26. desember 2008

Skoppa

Við feðgarnir fórum í Smárabíó fyrr í dag. Frumsýningardagur á Skoppu og Skrítlu. Keyptum miða í gær á midi.is til að vera nú alveg öruggir að fá sæti. Hefðum nú ekki þurft að hafa áhyggjur því frekar fáir voru í bíó. Þó hittum við frænku okkar frá Vatnsskarðshólum, hana Unni og fjölskyldu hennar. Langt er síðan ég hef séð hana og því var þetta skemmtileg tilviljun.

Rúnar Atli skemmti sér vel á myndinni og ekki skemmdi fyrir að hitta Skoppu sjálfa.

Ljósaverkir

Stundum hefur ljósagangur valdið okkur hjónunum smávandræðum. Gullu finnst nefnilega gott að sofna útfrá bókalestri, en þá vill brenna við að náttlampinn sé enn kveiktur. Ekki er laust við að þetta ergi mig aðeins. Ég á því til að fara framúr rúminu, labba hringinn, slökkva á lampanum, labba til baka og leggjast á ný upp í rúm. Sofna svo bara í rólegheitum.

Gott mál?

Jú, nema hvað að bröltið í mér vekur iðulega mína heitelskuðu, svo hún kveikir á lampanum og fer að lesa á nýjan leik...

Ég ímynda mér að lesendur séu farnir að átta sig á þeim vítahring sem hér getur myndast.

Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að bjarga þessu vandamáli. Hafa svonefndir ljósálfar verið mjög vinsælir í jólapökkum frúarinnar á liðnum árum. Raunin hefur þó verið að þetta er skammgóður vermir. Iðulega fara perurnar fljótlega og einhverra hluta vegna er ekki auðvelt að finna þær í búðum.

Dætur okkar vita af þessum ljósaverkjum foreldranna og reyna að koma með lausnir. Enda góðar dætur.

Dagmar Ýr rakst á meðfylgjandi leslampa á femin.is.


Var hennar von að þarna væri lausnin komin og gaf mömmu sinni lampann því í jólagjöf.

Í gærkvöld sem leið var prufukeyrsla. Ég rumskaði einhvern tímann og þetta fína myrkur í herberginu, aðeins smátýra lifði á lampanum og Gulla að lesa. Ég hélt því áfram að sofa í sæluvímu.

Nema hvað.

Stuttu seinna vakna ég aftur. Þá var Gulla steinsofnuð. Kveikt var á nýja fína leslampanum og haldiði ekki að geislinn hafi lýst beint í andlitið á mér... :-(

Sumu tekst bara ekki að breyta.

25. desember 2008

Jólin komin

Loksins komu jólin. Rúnar Atli var orðinn óþreyjufullur og á miðjum aðfangadegi var spenningurinn eiginlega orðinn of mikill. Hann langaði nefnilega svooo mikið að opna pakka.

En allt kom þetta að lokum. Hann var auðvitað fyrstur að klæða sig í sparifötin, þ.a. mynd náðist af honum við jólatréið á meðan dæturnar voru enn að gera sig tilbúnar.

Ó, það verður að taka fram að Tinna Rut stóð sig eins og herforingi í tiltekt allan aðfangadag. Hún skúraði gólf, þreif klósett, fægði silfur og örugglega eitthvað fleira sem mér láist að nefna. Þetta lenti allt á henni, því Dagmar Ýr var að vinna frá átta til fjögur í tíu-ellefu.

Að lokum voru öll börnin tilbúin í myndatöku.

Ósköp erum við Gulla nú efnuð að eiga börnin okkar.

Gleðileg jól öllsömul og kærar þakkir fyrir okkur.

21. desember 2008

Jólatrésskreyting

Í dag skreyttum við jólatréð okkar. Nokkuð seinna en venjulega. Yfirleitt erum skreytum við á afmælisdaginn minn, en núna var eitthvað svo mikið að gera að ég stakk upp á því að kaupa tréð þann 19. des. Svo hefur verið endalaust vesen á þessari fjölskyldu, vinna og svoleiðis, og því hefur skreyting beðið. En loksins áðan létum við verða af þessu.

Rúnar Atli var nokkuð spenntur og var ekki hægt annað en brosa að ákefð drengsins.


Einbeitingin var mikil, en viðurkenna verður að drengurinn gerði þetta allt saman vel.

Ekki var aðeins einbeiting hjá guttanum, móðirinn spáði mikið í uppsetninguna líka.

Jú, en svo voru aðrir sem einbeittu sér að öðru meira spennandi...


