19. ágúst 2016

Komnir gestir

Haldiði ekki að það séu komnir fyrstu gestir til Mapútó! Já, 20 dögum eða svo eftir að við mætum á svæðið, þá eru komnir gestir. Geri aðrir betur.

Gestirnir koma frá Svíaríki, Doddi mágur og Ingela, heitmey hans, svo maður noti nú fína íslensku. Þau eru búin að vera í Suður Afríku í tíu daga eða svo. Skoða dýralífið í Kruger þjóðgarðinum og svoleiðis. Núna í morgun renndu þau yfir landamærin og voru komin til Mapútó skömmu fyrir hádegi. Hér verða þau fram á fimmtudag, en þá fetja þau sig aftur til Jóhannesarborgar og fljúga undir lok mánaðar til Svíaríkis.

Þau lentu reyndar í löggunni, sem sagði að Doddi hefði ekið yfir á rauðu ljósi. Hann hefur ekki hugmynd um hvort það var rétt eða ekki. Þetta gerðist um það leyti sem þau komu inn í borgina og umferðin þótti Dodda frekar ævintýraleg og snerist aksturinn mikið um að forðast aðra bíla. Þ.a. kannski sá hann ekki umferðarljósin. Nú, eða kannski sáu löggurnar tækifæri í bíl með suður afrískar númeraplötur. Hvað veit maður?

13. ágúst 2016

Það er þetta með sængurverin

Yfirleitt er nú ágætishiti í henni Afríku. Reyndar finnst manni stundum nóg um. Stærstan hluta ársins er sæng engin nauðsyn. Oft sofum við bara með sængurver ofan á okkur, svona bara af því að manni finnst óþægilegt að hafa ekkert ofan á sér á nóttunni. Skrýtið, en svona er það samt.

En, núna er vetur. Þá er í kaldara lagi á nóttunni og gott að hafa sæng. Við skildum sængurnar okkar eftir í Lílongve þegar við fluttumst til Mapútó. Enda frekar þunnar og orðnar hálfslappar. Eitt af fyrstu verkunum á nýjum stað var því að kaupa sængur og kodda. Ekkert mál var að finna svoleiðis.

Svo þarf auðvitað sængurver. Fyrir Rúnar Atla var það ekkert mál. Stjörnustríðssængur- og koddaver. En, fyrir okkur Gullu varð þetta svolítið meira mál. Við keyptum okkur sitthvora einbreiða sæng. En sængurverin? Öll í tvöfaldri breidd eða drottingarbreidd.

Ég held við séum búin að fara í fjórar búðir að leita. Og spyrja. Fólk heldur að við séum fávitar. Að hægt sé að fá sængurver fyrir mjórra en tvíbreidd? Neeeeiiii, svoleiðis er bara ekki til. Og enginn virðist nokkurn tímann hafa heyrt um svoleiðis lagað.

Ég skil þetta bara ekki. Af hverju selja einbreiðar sængur, en engin sængurver sem passa?

Við höfum því sofið undanfarið með sængurnar án sængurvera. En það er ekki gott. Hreint út sagt óþægilegt.

Við sáum sæng okkar því upp reidda...!! (sáuð þið þennan brandara nokkuð fyrir???)

Í dag gáfumst við upp og fórum í nýjan leiðangur. Við Gulla höfum verið gift það lengi að við vitum að það þýðir ekkert að vera með sömu sængina. Tvær tvíbreiðar voru því keyptar - og það besta - ný sængurver!

Sængurverin fóru í þvottavélina áðan og svo þurrkarann. Eru núna komin utan um sængurnar.

Við hlökkum þvílíkt til að fara upp í rúm!

