31. maí 2007

Glæpakvendi í fjölskyldunni!

Í gærmorgun var ástkæra Ísland kvatt og haldið suðureftir til Namibíu. Í Leifstöð lentum við í nokkrum vandræðum, ja, a.m.k. Tinna Rut. Þegar við förum í gegnum vopnaleit og gegnumlýsingu, beltislaus, vel að merkja, þá er hún stöðvuð.

„Er þetta taskan þín?“ spurði kurteis öryggisvörður.

Jú, hún Tinna hélt það nú.

„Má ég aðeins líta ofan í hana?“ spurði hinn sami öryggisvörður.

Tinna Rut hafði ekkert við það að athuga. Hvað skyldi hafa gerst hefði hún neitað þessari beiðni?

„Það lítur út fyrir að skæri séu í töskunni,“ hélt öryggisvörðurinn áfram.

Tinna sór það af sér, engin skæri í töskunni. Farið er að gramsa en engin skæri finnast. Taskan gegnumlýst aftur, og jú, eitthvað skæralegt er þar.

Því er leitað betur, og haldiði ekki að öryggisvörðurinn dragi allt í einu upp skólaskærin hennar Tinnu Rutar.

Henni krossbrá og skildi ekki neitt í neinu. Sagði okkur seinna að pennaveskið sem skærin fundust í hefði verið í handfarangri á leiðinni til Íslands og því komist í gegnum öryggiseftirlit bæði í Windhoek og í Lundúnum.

Öryggisverðinum leið greinilega ekki of vel yfir þessum fundi sínum, og bauð okkur að fara til baka og láta finna töskurnar okkar svo hægt væri að setja skærin þar ofan í. Leist okkur ekki vel á þá hugmynd og sögðum honum bara að gera skærin upptæk.

Forhert glæpakvendi hún dóttir mín yngri.

27. maí 2007

Frídagur

Það gengur víst ekki alltaf að liggja í múrviðgerðum og afmælisveislum.Stundum þarf að styrkja fjölskylduböndin, segja fjölskyldusálfræðingarnir. Við skruppum því í gullna ferð í dag. Hófum ferðina á ÓB hér á Skaganum til að taka bensín. Keyptum okkur örlítið nesti í sjoppunni. Þar á meðal var Merrild kaffibolli og var Maju í Norge sent sms um kaffið, en Merrild er víst ekki til í Noregi.

Hvers vegna skyldi nokkur flytja til Noregs?

Að þessu loknu lá leið okkar til Þingvalla. Þar stigum við út úr bílnum. Ja, öll nema Tinna Rut sem svaf svefni hinna réttlátu aftast í fjölskyldubílnum. Rúnari Atla fannst æðislegt að henda peningum í hyldýpið. Af mikilli náð leyfði hann þó Dagmar Ýr að henda 10 krónum út í. Eins og sést er spennandi að horfa ofan í.Því næst lá leiðin yfir Lyngdalsheiðina og ekið í gegnum Laugarvatn. Gulla fékk eitthvað afturhvarf til fortíðar og varð bílveik...

Svo komum við að Geysi og félögum. Strokkur gaus nokkrum sinnum okkur til ánægju. Er ekki laust við að Rúnar Atli hafi hrokkið við í fyrsta sinn sem Strokkur lét bæra á sér. En þarna var prinsessan á bauninni komin úr aftursætinu og rölti sér með okkur.

Gullfoss var síðan heimsóttur.

Ferðin var þrælfín og öll fjölskylduvandamál úr sögunni.

A.m.k. til morguns.

20. maí 2007

Sjö ára gæfa?

Mig minnir að það hafi verið í fyrrakvöld að við vorum öll að tygja okkur í háttinn þegar óeinkennilegt hljóð heyrðist allt í einu einhvers staðar úr húsinu.

Við áttum í erfiðleikum með að átta okkur á þessu, en það hljómaði eins og eitthvað hefði dottið, eitthvað járnkyns líklega.

