28. maí 2006

Nasistar

Bara svona útaf þessum nasistaathugasemdum, þá má vekja athygli á því
að Tinna Rut og Adolf Hitler eru bæði fædd 20. apríl.

Ef einhverjum finnst það merkilegt.

Sorgarsagan um hárið...

Eins og sést á myndum hér á síðunni er hún Tinna Rut búin að vera að
stunda tilraunastarfsemi á hárinu á sér. Allt í lagi með það. Eða
hvað?

Önnur önnin hófst í skólanum hennar um miðjan maí, 16. dags þess
mánaðar að mig minnir. Þá voru einhverjir dagar liðnir síðan
sköpunarverkið í hárinu leit dagsins ljós. Nú, svo líður tíminn, og
síðan er það 24. maí, að einn kennari víkur sér að henni Tinnu Rut og
segir henni að háraliturinn samræmist ekki skólareglum! Úbbs, þar fór
nú það. Ekkert þýðir að áfrýja svona dómum. Skv. óformlegum reglum
hefur Tinna Rut núna eina viku til að kippa málum í liðinn. Því bendir
allt til þess að í komandi viku verði hárið hennar einlitt á nýjan
leik. Ef ekkert verður gert þá má eiga von á brottvísun úr skóla...

Örlítið meiri agi sunnan við miðbaug.

26. maí 2006

Afmæli!

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í DAG,
hún á afmæli hún Gulla!
hún á afmæli í dag.

Hún er kornung í dag
hún er kornung í DAG,
hún er kornung hún Gulla!
hún er kornung í dag.

Gulla mín. Innilega til hamingju með daginn!

25. maí 2006

Alveg obbosslega frægur

Ég hef nú lítið gert af því að skrifa um vinnuna mín hér. Finnst það
ekki alveg passa inn á þessar síður, svona yfirleitt. En á mánudaginn
fór ég á fund sem varð skemmtileg lífsreynsla. Ég fór nefnilega að
spjalla við forseta Namibíu útaf ákveðnu verkefni sem við erum að vinna
að. Efnið skiptir ekki máli hér, en þar sem umdæmisstjóri stofnuninnar
þurfti að fara til Íslands þá kom í minn hlut að mæta forsetanum einn.
Mér fannst það nú ekkert merkilegt í sjálfu sér, ekkert frekar en
margir aðrir fundir sem ég fer á. En það var gaman að spjalla við hann.

Ég hefði nú ekkert farið að tala um þetta hér, nema vegna þess að
heilmikið mál var gert úr þessum fundi. Sjálft NBC - namibíska RÚV -
mætti nefnilega á staðinn. Myndaði í bak og fyrir meðan við forsetinn
vorum að heilsast. Ekki nóg með það, heldur var tekið viðtal við mig að
loknum fundi og birtist það víst um kvöldið og aftur í morgunþætti
þeirra daginn eftir.

Alveg obbosslega frægur... næstum eins og mexíkósku dömurnar...

Tinna Rut tollir í tískunni

Langt hlé

Nokkuð er orðið síðan síðasti pistill kom inn. Er einkum um að kenna
veikindum sem drógu úr mér allan mátt í hátt í 10 daga. En nú er piltur
orðinn hress á nýjan leik og vonandi fara pistlarnir að seytla inn á
netið, hvort sem það er nú öðrum til ánægju eður ei.

Veikindin, já, er eitthvað skemmtilegt að tala um þau? Fékk sýkingu af
einhverju tagi og sennilega hefur kvefpest í ofanálag lagt mig í rúmið.
Hálsinn á mér tvöfaldaðist. Jæja, kannski smáýkjur, en hann bólgnaði
a.m.k. töluvert. Ég fór til læknis á mánudag í síðustu viku og var bara
sendur beint heim. Síðan mætti ég ekki í vinnu fyrr en á föstudegi.
Þoldi það nú ekki betur en svo að seinnipart þess dags sat ég ýmist eða
lá hríðskjálfandi og varla í þessum heimi. Gott að vinnukonurnar báðu
ekki um peningalán þann eftirmiðdaginn. Svo allt í einu klukkan tíu um
kvöldið þá rénaði af mér og ég kenndi mér ekki nokkurs meins. Síðan þá
hefur allt verið á uppleið. Mætt í vinnu eins og herforingi, alveg
stáli sleginn.