11. ágúst 2016

Allt fram streymir

Jæja, einhvers lags rútína er að komast á hjá okkur. Vaknað skömmu eftir klukkan 5 á morgnana. Ég stekk á fætur, nú eða dröslast framúr, fer í sturtu og útbý morgunverð fyrir okkur feðgana. Skömmu eftir klukkan sex erum við tveir sestir við morgunverðarborðið og spilum kasínu og ólsen-ólsen á meðan við borðum. Gulla stendur í nestisgerð á meðan. Svo rétt fyrir klukkan sjö leggjum við tveir af stað í skóla og vinnu. Það tekur nú ekki nema góðar fimm mínútur að komast í skólans hans Rúnars Atla, kannski átta mínútur. Hann á að vera mættur 7:15 í skólann og kennsla hefst hálfátta. Um það leyti er ég að leggja bílnum fyrir utan sendiráðið.

Já, lífið er í raun ekkert öðrum vísi í Afríku en á Íslandi. Ja, nema kannski að veðrið er yfirleitt þægilegra hjá okkur á suðurhvelinu. En kannski er það afstætt.

Í skólanum var „Stuðdagur“ síðasta klukkutímann eða tvo. Allskonar leikir og þess háttar til að „hrista hópinn saman“ eins og sagt er. Fór þetta fram í splunkunýju íþróttahúsi sem er við skólann. Þvílíkt gímald að það hálfa væri heljarinnar hús.


Í hádeginu í dag rölti ég í sælkerabúð sem er rétt hjá sendiráðinu. Eftir fimm ár í Lílongve er maður enn að venjast að hafa aðgang að þessum líka fínu sérverslunum sem eru hér í Mapútó. Þarna skoðaði ég mygluosta, snobbkex og mexíkóskar salsasósur. Já, og ekki má gleyma fínu guðaveigunum. Í þessari búð eru risavaxnar Dom Perignon kampavínsflöskur í efstu hillu og eldgamalt Hennessy koníak þar við hliðina. Ég hef nú ekki enn lagt í að spurja hvað þær dásemdir kosta.

Líka kíkti ég í bókabúð sem er á svipuðum stað í bænum. Þar fann ég fína portúgalska orðabók og líka sagnbeygingabók. Þarna inni voru allskonar bókmenntir á portúgölsku, frá teiknimyndasögum upp í heimsbókmenntir. Ætli maður kíki eftir oftar þarna inn þegar maður fer að slípast í málinu.

Við flutning eins og okkar er ýmis konar skriffinnska sem þarf að sinna til að fá landvistarleyfi og hin og þessi skilríki. Dagurinn í dag var góður í þeim skilningi að skírteini streymdu í hús. Bæði fengum við nafnskírteini sem eru nauðsynleg til að geta sótt um hina og þessa þjónustu og svo fékk Rúnar Atli skólaskírteinið sitt. Í gær fékk ég eitthvert kort sem er nauðsynlegt fyrir fjársýslu. Já, það er bjart inn á milli þess sem maður rífur hár sitt og skegg yfir að skilja ekki fólk og það ekki mann.

Svo fer að styttast í gáminn sem við sendum frá Lílongve með okkar persónulegu munum. Þegar hann kemur hættir vonandi að bergmála í húsinu.

9. ágúst 2016

Fyrsti skóladagurinn

Í morgun var vaknað snemma. Fyrsti dagurinn í mósambískum skóla hjá Rúnari Atla. Sá heitir American International School of Mozambique og, eins og nafnið bendir til, var upprunalega fyrir bandaríska krakka sem bjuggu í Mapútó. Það hefur smátt og smátt breyst, en mig minnir að hafa heyrt að um 10% nemenda séu frá Bandaríkjunum. Skólinn á víst 25 ára starfsafmæli á þessu ári.

Húrra! Enginn skólabúningur!!!
Allt skólastarf fer fram á ensku og er fylgt sömu aðferðafræði og hjá skólanum sem Rúnar sótti í Lílongve. Hann þekkir því kerfið. En þessi nýi skóli er miklu flottari en skólinn í Lílongve, mikið af nýlegum byggingum, og tölvur og annað virðist meira og minna splunkunýtt.
Sýnishorn af skólalóðinni
Skiljanlega var Rúnar Atli svolítið taugatrekktur í morgun. Ég fór með hann í skólann og hjálpaði honum að finna skólastofuna. Við hittum umsjónarkennarann hans og einnig stærðfræðikennarann. Báðir eru konur sem voru ósköp almennilegar. Ég skal alveg viðurkenna að ég fann svolítið til, fyrir Rúnars hönd, að skilja hann eftir aleinan, ekki þekkjandi eina einustu manneskju. Skólinn byrjar hálfátta á morgnana og kennsla er til hálfþrjú. Þegar skólinn verður kominn í fullan gang, þá mun hann oft verða lengur í íþróttum og ýmsu frístundastarfi.

