29. apríl 2011

Stillan í því efra

Karl faðir minn var hrifinn af vesturbænum. Enda átti hann ungur heima á Grímsstaðarholtinu, þ.a. æskuslóðirnar lágu vestan læks. Þegar ég var í kringum fimmtán ára aldurinn var ákveðið af flytja úr Ingólfsstrætinu, þar sem ég hafði átt heima frá sex ára aldri. Voru því skoðaðar íbúðir á ýmsum stöðum í Reykjavíkinni. Þá varð pabbi iðulega að orði: „Veðrið er alltaf gott í vesturbænum.”

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en alltaf þegar við skoðuðum húsnæði vestur í bæ þá var veðrið gott. Endaði húsnæðisleitin síðan á að íbúð var keypt á Hagamel.

Enda veðrið alltaf gott í vesturbænum.

Í gegnum tíðina hafa þessi orð hans pabba stundum komið mér í hug, og síðast gerðist það í gær. Þannig var að í gærmorgun hjólaði ég í vinnuna í þokkalegasta veðri, en eftir því sem á daginn leið hvessti meir og meir. Þegar vinnudegi lauk og ég lagði af stað til baka á hjólinu var komið hávaðarok. Á stundum fannst mér ég standa kjurr þrátt fyrir að hamast á pedölunum sem óður væri. Fossvogsdalurinn var seinfarinn móti storminum, og var farið að draga af mér þegar ég mjakaðist yfir göngubrúna við Elliðaárdalinn. Silaðist síðan upp í gegnum Bakkana, en svo gerðust undur og stórmerki.

Í því sem ég mjakaðist yfir Fálkabakkann og lagði af stað upp hlíðina við rætur efra Breiðholts, þá gerði allt í einu blankalogn. Er skemmst frá að segja að það var fínasta stilla upp hlíðina og eftir Vesturberginu. Meira að segja í Norðurfellinu, þar sem ekkert skjól er, hreyfðist varla hár á höfði.

Þótti mér þetta hin merkilegasta upplifun. Þarna komu mér orð pabba í hug og í framhaldi velti ég því fyrir mér hvort gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar hafi hliðrað góða veðrinu til um einhverja kílómetra.

Því segi ég nú, þar til annað kemur í ljós:

Veðrið er alltaf gott í efra Breiðholti...

28. apríl 2011

Misskilningur, smá...

Eftirfarandi spurning kom núna í morgunsárið, í þann mund sem verið var að leggja hönd á undirbúning brottfarar í vinnu og skóla:

„Mamma og pabbi, hvað er fukk?”

Reyndar bar sonurinn eff-orðið fram „fikk” eða eitthvað í þá veru. Í huga foreldranna lék þó enginn vafi á hvaða orð var um að ræða.

Hvað gerir maður? Fimm mínútur í átta að morgni.

Jú, maður segir: „Þetta er ljótt orð sem þú átt ekki að segja!” Eða eitthvað í þá veruna.

„En hvað er fukk-merkið?”

„Hvað áttu eiginlega við?”

Það var okkur foreldrunum algerlega fyrirmunað að skilja af hverju þetta umræðuefni bar á góma akkúrat á þessum tíma dags.

Hvað hugsar maður á svona stundu? Jú, maður verður urrandi illur yfir slæmu áhrifunum frá öðrum börnum, að skólinn sé ekki að standa sig, og svo frameftir götunum.

„Jú,” sagði sá stutti, „fff-kkk merkið á pokanum?”

Ha? Fattarinn hjá foreldrunum var ekki alveg að virka í morgun. Á pokanum? Hvaða poka?

Þá allt í einu rann upp fyrir okkur ljós. Ég var nefnilega að setja nokkra hluti í plastpoka. Á pokanum stóð stórum stöfum: FK.

Og þar fyrir neðan: Fjarðarkaup!

Urðu ekki sumir smáskömmustulegir?

Smámisskilningur.

23. apríl 2011

Göngugarpar

Í gær tókum við Rúnar Atli okkur til og löbbuðum í góða tvo klukkutíma fram og til baka um Elliðaárdalinn. Kíktum á kanínur sem vappa þarna um, Rúnar Atli óð út í Elliðaá og náði í skíði sem einhver hefur tapað. Já, skíði. Guttinn fann grein sem varð fínn göngustafur og ekki má gleyma steininum sem breyttist í gps-tæki. Svo fengum við okkur auðvitað nesti.

Mjög skemmtilegt.

Göngutúrinn gekk það vel að í morgun ákváðum við að prófa eitthvað svolítið erfiðara.

Esjuganga!