Nú við förum að leita að uppruna hljóðsins, en gengur illa að finna hann. En svo á ég leið inn á salernið og rek þá augun í að lítill spegill sem límdur var á vegginn með einhverju ofboðslega sterku speglalímbandi liggur á gólfinu.

Auðvitað á spegillinn ekki að vera þar, eins og gefur að skilja. Einhverra hluta vegna gaf fína límbandið sig og spegillinn niður.

Tvennt þótti mér merkilegt. Annars vegar brotnaði spegillinn ekki. Hann hefur þó fyrst lent á vaskbrúninni og síðan niður á gólf.

Sterkur spegill.

Hins vegar var spegillinn pikkfastur á gólfinu. Fína speglalímbandið ákvað greinilega að spegillinn væri á réttum stað. Var spegillinn því á gólfinu þar til næsta dag, en þá mætti ég aftur á staðinn með viðeigandi verkfæri til að ná honum upp.

Oft er talað um sjö ára ógæfu þegar spegill brotnar. Mér finnst þá hljóti að fylgja því sjö ára gæfa þegar spegill dettur á gólfið og helst óbrotinn.

Gott mál fyrir okkur.

19. maí 2007

Slatti í gangi

Jæja, þá er Íslandsferðin rúmlega hálfnuð. Nóg er að gera. Í gær rifum við Rúnar Atli parketið af stofugólfinu, en það fór illa í fyrra vegna vatnsleka. Svo í dag var stofan máluð í hólf og gólf og er seinni umferðinni nýlokið. Parketið verður sett á á morgun og síðan verður hægt að koma húsgögnunum aftur inn.

Í gær var síðan svo gott veður að ég réðst í múrviðgerðir að lokinni haugaferð með parketleifar. Svalagólfið fyrir utan hjónaherbergið þarfnaðist viðgerðar og eins skyggnið hjá útidyrunum. Ég var búinn að versla eitthvað fínerís múrflot og keypti mér stærðarinnar þvottabala til að hræra þetta í. Hélt reyndar að það yrði mitt síðasta að burðast með balann upp stigann og er langt síðan nokkuð hefur tekið jafnmikið á í bakinu. En, eitt er víst. Ég er guðslifandi feginn að vera ekki múrari.

En múrviðgerðirnar tókust alveg ágætlega og mikið var ég ánægður að verki loknu.

Veðrið í gær var það gott að ég gróf útigrillið út úr garðskúrnum, ásamt grillkolum sem þar leyndust, og síðan var pylsum og hamborgurum skellt á grillið. Stórfínt alveg.

Enn er slæðingur af verkefnum eftir. Meiningin er að taka hjónaherbergið í gegn og mála. Síðan þarf að slá garðinn og ditten og datten.

Meginástæðan fyrir þessu öllu er að við erum að velta því fyrir okkur að setja húsið á sölu. Ef það selst, þá á að kaupa blokkaríbúð í Reykjavíkinni - reyna að koma út á eins sléttu og hægt er. Nú er líklegt að Dagmar Ýr fari í háskólanám á næstunni, stúdentinn ætti að nást um áramót, og henni þætti miklu betra að vera í höfuðborginni. En auðvitað er erfitt að eiga hús með stærðarinnar garði þegar við erum minnst á Íslandi. T.d. er agalegt að sjá mosann í garðinum núna, mosann sem ég var að mestu búinn að ná tangarhaldi á fyrir einu og hálfu ári. Áhyggjuminna verður að eiga íbúð í blokk þar sem húsfélag sér um viðhald á sameign og líklega kostar minna að eiga svoleiðis heldur en einbýlishús.

Jæja, ætli sé ekki best að reyna að teygja aðeins á aumum útlimum.

15. maí 2007

Á rangri hillu?

Það verður víst að viðurkennast að ég hef sjaldan þótt mikil listaspíra. Á erfitt með að teikna nokkurn skapaðan hlut, helst ég sé fær að draga Óla prik á blað.

En um síðustu helgi fór ég að velta því fyrir mér hvort hæfileikar mínir á listasviðinu væru meiri en ég hef haldið. Stórlega vanmetnir kannski.