Svo sótti ég drenginn klukkan hálfþrjú. Það er heilmikið mál að komast inn á skólalóðina. Háar girðingar og öryggishlið. Maður þarf aðgangskort og eru krakkarnir með nafnspjöld með mynd. Spjaldið opnar hliðið og þá skráist í tölvukerfið að nemandinn sé mættur. Og svo þegar nemandinn fer, þá skráist sjálfkrafa að nemandinn sé farinn af skólalóðinni. Mér skilst að við foreldrar fáum auðkennislykil til að komast inn og út. Með þessu kerfi á alltaf að vera vitað hversu margir, og þá hverjir, séu inn á skólalóðinni. Ef t.d. kviknar í þá er hægt að sjá hvort einhvern vanti.

Þar sem ég er ekki með aðgangslykil enn, þá þarf ég að sýna skilríki og fylla inn ýmsar upplýsingar í þar til gerða bók. Fæ síðan gestalykill til að komast inn.

Þegar ég kom inn á lóðina þá fór ég að salnum sem ég vissi að framhaldsskólinn átti að enda daginn. Heyrði mikinn söng og gleðilæti þaðan, kíkti inn og sá hóp nemenda syngja það sem er víst stuðlag skólans.

Hitti svo Rúnar Atla. Hann er búinn að eignast einn vin, strák frá Tansaníu sem heitir Eric. Sonur minn virtist mjög ánægður með daginn. Það óð þvílíkt á honum að ég þurfti að stöðva hann til að skilja margt sem hann sagði. Niðurstaða mín var að fyrsti skóladagur gekk framar vonum. Það er gott.

Við skruppum síðan í ritfangaverslun, því ýmislegt sem þarf fyrir skólann vantar enn.

Svo er dagur númer tvö á morgun.

8. ágúst 2016

Vindur

Nú sitjum við í eldhúsinu. Kvöldmatartími að nálgast. Gulla sker niður grænmeti af ýmsu tagi. Mér sýnist verða hollustumatur í kvöld. En ekki veit ég af hverju hún er bæði með iPad og tölvu á eldhússkenkinum í einu...

 
Rúnar Atli dundar sér við að fara í gegnum nýtt skóladót, blýanta, strokleður, yddara og svoleiðis. Á morgun byrjar jú skólinn. Fyrsti dagur í nýjum skóla.

Það verður eitthvað.

Í morgun var reyndar kynningardagur, bæði fyrir nýja nemendur og foreldra þeirra. Sá gekk vel og líst okkur vel á skólann. Allt virðist skipulagt í þaula og verður forvitnilegt að sjá hvernig næstu vikur þróast.

En ég ætlaði að tala um vind. Flest kvöld eftir að við komum hingað, fyrir einni viku og einum degi, hefur verið nokkur vindur á kvöldin. Núna í kvöld virðist hvassara en fyrri kvöld. Næðir inn um glugga og var kuldalegt úti, svona rétt fyrir sólsetur. Gulla og Rúnar Atli keyptu sér teppi í dag, svona til að geta kúrt undir á meðan horft er á ólympíuleikana.

Svo er bara að hita sér te.

7. ágúst 2016

Súputeningarnir!

Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun um gönguleið. Sú stóðst bara nokkuð vel.

Hér steinsnar frá okkur er lítill lystigarður. Sá heitir Parque as Cronistas, sem ég held megi þýða sem Rithöfundagarðurinn. Ég ætti þó að nefna að portúgalskan mín er á byrjendastigi, svo stundum gæti mér förlast í þýðingum. Í garðinum eru bekkir hér og þar og síðan er ítalskur veitingastaður þar, sem heitir Campo de Fiori, ja, Blómvangur gæti hann kallast á íslensku. Töluvert af fólki var í garðinum, en þó ekki of mikið.