Annars eru alls kyns pestir í gangi hér núna. Það snöggkólnaði um
daginn og hefur verið skítkalt um leið og sólin sest. Síðan eru skólar
nýbyrjaðir eftir nokkuð frí og það kann aldrei góðri lukku að stýra.
Hettusótt gengur víst á leikskólanum hans Rúnars Atla, en hann virðist
ætla að sleppa í þetta skiptið.

Látum þetta duga um sjúkdóma og svoleiðis í bili og vonandi verða næstu
pistlar um skemmtilegri málefni.

16. maí 2006

Ja, nú er það svart

Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug fyrir nokkrum dögum þegar ég
ætlaði að athuga klukkan hvað Evrópusöngvakeppnin væri á BBC Prime. Ég
gat bara ekki séð neitt um þessa keppni, hvorki í sjónvarpsvísinum, né
á dagskrárrásinni í sjónvarpinu, hvað þá heldur á heimasíðu BBC Prime.
Loksins tókst mér að finna spurt og svarað síðu og þá kom í ljós að
söngvakeppnin verður því miður ekki sýnd í Afríku þetta árið.
Aaarrrgggghhhh!

Við Tinna Rut fórum að flippa skelfingu lostin á allar þær evrópsku
stöðvar sem við náum, en horfum aldrei á vegna tungumálaörðugleika.
Fundum ekkert. En nú virðist vera að rofa til. Ég fór á heimasíðu
gríska ríkisútvarpsins, því náum við, og get ekki betur séð en
söngvakeppnin verði sýnd þar! Þvílíkur léttir, en örugglega verður
svolítið stress fram á fimmtudagskvöldið hvort þetta sé nú ekki
örugglega rétt.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á grísku.

Ekki er lítið á sig lagt til að fylgjast með.

15. maí 2006

Krankleiki

Í morgun pantaði ég mér tíma hjá lækni. Gerist nú ekki oft, líklega
fékk Gulla áhyggjur þegar hún frétti af þessu. En þannig var að á
laugardagsmorguninn var þá vaknaði ég með þessa líka leiðindahálsbólgu
og beinverki um allan skrokk. Lá ég bara fyrir frá 11 til
kvöldmatarleytis, og glápti á sjónvarp. Leið barasta ekki vel. En
reiknaði nú með að þetta yrði orðið betra á sunnudeginum. En svo varð
ekki. Uppúr hádegi var ég orðinn mjög slappur og lagðist hreinlega upp
í rúm. Byrjaði að lesa Da Vinci lykilinn og hætti ekki fyrr en sú bók
var búin, allar 593 blaðsíðurnar. Nú í morgun leið mér lítið betur. Hef
átt í erfiðleikum með að kyngja mat og hef lítið sofið undanfarnar tvær
nætur.

Ég hringdi því í lækninn. Venjulega batnar mér svona smálegt á
sólarhring eða tveimur, en nú var sá þriðji byrjaður og mér leið ekkert
betur, jafnvel verr ef eitthvað var. Læknirinn skoðaði mig og sýnist
þetta vera einhver bakteríusýking. Ég var sendur í blóðprufur, tvær svo
flóknar að senda þarf blóðið alla leið til Höfðaborgar. Útkoman úr því
fæst ekki fyrr en á miðvikudag.

Síðan var ég rekinn heim og sagt að mæta ekki til vinnu í a.m.k. tvo,
jafnvel þrjá daga. Má alls ekki stressa mig - streyta æsir víst upp
svona sýkingar - þ.a. ég á að slaka á. Fékk auðvitað minn skammt af
meðulum og dæli þeim í mig með reglulegu millibili.

Þegar ég sagði Tinnu Rut að nú mætti ekki stressa mig upp og allir
yrðu því að gera það sem ég bið um, spurði hún: „Væri þetta líka svona
ef ég væri með svona sýkingu?“ Bíddu, nú við, hvað lá þarna að baki.
„Jú, væri sama hvað ég bæði um, væri mér leyft að gera allt?“ Hmm, ég
var nú ekki viss um það, „...t.d. tattú...“ Nei, sagði ég, þú yrðir svo
spennt ef við segðum já að þú myndir öll stressast upp og verða
veikari, og því yrðum við að segja nei samkvæmt læknisráði.

Snöggur að hugsa hann Villi þarna.

