31. maí 2011

Talið saman

Þá er síðasti dagur maí að kveldi kominn. Áðan tók ég saman hversu langt ég hjólaði í mánuðinum. Náði 400 kílómetrum.

Ekki slæmt.

Eitthvað verður þó hjólað minna í júní, þar sem ég verð á ferð og flugi nær hálfan mánuðinn.

30. maí 2011

Í túristaleik á fallegum degi

Nú er eins og sumarið sé komið.

Loksins.

Í hádeginu brá ég mér í göngutúr, eins og oft áður, og í þetta sinn lá leiðin niður að Sæbraut og gekk síðan í austurátt. Eða þar um bil.

Í vasanum var lítil myndavél, þ.a. ég skellti mér í túristaleik. Stansaði öðru hvoru og smellti af myndum. Náði þessari af Esjunni okkar.

29. maí 2011

Æfingin skapar meistarann

Nú er guttinn orðinn virkilega flinkur á hjólinu. Í morgun ákváðum við feðgarnir að fara í Leiksport í Hólagarði, en þar má kaupa ýmsan varning merktan Leikni. Við fórum á hjólum. Ferðin gekk mjög vel, þ.a. við fórum í óvissuferð um göngustíga í Hólahverfinu. Enduðum í Elliðaárdalnum og þar náði ég meðfylgjandi myndbandi, þótt á hjóli væri sjálfur.


En þessi hjólatúr var ekki nóg. Skömmu eftir að við komum heim ákváðum við að hjóla niður í Eyjabakka og heilsa upp á frændur í því neðra. Hjólatúrinn gekk vel, en var þó fýluferð því frændurnir voru ekki heima.

En síðar um daginn fréttist að boð í mat hefði borist úr því neðra, þ.a. aftur var lagt af stað í hjólatúr þangað. Við höfðum tímann fyrir okkur og því var farið í öfuga átt og tekinn miklu lengri túr um Elliðaárdalinn og endað í Eyjabakkanum. Að mat loknum var horft á Barcelona taka Manchester United í nefið og síðan hjóluð stysta leið heim.

Á leiðinni gerðum við stutt stans við bekk í miðri brekku milli þess neðra og hins efra. Aðeins þurfti svo að hita upp áður en lagt var í'ann á ný:


Ekki mikið mál.

Mér kemur á óvart hvað sá stutti er duglegur upp brekkur. Hjólið er sjö gíra með 20 tommu dekkjum, og ég hefði haldið að léttasti gírinn væri í þyngra lagi upp í móti. En hann puðar upp og kemst merkilega vel áfram.
Meira að segja þótt klæddur sé í nýju takkaskóna.

Nú er að skipuleggja fleiri hjólatúra.

24. maí 2011

Hjólagarpur yngri

Rúnar Atli fékk nýtt hjól um daginn. Hann átti eitt í Namibíu, sem var að verða of lítið. Þar voru því miður ekki mörg tækifæri til að æfa sig, því við bjuggum í miðri hlíð og ekkert nema brekkur í kring.

En nú er sem sagt komið að því að læra á hjól. Því skruppum við í GÁP fyrir einhverjum dögum og keyptum hjól.

Undanfarna daga höfum við feðgarnir skroppið út eftir kvöldmat til að ástunda æfingar. Hefur það gengið mjög vel, verður að segjast. Núna áðan fórum drengurinn í heljarinnar hjólatúr, meðfram lönguvitleysunni, framhjá Gerðubergi og síðan Fellaskóla og heim. Skv. borgarvefsjá eru þetta tveir og hálfur kílómetri.

Og ég hlaupandi á eftir.

Hér er upptaka úr símanum mínum. (Másið er vindurinn...)



Næst fer ég á hjóli líka!

Fimmtán dagar!

Nú er átakinu Hjólað í vinnuna að ljúka.

Að sjálfsögðu tók ég þátt og var meira að segja liðsstjóri Parísargengisins, en svo nefnist lið Þróunarsamvinnustofnunar. Nafnið er innanhúsgrín, sem engum öðrum en okkur þætti sniðugt. Fagbrandari má segja. Reyndar hálfaumkunarvert hversu lélegt grínið er.