Við gerðum ekki stans þarna, því markmið mitt var kaffihús og bakarí nokkrum götum frá garðinum. Fundum við þann stað á vandræða, Taverna Doce, sem ég ætla nú bara að kalla Kaffi huggulegheit. Þar fengum við okkur smábakkelsi.

Ég er alveg kolfallinn fyrir espressókaffinu hér, virkilega gott. Ég fæ mér venjulega einn espressó og sódavatn með. Prímagott.

Þar rétt hjá fundum við pínulitla matvörubúð, sem greinilega er rekin af Kínverjum. Þetta er önnur svona búllan sem ég hef komið í hér, hillurekkarnir eru svo nálægt hvor öðrum að maður rétt getur skáskotið sér framhjá fólki sem þar er inni. En, viti menn, þarna rak ég augun í súputeninga!


Súpukraftur heitir greinilega caldo á portúgölsku. Caldo de galinha er kjúklingakraftur og caldo de carne nautakjötskraftur. Maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi hér.

Á bakaleiðinni heim sáum við síðan snyrti- og nuddstofu. Sú var opin þótt væri sunnudagur. Gulla pantaði sér tíma í næstu viku og verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur, því einungis ein kona þarna virtist tala ensku.

Þetta var sem sagt ævintýri dagsins.

Ég var ekkert að bulla

Hér er ein mynd til staðfestingar á að breiðstrætið hans Kims Il Sung er til í alvörunni.

6. ágúst 2016

Þín verslun, eða ykkar

Fyrsti laugardagurinn í Mapútó. Rólegheitadagur. Skruppum reyndar í bílaskoðun - vonandi fer að komast niðurstaða í þau mál - og svo innkaupaleiðangur í stórmarkað. Sáum að líklega er best að fara ekki í svoleiðis verslun á laugardagsmorgni. Langan tíma tók að komast út af bílastæði búðarinnar, en okkur lá svosum ekkert á.

Uppgötvuðum seinnipartinn að við höfðum gleymt að kaupa súputeninga og eitthvað annað smálegt. Ákváðum að leita að „kaupmanni á horninu“ í nágrenni hússins okkar. Fundum ágætis búð, og urðum aðeins hissa að sjá nafnið hennar: Vosso Supermercado. Það má útleggja sem „Ykkar verslun“ á íslensku. Ætli þetta sé sama keðja og Þín verslun? Kannski ekki. En merkileg líkindi samt sem áður.

Svo fundust ekki súputeningar... og orðabókin í símanum hjálpaði ekki, svo við gátum ekki spurt eftir þeim. Við vitum sem sagt ekki hvernig maður segir súputeningar á portúgölsku. Komið verkefni fyrir næstu ferð.

5. ágúst 2016

Breiðstrætin

Skoðuðum einn bíl í dag. Ágætis bíll alveg, en kannski aðeins minni en við höfðum í huga. Við sofum á þessu í nótt eða tvær. Reynda er notalegt að komin sé helgi. Fyrsta helgin okkar hér í Mapútó. Ekki að eitthvað merkilegt standi fyrir dyrum, en helgartilfinningin er notaleg samt.

Þessa dagana hef ég spáð svolítið í götuheitin hér í Mapútó. Ekki skrítið ef haft er í huga að maður er nýfluttur hingað og að reyna að ná áttum. Þá er nú betra að hafa einhverja þekkingu á götunöfnunum og hvar hver gata er miðað við hver aðra.

Margar götur nefnast Avenida en það útleggst sem breiðstræti á því ylhýra. Iðulega er það réttnefni því mörg breiðstrætin hér eru með tvær akreinar í hvora átt og eyju á milli. Eins og oft er í Afríku þá eru margar götur nefndar eftir fólki. Einhverju fólki sem hefur afrekað eitthvað merkilegt á ævinni. En, auðvitað er huglægt hvað telst nægjanlega merkilegt til að „gefa manni“ götu, tala nú ekki um breiðstræti.