Lokahnykkurinn var svo að setja toppinn á. Hver skyldi hafa beðið um það hlutverk? Með samvinnunni hafðist þetta.

Landsbyggðin

Í gærmorgun vöknuðum ég, Tinna Rut og Rúnar Atli fyrir allar aldir. Ástæðan var ferð til Grundarfjarðar að sækja ömmu barnanna. Hún ætlar að vera á Suðureyri yfir hátíðarnar og flýgur frá Reykjavíkurflugvelli á mánudaginn.

Aldrei þessu vant var Tinna Rut æst í ferðalag út á land. Auðvitað var hún að sverma eftir æfingaakstri. Hún hóf ferðina undir stýri, en nokkur snjókoma var. Síðan þegar komið var í gegnum Mosfellsbæ ákvað ég að nú væri nóg komið af æfingaakstri. Enda snjókoma og skafrenningur, svo varla sá úr augunum.

Við lulluðum síðan áfram til Borgarness og áðum þar. Borgarnes er jú eini staðurinn á Íslandi sem ég veit til að hægt sé að kaupa ástarpunga. Því stoppa ég alltaf í Geirabakaríi og kaupi poka eða tvo af ástarpungum.

Ekki minnkaði snjókoman. Varla sá handa sinna skil á Mýrunum. Einungis sáust ljós á Dalmynni, ekki var hægt að sjá bæinn. En að lokum hafðist að komast til Grundarfjarðar og ók Tinna Rut síðasta spölinn.

Í Grundarfirði gaf á að líta. Allt á kafi í snjó. Hér sést bíllinn okkar fyrir utan Smiðjustíginn. Kannski sést Tinna Rut undir stýri.
Mikið verður svo gaman að sýna Namibíumönnum hvernig garðhúsgögn á Íslandi líta út yfir jólahátíðina :-)

Tinna Rut fékk síðan að aka frá Grundarfirði að Vatnaleið og tók svo aftur við í Mosfellsbænum. Hér sést hún, fyrir brottför frá Grundó, taka bensín sjálf í fyrsta sinn á ævinni. Verst að pabbinn þarf enn að borga...

19. desember 2008

Ferðalagið til Íslands

Var að hlaða niður myndum af myndavélinni minni. Útbjó þessa myndasyrpu af ferðalagi okkar Rúnars Atla til Íslands.

Hér erum við nýbúnir að losa okkur við töskur og komnir með brottfararspjöld. Rúnari Atla þótti langt að bíða eftir að komast um borð. En, eins og hans er von og vísa, er bara að láta fara vel um sig á meðan.

Næsta mynd er tekin í Frankfurt. Þarna er setið á McDonald's og gætt sér á hamborgara. Við vorum einu gestirnir á þessum útiveitingastað, enda ekki nema tveggja stiga hiti. En, við erum víkingar og Íslendingar svo ekki kipptum við okkur upp við það.

Loksins fengum við brottfararspjöld fyrir flugið frá Frankfurt til Keflavíkur. Enn þurfti að bíða. En í Frankfurt var fínt leiksvæði fyrir börn og auðvelt að drepa tímann þar.

Ýmsir aðrir en Rúnar Atli létu fara vel um sig á meðan beðið var.

Þrátt fyrir allt er erfitt að vera ferðalangur. Því var gott að leggja aðeins aftur augun í Flugleiðavélinni. Gott líka að hvíla sig aðeins áður er farið að berjast við frost og snjó.

18. desember 2008

Ökusnillingur

Þá er hún Tinna Rut komin með æfingaleyfi. Búin með ökuskólann, 1 og 2, og einnig búin með um 12 ökutíma. Faðir hennar má nú sitja með henni í bíl, fylgjast með akstrinum og veita góð ráð. Hér sést stúlkan fyrir utan lögreglustöðina í Kópavogi, nýkomin með æfingaleyfið.


Við fórum einn hring, niður Reykjanesbrautina, upp Ártúnsbrekkuna, Suðurlandsveg upp að Rauðavatni og svo bakaleiðina upp í Breiðholt aftur. Gekk mjög vel.

Svo áðan fórum við í bíltúr í Eyjabakkann og aftur ók Tinna Rut. Fórum þaðan í Smáralindina og hún fékk að keyra nær alla leið þangað.

Ég er semsagt búinn að sjá tilganginn með mínu lífi næstu mánuði...

14. desember 2008

22 ár

Í dag eigum við Gulla brúðkaupsafmæli. Höfum verið gift í 22 ár. Ég var að uppgötva að þar sem ég er ekki alveg orðinn 44 ára gamall, þá hef ég verið giftur meira en hálfa ævina. Sömu konunni, vel að merkja.

