28. desember 2005

Spítalagleði

Nú þurfti ég að eyða hluta morgunsins úti á heilsugæslustöð. Forsagan
er sú að fyrir 2-3 dögum var Rúnar Atli farinn að fá einhvern roða bak
við annað eyrað. Tóku foreldrarnir exemkremneyðarkipp og fóru að maka
kremi á pilt. Enda ekki nema von þar sem hann var jú nokkuð slæmur af
exemi á yngri árum sínum - yngri mánuðum ætti ég kannski að segja. Nema
hvað í gær þá var engin breyting, a.m.k. ekki til batnaðar, og síðan
var hann orðinn eldrauður í kringum annað augað. Ég hringi því út á
spítala og spyr kurteislega hvort hægt sé að ná tali af barnalækni.
„Jú, hann er með símatíma á morgun milli hálfeitt og eitt,“ er mér
tjáð. Hmm, ókey, eins gott að neyðartilfellin gerist í hádeginu,
hugsaði ég, og spurði síðan, enn kurteislega, hvort það væri nú ekki
hægt að panta viðtalstíma. „Jú, auðvitað, það eru lausir tímar í
janúar!" Við þetta kvaddi ég þessa viðmótslipru símamær, og vonaði að
Rúnari Atla myndi bara skána í nótt - þá væru allar áhyggjur á bak og
burt. En, svo auðvelt var þetta nú ekki. Kallanginn með djúpt sokkið
auga þegar hann vaknaði í morgun og nú var eitthvað farið að vessa útúr
eyranu. Nú voru góð ráð dýr - átti ég að bíða eftir símatímanum?

Ég ætti kannski að skjóta inn í að eftir að ég flutti hingað á Skagann
hef ég einu sinni reynt að ná sambandi við lækni í símatíma. Það gekk
þannig fyrir sig að u.þ.b. fimm mínútum fyrir auglýstan tíma fór ég að
hringja. Fékk ætíð skilaboð að símatími læknis væri ekki byrjaður. Svo
fimm mínútum eftir að símatíminn átti að hefjast - ég búinn að vera með
hraðvalið í stanslausri vinnslu í tíu mínútur - þá varð skyndilega á
tali. Mikið bölvaði ég þessu sekúndubroti sem ég var of seinn - en á
tali var síðan þar til aftur fóru að koma skilaboð um að símatími væri
ekki byrjaður - ég var sem sagt farinn að bíða eftir símatíma næsta
dags!

Minnugur þessarar fyrri reynslu, þá ákvað ég að beita djarfari
strategíu í þetta sinn. Klæddi ég mig í mitt fínasta púss og fór með
Rúnar Atla beina leið út á spítala. Hitti ég þar afgreiðsludömur þrjár
og bar ég mig ekki vel. Gráti nær tjáði ég þeim að ég þyrfti að hitta
lækni því ég væri í öngum mínum út af veikindum sonar míns. Sýndi ég
þeim þrútið auga hans og að ég væri alveg ráðþrota yfir þessu. Sá ein
þeirra aumur á mér og bauðst til að stinga mér inn í röðina löngu sem
væri eftir viðtalstíma læknis. Beið ég síðan í hálftíma en komst svo
að. Fannst mér þetta hafa tekist vonum framar og er þetta greinilega
aðferðin sem beita skal.

Læknirinn hlóð síðan lyfjum á okkur, dropum í auga og eyra og innvortis
sýklalyf. Rúnar Atli er nú ekki sáttur við þessi meðul, en ekki þýðir
að deila við dómarann - þ.e. foreldrana. Nú vonar maður bara það besta
og að þetta hverfi á allra næstu dögum. Ég gef ekki mikið í það að
reyna að troða augndropum í drenginn í flugvél einhvers staðar í 30.000
feta hæð yfir Afríku...

23. desember 2005

Myndavélafælni

Í dag var farið í bæjarferð og farið með Rúnar Atla til ljósmyndara. Okkur fannst bráðnauðsynlegt að ná sætum kyrrmyndum af gaurnum áður en hann flyst til Afríku. Þótt ljósmyndarar í Windhoek séu færir í sínu fagi, þá er frágangur á myndum ekki nærri því eins flottur og hér heima og því var annaðhvort að láta gera þetta núna eða bíða fram undir tveggja ára aldur. Þá hins vegar er sakleysi æskunnar horfið...