Svo ég nefni nú heiti nokkura breiðstræta, en langt í frá að vera tæmandi listi, þá er hér í Mapútó eitt breiðstrætið skírt í höfuðið á Maó Tse Tung, sem auðvitað var hinn merkilegasti maður. Þvergatan - auðvitað breiðstræti - sem Maó endar á er kennd við ekki minni mann en Vladimir Lenín (Lenine upp á portúgölsku). Örlitlu fjær er síðan breiðstrætið hans Karls Marx. En ætli uppáhaldið mitt sé ekki strætið sem mín litla gata endar á, nefnilega breiðstrætið hans Kims Il Sung.

Mörg eru mikilmennin.

4. ágúst 2016

Samband!

Nú er sko gaman að vera til! Klukkan hálfníu í morgun mættu sjónvarps- og netgaurarnir og fóru að tengja okkur við umheiminn. Greinilega vanir menn því þetta tók ekki mjög langa stund. Nú er kominn einhvers lags ljósleiðari í húsið með alveg fínu neti, að mér sýnist, og slatti af sjónvarpsstöðvum.

Reyndar er eitthvað ólag á fjarstýringunni með afruglaranum, en kannski er það bara rafhlöðuvandamál.

Á morgun eigum við stefnumót til að skoða bíl. Það verður forvitnilegt.

3. ágúst 2016

Þá er að leita að bíl

Óhætt er að segja að fyrsta nóttin í nýju húsi hafi gengið vel. Eina sem truflaði svefninn var hundur í nágrenninu. Greinilega stór hundur með virkilega djúpt gelt. Minnti mig stundum á þennan úr 101 dalmatíuhundi:


En, ef læra má eitthvað af árunum í Afríku þá er það að maður hættir að heyra hundgá á nóttunni.

Reyndar uppgötvaðist seint í gærkvöldi að heita vatnið vantaði í húsið! Sama hvað vatnið rann, aldrei hitnaði það. Maður rakaði sig því uppúr köldu vatni, en sleppti sturtunni í morgun. Bara ískaldur hárþvottur. En í dag kom o canalizador - píparinn - og reddaði málum.

Ég er búinn að vera að svipast um eftir bíl handa okkur. Hér þýðir ekki, frekar en annars staðar, að vera bíllaus. Eftir hádegið í dag fórum við og skoðuðum einn og prufukeyrðum. En sá var orðinn gamall og lúinn, svo þetta var ekki bíllinn... En, eigandinn var forvitnilegur náungi. Tyrki, sem vinnur í tyrkneska sendiráðinu hér. Hann er búinn að vera hér í átta mánuði og núna er búið að kalla hann heim. Það vantar diplómata til að vinna í ráðuneytinu heima, sagði hann okkur, það er búið að segja svo mörgum upp í kjölfar misheppnuðu valdaránstilraunarinnar um daginn. Honum þótti greinilega leiðinlegt að vera að fara núna, sagði að sér hefði liðið mjög vel í Mapútó. Rúnar Atli sagði síðan: „Leiðinlegt að hann sé að fara.“ Ég var alveg sammála, því þetta var skemmtilegur náungi.

En, við þurfum að halda áfram að leita að bílum.

Svo fékk ég símtal áðan. Klukkan átta í fyrramálið mætir svo lið sem ætlar að láta okkur fá almennilegt internet og sjónvarpsaðgang.

Þá verður nú gaman að lifa.

2. ágúst 2016

Flutt inn í nýja húsið

Í morgun skráðum við okkur út af Avenida hótelinu í miðbæ Mapútó og fluttum okkur yfir í nýja húsið. Fyrir forvitin Gúgul möppudýr þá heitir gatan okkar Rua Damião de Góis. Einstefnugata að stórum hluta, sem er líklega gott því gatan er þröng og bílum lagt beggja vegna. Ekki mikið pláss til að mæta öðrum bílum. Nokkur sendiráð eru í kringum okkur og er það bandaríska steinsnar frá nýja húsinu.

