17. nóvember 2012

Gaman í vinnunni

Ég verð að viðurkenna að oft er gaman í vinnunni. Sumt er skemmtilegra en annað. Stundum er verið að hleypa einhverju af stokkunum eða afhenda eitthvað. Þá er yfirleitt gerður dagamunur og sungið og dansað.

Um nokkurt skeið hefur staðið yfir undirbúningur á tilraunaverkefni sem minn vinnuveitandi, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. og menntamálaráðuneyti Malaví standa að. Matvælaáætlunin hefur borið hitann og þungan af þessu, en ÞSSÍ leggur til fjármagnið. Markmið verkefnisins er að koma á laggirnar heimaræktuðum skólamáltíðum í þremur skólum. Svona verkefni hafa tekist mjög vel í Brasilíu og nú reynir á hvort þetta virki í Malaví.

Í gær var verkefninu hleypt formlega af stokkunum. Eins og venjan er við svoleiðis tækifæri þurfa ýmsir að láta ljós sitt skína og halda ræður. Ég var einn þeirra. Ræðurnar, þótt góðra gjalda verðar, eru hins vegar ekki skemmtilegasti hluti svona tækifæra, heldur söngvar og dansar barnanna sem munu  njóta góðs af verkefninu. Ég sat á besta stað og var með litla myndavél sem getur tekið kvikmyndir. Nýtti ég því tækifærið og myndaði mörg skemmtiatriðin.

Hér er myndskeið sem gefur ykkur nasasjón af því sem fyrir augu mín bar.


2. nóvember 2012

Úgöndu ferð


Síðustu viku hef ég verið að heiman. Úganda var áfangastaðurinn. Sótti ég fund og námskeið þar. Einnig fóru þrír dagar í vettvangsferðir. Í þeim lá leiðin annars vegar austur á bóginn í sunnanverðri Úgöndu, eiginlega alveg að landamærum Austur Kongó, og hins vegar út á tvær eyjur í Viktoríuvatni. Þetta var mikill hristingur í bíl og á ég eftir að kíkja á kort til að átta mig betur á yfirferðinni.

Þetta var í þriðja skiptið sem ég sæki Úgöndu heim, en aldrei séð jafnmikið af landinu og nú. Sem ég sit í flugvélinni á leið til Lílongve og hugsa til baka um þessa daga þá stendur líklega tvennt uppúr. 

Það fyrra er náttúrufegurð. Úganda, a.m.k. sá hluti sem ég flæktist um, er fallegt land. Iðagrænt og frjósamt. Gróður vex út um allt. Enda skilst mér að hungur sé nær óþekkt í þessu landi. Bananar eru uppistaða í matreiðslu heimamanna. Þarna vaxa mismunandi tegundir af banönum, líklega einar fjórar, sumar sem eru ótrúlega góðar í eldaða rétti og svo tegundir sem eru góðar til átu ferskar. Svona eins og þeir bananar sem við Íslendingar þekkjum fyrst og fremst.

Og ananasinn, maður minn! Ferskur ananas er þvílíkt lostæti þarna að ég hef sjaldan kynnst öðru eins. Safaríkur og sætur, en þó mildur, á bragðið. Hann bráðnar í munninum á manni. Bókstaflega.

Alls konar ávextir aðrir og grænmeti er ræktað þarna. Og allt hvert öðru betra. Útaf þessari gnótt ávaxta og grænmetis þá held ég að hungur sé sjaldgæft í Úgöndu.

Það síðara sem uppúr stendur er ekki alveg jafnskemmtilegt afspurnar.

Umferðin.

Æjæjæ, þvílíka og aðra eins umferð hef ég varla nokkurn tímann séð. Akstursmátinn er skelfilegur. Kampala, sem er höfuðborgin, er lyginni líkust þegar umferð ber á góma. Þar er frekar lítið af umferðarljósum og grunar mig að ástæðan sé að engum dytti í hug að fara eftir þeim. Í stað umferðarljósa eru hringtorg á helstu gatnamótum. Þessi hringtorg virðast mér vera uppspretta tafanna sem maður upplifir þarna.

Aðferðin við að aka inn í hringtorg er einhvern veginn á þessa leið. Þegar maður nálgast hringtorgið, þá læsir maður höfðinu þannig að maður sé einungis fram fyrir sig. Alls ekki að horfa til hliðar til að sjá hvernig umferðin er í hringtorginu. Síðan er leiðin að aka bara inn í hringtorgið, án nokkurs tillits til umferðarinnar sem í hringtorginu er. Stundum fannst mér jafnvel gefið í þegar hringtorg nálgaðist. 

Þessi akstursmáti gerir það að verkum að fyrir svona nýgræðing eins og mig þá er umferðin í hringtorgum gersamlega óskiljanleg. Og hvernig nokkur bíll kemst í gegnum hringtorg án þess að lenda í þremur, fjórum árekstrum er fyrir ofan minn skilning.

En einhvern veginn gengur þetta.

Að lokum.

Mér er sagt að á háannatíma stjórni lögregluþjónar umferðinni á helstu gatnamótum. Þá hleypa þeir víst umferð í eina átt í 15 - 30 mínútur áður en þeir stoppa hana og hleypa umferð í aðra átt. Bíða svo í svipaðan tíma og hleypa þá umferðinni af stað í fyrri áttina o.s.frv. Því getur þurft að sitja lengi í kyrrstæðum bílum.

Einn daginn um kvöldmatarleytið var ég í bíl sem lenti í svona löggustoppum. Í einu hringtorgi sá ég þrjá lögregluþjóna sem voru að stjórna umferðinni. Hver á sinni götu inn í hringtorgið. Ekki virtist mér mikil samhæfing á ferð þar, enda tók um 20 míntútur að komast þrjá-fjórðu úr hring.

Ótrúlegt.

Að umferðinni undanskilinni, þá þykir mér mikið til Úgöndu koma. Vonandi fæ ég fleiri tækifæri til að komast þangað síðar.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...