Hvað um það, við mættum klukkan tvö með tvo ganga af fötum svo drengurinn yrði sætur og krúttlegur. Hann skyldi þó ekki tilganginn með þessu öllu saman og brást hinn versti við að vera látinn í herbergi með fullt af einhverjum tækjum og tólum og tveimur ókunnugum manneskjum. Önnur sem lét eins og hálfviti, eingöngu í þeim tilgangi að koma drengnum til að hlæja. Honum stökk víst ekki bros á vör og sýndi einungis einn svip - dettur einhverjum Zoolander í hug? Niðurstaðan varð því að fara með drenginn í bíltúr í klukkutíma eða tvo og mæta svo á nýjan leik í myndatökuna. Og viti menn, ráðið svínvirkaði. Drengurinn var að vísu ekki alveg að pósa eins og barnastjarna, en engu að síður náðist í nokkrar hláturrokur inn á milli óánægjuvæls og ljósmyndarinn var sáttur og lofar góðum myndum. Við sjáum útkomuna milli jóla og nýárs.

16. desember 2005

Styttist í jólin...

Úff, eyddi stórum hluta dags að fara yfir próf. Var byrjaður fyrir löngu síðan, en dregist hefur að ljúka þessu af. En þetta tókst á nokkrum klukkutímum - mikið er það gott. Ég var ekki lengi að koma mér frá skrifborðinu þegar þessu lauk. Yfirferðir á prófum og verkefnum eru það sem mér finnst langsamlega leiðinlegast við að kenna. Enda lagði ég nokkra vinnu í að verkefni annarinnar væru yfirfarin af tölvu. Þá koma einkunnir um leið og verkefninu lýkur - frábærar þessar tölvur.

Annars ekki frá miklu að segja núna. Tinna Rut er með kveðjupartí í kvöld, þ.a. sólstofan er bannsvæði fyrir foreldra. Einhver gaman/hrollvekja var tekin á leigu og á þetta á að horfa... Ætli við gömlu hjónin förum ekki bara snemma að sofa - ég er víst að kenna frá níu til eitt í fyrramálið... stuð, stuð og aftur stuð...

14. desember 2005

Stór dagur í dag

Þá er brúðkaupsafmælisdagurinn runninn upp - búinn að vera giftur sömu konunni í 19 ár. Ekki slæmur árangur það og við meira segja tölust ennþá við :-) Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Þessi 19 ár hafa liðið á örskotsstund en einhvern veginn finnst mér mjög langt þangað til næstu 19 ár hafa liðið. En þetta er nú merkisdagur verður að segja.

Ég verslaði tölvu handa henni Gullu minni áðan. Keypti líka tvær jólagjafir svona úr því að ég var farinn að eyða peningum. En þar sem Gulla ætlar að selja mömmu gömlu tölvuna (ath að orðið „gömlu“ á við tölvuna...) svo mamma geti fylgst með okkur þegar við erum flutt út, þá var nauðsynlegt að kaupa nýja. Tölvu þ.e.a.s. Verslaði 14" iBook - fínn gripur - og á Gulla örugglega eftir að finna mikinn mun frá gömlu 12" iBookinni sinni.

Síðan var jólateiti í vinnunni. Ragnheiður Gröndal mætti ásamt bróður sínum og söng nokkur jólalög. Ekki þessi hefðbundnu, heldur lög sem maður heyrir ekki oft. Gaman að því, enda syngur hún vel. Reyndar varð ein lítil stúlka dauðhrædd þegar sungið var um jólaköttinn! Svo voru allir leystir út með jólagjöfum og kossi frá Guðfinnu rektor.

Núna sit ég í frímínútum. Er að kenna tilvonandi verðbréfamiðlurum þjóðhagfræði og þeir þurfa víst að fá mat til að halda út í þrjá klukkutíma í viðbót. Ekki mjög gaman að kenna frá fimm til níu að kvöldi dags. En svona er það nú samt. Ég þarf að vinna fyrir salti í grautinn og þau vilja menntunina. Jæja, tími á að halda áfram að kenna.

Nú byrjar ballið

Jesús minn góður, haldið ég hafi ekki uppgötvað að Davíð hafi verið að blogga á laun síðan í október - ekki eitt einasta píp frá drengnum um þetta. Ég meina, að láta ekki stóra bróður sinn vita af svona hlutum! Spurning að segja mömmu, ha-ha. En ég hef greinilega ekki lesið bloggið hennar Siggu síðan í byrjun október, því hún greip drenginn víst glóðvolgan og opinberaði þetta allt saman á síðunni sinni. En, ég hef ekki fylgst með lengi, og því kom sjokkið núna...

Jæja, ekki þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði - eða þannig sko. Þótt titill síðunnar gefi til kynna að ég sé í Windhoek, þá er ég nú ekki alveg kominn þangað. Legg af stað eftir - Tinna, hvað er langt í brottför? - 23 daga, ásamt Tinnu Rut og Rúnari Atla. Var reyndar búinn að ákveða að koma bloggsíðu í gang fyrir brottför, svo fréttirnar um Davíð gáfu mér bara sparkið í rassinn sem nauðsynlegt var. Ég setti smásíðu af stað á myOpera.com fyrir nokkru síðan, en það virðist sem vefþjónninn þeirra detti stundum út og ég nenni ekki svoleiðis veseni. Prófum þetta núna og sjáum til.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...