Dagurinn fór annars í snatt og allskonar tilfæringar. Ég tengdi þvottavélina, en svo áttuðum við okkur á því að húsið virtist vatnslaust og tók nokkra stund að uppgötva hvað olli. Fann ég út að skrúfað var fyrir vatnið við dæluna sem pumpar vatni inn í húsið og upp hæðirnar þrjár. Innan stundar var vatn farið að streyma um allt hús með miklum krafti. Ýmis svona smámál vöfðust fyrir okkur. Það er merkilegt hvað hitt og þetta er öðrum vísi milli nágrannalanda.

Eitt ævintýrið í dag var að finna stærðarinnar Spar verslun sem er ekki langt frá okkur. Hins vegar var Garmin tækið ekki alveg að fatta hvert við vildum fara. Stúlkan í tækinu benti okkur á eina búð, en eftir nokkurn bíltúr sáum við að þetta var ekki búðin sem við vildum. Síðan harðneitaði daman að finna réttu búðina. Var líklega móðguð yfir vanþakklætinu. En við vorum sem betur fer með farsíma sem var til í að leiðbeina okkur á réttan stað.

Í búðinni vorum við í góða klukkustund að versla allskonar í eldhúsið. Stærðarinnar innkaupavagn dugði eiginlega ekki - við keyptum víst 187 hluti samkvæmt búðarkassanum. Enda var strimillinn langur.

Síðan lá leið mín í fyrirtæki sem skaffar tengingar fyrir internet og sjónvarp. Æ, ég var nú ósköp sáttur við að finna afgreiðslumann sem var flinkur í enskunni. Það er þreytandi endalaust að ströggla við að skilja aðra og skiljast illa sjálfur. En þarna samdi ég um kaup á svona tengingum og ættum við að verða orðin tengd hinn daginn. Kannski á morgun, en líklega þó ekki.

Svo tókum við uppúr ferðatöskunum, en við ferðuðumst með sex stykki frá Malaví. Tvær á mann, ekkert svona einnar tösku bull eins og hjá Flugleiðum.

Ég hef góða tilfinningu fyrir húsinu, mér finnst andinn í því góður.

En ætli maður fari ekki að vinna eitthvað í fyrramálið.

1. ágúst 2016

Fyrsti dagurinn í Mapútó

Þá er farið að skyggja í Mapútó. Klukkan rúmlega sex, en hér er jú vetur og því dimmir snemma. Dagurinn var alveg ágætur. Ég þurfti að reiða mig svolítið á portúgölskukunnáttuna mína, en hún er nú svona frekar slöpp. Við fórum að fá farsímanúmer handa Gullu og farsímakort í ferðahnetuna okkar. Það gekk að lokum, en portúgalskan er erfið.

Við fórum í nýja húsið okkar, en þar var slatti af húsgögnum frá forvera mínum. Þau húsgögn þurfti að færa til og voru þrír mósambíkanar sem hjálpuðu okkur. Þeir töluðu aðeins portúgölsku og því reyndi aftur á. Þetta tókst allt með samblandi af minni bjöguðu portúgölsku og bendingum.

Húsið er mjög fínt. Það er þriggja hæða raðhús, en svoleiðis hús sýnist mér nokkuð algeng hér. Lóðir virðast almennt ekki stórar og því byggt upp. Mér er sagt að hús af þessu tagi séu algeng í Portúgal. En þetta verður smábreyting að þurfa að hlaupa upp og niður stiga endalaust. Líklega er það bara hið besta mál, svona heilsunnar vegna.

Síðan fórum við að leita að sængum og þess háttar hlutum. Handklæði þarf jú og herðatré. Þetta fannst allt í suður-afrísku risakeðjubúðinni Game.

Við ætlum að vera á hóteli í nótt og svo flytjum við á morgun. Þá þarf að gera stórmatarinnkaup og eitthvað fleira í þeim dúr.

En í kvöld ætlum við út að borða.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...