12. maí 2006

Brangelina

Þættinum hefur borist bréf. Spurt var um hjónaleysin amerísku Bradda
Pitt og Angelínu Jólamær. Skemmst er frá að segja að um tíma olli koma
þeirra til Namibíu miklu uppnámi. Þeim fylgdi sægur af ljósmyndurum, í
óþökk hjónaleysana, og kvað svo rammt að ágangi þeirra að namibískir
ráðherrar stigu á stokk og sendu innflytjendaeftirlitið af stað. Kom í
ljós að flestir ljósmyndaranna höfðu komið inn í landið á
ferðamannaleyfi, sem þýðir að bannað er að stunda launuð störf í
landinu. Var mörgum því vísað úr landi fyrir að brjóta á þessu skilyrði
dvalarleyfisins.

Ýmsir spurðu í kjölfarið um lífverði Bradda og Angelínu, hvort þeir
hafi atvinnuleyfi. Ekki hefur komið fullnægjandi svar við þeirri
spurningu, en lífverðirnir hafa gengið hart fram í því að rýmka til á
Langasandi hinum namibíska og hafa rekið saklaust ferðafólk af
sandinum. Sýnist sitt hverjum um þessi mál.

Sagan segir að konan sem á gistiheimilið stórgræði. Angelína gisti hjá
henni á sínum tíma þegar kvikmyndatökur fóru hér fram, og leigja
hjónaleysin allt gistiheimilið. Vertskonan gat því losað sig við slatta
af þjónustuliðinu, því mun færri eru í fylgdarliði hjónaleysanna en
rýmast í gistihúsinu. Nágrannar gistiheimilisins eru ekki mjög sáttir,
einkum vegna vaskrar framgöngu lífvarða.

Nú er beðið eftir að króginn komi í heiminn. Smávandamál hefur komið
upp í þeim efnum. Angelína er að sjálfsögðu með sinn einkalækni, hver
ferðast ekki án læknisins síns? En sá hinn sami hefur ekki
lækningaleyfi í Namibíu. Ef eitthvað kæmi upp á í fæðingunni, þá væri
hægt að stinga þessum ágæta lækni í steininn fyrir skottulækningar og
því hefur þurft að leita á náðir innlendra lækna.

Beðið er í ofvæni eftir að krakkinn komi í heiminn, og eins ganga sögur
fjöllunum hærra að gifting sé einnig í vændum, og þá gifting að hætti
Himba ættbálksins. Ekki er ég nú viss um að henni Angelínu minni þætti
það eftirsóknarvert, því brúðurin kemur á hjánum skríðandi úr tjaldið
til að votta eiginmanninum undirgefni. Einhvern veginn virðist það ekki
alveg vera stíll Angelínu.

Vona að þessi pistill svali spurnarþorsta bréfritara.

Lifið heil.

9. maí 2006

Sápuóperan

Ríkissjónvarpsstöð Namibíu, NBC kallast sú, þykir nú ekkert sérlega
spennandi stöð. Eilífur fjárhagsvandi hrjáir hana og síðan er hún í
samkeppni við stafrænt gervihnattasjónvarp frá Suður-Afríku, og fer
vægast sagt halloka í þeirri rimmu. Gengur illa að kaupa gott
sjónvarpsefni og er því leitað fanga víða. Rósin í hnappagati NBC er
mexíkósk sápuópera sem ber nafnið „Þegar þú ert minn“ eða kannski
„Þegar þú ert mín.“ Skiptir sennilega engu hvort er. Stundum þegar ég
er á spani milli stöðva dett ég inn á þennan þátt. Þar rífast
föngulegar senjórítur um sykursæta menn, eins og gengur í svona sápum.
Verst við þáttinn er að töluð er spænska af mikilli innlifun og
gríðarlega hröðum munnhreyfingum, en við heyrum bara tiltölulega hæga
ensku talaða, sem passar engan veginn við varahreyfingarnar.

Þessi sápa er víst töluvert vinsæl. Berlega kom það í ljós í gær þegar
tvö ýturvaxin fljóð sem leika í þessum þáttum birtust hér í Windhoek.
NBC bauð þessum tveimur stúlkum, Sylvíu Navarro, eða Paloma eins og hún
heitir í þáttunum, og Anettu Michel Carillo, en hún leikur Barböru. Er
ekki ofsögum sagt að íbúar borgarinnar hafi gjörsamlega tapað glórunni
þegar þessar konur óku um stræti og torg. Voru þúsundir manna á götum
úti og var lífsins ómögulegt að komast um aðalgötur borgarinnar. Gegnt
vinnustaðnum mínum er lystigarður og þar stóð til að mynda stúlkurnar í
bak og fyrir. Þurfti hins vegar að aflýsa myndatökum, því múgæsingurinn
var þvílíkur að lá við stórslysi. Fór þó betur en á horfði, en
greinilegt er að þessir sjónvarpsþættir njóta gríðarlegra vinsælda hér.

Fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Kokteilmóttökur

Dagurinn í dag, 9. maí, er víst merkisdagur í sögu Evrópu. Ja, a.m.k. í
sögu Evrópusambandsins. Ber þessi dagur heitið Dagur Evrópu, eða
Evrópudagurinn, og er víst verið að minnast þess að 56 ár eru síðan
fyrsti vísir að sambandinu leit dagsins ljós. Sá sem er í forsvari
fyrir framkvæmdastjórn ESB hér í Windhoek, er sem sagt sendiherra ESB í
Namibíu, bauð gestum heim í tilefni dagsins. Smákokteill í hádeginu. Ég
fékk meira að segja boðskort, jafnvel þótt Íslendingar séu nú ekki
beint á leiðinni í ESB. En á tyllidögum er svoleiðis bara smámunir.
Nafnið mitt vefst svolítið fyrir fólki og stundum áttar fólk sig ekki á
því hvort Vilhjálmur eða Wiium sé skírnarnafnið mitt. Boðskortið var
því stílað á doktor Vilhjálm, og mátti ég koma með gest með mér líka.

Þar sem ég er án eiginkonunnar minnar þessa stundina, þá datt mér í hug
að spyrja nú Tinnu Rut hvort hana langaði með. Jú, greinilegt að henni
leiðist í skólafríinu, því hún var nú til í þetta. Strílaði sig upp, í
stuttu pilsi og háhæluðum skóm. Mjög fín og myndarleg. Enda stóð á
boðskortinu að ætlast væri til spariklæðnaðar. Við fórum sem sagt og
hlustuðum á tvær ræður, svo voru þjóðsöngvar leiknir og auðvitað var
hlaðborð og tilheyrandi. Ég held að Tinnu Rut hafi þótt svolítið
forvitnilegt að vera innan um ráðherra, sendiherra og guð má vita hvaða
fleiri herra. En ekki fannst henni nú mjög gaman. Ekki bætti úr skák
að móttakan var utandyra. Það rignir örugglega ekki hér fyrr en í
nóvember. Skilst mér að grasflötum og háhæluðum skóm sé ekki sérlega
vel til vina. Eftir einn og hálfan tíma var mín því orðin nokkuð þreytt
í fótunum.

Nú er rætt um að kaupa nýja skó handa dömunni, ekki háhælaða, en þó
hæfa í svona móttökur. Skyldi þó ekki vera að hún væri til í að koma í
aðra seinna?

Hvað hafast konur að?

Hér í Windhoek er verið að umbylta verslanamiðstöð einni. Önnur mun
nýrri miðstöð hefur verið í mikilli sókn, opnaði um daginn tvær álmur
með 65 verslunum. Því brugðu eigendur þeirrar fyrrnefndu á það ráð að
stækka við sig líka. Staðreyndir þessar eiga nú kannski ekki mikið
erindi á þessa dagbókarsíður, en þó, kannski finnst ykkur gaman að
heyra að símalínur útvarpsstöðva borgarinnar hafa verið rauðglóandi
undanfarna daga vegna stærðar auglýsingaskiltis sem búið er að setja
upp hjá þeim sem eru að stækka við sig þetta dagana. Á skiltinu stendur
nefnilega: „Menn að störfum, konur að versla!“

Sitt sýnist hverjum um þessa visku.

7. maí 2006

Brúðkaup?

Rétt fyrir helgina bárust mér textaskilaboð í farsímann minn. Voru þau
frá minni elskulegu yngstu systur og var mér tilkynnt að búið væri að
ákveða 2. september nk. sem brúðkaupsdag. Þar sem ég á víst að spila
einhverja rullu í þessu brúðkaupi var mér vinsamlegast bent á að
fjárfesta í flugfarmiðum til Íslands.

Nokkuð er síðan mér var fyrst sagt frá að brúðkaup stæði fyrir dyrum.
Hefur það sennilega verið í október á síðasta ári, a.m.k. var á þeim
tíma ekki vöknuð sú hugmynd að flytjast aftur til Namibíu. Ekki skilja
þetta þannig að brúðkaupið hafi á einhvern hátt hrakið mig úr landi.
Nema síður sé. Hvað um það, á þeim tíma var horft á dag í ágúst, tólfta
dag þess meiriháttar mánaðar ef mig misminnir ekki. Síðan leið og beið,
ég flutti úr einni heimsálfu í aðra, en öðru hverju bárust fréttir,
stundum óstaðfestar. Um tíma leit út fyrir dag seint í desembermánuði,
ekki er það nú slæmur mánuður, næstsíðasta dag þess mánaðar að mig
minnir. Svo heyrðust sögur af 07.07.07, sem verður víst laugardagur. Ég
spurði nú elsku systur mína þegar ég heyrði þetta, hvort 12.12.12 væri
ekki enn flottari dagsetning. Hún sá ekki skopið í þessu, hverju sem
veldur.