Merkilegur áfangi.

12. desember 2008

Ferðalagið nálgast

Nú styttist í Íslandsferð hjá okkur feðgum. Á morgun, kl. 20:45 að staðartíma tekur flug SW285 sig á loft með okkur innanborðs. Leiðin liggur fyrst til Frankfurtborgar, en þar lendum við um sexleytið á sunnudagsmorgun. Við munum setjast inn á hótel sem er á flugvellinum, svona til að halda okkur frískum. Síðan skömmu fyrir kl. tvö fljúgum við áleiðis til Íslands. Áætlaður komutími tuttugu mínútur gengin í fimm eftir hádegi.

Ýmislegt hefur verið gert til að undirbúa þessa ferð. Í dag fórum við Rúnar Atli í jólaklippinguna. Tímann pantaði ég fyrir tveimur mánuðum. Aðeins. Hárskerinn nefnist Luigi, namibíumaður af ítölskum ættum. Kominn eitthvað yfir fimmtugt, en er iðulega með þrjár efstu tölurnar fráhnepptar á skyrtunni til að sjáist í gullkeðjurnar. En er mjög flínkur klippari, það verður ekki af honum skafið. Rúnar Atli er alltaf eins og myndastytta hjá honum, situr grafkyrr. Kallinn hefur lúmskt gaman að honum, t.d. í dag var Rúnar Atli að gretta sig og geifla framan í spegilinn. Alveg í sínum eigin heimi. Gaman að þessu.

Svo fórum við á kaffihús. Um að gera að taka út skammtinn hér, því ekki á ég von á því að stunda kaffihús heima á Fróni.

Jæja, guttinn er í baði núna. Ætli sé ekki kominn tími á þurrkun og síðan svefninn.

7. desember 2008

Swakopferðin

Við feðgarnir höfðum það gott um helgina í Swakopmund. Fórum í verslanaleiðangur á laugardagsmorguninn, en fundum reyndar ekki mikið til að kaupa. Þó kíktum við í töluvert margar búðir, og brá Rúnar Atli á leik fyrir utan eina búðina.

Við fórum svo í göngutúr niður á strönd. Keyptum okkur ís. Röltum um svæðið í fínu veðri. Hitastigið var 23 gráður og sjávarhitinn var 17 gráður. Rúnar Atli mátti ekki heyra á það minnst að stinga tánum í sjóinn. Ótrúlegt hvað einhverjar bíómyndir um hákarla sitja í honum.

En í sund var drengurinn tilbúinn að fara. Við keyptum ný sundföt handa honum. Hin lágu inni í fataskáp í Vindhúkk, sællar minningar. En sundlaugin var hápunktur helgarinnar hjá honum, ekki nokkur spurning. Hér sést hann stinga sér í laugina.

Hér er hann að busla áfram. Já, í bakgrunni sést fína hótelið sem sumir lesendur öfundast yfir.

Hér má sjá gosbrunnana sem eru í lauginni. Flottir höfrungaskúlptúrar.

Svo var maður vafinn inn í handklæði og lá á draumabekk móðurinnar til að hlýja sér aðeins. Tveimur tímum eftir að þessi mynd var tekinn var guttinn kominn aftur út í laugina.

Helgin var velheppnuð. Við skemmtum okkur báðir vel. Reyndar náði óhófslífið í skottið á okkur þegar Rúnar Atli kastaði upp í bílnum, 97 km frá Swakopmund á leiðinni heim. Smáhreingerningarstarf þurfti, en það var fljótt að gleymast.

5. desember 2008

Að fjallabaki

Við Rúnar Atli skruppum bæjarleið í dag. Eftir vinnu hjá mér og leikskóla hjá honum lögðum við af stað til Swakopmund. Við ætlum að versla svolítið í fyrramálið og fara svo í sædýrasafnið og gera ýmislegt fleira til skemmtunar eftir hádegið.

Á föstudögum er oft leiðindaumferð á veginum til strandarinnar, svo við ákváðum að keyra fjallveginn. Hann er 50 km styttri, en mjög krókóttur fyrri hluta leiðarinnar. Er líka malarvegur. En miklu skemmtilegri leið. Vegurinn er aðeins farinn að láta á sjá eftir rigningar undanfarinnar viku og hvörf í honum. Þegar tilefni gafst hrópaði ég: „Hola, hola,” og svo skellihlógum við þegar við hossuðumst upp og niður. Gaman hjá feðgunum.

Varla var bíll á ferð; teljandi á fingrum sér. Síðustu sjö kílómetrana - af 335 - ókum við á aðalþjóðveginum og mættum við þá um þrjátíu bílum á þeim stutta kafla.

