29. apríl 2011

Stillan í því efra

Karl faðir minn var hrifinn af vesturbænum. Enda átti hann ungur heima á Grímsstaðarholtinu, þ.a. æskuslóðirnar lágu vestan læks. Þegar ég var í kringum fimmtán ára aldurinn var ákveðið af flytja úr Ingólfsstrætinu, þar sem ég hafði átt heima frá sex ára aldri. Voru því skoðaðar íbúðir á ýmsum stöðum í Reykjavíkinni. Þá varð pabbi iðulega að orði: „Veðrið er alltaf gott í vesturbænum.”

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en alltaf þegar við skoðuðum húsnæði vestur í bæ þá var veðrið gott. Endaði húsnæðisleitin síðan á að íbúð var keypt á Hagamel.

Enda veðrið alltaf gott í vesturbænum.

Í gegnum tíðina hafa þessi orð hans pabba stundum komið mér í hug, og síðast gerðist það í gær. Þannig var að í gærmorgun hjólaði ég í vinnuna í þokkalegasta veðri, en eftir því sem á daginn leið hvessti meir og meir. Þegar vinnudegi lauk og ég lagði af stað til baka á hjólinu var komið hávaðarok. Á stundum fannst mér ég standa kjurr þrátt fyrir að hamast á pedölunum sem óður væri. Fossvogsdalurinn var seinfarinn móti storminum, og var farið að draga af mér þegar ég mjakaðist yfir göngubrúna við Elliðaárdalinn. Silaðist síðan upp í gegnum Bakkana, en svo gerðust undur og stórmerki.

Í því sem ég mjakaðist yfir Fálkabakkann og lagði af stað upp hlíðina við rætur efra Breiðholts, þá gerði allt í einu blankalogn. Er skemmst frá að segja að það var fínasta stilla upp hlíðina og eftir Vesturberginu. Meira að segja í Norðurfellinu, þar sem ekkert skjól er, hreyfðist varla hár á höfði.

Þótti mér þetta hin merkilegasta upplifun. Þarna komu mér orð pabba í hug og í framhaldi velti ég því fyrir mér hvort gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar hafi hliðrað góða veðrinu til um einhverja kílómetra.

Því segi ég nú, þar til annað kemur í ljós:

Veðrið er alltaf gott í efra Breiðholti...

1 ummæli:

davíð sagði...

Við viljum nú líka meina að það sé ekki alslæmt hérna í neðra.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...