Hér má nefnilega sjá listræna ljósmynd sem undirritaður tók í knattspyrnuleik sl. föstudag. Þá áttust við Grundfirðingar og Höfrungur frá Þingeyri í bikarkeppni KSÍ.

Nefnist myndin:

Bróðir minn, Davíð, í líkamsrækt.
Er að velta fyrir mér hvort tími sé kominn á nýjan starfsframa...

7. maí 2007

Komin á leiðarenda

Kortér fyrir 10 í morgun lenti ég ásamt börnunum tveimur á Keflavíkurflugvelli. Tuttuguogfjórum tímum á eftir áætlun, aðeins.

Ferðalagið gekk nú ágætlega þrátt fyrir töf. Orsök tafarinnar var bilun í hreyfli flugvélarinnar frá Air Namibia. Eða, réttara sagt fannst einhver bilun við eftirlit í London og þótti ekki forsvaranlegt að láta vélina í loftið fyrr en búið væri að gera við. Sjálfsagt er það jú það eina skynsamlega í stöðunni, en ekki þótti manni þetta gaman.

Fyrir okkur var töfin ekki svo slæm í Windhoek, því við gátum farið heim og lagt okkur. En nær allir aðrir farþegar áttu ekki völ á þeim lúxus og þurftu að híma á flugvellinum í sjálfsagt eina tíu klukkutíma. Ekki skemmtilegt.

Flugið til Lundúna gekk vel. Mér fannst merkilegt að fljúga yfir Saharaeyðimörkina og sjá út, því ég hef alltaf verið þarna að nóttu til og ekkert sést út. Þvílíkt flæmi er þessi eyðimörk. Ekki nema von að menn týnist þarna. Ég hugsa að við höfum flogið í nær tvo tíma yfir eyðimörkinni.

Í Lundúnum var okkur síðan komið fyrir á hóteli, í tveimur kústaskápum með rúmum og baðherbergi. Ótrúlegt hvað hægt er að kalla litlar kompur hótelherbergi. Við fórum síðan á röltið og fundum McDonalds. Ætli sé ekki nokkuð saman í hvaða átt er gengið í stórborgum, McDonalds kemur í ljós fyrr en seinna.

Annars er þetta úthverfi Lundúna ekkert sérstaklega spennandi. Flugvéladynur líklega allan daginn frá Gatwickflugvellinum og húsin bara ekkert sérstök. Bretland hefur einhverra hluta vegna aldrei heillað mig neitt sérstaklega.

Hvað um það, vöknuðum klukkan fjögur í morgunn og út á völl. Lentum í smástappi útaf flugmiðanum, en þau mál leystust nú um síðir. Flugið var fínt heim til Keflavíkur, galtóm vél og við bara liðum þarna um himinhvolfin. Töskurnar komu, skotist í fríhöfnina og svo beið Gulla okkar.

Ég verð nú aðeins að tuða út af öryggisgæslunni í London.

Alveg eru Bretar ótrúlegir. Þeir monta sig af því að hafa tekið yfir eina milljón ólöglegra hluta af farþegum sem fara í gegnum Gatwick.

Og hvaða stórhættulegu hlutir skyldu þetta vera? Hnífar, byssur og sprengiefni kannski? Miltisbrandsduft?

Ó, nei, ekki er það nú svo.

Sjá má þessa hættulegu hluti í glerskápum þarna. Víti til varnaðar, sjálfsagt.

Og þarna gefur að sjá.

Sjampóbrúsar, tannkremstúpur, raksápur og rakspírar, krem af ýmsu tagi og svo fram eftir götunum.

Þetta er bara bilað fólk.

Hversu öruggari eru við vegna þess að Jón einhver Jónsson gat ekki tekið sjampóbrúsann sinn með í flugvélina?

Mér á sjálfsagt að líða betur vegna þess að ef að Jón þessi skyldi nú missa stjórn á skapi sínu um borð, þá getur hann ekki sprautað sjampói í augun á mér...

Heimska, hrein og klár.

5. maí 2007

Seinkun :-(

Um hálfsexleytið nú í kvöld mættum við galvösk og spennt út á alþjóðaflugvöllinn hér í Namibíu til að leggja af stað áleiðis til Íslands.