Mér tókst að fá sex aðra starfsmenn til að taka þátt, þ.a. sjö af tíu voru með. Eins og gengur voru menn misákafir, en auðvitað snýst þetta bara um að vera með og reyna að hreyfa sig svolítið meira en vant er.

Ég náði öllum 15 dögunum sem hjóla má og hjólaði samtals 305 km. Rétt yfir 20 km á dag. Leiðin sem ég hjóla venjulega er 18 km, en suma góðviðrisdaga tók ég á mig krók.

Svo er bara að halda áfram að hjóla, því hjólreiðar eru einhver skemmtilegasta líkamsrækt sem ég veit um.

23. maí 2011

Litið við í sveitinni

Viðurkennast verður að tengsl mín við sveitina eru varla til að hrópa húrra fyrir. Er hræddur um að ég entist ekki lengi sem vinnumaður í sveit. Yrði sjálfsagt sendur heim með skömm á fyrsta degi. En ætli sé ekki hægt að segja svipaða sögu um marga Íslendinga? Mig grunar það.

Hvað um það. Ég hef haft á stefnuskrá um skeið að kíkja með Rúnar Atla í sveitina og leyfa honum að sjá sveitaskepnurnar öðrum vísi en á mynd eða í sjónvarpi. Um helgina gafst gott tækifæri. Við fórum nefnilega vestur til Grundarfjarðar og fannst mér tilvalið að gera stans í Dalsmynni og fá að kíkja á lömbin. Þótt ég sé ekki mikill sveitamaður, þá veit ég þó að sauðburður er á vorin. Á Íslandi, þ.e.a.s., því ég veit líka að í öðrum löndum eiga rollur til að bera tvisvar á ári.

En nóg mont um eigin yfirburðarþekkingu...

Ég hringdi deginum áður til að forvitnast hvort væri í lagi að líta við. Þetta er jú annatími í sveitinni (annar vitneskjumoli úr mínum ranni). Ekkert sjálfsagðara en að líta við, sagði hún Halla. Ef mikið er að gera, þá fáiði bara minni þjónustu. Ekkert verið að fara í kringum hlutina á þeim bænum. Enda engin ástæða til.

Auðvitað var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Svanur, bloggari með meiru, ræddi við okkur um daginn og veginn yfir kaffibolla og Rúnari Atla sá bikarasafn frá smalahundakeppnum. Flott safn.

Svo var farið í fjárhúsið og fjósið og ýmsar skepnur skoðaðar.

Þessi kálfur er ekki nema dagsgamall þarna. Sá var ekki alveg sáttur við lífið og tilveruna.
Gleði þess stutta var mikil yfir þessu öllu saman og vildi hann ekki fara. Daginn eftir þegar komið var til baka frá Grundarfirði var hann hundfúll að fá ekki að gera stans á þeirri leiðinni líka.

Við lofuðum að kíkja seinna í sveitina.

20. maí 2011

Að sleikja gangstéttir

Í nokkra daga hefur staðið til að fara í klippingu. Í dag lét ég verða af því. Nálægt vinnunni er slæðingur af hárgreiðslustofum. Á þeirri sem ég fór síðast var hálftíma bið. Mér leist illa á það og rölti af stað að leita að annarri. Sá fljótlega eina sem auglýsti herra- og dömuklippingar. Fór þangað inn og spurði hvort hægt væri að fá klippingu.

Á móti mér tók ung stúlka, rúmlega tvítug giska ég á, með fjólublátt hár. Ekkert mál að fá klippingu og ég settist í stólinn.

Fjólublátt er ekki alveg minn litur þegar kemur að hári, en ég hughreysti mig við það að sá sem dundaði sér við að lita sitt eigið hár, þótt fjólublátt væri, og ynni þar að auki á hárgreiðslustofu, hefði líklega vit á klippingum og hárgreiðslu. Og sú varð raunin, ég var ósköp sáttur við útkomuna.

