7. maí 2006

Komdu í bíló

Málum er nú einu sinni þannig háttað að foreldrar hans Rúnars Atla hafa áhyggjur af því að hann hafi ekki nóg fyrir stafni. Verður að viðurkennast að leikföngin sem komu með frá Fróni voru nú ekki gríðarlega mörg. Þrátt fyrir að eitt og eitt leikfang hafi verið keypt, þá eru áhyggjurnar enn fyrir hendi. Sem sagt að honum leiðist því hann eigi ekki nógu mikið af dóti.

Vegna þessa er ég ávallt á varðbergi þegar ég kem þar sem leikföng eru seld, og reyni að stökkva á bestu tilboðin. Sennilega það stærsta sem keypt hefur verið er kubbaborð, sem sjálfsagt fjórir krakkar gætu notað í einu. Meira að segja er hægt að skella borðinu á koll og verður það þá vegasalt. Sniðugt.

Undanfarið hef ég leitað eftir leikfangahúsi til að hafa í framgarðinum. Svona einu stóru sem krakkar geta verið inni í. Hef ekki haft árangur sem erfiði í leit minni að þessháttar húsi. En gerði tilraun á laugardaginn og fór í nokkrar leikfangabúðir. Fann ekki hús, en hins vegar rakst ég á þessa fínu vörubíla. Eftir að skoða þá í krók og kima var ákveðið að kaupa einn. Rúnar Atli er hins vegar ekki alveg búinn að fatta þetta með að versla í leikfangabúðum, því hann fór að hágráta þegar ég tók bílinn á loft og gekk með hann að afgreiðsluborðinu. Ekki skánaði það þegar ég setti vörubílinn í skottið á bílnum. Kveikti ekki alveg að við værum búnir að tryggja okkur eignarrétt á þessu farartæki og værum með það á leiðinni heim. Jæja, þetta kemur sjálfsagt einhvern daginn.

En mér sýnist á öllu að þessi vörubíll eigi eftir að skapa ómælda ánægju næstu mánuðina.


Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...