendingar á sjónvarpsefni nýhafnar á Fróni. Ég man nú ekki mikið frá þessum fyrstu árum sjónvarpsútsendinga, en í ýmsum fræðsluþáttum um þessi ár kemur fram að frekar voru útsendingar stöpular ef miðað er við daginn í dag.

Barnaefni man ég ekki mikið eftir, það var jú Stundin okkar og síðan voru auðvitað steinaldarmennirnir. Flintstones fyrir hina ungu óíslenskumælandi kynslóð. Ekki get ég svona í fljótu bragði rifjað upp neinar aðrar teiknimyndir frá mínu ungdæmi sem sitja eftir í kollinum, og þó, línan var jú auðvitað alveg klassi og mikil var ánægjan þegar hún birtist á skjánum milli dagskrárliða.

Ekki veit ég hvort Stundin okkar eða steinaldarmennirnir höfðu mikil áhrif á minn daglega talsmáta. Mér þykir nú ótrúlegt að hann Palli, Páll Vilhjálmsson, hafi brúkað slæmt málfar. Kæmi það mér mikið á óvart. Kannski maður hafi einstaka sinnum brugðið fyrir sig eins og einu jabba-dabba-dú-i þegar manni tókst að koma boltatuðrunni í mark í fótboltaleikjum á túninu undir gömlu heilsuverndarstöðinni. Man það þó ekki.

Af hverju er ég að velta þessu upp hér?

Jú, þrátt fyrir að hafa reynt að halda honum Rúnari Atla frá sjónvarpsefni sem þykir kannski ekki mjög uppbyggilegt fyrir ungar sálir, þá bendir ýmislegt til að árangurinn sé ekki alveg eins og til stóð.

Hann hefur horft mikið á Söngvaborg eitt og tvö og síðan á hann tvo mynddiska með Bjarnabóli. Þarna er jú auðvitað hinn besti boðskapur borinn á borð fyrir ungar sálir.

En...

Undanfarið hefur komið í ljós að einn teiknimyndaþáttur á hug sonar míns allan. Er þetta hin alræmda Simpson fjölskylda frá Springfieldbæ í Bandaríkjum, Norður Ameríku. Er guttinn dolfallinn yfir öllum þeim ævintýrum sem þessi fjölskylda lendir í.

Biður hann mikið á fá að horfa á þessa þætti, en þannig vill til að Tinna Rut á einhverjar seríur á mynddiskum.

Greinilegt er að hann á sér sína uppáhaldspersónu úr þáttunum.

Nei, það er ekki Bart.

Núna gengur sonur minn um allt og lætur frá sér við öll möguleg og ómöguleg tækifæri hinn fleyga frasa:

„DÓH!”

Jamm, Hómer Simpson er hin nýja fyrirmynd sonar míns.

8. apríl 2007

Matreiðslan

Eitt er nú ágætt þegar fjölskyldan er sameinuð, ja, svona næstum því fullsameinuð, og það er að matreiðslan skiptist á milli manna.

Maður þarf því ekki á hverjum degi að velta því fyrir sér hvað eigi að vera í matinn og stússast í innkaupunum, því hinir taka þátt.

Gott mál.

Hér stendur hún Tinna Rut í ströngu við matreiðsluna. Greinilega undir strangri handleiðslu móður sinnar. Og þó, móðirin virðist vera að segja einhverja gamansögu. A.m.k. er eitthvað skemmtilegt í gangi.Síðan þarf að smakka dásemdirnar. Ég get sagt ykkur að maturinn tókst alveg glimrandi vel í þetta sinn.Svo skellti Rúnar Atli sér einnig í gamanið. Það þurfti í þetta sinn að útbúa kartöflumús og drengurinn tók það að sér.

Mér sýnist hann bera sig fagmannlega að við þetta, ekki satt?Síðan þurfti jú að taka þetta út hjá drengnum.

Páskarnir komnir

Páskadagur runninn upp. Skýjað yfir Windhoekborg, sem er alveg ágætt því þá er frekar svalt og notalegt veðurlag.

Guttinn vaknaði um sjöleytið og þar með var friðurinn úti. Á þeim tíma var mamma hans sjálfsagt að bíða við hliðið á Gatwickflugvelli.

Við feðgarnir bökuðum vöfflur í tilefni dagsins. Borðuðum þær síðan með jarðaberja- og bláberjasultu. Tinna Rut var úti á lífinu fram til miðnættis svo hún sást ekki fyrr en um hádegisbilið. Hvað er nýtt?

Svo þurfti ég aðeins í bæinn og komst að því að fullt af verslunum eru opnar á páskadegi. Matvöruverslanir opnar til sex margar hverjar og slatti af sérverslunum opið líka.

Ekkert er enn ákveðið með kvöldmat. Ætli við förum ekki bara út að borða. Kannski á hlaðborð á Country Club eða eitthvað annað fínt.

7. apríl 2007

Frúin flogin

Eftir þrjár vikur í endalausri sælu - og þar með slapplegheitum í dagbókarfærslum - þá er frúin flogin aftur heim á Frón.

Við Rúnar Atli ókum henni út á flugvöll áðan og kysstumst og knúsuðumst við hliðið. Merkilegt hvað hægt er að venja þessi börn á. Rúnari Atla virðist alveg hið sjálfsagðasta mál að móðir sín sé á stanslausu flakki. Nú var kominn tími til að kveðja að sinni og þá var bara veifað bless.

Kannski er hann bara ekki kominn á þann aldur að spurja: Hey, bíðiði við, hvað er eiginlega í gangi?

Hvað um það, Gulla ætti að lenda um tíuleytið í fyrramálið í Keflavík.

Eins gott hún Dagmar Ýr muni eftir því að vakna snemma...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...