En, ég komst að því að ég og þessi stúlka töluðum ekki alveg eins íslensku.

Ekki að hún væri útlendingur, engan veginn. En, orðavalið og -notkunin var ekki alveg eins hjá okkur tveimur.

T.d. var helsta áhersluorð þessarar stúlku „ó-mæ-godd“.

„Mamma hennar hringdi, ó-mæ-godd, og afpantaði tímann en ó-mæ-godd gleymdi að segja henni, þ.a. hún mætti í morgun og ó-mæ-godd ég var ekki mætt því tíminn var ó-mæ-godd afpantaður. Svo var hringt í mig, ó-mæ-godd, og ég sem var á leið í ræktina, ó-mæ-godd, þurfti svo að bruna hingað og traffíkin, ó-mæ-godd, var brjáluð.“

O.s.frv.

Ég hefði líklega sjálfur, ó-mæ-godd, notað annað áhersluorð.

Eins og gengur á hárgreiðslustofum fórum við að tala um daginn og veginn. Einhvern veginn þróaðist umræðan út í ferðamáta í og úr vinnu. Hún var engan veginn sannfærð að hjólreiðar væru almennilegur samgöngumáti.

„Sko, kærastinn minn, hann myndi frekar sleikja gangstétt heldur en láta sjá sig á hjóli.“

Sleikja gangstétt?

Hvaðan í ósköpunum kemur svona samlíking?

Hverjir sleikja gangstéttir?

Var ég að upplifa hið margfræga kynslóðabil?

En ég mæti örugglega aftur á þessa hárgreiðslustofu - ó-mæ-godd bullið í mér, þetta var ekki hárgreiðslustofa heldur ó-mæ-godd rakarastofa með dömuívafi...  (hvað þýðir það?) - því spjallið var endurnærandi og skemmtilegt. 

Ó-mæ-godd já.

15. maí 2011

Fótboltamót

Rúnar Atli mætti á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá Leikni á fimmtudaginn var.

Nokkru áður tjáði hann mér að hann væri fótboltasjúkur og vildi fara að æfa þá íþrótt.

Fram að þessu hefur hann aldrei sýnt fótbolta neinn áhuga. Þekkir reyndar Messi og Barcelona, en annað fótboltatengt veit hann lítið um.

En, sem sagt, á fyrstu æfinguna í 7. flokki var farið á fimmtudag. Ætli hafi ekki verið í kringum 30 strákar á æfingunni. Sumir eru með Rúnar Atla í bekk og er munur að eiga vini í hópnum strax í upphafi.

Þjálfarinn tjáði okkur að á sunnudag (í dag) væri Reykjavíkurmót í Egilshöll og að Rúnar Atli ætti endilega að mæta.

Þ.a. við mættum.

Þarna spilaði drengur þrjá leiki með C-liði Leiknis. Það þykir sjálfsagt ekki slæmt að hafa mætt á eina æfingu og spilað þrjá leiki.

Árangurinn var upp og ofan. Leikir gegn Þrótti og Í.R. töpuðust. Þróttarleikurinn var reyndar undarlegur. Leiknir lá í sókn allan leikinn en tókst ekki að skora. Hinir fengu þrjár, eða fjórar, skyndisóknir og skoruðu tvisvar. Fúlt. Svo gerðu menn jafntefli við Val, 1-1. Rúnar Atli átti eitt gott skot að marki í þeim leik, en markmaðurinn sá við honum.

Annars á Rúnar Atli svolítið í land á fótboltasviðinu. Enda hefur aldrei spáð í þessa íþrótt. En það kemur eins og annað. Skagamótið er víst 17.-19. júní og heyrist mér að við megum ekki klikka á því.

Vinirnir, bekkjarbræðurnir og nú liðsfélagarnir: Stefan, Rúnar Atli og Branko

Leiðangur til fjalla

Eftir vel heppnaðan Esjuleiðangur um daginn þá fjárfesti ég í Fjallabók barnanna, 20 gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur, sem gefin er út af bókaútgáfunni Sölku.

Í morgun fórum við Rúnar Atli í fyrsta leiðangurinn úr þessari bók. Lögðum við á Helgafell í Mosfellssveit.

Tókst ferðin vel. Við vorum á rölti í 3 tíma og 19 mínútur og lögðum að baki 4,4 km á þeim tíma. Þá er auðvitað ekki nema hálf sagan sögð, því oft var á brattann að sækja og síðan þurfti að kanna ýmislegt, eins og gengur og gerist þegar maður er sex ára. Í ferðinni okkar var Stjörnustríðsþema og tókst okkur að spinna ýmis atriði úr Stjörnustríði inn í göngutúrinn. Vel kom sér að hafa alvöru göngustafi, sem voru eins og sniðnir í að vera geislasverð, þegar þannig stóð á.

Nokkrar myndir:

Gott að hafa sjónauka til að kanna betur það sem fyrir augu ber

Uppgangan var um brattan stíg, en þó ekki til vandræða

Sumir voru kannski ögn þreyttari en aðrir
Það birtir til þegar sumir birtast
Flottur á toppnum

14. maí 2011

Elliðaárdalurinn kannaður

Eftir karate-mótið áðan gengum við Rúnar Atli heim. Mótið var haldið í Víkingsheimilinu, neðst í Fossvoginum, en þar sem Gulla var á bílnum og vant við látin, ákváðum við kapparnir að ganga heim.

Vorum enda vel birgðir af nesti og veðrið fínt.

Eftir nestisstans rákumst við á þennan flotta helli og eins og sjá má var sonurinn hrifinn. Einhvers konar stríðs- og gleðidans í gangi.

Karate-mót

Áðan tók Rúnar Atli þátt í sínu fyrsta karate-móti. Kata-mót kallast það, en þá berjast menn ekki heldur sýna tveir keppendur ákveðna rútínu fyrir dómara sem velja hvor gerði betur. Sá kemst síðan í næstu umferð og svo koll af kolli.

Rúnar Atli tapaði „glímunni” um þriðja sætið með minnsta mun. Einn dómari gaf honum sigur en tveir dómarar mótherjanum.

„Pabbi, hvað gerði ég vitlaust,” spurði hann síðan. Ég gat litlu svarað enda fannst hann miklu betri en andstæðingurinn :-)

Rúnar Atli til vinstri

12. maí 2011

100 ár

Valur 100 ára í dag.

Í tilefni dagsins fórum við Rúnar Atli að Hlíðarenda til að sjá grimma Valsmenn taka Vestmannaeyinga í nefið.

En ekki fór það nú þannig. Því miður.

Hvorki voru mínir menn grimmir né tóku hina í nefið.

Langt er síðan ég fór á Valsleik. Ég sá einhverja leiki með Skagamönnum fyrir sex-sjö árum þegar við bjuggum uppi á Skaga. Þar á undan fór ég líklega síðast á leik 1980-og-eitthvað. Aðstaðan orðin nokkuð betri - ekki verður annað sagt.

Rúnar Atli var þarna á sínum fyrsta knattspyrnuleik. Skemmti sér ágætlega, en var ekki alveg með hlutina á hreinu. Það kemur.

Auðvitað þurfti aðeins að galla gaurinn upp. Það gengur ekki að vera á Valsvellinum ekki í rauðu.

Áfram Valur!

10. maí 2011

Leti en þó spenningur

Við Rúnar Atli höfum svolítið dottið í að horfa á íþróttaleiki eftir að við fluttum til Íslands.

T.d. fórum við á tvo leiki í úrslitarimmunni milli Stjörnunnar og K.R. í körfubolta.

Við létum duga að horfa á handboltann í sjónvarpinu. Til að þetta yrði svolítið skemmtilegra ákvað Rúnar Atli að halda ekki með Akureyri eins og foreldrar sínir. Nei, hann vildi halda með F.H. Ekki síst vegna þess að hann á nafna á ská í því liði, en það er línumaðurinn Atli Rúnar.