Þar mættu okkur slæmar fréttir. Flugvélin sem átti að koma frá London í morgun, og við síðan fara með í kvöld, var ekki enn mætt og er ekki gert ráð fyrir henni fyrr en tvö eftir miðnætti!

Reisan okkar, sem átti að hefjast 19:40 að staðartíma, hefst ekki fyrr en hálffjögur eftir miðnætti í fyrsta lagi. Það þýðir lendingu í Lundúnum einhvern tímann upp úr hádeginu. En vélin okkar til Íslands fer hins vegar hálfátta um morguninn.

Slæm tíðindi.

Það verður að segjast að Air Namibia tók fagmannlega á málum. Búið er að bóka okkur í næsta flug með BA til Íslands, en það er hins vegar ekki fyrr en sólarhring seinna en upphaflega flugið okkar. Við mætum því 9:45 á mánudaginn til Íslands, ekki á sunnudag. Fulltrúi flugfélagsins mun hitta okkur í Lundúnum og koma okkur á hótel og sjá um að ferja okkur út á flugvöll á mánudagsmorgninum.

Reynt að gera það besta úr slæmum málum.

Við fórum því aftur heim og ætlum að reyna að ná nokkura klukkutíma svefni.

Tinna Rut er farin að sjá björtu hliðarnar á því að eyða stórum hluta úr degi í Lundúnum. Er komin með mikil plön þegar, en við verðum nú að sjá til hvar okkur verður holað niður. En líklega munum við þó leika túrista í hálfan dag eða svo.

McDonalds er ofarlega á blaði, er mér sagt, en svoleiðis staður er ekki til í Namibíu.

Vonandi verður gaman.

Hvað er eiginlega í gangi?

Fór að velta fyrir mér hvernig veðrið sé á landi ísa þessa dagana. Hér í Namibíu er mjög þægilegt veður þessa dagana. Hitinn slagar upp í 30 stigin yfir hádaginn og síðan eitthvað um og undir 10 gráður lægst. Fínn tími ársins.

Þegar ég var í Svíaríki fyrir nokkrum dögum, þá var fínt veður, en svalur vindur. Um leið og dró fyrir sólu fékk ég kuldahroll. Er því búinn að kvíða heimferðinni aðeins, sérstaklega fyrir hönd sonar míns. Hann er jú ekki vanur íslensku veðurlagi og síðast þegar við fórum heim, veiktist hann strax í Keflavík og var veikur eiginlega allan tímann.

Fór því á netið áðan til að kanna aðstæður.

Ég get ekki neitað því að hafa orðið nokkuð undrandi. Ókei, kannski ekki alveg sami hiti og við erum vön hér, en maður minn, getur þessi spá verið rétt?

Reykjavík - veðurhorfur næstu daga
FÖS 1 m/s 3 ° til 7 ° C
LAU 6 m/s 4 ° til 6 ° C
SUN 5 m/s 3 ° til 7 ° C
MÁN 6 m/s 3 ° til 8 ° C
ÞRI 3 m/s 4 ° til 8 ° C
MIÐ 2 m/s 4 ° til 8 ° C
Gert föstudaginn 04. maí 2007 - © Veðurstofa Íslands


Þrír sólardagar í röð. Getur þetta verið?

Við vonum það besta, en engu að síður verður þykk úlpa í handfarangrinum, húfa og vettlingar.

Allur er varinn góður sagði nunnan og dró ...

4. maí 2007

Ferðalag

Fór í smáferðalag í síðustu viku. Ja, smá og ekki smá, var sendur á fund í Svíþjóð. Í Uppsölum, nánar tiltekið. Þetta var tveggja daga fundur hjá norrænu Afríkustofnuninni og var hann bara alveg ágætur. Kynntist þarna fólki frá hinum norðurlöndunum sem eru að vinna í sama bransa og ég, og það er alltaf gaman.