Einu þarf ég að segja frá. Við höfum talað um þessa ferð alla vikuna. Nokkrum sinnum hef ég nefnt að synda jafnvel í sjónum. Rúnar Atli hefur tekið heldur fálega í það, en ekkert útskýrt meira af hverju hann er ekki spenntur fyrir því. Í bílnum í dag kom síðan upp úr kafinu að honum líst ekki á að synda í sjónum útaf hákörlum. A-ha... Ég sagði honum þá að þetta væri ekkert mál, það væri girðing fyrir krakkana að synda innan. Síðan væru hákarlar langt út í sjó. Þá fór hann að segja mér að hann gæti ekki farið í sund. Nú, það þótti mér undarlegt og spurði af hverju. „Ég er ekki með sundföt,” sagði hann. Bíddu, það getur ekki verið því ég setti sundfötin í töskuna þína sagði ég honum. Frá Rúnari Atla kom fyrst smáþögn, svo sagði hann: „Ég tók sundfötin úr töskunni og setti inn í fataskáp!” Pabbinn var ekki alveg sáttur við það...


Útsmoginn gaur.

Við komum til Swakop rétt fyrir sjö og tékkuðum okkur inn á fínt hótel. Ekkert slor hjá okkur feðgum þegar við ferðumst tveir saman...

Nú þarf bara að sjá hvernig við reddum sundskýlu til að komast í laugina.

4. desember 2008

Eins dauði er annars...

Ég á forláta lyklakippu sem ég erfði frá pabba. Á henni er mynd af Caterpillar jarðýtu. Þessa kippu fékk pabbi þegar hann um miðjan sjötta áratug síðustu aldar þáði boð að heimsækja Caterpillar verksmiðjur í Bandaríkjunum. Hefur áreiðanlega þótt mikið ævintýri á miðju haftatímabili. Haftatímabili hinu fyrra. Þessi kippa er einn af mínum mestu dýrgripum.

Í hádeginu fór ég til tannlæknis. Kona sú rekur augun í lyklakippuna og fer að spyrja mig um hana. Þegar ég hef lokið sögu kippunnar, þá fer hún að segja mér frá þýskri konu sem giftist namibískum manni fyrir nokkru síðan og fluttist búferlum til Namibíu. Áður en konan fer frá Þýskalandi tryggði hún skartgripina sína. Fyrst þurfti hún þó að láta meta þá til verðgildis. Einn af hennar uppáhaldsgripum var glæsilegur gullhringur sem hún erfði frá ömmu sinni. Hún segir matsmanninum hvaðan hringurinn komi. Sá horfir á hringinn, skoðar svolítið, og segir svo: „Já, há, svo afi þinn var nasisti." Kom á konuna, sem hváir og spyr hvað hinn eigi við. Jú, sá vildi meina að þessi hringur hefði verið í eigu gyðinga sem lentu í útrýmingarbúðum nasista.

Eitthvað minnkaði verðmæti ömmuhringsins í augum konunnar eftir þetta.

3. desember 2008

Snjókoma!

Nú er að líða að hásumri hér í Vindhúkkborg. Í hádeginu sat ég út á verönd með bók í hönd. Var ég að íhuga að tími væri kominn til að leggja af stað í vinnuna. Allt í einu upphefst þessi dómadagshávaði og átti ég fótum fjör að launa. Haldiði að þetta líka heljarinnar haglél hafi ekki allt í einu byrjað.

Eins og þruma úr heiðskíru lofti. Bókstaflega.

Hamagangurinn var þvílíkur að lauf rifnuðu í stórum stíl af trjám. Tóku allar ár í borginni upp á því að renna af oforsi. Enda var gaman að göslast í vinnuna. Varð reyndar hundblautur við að hlaupa þá tíu metra eða svo sem þarf að fara til að komast út í bíl.

En hér er ein mynd til sönnunar haglélinu.

1. desember 2008

Íþróttastuð

Rúnar Atli hefur lengi átt einn Latabæjardisk. Einhverra hluta vegna hefur hann aldrei horft á hann svo heitið geti. En nú fyrir nokkrum dögum uppgötvaðist diskurinn. Nú horfir Rúnar Atli daglangt á Glanna glæp og hitt liðið allt saman. Svo heyrist í honum: „Þokkalega...”

En nú er íþróttaálfurinn í miklu uppáhaldi og reynt að herma eftir honum eins og meðfylgjandi syrpa sýnir. Kannski best að taka fram að á meðan á þessum æfingum stendur þá er drengurinn að horfa á Latabæ...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...