Í fjórða leik laumaðist Gulla að taka þessa mynd:


Við höfðum það nú alveg ágætt, eins og sjá má.

Líklega hefur Akureyri verið að skora í þann mund er myndin var tekin ef miða á við látbragð okkar feðganna.

En sá hlær best sem síðast hlær og það gerði sonurinn að þessu sinni.

Betrumbætur í tilefni sumars

Veðrið var frábært um helgina. Rúnar Atli velti fyrir sér hvort Ísland væri búið að breytast í Namibíu...

En við Gulla veðjum á gott sumar.

Svalasumar.

Við eru því búin að gera svalirnar notendavænni.

Fínt kolagrill, grasteppi og borð og stólar sem passa við svalastærðina.

Nú er að vona að veðurspáin standist.

6. maí 2011

Loksins, loksins grillað

Sit núna úti á svölum, horfi yfir borgina og nýt hitans og lyktarinnar frá kolunum. Þau verða tilbúin eftir smástund.

Gulla fór áðan og fjárfesti í kolagrilli. Þrælfínt grill, sýnist mér.

Við Rúnar Atli settum það saman áðan og nú er generalprufa. Matur verður á seinni skipunum í kvöld, en það er í góðu lagi.

Ekki skemmir að vera með s-afrískt rauðvín í glasi.

Lífið er ljúft.

Næðingur

Sama hvað sumir segja, það er bévítans næðingur í Bökkunum...

4. maí 2011

Afríka eða Ísland? Hvar er ég eiginlega?

Að loknum vinnudegi áðan þá lagði ég hjólandi af stað heim á leið. Lá leið mín yfir Klambratúnið, en síðan fór ég út á Lönguhlíð og þar yfir Miklubraut. Í því sem gatnamót þessara tveggja birtust mér sjónum þá tók ég eftir því að tvær mótorhjólalöggur höfðu stöðvað Lönguhlíðarumferðina og veifuðu Miklubrautarbílum að drífa sig yfir.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhvers staðar hefði orðið stórslys. Fljótlega fór ég þó af þeirri skoðun, því hver mótorhjólalöggan á fætur annarri kom brunandi úr austurátt. Eftir u.þ.b. þriggja mínútna bið kom skýringin á þessari umferðarstöðvun í ljós. Forseti Íslands kom þarna nefnilega með fríðu föruneyti. Bæði bíll númer eitt og númer tvö. Ég las í blöðunum í morgun að forseti Slóveníu væri í heimsókn. Hann var ábyggilega í öðrum bílnum. Í kjölfar bílanna tveggja fylgdi síðan rúta. Þegar þessi hersing var farin yfir gatnamótin, þá brunuðu mótorhjólalöggunar tvær í burt og þá loksins var hægt fyrir almúgann að komast aftur af stað.

Öðrum vísi mér áður brá.

Í Afríkuríkjum tíðkast í flestum löndum að stöðva umferð þegar forseti landsins er á ferð. Ég segi nú ekki að þetta hafi verið daglegt brauð í Windhoek, en þónokkuð oft gerðist þetta. Fyrrum forseti landsins lét meira að segja stöðva umferð ef forsetafrúin var á ferð. Vakti þetta fremur litla lukku vegfarenda eins og gefur að skilja.

Og af hverju er verið að stöðva umferðina? Í Afríku þykir þetta öryggismál. Þar í álfu hefur jú komið fyrir að ráðist er á þjóðhöfðingja, jafnvel skotið á þá úr launsátri. Það er ólíkt erfiðara að hitta skotmark sem brunar á 80 km hraða eftir götum borgarinnar heldur en skotmark sem situr kyrrt á rauðu ljósi.

En á Íslandi? Höldum við virkilega að einhver vilji skjóta forseta vorn úr launsátri? Mér finnst það frekar langsótt. Ég man ekki eftir að hafa upplifað þetta áður hér á landi. Enda fannst ég mér um stund vera kominn til Afríkulanda...

Kannski hefur löggan horft aðeins of mikið á Livvagterne og aðra danska spennuþætti í sjónvarpi?

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...