Nema hvað, þessi septemberdagur er nú ekki svo slæmur fyrir mig, og
sjálfsagt hægt að finna ferð. Hvað gerir maður ekki fyrir litlu systur
sína? Ekki úr vegi að kíkja á blessaðan klakann í leiðinni og komast í
húsið sitt á Skaganum. Síðan frétti ég hins vegar að þótt væri búið að
festa ljósmyndara í brúðkaupið, ætti enn eftir að ræða við prestinn.
Hmm. „Verður rætt við hann á morgun,“ var mér sagt þegar ég innti
nánari frétta um þetta. Svo „á morgun“ forvitnast ég aftur. „Æ, hann
var ekki með dagbókina sína á sér, kallinn, en 95% öruggt. Pantaðu bara
miða.“ Í dag frétti ég síðan að sérann ætti bókaða Danmerkurferð á
þessum tíma... en ætlar að reyna að hnika henni til.

Ekki efast ég um að þetta ferli á eftir að verða efni í sögur seinna
meir. Stórskemmtilegar sögur ef að líkum lætur. Spurningin stendur þó
eftir: Ætti ég að panta miða, eða bíða?

Komdu í bíló

Málum er nú einu sinni þannig háttað að foreldrar hans Rúnars Atla hafa áhyggjur af því að hann hafi ekki nóg fyrir stafni. Verður að viðurkennast að leikföngin sem komu með frá Fróni voru nú ekki gríðarlega mörg. Þrátt fyrir að eitt og eitt leikfang hafi verið keypt, þá eru áhyggjurnar enn fyrir hendi. Sem sagt að honum leiðist því hann eigi ekki nógu mikið af dóti.

Vegna þessa er ég ávallt á varðbergi þegar ég kem þar sem leikföng eru seld, og reyni að stökkva á bestu tilboðin. Sennilega það stærsta sem keypt hefur verið er kubbaborð, sem sjálfsagt fjórir krakkar gætu notað í einu. Meira að segja er hægt að skella borðinu á koll og verður það þá vegasalt. Sniðugt.

Undanfarið hef ég leitað eftir leikfangahúsi til að hafa í framgarðinum. Svona einu stóru sem krakkar geta verið inni í. Hef ekki haft árangur sem erfiði í leit minni að þessháttar húsi. En gerði tilraun á laugardaginn og fór í nokkrar leikfangabúðir. Fann ekki hús, en hins vegar rakst ég á þessa fínu vörubíla. Eftir að skoða þá í krók og kima var ákveðið að kaupa einn. Rúnar Atli er hins vegar ekki alveg búinn að fatta þetta með að versla í leikfangabúðum, því hann fór að hágráta þegar ég tók bílinn á loft og gekk með hann að afgreiðsluborðinu. Ekki skánaði það þegar ég setti vörubílinn í skottið á bílnum. Kveikti ekki alveg að við værum búnir að tryggja okkur eignarrétt á þessu farartæki og værum með það á leiðinni heim. Jæja, þetta kemur sjálfsagt einhvern daginn.

En mér sýnist á öllu að þessi vörubíll eigi eftir að skapa ómælda ánægju næstu mánuðina.


5. maí 2006

Æðsta íþróttin


Sitt virðist hverjum sýnast með kaup á knattspyrnugalla á litla guttann. En kannski er komin lausn á því máli. Ég dró nefnilega fram körfuspjald, sem keypt var fyrir Tinnu Rut á sínum tíma, og setti það í „rétta“ hæð. Eins og sést, þá vantar lítið á tilþrifin og eru troðslur aðalatriðið að virðist í þessum leik.

Ég kannski leita bara eftir NBA galla handa honum. Verst þó að velja liðið eftir að Vancouver Grizzlies dóu drottni sínum.

2. maí 2006

Stoltur faðir!

Áðan kom litli guttinn til mín, sló á rassinn á sér, og sagði „puff!“ Og
mikið rétt hann var búinn að gera stórt í buxurnar.

Mikið var pabbinn stoltur af syninum!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...