19. maí 2010

Baráttan mikla um svefnherbergið

Í gærkvöldi fór ég snemma upp í rúm. Svona um níuleytið. Venjulegur háttatími í Namibíu er tíu til hálfellefu, því hér er dagurinn tekinn snemma. En ástæðan fyrir þessum asa mínum að komast í rúmið var að mér áskotnaðist að láni bók á íslensku, Skipafréttir eftir Annie Proulx. Alltaf er tilhlökkun þegar mér berast í hendur bækur á því ylhýra.

Svo um ellefuleytið heyri ég eitthvað hljóð. Átti erfitt með að átta mig á hvað þetta var. Klórhljóð sem barst að mér virtist frá náttborðinu mínu. Voðaflott náttborð með skúffu og skáp og ná hliðar alveg niður í gólf. Svo hætti hljóðið.

En, Adam var ekki lengi í paradís. Aftur hófst þetta klór. Datt mér einna helst í hug mús, en þótti það nú ótrúlegt. Ýtti þó borðinu alveg þétt upp að veggnum, ef vera skyldi að ég hefði rétt fyrir mér. Músin, ef þetta væri nú mús, væri þá lokuð undir borðinu. Svo mætti eiga við þetta í fyrramálið. Síðan fór svefninn að sækja á.

En, enn hófst klórið. Nú var eiginkonan búin að átta sig á því að eitthvað var ekki eins og átti að vera. Ég lagðist á hliðina, hreyfingarlaus, og fór að fylgjast haukfránum augum með gólfinu. Og viti menn. Sé ég ekki músarhöfuð gægjast fram við hliðina á náttborðinu. Skýst músin svo að poppskál sem stóð á gólfinu og er eitthvað að gera sig heimakomna við hana. Um leið og ég hreyfði mig, þaut hún til baka í öruggt skjól.

Æ, svona lagað er allt annað en skemmtilegt. Ekki síst í kringum miðnætti þegar svefninn er farinn að gera vart við sig. En að áeggjan Gullu lét ég mig hafa það að skrönglast framúr, fara í stuttbuxur og síðan í vopnaleit.

Kom ég til baka allvígalegur með fötu í annarri hendi og pappaspjald í hinni. Dró svo náttborðið frá veggnum - undir það var komin álitleg hrúga af poppi - og eftir smástund var músarræfillinn króaður af úti í horni. Skjálfandi á beinum, sú litla. Voðalega krúttleg mús, hefði ýmsum sjálfsagt fundist. En ég sýndi enga miskunn, enda músin komin í mitt konungsríki. Og það óboðin. Ég skellti fötunni á hvolf yfir hana, renndi pappaspjaldinu undir fötuna, sneri svo öllu klabbinu við, og var þar með búinn að ná yfirhöndinni í þessari baráttu.

Músin endaði í árfarvegi hinum megin við girðinguna okkar. Hún tók á sprett frá húsinu, frelsinu fegin.

Ég fór aftur í rúmið, adrenalínið alveg á fullu og ætlaði aldrei að sofna. En, huggaði mig þó við það að hafa unnið baráttuna miklu um svefnherbergið.

12. maí 2010

Samskipti ungdómsins í dag

Áðan komu loksins ferðalangarnir í hús. Þar á meðal voru Ellen og Olivia, tvíburafrænkur hans Rúnars Atla. Síðast þegar þau hittust voru þau svo lítil að þau rekur ekki minni til þess. En það háði þeim ekkert og eftir skamma stund voru þau farin að leika sér saman.

Nútímaleiki þar sem innbyrðis samskipti eru í fyrirrúmi...


Frá vinstri: Olivia, Rúnar Atli og Ellen.

Dæmdir namibískir sauðaþjófar

Sé í Namibian í morgun að í gær féll dómur yfir tveimur sauðaþjófum. Þeir gerðu sig seka um að stela ellefu sauðum 15. janúar 2008. Þetta voru sauðir af svonefndu karakúl-kyni og var verðmæti þeirra 6.600 Namibíudalir. Á þess tíma gengi jafngilti það rúmum 62.000 krónum. Á gengi dagsins í dag væru þetta nærri því 120.000 krónur.

En dómurinn féll sem sagt í gær. Hvor um sig fékk 20 ára fangelsisdóm, þar af eru níu ár skilorðsbundin. Þeir þurfa því að sitja 11 ár í fangelsi pottþétt. Eitt ár fyrir hvern sauð.

Hvernig væru þessir dómar yfirfærðir á íslenska fjárglæframenn?

Kannski við ættum að flytja inn namibíska dómara...

11. maí 2010

Allt er þegar þrennt er

Sjaldan er ein báran stök. Tinna Rut lenti í vandræðum með flug fyrir mjög stuttu. Síðan lenti Dagmar Ýr í hrakningum í gær og tafðist um heilan sólarhring í Lundúnum. Og núna var Doddi að missa af Air Namibia vélinni frá Frankfurt til Windhoek. Þannig var víst að þegar átti að leggja af stað frá Stokkhólmi kom í ljós að yfir Frankfurt var þrumuveður með eldingum. Tafðist vélin því um góða klukkustund. Dugði til að tengiflugið náðist þar með ekki. En nýjustu fréttir eru að flug fékkst i gegnum Jóhannesarborg. Doddi og dætur hans komast því á leiðarenda skömmu eftir hádegi á morgun.

Það góða við þetta klúður er að við hjónin þurfum ekki að rífast um hvort okkar ,,fengi" að sækja Dodda og föruneyti klukkan 5:10 í fyrramálið.

Stóra spurningin er síðan hvort álög hvíli á gestum okkar. Hver leggur í að koma næst?

Vetrar í Windhoek

Kalt í Windhoek þennan morguninn. Klukkan sjö sat ég úti á verönd með jarðarberjajógúrtina í ekki nema 4,5 gráðu hita. Úff, veturinn nálgast. Enda ríða kvefpestir röftum hér í höfuðborginni og fólk hóstar og hnerrar hægri, vinstri.

En um daginn heyrði ég að fingur- og táneglur vaxi hægar að vetrinum. Einhverjir plúsar fylgja því fallandi hitastigi.

9. maí 2010

Enn stress vegna flugferða

Enn er vesen vegna flugferða dætra. Dagmar Ýr að þessu sinni. Hún á að leggja af stað til Namibíu í fyrramálið.

En, enn er askan að flækjast fyrir. Mér er sagt að nú sé gömul aska sökudólgurinn. Þ.e. aska sem fór til Evrópu fyrir einhverjum vikum sé nú að snúa til baka.

Ekki er nú öll vitleysan eins.

Vandamálið núna var að Dagmar átti að lenda í Lundúnum um hádegi og fljúga áfram um hálffjögur, en nú verður fyrst flogið til Skotlands. Svo verður ekki lent fyrr en hálffimm í Lundúnum. Þar með er ferðalagið í uppnámi.

En með lagni og peningaúlátum hefst þetta. Líklega.

Okkur tókst að finna flug frá Glasgow sem Dagmar ætti að ná og kemur henni nægjanlega snemma til Lundúna. Síðan virðist Lufthansa ætla að setja Dagmar í seinni vél frá Lundúnum. Við erum því bjartsýn. Eins og er.

Ég má nú til með að hrósa starfsfólki Icelandair. Ég er búinn að hringja þangað nokkrum sinnum undanfarið og finnst viðmótið til fyrirmyndar. Vilja allt fyrir mann gera og er aðdáunarvert hversu vel er tekið á móti manni í símann. en ég vona að ég þurfi ekki að hringja oftar. Þrátt fyrir gott viðmót.

2. maí 2010

Bóndinn og venjulega fólkið

„Pabbi, það væri gott að vera bóndi með traktor,” sagði sonur minn áðan.

„Nú,” sagði ég og leit upp frá tölvunni.

„Já, bóndi en ekki svona venjulegur maður eins og þú,” sagði sá stutti.

„Jæja,” hljóðaði mitt gáfulega svar, um leið og ég velti því fyrir mér hvaða kosti drengurinn sæi við bóndastarfið.

„Já, því þá þarftu ekki að keyra í vinnuna.”

Ókei. Þá veit ég það. Ætli sé einhvers staðar jörð til sölu?

1. maí 2010

Loksins komin á leiðarenda

Þá er hún Tinna Rut okkar loksins komin heim til foreldranna á nýjan leik. Við erum nýkomin frá flugvellinum að sækja hana. Ferðalagið gekk vel hjá henni. Tíðindalítið. Það eru líka bestu ferðalögin. Þau tíðindalitlu.

Mjög gaman var að sjá hana á ný eftir fjögurra mánaða aðskilnað. Svo eftir tíu daga eða svo, þá kemur Dagmar Ýr í heimsókn og þá verður öll fjölskyldan saman á ný.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...