Eitthvað fyrir níu vorum við mættir á bílastæðin við rætur Esju og örkuðum af stað. Eitthvað af fólki var mætt í sama tilgangi og flestir vel útbúnir. Eins og við.

Útsýnið var flott og einstaka sinnum stöðvuðum við til að njóta þess.

Stoltur göngugarpur með göngustafinn úr Elliðaárdalnum
Sumstaðar var færðin nú ekki til að hrópa húrra fyrir, drullusvað. En það eyðilagði ekki okkar ánægju af göngunni. Eftir því sem ofar dró þá kólnaði og hvessti. Ekki átti ég von á því að arka í snjó á þriðja degi sumars, en það gerði ég í dag.

Komið vel uppfyrir snjólínu og farið að kólna.
Við fórum upp í 530 metra hæð u.þ.b. áður en við snerum við. Þá vorum við komnir langleiðina að Steininum, en mér leist ekki nógu vel á aðstæður til að halda áfram. Tók okkur rúmlega einn og hálfan tíma að komast þangað.

Ánægðir vorum við með árangurinn.

Síðan töltum við okkur niður aftur. Það tók tímann sinn og var sumstaðar nokkuð vandasamt. En allt hafðist þetta.

Enn í þrusustuði, þótt búið sé að labba 530 metra upp og niður
Svo borðuðum við nestið okkar áður en við ókum til baka.

Erum við ákveðnir í að koma aftur seinna og þá komast alla leið á toppinn.

Ekkert minna!

18. apríl 2011

Ráðist á garðinn

Þá kom að því.

Í morgun klæddi ég mig í nýja Didriksons 1913 vind- og regngallann minn og settist á reiðhjólið. Nú var stefnan sett á að komast í vinnuna á hjóli.

Er ég leit út um gluggann í kringum sjöleytið var hæglætisveður. Nokkuð kyrrt af trjátoppunum að dæma og úrkomulaust. Greinilega hafði þó rignt í nótt. Síðan þegar búið var að borða morgunmatinn og ég hálfnaður að græja mig upp, þá sá ég að byrjað var að snjóa.

Of seint að hætta við. Enda ef maður hættir við einu sinni, þá er voðinn vís í framtíðinni...

Ég hjólaði því af stað. Ferðin sóttist vel. Þó var óþægilegt að frá snjódrífuna í augun og því horfði ég meira niður á stíginn heldur en ég er vanur. Kannski ég ætti að fá mér skíðagleraugu? Nei, ætli fólk hætti þá ekki alveg að kannast við mann.

Það snjóaði alla leið. En þar sem gallinn stóð fyrir sínu, þá var hjólatúrinn bara fínn. Erfiðasti hjallinn var Suðurhlíðin, meðfram Fossvogskirkjugarðinum. Sú brekka leynir á sér. Ekkert svakalega brött en svona í lengri kantinum.

En allt hafðist þetta. Kom í vinnuna eftir rúmlega hálftíma hjólatúr og voru þá níu kílómetrar að baki. Mætti ég nokkuð fyrr en ef ég hefði farið með strætó. Munar þar mestu að þegar labbitúrinn í skólann á morgnana með syni og eiginkonu er búinn, þá þarf ég að bíða í hátt í tíu mínútur eftir vagninum. Því fékk ég forskot á hjólinu.

Heimferðin tók aðeins lengri tíma. Tæpar 40 mínútur. Enda meira upp í móti en hin leiðin.

En stór þröskuldur yfirstaðinn.

9. apríl 2011

Fyrsti alvöru hjólatúrinn

Tók daginn þokkalega snemma. Ákvað nefnilega í gærkvöldi að fara í leiðangur á reiðhjólinu. Reyndar á ég enn eftir að pússa ryðið af annarri gjörðinni, en það gerist líklega um helgina. Ég fór sem sagt framúr rétt rúmlega sjö í morgun og var kominn á bak hjólhestinum 20 mínútum seinna eða svo.

Ég hjólaði síðan meðfram Suðurfellinu og skellti mér niður að Elliðaánni. Kom þar að brú sem ekki er gerð fyrir hjólreiðafólk og þurfti að teyma „klárinn” yfir. Hélt svo áfram í átt að Suðurlandsvegi, kíkti inn í Ásana í Árbænum, undir Suðurlandsveginn rétt hjá Hádegismóunum, til baka meðfram Rauðavatni, aftur að Elliðaánni og hjólaði meðfram henni til norðurs og svo til vesturs að lóninu. Þar upp göngu- og hjólastíg í áttina að Hólunum og síðan fann ég stíg sem liggur samhliða Vesturberginu og endar við Æsufellið.

