Í dag var farið í bæjarferð og farið með Rúnar Atla til ljósmyndara. Okkur fannst bráðnauðsynlegt að ná sætum kyrrmyndum af gaurnum áður en hann flyst til Afríku. Þótt ljósmyndarar í Windhoek séu færir í sínu fagi, þá er frágangur á myndum ekki nærri því eins flottur og hér heima og því var annaðhvort að láta gera þetta núna eða bíða fram undir tveggja ára aldur. Þá hins vegar er sakleysi æskunnar horfið...
Hvað um það, við mættum klukkan tvö með tvo ganga af fötum svo drengurinn yrði sætur og krúttlegur. Hann skyldi þó ekki tilganginn með þessu öllu saman og brást hinn versti við að vera látinn í herbergi með fullt af einhverjum tækjum og tólum og tveimur ókunnugum manneskjum. Önnur sem lét eins og hálfviti, eingöngu í þeim tilgangi að koma drengnum til að hlæja. Honum stökk víst ekki bros á vör og sýndi einungis einn svip - dettur einhverjum Zoolander í hug? Niðurstaðan varð því að fara með drenginn í bíltúr í klukkutíma eða tvo og mæta svo á nýjan leik í myndatökuna. Og viti menn, ráðið svínvirkaði. Drengurinn var að vísu ekki alveg að pósa eins og barnastjarna, en engu að síður náðist í nokkrar hláturrokur inn á milli óánægjuvæls og ljósmyndarinn var sáttur og lofar góðum myndum. Við sjáum útkomuna milli jóla og nýárs.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli