29. október 2010

Kaffi núna? Nei, má það ekki bíða?

Malaví ferðin var nokkuð skemmtileg þótt stutt væri. Hittum skemmtilegt fólk og sjáum forvitnilega staði. Fyrsta nóttin var reyndar nokkuð strembin. Okkur var boðið í frábæran kvöldverð í heimahúsi og sátum þar langt frameftir kvöldi. Aðeins var smakkað á Malaví-gini og svo rámar mig í viskístaup eða tvö. Inn á milli rauðvín og hin besta nautasteik.

Á hótelið komum við skömmu eftir miðnætti. Eitthvað þótti okkur dimmt inni, og vorum ekki sátt við að slokknað hefði á loftkælingunni. Nokkuð heitt í Malaví þessa dagana. En svo áttuðum við okkur á því að rafmagnið var farið. Alla nóttina var rafmagnslaust og því varð svefninn nokkuð brokkgengur. Þegar birti af degi fór ég á stjá og spurði starfsfólk hótelsins hvað væri eiginlega í gangi.

„Svona er lífið bara í Lilongve,” var mér sagt. Úr augnsvipnum mátti þó lesa: „Oh, enn einn útlendingurinn sem þolir ekki smávegis mótlæti ... spilltur af eftirlæti”

Næstu tvo tímana fór og kom rafmagnið á að giska sex sinnum.

Hinar tvær næturnar var ástandið þó betra.

Síðasta kvöldið fórum við að lítinn og huggulegan veitingastað. Don Briani's Bistro nefnist hann. Þjónninn benti okkur strax á það að því miður væri ekki hægt að bjóða upp á neitt djúpsteikt. Rafmagnið væri nefnilega ekki í lagi, og því væri djúpsteikingarpotturinn óvirkur. Þetta var nú ekki vandamál, því fullt annað var á matseðlinum sem hægt var að elda á gaseldavélinni.

Maturinn var fínn. Verður að segjast að andinn er mjög skemmtilegur á þessum stað. Mikið af allskonar fólki kom þarna og er þetta greinilega vinsæll matsölustaður.

Svo að matnum loknum spurði ég hvort hægt væri að fá cappuccino. Nei, rafmagnið í ólagi og því kaffivélin kapútt. En venjulegt kaffi? Jú, það væri nú hægt að redda því. Flott, venjulegt kaffi skyldi það vera.

En eftir svona fimm mínútur birtist þjónninn á ný, heldur niðurlútur. Því miður, rafmagnsleysið veldur því að ekkert kaffi er hægt að sörvera.

Skyndilega sagði þó þjónninn, og lifnaði yfir honum við hugmyndina: „Þið getið fengið kaffi á morgun!”

Nefnilega...

Þjónninn fékk gott þjórfé. Alltaf er gaman að hitta bjartsýnt fólk.

24. október 2010

Enn ferðast

Eftir rólegt ferðaár hefur orðið ferðasprenging í október. Nú er beðið í röð á flugvellinum í Windhoek. Malaví er áfangastaðurinn að þessu sinni. Stutt ferð núna. Aftur heima á fimmtudag. Gulla og Rúnar Atli með í för að þessu sinni. Meira síðar.

19. október 2010

Gíraffar

Gíraffar eru flottir.

Þeir virka álkulegir, en eru engu að síður tignarlegir í hreyfingum. Að sjá gíraffa á hlaupum er ótrúleg sjón. Þessar stóru og klunnalegu skepnur geta sprett úr spori.

Í ferðinni okkar um síðustu helgi sáum við mikið af gíröffum. Bæði eina og sér og einnig í hjörðum.

Við eitt vatnsbólið náði ég þessari mynd. Ekkert skipulag á þessum dýrum, arkandi út og suður að því er virðist.


Auðvitað þyrstir gíraffa eins og aðra. En vandamálið er að höfuðið er nokkuð langt yfir sjávarmáli. Til að drekka þurfa þeir að glenna í sundur framfæturnar. Annars nær höfuðið ekki niður að yfirborði vatnsins. Þessir tveir félagar voru að slökkva þorstanum. Hlið við hlið.

Líklega eru gíraffar auðveld bráð í svona stellingu, en þó verður að segjast að þeir eru ótrúlega snöggir upp ef þeim bregður.

Gíraffar eru gríðarlega stórar skepnur. Af myndum áttar maður sig ekki alveg á því, sérstaklega ef skepnan er ein á myndinni. En þegar annað dýr er með á mynd, þá sést stærðin vel. Á myndinni hér að neðan er gíraffi ásamt impala-hirti. Angólu-impala held ég að þessi heiti á íslensku.

Fullvaxinn impala-hjörtur getur nálgast eins metra hæð að herðakambi, sem þýðir að hnéð á gíraffanum á myndinni er líklega einn metra frá jörðu. Sennilega er þetta ferlíki vel á fimmta metra.

Og lifir bara á laufblöðum og stráum.

18. október 2010

Konungur veganna, nú eða skapstyggur fíll

Þótt við Gulla höfum heimsótt Etosha þjóðgarðinn oftar en tölu verður á komið, þá þreytumst við aldrei á að skoða fíla. Stöðvum við alltaf bílinn þegar við sjáum fíl utan vegar og dáumst að honum í smástund áður en haldið er áfram ferð.

Ferðin síðasta föstudag var engin undantekning þar á. Þ.a. þegar við sáum fíl einn utan vegar, þá stöðvuðum við bílinn eins og lög gera ráð fyrir.

Fíll þessi virtist nokkuð kominn til ára sinna. Skögultennurnar eyddar, líklega af margra ára notkun. Svo virkaði fíllinn bara gamall og hrumur. Hrukkóttari en flestir fílar sem við höfum séð. Hann stóð þarna við veginn og virtist í þungum þönkum.


Nema hvað, rétt áður en við ætlum að leggja af stað, þá færist líf í kauða. Furðu léttur í spori fer hann allt í einu af stað út á veginn.


Þó virtist nú sem umferðarreglurnar vefðust aðeins fyrir honum, því hann arkaði af stað hægra megin á veginum. Þeir sem til þekkja í Namibíu vita jú að þar í landi er vinstrihandar umferð. Stórhættulegt auðvitað að fara á móti umferð.

Ja, nema kannski ef maður er fíll. Ætli flestir bílstjórar myndu nú ekki stöðva farartæki sitt eða sveigja til hliðar ef fíll kæmi á móti þeim.

Líklega.


En eftir smástund var eins og fíllinn áttaði sig á villu síns vegar og færði sig yfir á vinstri vegarhelming.


En, fyrir okkur sem vorum fyrir aftan, var smávegis vandamál á ferð. Þótt af myndinni megi ráða að nægt pláss sé hægra megin til framúraksturs, þá vorum við nú ekki alveg til í svoleiðis ævintýri.

Það væri ekki gæfuleg frásögn í minningargreininni: „Ungu hjónin létu lífið þegar fíll slengdi rana sínum inn um bílrúðuna hjá þeim til að mótmæla ofsaakstri þeirra hjóna.”

Nei, við ákváðum að bíða með framúraksturinn. Einhvern tímann hlyti fíllinn jú að sjá eitthvað girnilegt utan vegar og vilja fá sér snæðing.

En, einhver bið varð á þessu. Við lulluðum lúshægt á eftir fílnum, og á eftir okkur var svo kominn annar bíll.

Ég var kominn með vídeómyndavélina af stað, en innsetning á þeirri heimildarmynd bíður þess að nýrri og öflugri tölva verði keypt á heimilið.

Við sem sagt lulluðum bara. Í humátt á eftir fílnum.

En eitthvað virtist okkar vera þarna fara í taugarnar á fílnum. Hann stöðvaði allt í einu göngu sína og fór á sveifla höfðinu til hliðanna og blaka eyrunum.

Lexía: Þegar fílar blaka eyrunum, þá er best að gera sig tilbúinn að taka til fótanna. Munið það, börnin góð.

Og viti menn, allt í einu snarsneri þessi þunga skepna sér við. Alveg eldsnögg í hreyfingum, sveiflaði rananum vígalega í áttina til okkar og gaf frá sér þetta svakalega stríðsöskur.

Gulla, sem var við stýrið (því mér er bara treyst fyrir myndavélum í Etosha), hafði séð hvað verða vildi og var kominn með bílinn í bakkgír. Hún gaf allt í botn afturábak og sem betur fer hafði hinn bílstjórinn einnig haft vit á bakkgírnum (örugglega líka kvenmaður undir stýri þar).

Sjálfsagt var þetta fyndin sjón. Einn gamall og hrumur fíll æsti sig aðeins og tveir bílar reykspóluðu í burtu afturábak.

Okkur var þó ekki hlátur í huga.

A.m.k. ekki fyrr en við sáum fílinn snúa sér við í rólegheitum og halda áfram för.

Búinn að sýna hver ræður. Hver það er sem er konungur veganna í Etosha.

Sem betur fer sá hann að lokum góðgæti utan vegar þ.a. við komumst aftur af stað.

Reynslunni ríkari.

Bíla..., nei, ég meina fílaþvottur

Í Etosha þjóðgarðinum sáum við heilan haug af fílum á föstudaginn var. Október er líklega besti tíminn til að heimsækja garðinn, því þá er búinn að vera þurrkur í nálega hálft ár og einungis vatn í stærstu vatnsbólunum. Þangað sækja auðvitað dýrin og þá er auðveldara að finna þau.

Ekki er hægt að segja annað en þessi fílsungi hafi kunnað að meta vatnsbólið. Hann lék sér af hjartans lyst og endaði með að stinga sér á bólakaf. Minnti hann helst á krakka í sundlaugunum.17. október 2010

Snemma beygist krókurinn

Rúnar Atli á sér nokkrar uppáhaldskvikmyndir. Tvær eru Umskiptingarnir 1 og Umskiptingarnir 2. Fyrir þá sem eru ekki sleipir í móðurmálinu, þá nefnast þessar myndir Transformers á engilsaxnesku.

Fyrir nokkrum dögum lágum við feðgarnir á hótelherbergi og horfðum á mynd númer tvö. Aðalsöguhetjan, ungur piltur, var nýbyrjuð í háskóla og mætir í partí. Eins og gengur er slangur af stúlkum í partíinu. Sem söguhetjan er að virða fyrir sér partíliðið, hvað haldiði að sex ára gamall sonur minn segi?

„Oh, man, sexy girls!”

16. október 2010

Heima er best

Við vorum að renna í hlað úr fimm daga ferð um Namibíu. Byrjuðum í Swakopmund á þriðjudaginn var, en þar þurfti ég að sækja fund. Ókum svo daginn eftir til Ondangwa, u.þ.b. tíu tíma ferðalag. Fimmtudagurinn var frekar rólegur, aksturslega séð. Fórum til Eenhana sem er nálægt landamærunum við Angólu. Þar afhenti ég menntamálaráðuneyti Namibíu heimavistarbyggingu við einn skóla heyrnarlausra.

Í gær var svo ekið um Etosha þjóðgarðinn, og þar gistum við síðustu nótt. Ókum við svo í rólegheitum aftur til Windhoek í dag.

Ýmislegt bar fyrir augu og ég reyni að mjatla inn einhverjum ferðasögum á næstu dögum.

Eins og að venju er mikill akstur í svona ferðum. Að þessu sinni 2.230 km. Sæmilegasta ferðalag.

Síðustu 12 nætur hef ég bara gist tvær í eigin rúmi. Ég hlakka til í kvöld að fara að sofa, því alltaf er nú heima best.

En fyrst verður grillað.

10. október 2010

Fullorðinnafræðsla í Mósambík

Núna sit ég á flugvellinum í Jóhannesarborg. U.þ.b. fjórir tímar í brottför til Windhoek. En sá tími vex mér ekki í augum, því eins og ég hef áður sagt þá er þetta uppáhaldsflugvöllurinn minn. Núna er ég búinn að koma mér fyrir við útsýnissvæði þar sem ég get fylgst með flugvélum koma og fara. Ekki skemmir að við hliðina á mér er innstunga þegar rafhlaðan í tölvunni fer að gefa sig. Kaffið hér er líka frábært.

En í dag hef ég aðeins verið að melta heimsóknina til Mósambíkur. Ferðin var ekki skemmtiferð. Þrátt fyrir það var hún skemmtileg. Ég ferðaðist m.a. ásamt nokkrum vinnufélögum að skoða verkefni í fullorðinnafræðslu sem stutt er af íslenskum stjórnvöldum.

Það er nefnilega þannig að þótt maður skipuleggi fram og til baka á pappír, með allskonar flæðiritum, línuritum, talnasúpu og guð má vita hverju, þá kemur ekkert í staðinn fyrir vettvangsferð. Að fara á staðinn, hitta fólk, sjá staðhætti, eins og t.d. aðbúnað þann sem fólk býr við, vegakerfið, fjarlægðir milli staða o.s.frv. Í svona ferð fær maður tilfinningu fyrir því hvort okkar verkefni skili sér til fólks og síðan það sem er ekki síður mikilvægt, hvort verkefnið sé eitthvað sem fólk raunverulega vill og hefur áhuga á. Staðreyndin er nefnilega sú að eitthvað sem einhverjum sprenglærðum fræðingi eins og mér sjálfum finnst alveg stórkostleg hugmynd, þegar ég sit inni á loftkældu skrifstofunni minni, er kannski eitthvað sem fólki sem njóta á góðs af finnst fáránlegt.

Svoleiðis er lífið stundum.

Hvað um það. Við heimsóttum sem sagt ýmsa staði í Mósambík og reyndum að meta það sem við sáum. Sumt virðist svínvirka, annað þarf að betrumbæta eitthvað. Fínstilla getum við sagt.

Einn af fullorðinnafræðsluhópunum sést hér á myndinni.


Konurnar, og í þessum hópi voru bara konur, sungu og dönsuðu fyrir okkur af mikilli innlifun. Aðspurðar sögðu þær að fullorðinnafræðslan breytti miklu fyrir þær. Eldri kona sem er fyrir miðri mynd, sagði okkur t.d. að núna skildi hún tölur. Þegar hún selur sína landbúnaðarframleiðslu á markaði sem er þarna nálægt, þá getur hún núna reiknað sjálf. Bæði til að vita hvað kúnninn á að borga og líka til að geta gefið rétt til baka. Svo sagðist hún geta séð verðin sem aðrir eru að bjóða og þá líklega aðlagað sín eftir þörfum. Þarf ekki lengur að treysta á einhvern annan.

Þarna voru líka nokkrar ungar konur sem lítið höfðu gengið í skóla. Sumar ekkert. Þær sögðu að þegar fullorðinnafræðslunni lyki þá ætluðu þær að fara í skóla til að ljúka sjöunda bekk. Þá, nefnilega, mega þær fara að kenna fullorðnum sjálfar. Það er þeirra draumur.

Síðan heimsóttum við annan bekk. Sá notast við útvarpskennslu. Kennarinn þeirra er með segulbandsspólu af kennsluþætti sem útvarpað er reglulega. Nemendurnir sitja síðan með kennslubók, fylgjast með og vinna þau verkefni sem þeim er sagt. Greinilega þótti þeim þetta erfitt, en áhuginn skein úr andlitum þeirra og öllu fasi. Kennarinn rölti síðan á milli og leiðbeindi eins og þurfti.

Þetta var ekki auðvelt. Þau voru að læra um bókstafinn u og áttu t.d. að skrifa hann í línur í bókinni. Sumir áttu erfitt með að beita blýantinum, en enginn gaf sig.

Þarna voru rúmlega 20 konur og þrír menn. Þegar kennslunni lauk sögðu nokkrir nemendur sögu sína og af hverju þeir eru á námskeiðinu.

Maðurinn sem situr lengst til hægri á myndinni, í blárri skyrtu, sagðist einfaldlega vilja sjá ljósið. Þess vegna vill hann læra að lesa. Ég hugsa að þessi maður sé yfir sextugt.


Konan sem stendur vinstra megin á myndinni hér að neðan sagði okkur að hún væri hætt að vinna vegna aldurs. „Núna hef ég loksins tíma til að læra,” sagði hún.


Hún Amilía vildi sýna okkur að hún gæti skrifað nafnið sitt. Það gerði hún svikalaust og virkilega vel. Með skrifstöfum.


Þessi unga stúlka gifti sig í fyrra. Í Mósambík þurfa nýgift hjón að kvitta á hjúskaparvottorðið. Hún kunni það ekki og því stendur undir nafninu hennar „Kann ekki að skrifa.” Þetta þykir henni sárt og nú vill hún fara og breyta þessu. Fá nýtt vottorð og kvitta fyrir sjálf.


Og svo var það þessi hérna kona. Ég ætla ekkert að segja hvað henni finnst um að hafa tækifæri á að læra að lesa. Stundum segja jú myndir meira en þúsund orð.

Við Indlandshaf

„Vá, Indlandshaf!” var það fyrsta sem mér datt í hug á fimmtudagseftirmiðdaginn var. Ég var nýkominn á Barra gistiheimilið rétt utan við Inhambane í Mósambík. Gullinlituð ströndin teygir sig til beggja handa og grænblátt hafið nær eins langt og augað eygir.

Mér er sagt að þessi strönd sé ein af fimm flottustu sólarströndum í heimi, skv. einhverju ferðatímariti. Sel það ekki dýrara en ég keypti, en mér fannst hún flott.

Allt auðvitað pakkað af fólki?

Neibb, ekki hræða á ströndinni.

Og þó, ég skrökva. Meðfram sjónum ganga þrír menn og ein kona. Sú ber stóran pinkil á höfðinu. Mennirnir sýnist mér vera fiskimenn.Ég gisti tvær nætur þarna. Fyrri morguninn ákvað ég að fara í göngutúr vestur með ströndinni. Sandurinn var þéttur og fínn, sumstaðar næstum eins og malbik. Gaf þó pínulítið eftir. Seinni morguninn ákvað ég að prófa að skokka í hina áttina. Það var skemmtilegt. Ég lagði af stað rétt fyrir sex um morguninn og sá ýmislegt fróðlegt á leiðinni. Þarna voru nokkrir berfættir fiskimenn að koma til vinnu. Báru fötur með netum og einhverju öðru sem til veiðanna þarf. Einhverjir strákguttar, kannski 10-12 ára voru með þeim. Sjálfsagt spennandi að fara með pabba eða bróður á sjóinn.

Bátarnir sem voru dregnir á land á ströndinni voru hrörlegir. En greinilega mikið notaðir.

Þótt ég hefði ekki skokkað mjög lengi, þá sá ég ýmsar andstæður sem eru umhugsunarverðar.

Eftir að sjá þessa berfættu sjómenn, sló svolítið skökku við að sjá fjórhjóladrifinn Landkrúser, reyndar gamlan, koma keyrandi eftir ströndinni með flottan Sómabát í eftirdragi. Kannski ekki Sómabátur, en eitthvað svipað. Þarna var leiðsögumaður á ferð með túrista og átti að fara að veiða, því fínar veiðistangir voru um borð í bátnum.

Síðan sá ég ástfangna ferðamenn í rómantískum göngutúr eftir ströndinni. Sjálfsagt lítið að hugsa um lífsbaráttu fiskimannanna. Ímynda ég mér.

Eins og fyrr sagði voru fiskimennirnir berfættir. Ég hins vegar í fínum adidas-skóm. Fiskimaður væri líklega í marga mánuði að vinna sér inn fyrir svoleiðis.

Já, stundum skilur maður ekki alveg óréttlæti lífsins.

En fyrir þá sem eru forvitnir, þá hljóp ég 5,4 km á 38 mínútum og 39 sekúndum. Meðalhraði 8,4 km/klst og mesti hraði 10,7 km/klst. Ég var hæstánægður með tímann og þolið, enda langt síðan ég hef reynt mig við svona hlaupatúr.

6. október 2010

Mósambísk tónlist og dansar

Fyrir 20 mínútum eða svo hófst drynjandi trumbusláttur í hótelgarðinum fyrir utan herbergið mitt hér á hóteli Cardoso. Ég fór auðvitað til að sjá hvað væri í gangi. Þarna var mætt fimm manna trumbusveit. Voru trumburnar barðar ótt og títt með miklu offorsi og þvílíkum rytma og takti að það er bara ekki annað hægt en fara að dilla sér.

