7. maí 2007

Komin á leiðarenda

Kortér fyrir 10 í morgun lenti ég ásamt börnunum tveimur á Keflavíkurflugvelli. Tuttuguogfjórum tímum á eftir áætlun, aðeins.

Ferðalagið gekk nú ágætlega þrátt fyrir töf. Orsök tafarinnar var bilun í hreyfli flugvélarinnar frá Air Namibia. Eða, réttara sagt fannst einhver bilun við eftirlit í London og þótti ekki forsvaranlegt að láta vélina í loftið fyrr en búið væri að gera við. Sjálfsagt er það jú það eina skynsamlega í stöðunni, en ekki þótti manni þetta gaman.

Fyrir okkur var töfin ekki svo slæm í Windhoek, því við gátum farið heim og lagt okkur. En nær allir aðrir farþegar áttu ekki völ á þeim lúxus og þurftu að híma á flugvellinum í sjálfsagt eina tíu klukkutíma. Ekki skemmtilegt.

Flugið til Lundúna gekk vel. Mér fannst merkilegt að fljúga yfir Saharaeyðimörkina og sjá út, því ég hef alltaf verið þarna að nóttu til og ekkert sést út. Þvílíkt flæmi er þessi eyðimörk. Ekki nema von að menn týnist þarna. Ég hugsa að við höfum flogið í nær tvo tíma yfir eyðimörkinni.

Í Lundúnum var okkur síðan komið fyrir á hóteli, í tveimur kústaskápum með rúmum og baðherbergi. Ótrúlegt hvað hægt er að kalla litlar kompur hótelherbergi. Við fórum síðan á röltið og fundum McDonalds. Ætli sé ekki nokkuð saman í hvaða átt er gengið í stórborgum, McDonalds kemur í ljós fyrr en seinna.

Annars er þetta úthverfi Lundúna ekkert sérstaklega spennandi. Flugvéladynur líklega allan daginn frá Gatwickflugvellinum og húsin bara ekkert sérstök. Bretland hefur einhverra hluta vegna aldrei heillað mig neitt sérstaklega.

Hvað um það, vöknuðum klukkan fjögur í morgunn og út á völl. Lentum í smástappi útaf flugmiðanum, en þau mál leystust nú um síðir. Flugið var fínt heim til Keflavíkur, galtóm vél og við bara liðum þarna um himinhvolfin. Töskurnar komu, skotist í fríhöfnina og svo beið Gulla okkar.

Ég verð nú aðeins að tuða út af öryggisgæslunni í London.

Alveg eru Bretar ótrúlegir. Þeir monta sig af því að hafa tekið yfir eina milljón ólöglegra hluta af farþegum sem fara í gegnum Gatwick.

Og hvaða stórhættulegu hlutir skyldu þetta vera? Hnífar, byssur og sprengiefni kannski? Miltisbrandsduft?

Ó, nei, ekki er það nú svo.

Sjá má þessa hættulegu hluti í glerskápum þarna. Víti til varnaðar, sjálfsagt.

Og þarna gefur að sjá.

Sjampóbrúsar, tannkremstúpur, raksápur og rakspírar, krem af ýmsu tagi og svo fram eftir götunum.

Þetta er bara bilað fólk.

Hversu öruggari eru við vegna þess að Jón einhver Jónsson gat ekki tekið sjampóbrúsann sinn með í flugvélina?

Mér á sjálfsagt að líða betur vegna þess að ef að Jón þessi skyldi nú missa stjórn á skapi sínu um borð, þá getur hann ekki sprautað sjampói í augun á mér...

Heimska, hrein og klár.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...