Uppsalir eru mjög fallegur staður og ekki skemmdi fyrir að veðrið lék við hvern sinn fingur. Er þetta háskólabær og setur ungt fólk mikinn svip á miðbæinn. Var þétt setinn bekkurinn meðfram á sem liggur í gegnum miðjan bæinn. Baaie lekker myndu Búarnir segja, mjög lekkert. Myndin ber vott um það.Ég gat nú ekki annað en skotist í heimsókn til Dodda og Píu í Oxelösund. Ók ég um sveitavegi til að komast til þeirra, en þarna er náttúrufegurðin mikil. Hjá skötuhjúunum var stjanað við mig, nýbakaðar skonsur í morgunmat og hamborgarahryggur í kvöldmat. Ekkert slor.

Við fórum út á fimmeyringsverndarsvæðið, Femöre, en þar byggðu Svíar heljarinnar virki til varnar landinu. Þetta var víst útbúið á kaldastríðsárunum og er allt sundurgrafið þarna neðanjarðar.

En útsýnið var fagurt þennan apríldag sem við vorum þarna. Jú, þrátt fyrir hversu Svíar eru óþolandi montnir, þá mega þeir nú eiga það að landið þeirra er fallegt.Og auðvitað var tekið með nesti í lautarferðina, hvað annað?Sumir skemmta sér við skrýtnari hluti en aðrir. Draugurinn Glámur í Grettissögu reið að sögn húsum, en gaman er víst líka að ríða fallbyssum, a.m.k. virðist gömlum knöpum og hestaeigendum finnast það.Stoppið að þessu sinni var stutt, en skemmtilegt. Ekki veit ég hvenær ég fæ tækifæri næst að skreppa til Svíaríkis, en gaman væri áreiðanlega að taka sér góðan tíma og ferðast svolítið um landið.

Staðalímyndir barna

Við Rúnar Atli fórum áðan á uppáhaldsmatsölustaðinn okkar. Bauð Tinnu Rut líka, en hún hafði ekki áhuga. Vildi vera í húsinu, því hún mun ekki sjá það í nærri mánuð...

Jeh, ræght... nennir bara ekki út með pabba sínum.

En við lifum það svo sem alveg af.

Við feðgarnir fórum sem sagt út að borða. Þegar við erum búnir að panta matinn er okkur sagt að allt strákadótið sé búið. Bara til stelpudót, því miður.

Nú, spyr ég, hvernig dót er það nú?

Jú, þú veist, svona eldhúsdót og svoleiðis.

Nú, sagði ég, en eigum við ekki að kíkja á það, við strákarnir þurfum nú að geta eldað eitthvað.

Afgreiðslustúlkan horfði undrandi á mig, og hugsaði sjálfsagt hversu undarlegir þessir útlendingar væru.

En Rúnar Atli fékk þó að velja sér stelpudót. Hann valdi sér stofuhúsgagnasett og var alveg bjargnuminn yfir því. Setti sjónvarpið ofan á sjónvarpsskápinn og fór svo að horfa á sjónvarp. Meiriháttar gaman.

En ég fór að velta þessu fyrir mér. Af hverju skyldi húsgagnasett vera stelpudót? Ókei, þetta var bleikt og fjólublátt á litinn, en hefði alveg getað verið svart og blátt.

Hvers vegna skyldu leikfangaframleiðendur aðeins vilja selja helmingi barna framleiðsluna sína?

Undarleg markaðsfræði það.

1. maí 2007

Tilhlökkun

Rúnar Atli hlakkar fjarska mikið til að fara til Íslands. Hann er svo óþolinmóður að ég hef varla upplifað annað eins. Hann er kominn með lítinn bakpoka sem hann ætlar með í flugvélina og spígsporar með hann um allt.

Svo þegar við ætlum eitthvað í bílnum þá spyr hann iðulega hvort við séum ekki að fara til Íslands.

Fjórir dagar.

Svo spurði ég hann í dag hvað hann ætli eiginlega að gera á Íslandi.

Hann var ekki lengi að svara: Kókómjólk!

Hmm, hvað annað ætlarðu að gera?

Hann hugsaði sig aðeins um:

Aðra kókómjólk!!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...