Þessi rúntur var 11,8 km skv. gemsanum mínum, og fór ég hann á rúmum 57 mínútum. Meðalhraði 12,3 km/klst og náði einhvers staðar rúmlega 22 km hraða á klukkustund. Fín líkamsrækt.

Þvílík perla sem Elliðaáin og hennar umhverfi er. Þarna er stórkostlega fallegt svæði innan seilingar. Hægt að labba þarna um, horfa á endur, borða nesti og leyfa krökkum að hlaupa til og frá. Ekki voru margir á ferð þennan morguninn, einn maður að viðra hundinn sinn og þrír skokkarar. Annars var það bara ég og stígurinn...

En þessi rúntur lofaði góðu. Hjólið stóð sig vel. Þarf þó aðeins að athuga stillingu á gírum, því á ögurstundu var skiptingin ekki alveg eins smurð og ég vildi. Svo þarf eitthvað að kíkja á klæðnað.

Eitt skref í einu.

2. apríl 2011

Heilbrigð sál á hjólhesti

Ég hef í nokkra daga látið mig dreyma um að koma gamla hjólhestinum í gagnið. Gaman væri að hjóla öðruhverju í vinnuna, en ég er búinn að sjá út skemmtilega leið héðan úr Æsufellinu í Þverholtið. Í gegnum Fossvogsdalinn.

En áður en hægt er að hjóla, þarf að koma farartækinu í lag. Svo í morgun dró ég hjólhestinn úr híði. Rölti mér út á bensínstöð með gripinn í eftirdragi og pumpaði í dekkin. Sprautaði svo olíu á viðeigandi staði og fór í stuttan prufutúr. Gekk bara ágætlega.

En, vesalings hjólið er búið að vera afskipt í mörg ár. Líklega þarf að skipta um dekk bráðum, en gúmmíið er aðeins farið að láta á sjá. Svolítið er hjólið farið að ryðga, þ.a. ég dró upp úr pússi mínu blakk-og-dekker pússimús sem ég á. Gæðagripur, jólagjöf frá Svíaríki. Náði ég að losa ryðið af annarri gjörðinni, en tek hina á morgun.

Svo skaust ég út í búð á hjólinu. Nýtti mér þessa snilldar göngu- og hjólastíga sem virðast vera út um alla Reykjavík. Rúllaði í gegnum göng sem liggja undir Breiðholtsbrautina, þ.a. ég varla getur heitið að ég hafi þurft að fara yfir götu.

Hins vegar fann ég að eitthvað þarf að skoða klæðnaðinn áður en lagt er í lengri ferðir. Þrátt fyrir gott veður var vindurinn ískaldur þegar ég var kominn á smásiglingu. Því þarf úlpu sem heldur kuldanum úti en andar þó þannig að ég verði ekki kófsveittur.

En ætli ég taki ekki nokkrar styttri ferðir næstu daga og byggi upp þol áður en lagt verður í stóra túrinn.

Miðbæjarrölt á góðviðrisdegi

Veðrið lék við hvern sinn fingur hér á höfuðborgarsvæðinu í dag. Kíktum við fjölskyldan niður í miðbæ, lögðum bílnum á Skálholtsstíg og röltum okkur svo í gegnum Þingholtin, upp Bankastræti og þaðan upp Skólavörðustíg, niður Klapparstíginn svo Laugaveg, niður Bankastrætið, suður Lækjargötuna og heilsuðum upp á endurnar á tjörninni.

Þetta var rólyndisgöngutúr en skemmtilegur. Við kíktum í tvær antíkverslanir og létum okkur dreyma um fallega hluti. Mikið af gömlum og vönduðum húsgögnum í þessum búðum. Flest kostar sitt, en ef sett í samhengi við verðlag á húsgögnum, þá eru þessir gömlu hlutir ekkert dýrari en annað. Ég hef alltaf verið svolítið svag fyrir að eignast skatthol. Er búinn að sjá eitt sem ég væri alveg til í að splæsa í, en auðvitað þarf að vega og meta þetta eins og annað. Svo eru ýmsar hirslur, borð og margt fleira sem væri gaman að eiga.

Við kíktum svo í fornbókabúðina neðarlega á Klapparstígnum. Ég hef aldrei komið þar inn áður. Þvílík búð! Bækur út um allt. Ég gæti setið þarna inni og dundað mér að skoða bækur dögum saman. Greinilega er töluverð traffík þarna, enda líklega með sérstakari verslunum bæjarins.

Ánægjulegur dagur.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...