Síðan birtust dansarar. Fyrst komu fjórir piltar klæddir eins og afrískir hermenn, með spjót og leðurskildi. Þeir sýndu dans sem samanstóð að sannkallaðri akróbatík. Fóru þeir hvert heljarstökkið á fætur öðru, svo unun var að sjá. Ég efast ekki um að þessir drengir gætu stokkið hæð sína í fullum herklæðum, eins og sagan segir um Gunnar á Hlíðarenda.

Síðan birtust fjórar meyjar. Ekki var fimin minni hjá þeim, en þó á annan hátt. Hristu þær mjaðmir, hendur og axlir af þvílíkum krafti að ég hefði í raun talið það ómögulegt ef ég hefði ekki séð með mínum eigin augum.

Nú, sem ég skrifa þetta, eru báðir hóparnir komnir út á grasflötina í sameiginlegum dansi og er hreint út sagt stórkostlegt að horfa á þetta.

Greinilega er Mósambíkum tónlist í blóð borin.

4. október 2010

Aldingarðurinn Eden í Afríku

Klukkan nálgast hálftólf að kveldi. Ég sit núna úti á verönd fyrir utan hótelherbergi mitt á Hotel Cardoso í Mapútó. Herbergið er á annarri hæð hótelsins. Rétt utan seilingar er 15 metra hátt pálmatré og blakta greinar þess í hafgolunni. Ég horfi yfir hótelgarðinn, þar sem fleiri pálmatré eru. Einnig eru þar borð og stólar undir trjánum. Tréin veita sjálfsagt skugga á sólríkum dögum. Svo sé ég ljós húsa hinum megin við flóa, sem ég veit því miður ekki nafn á.

Fyrr í kvöld fór ég ásamt þremur öðrum Íslendingum út að borða á sjávarréttastað sem heitir Sagres. Fékk mér sjávarréttaspjót sem smakkaðist frábærlega. Að matnum loknum fékk ég mér expresso og koníak. Hvað vill maður hafa það betra? Verst að Gulla skuli ekki vera með í ferðinni. En við komum hér ábyggilega saman seinna.

Ég sannfærist alltaf meira og meira um að aldingarðurinn Eden hljóti að hafa verið í Afríku. Hann gæti hafa verið við Kunene-ána, eða Kavangó-ána, eða Sambesi-ána, eða nálægt Viktoríufossum, nú eða hér í Mapútó. Svo er Windhoek ekki slæmur staður, langt í frá.

Afríka virðist endalaust uppspretta stórkostlegra staða.

Jóhannesarborg

Sit á flugvellinum í Jóhannesarborg í góðu yfirlæti. Þetta er uppáhaldsflugvöllurinn minn, mátulega stór, ekki of mikið af fólki, forvitnilegar búðir og gott kaffi.

Flugið frá Windhoek gekk vel. Ekki nema 16 farþegar og vélin lagði af stað langt á undan áætlun. Lentum hér klukkutíma fyrr en planað.

Hið besta mál.

Ég læt bara fara vel um mig.

Ferðalag

Á eftir legg ég af stað í nokkurra daga ferðalag. Til Mósambíkur, hvorki meira né minna. Byrja á tveggja tíma flugi til Jóhannesarborgar, bíð þar í aðra tvo og svo klukkutími þaðan til Mapútó. Þar eyði ég tveimur dögum í fundastúss og síðan verður farið í þriggja daga ferðalag til að skoða verkefni Þróunarsamvinnustofnunar. Ég kem síðan ekki aftur heim fyrr en á sunnudagskvöldið.

Vonandi verður eitthvað þess virði að segja frá.

3. október 2010

6 hæða vaffla

Í gær, sem svo oft um helgar, bökuðum við vöfflur. Stundum biður Rúnar Atli um þriggja hæða vöfflur, en í gær hljóp honum kapp í kinn. Sex hæðir þurfti, minna dugði ekki.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...