30. nóvember 2010

Einn í koti

Þá er maður orðinn aleinn í landi hinna hugrökku. Gulla og Rúnar Atli eru komin til Svíþjóðar eftir því sem ég kemst næst. Ég sit því einn í kotinu. Þó ætti ekki að hafa ákveðinn greini, því áðan lauk ég við að tæma húsið og snemma í fyrramálið skila ég lyklunum. Ég er fluttur á lítið gistiheimili og er því ekki í kotinu, heldur koti.

Reyndar ágætis gistiheimili, ég er með litla íbúð fyrir mig með eldhúskróki, borðstofu og stofu. Og svo auðvitað svefnherbergi. Þrjú svefnherbergi reyndar. Hér þarf ég að elda ofan í mig sjálfur. Mér líkar það bara ágætlega, því mér leiðast hótel þegar þarf að sofa meira en tvær, þrjár nætur. Kjúklingabringa og hrísgrjón verða í matinn á eftir.

En alltaf er skrýtið að labba síðasta hringinn um húsið þegar verið er að flytja. Allt orðið tómt og húsið virkar sem skel. Maður þekkir húsið, en samt ekki því allt manns hafarí er farið á braut.

Ég verð hér fram í miðjan desember, kem til Íslands 18. des. Þá verður maður ekki lengur einn.

24. nóvember 2010

Kveðjustund

Yfirstandandi vika er síðasta vika Rúnars Atla í forskólanum, Vorschule á germönsku. Aðalkennarinn hans, Maren, verður ekki í vinnunni á morgun og föstudag og því kvöddust þau áðan. Skrýtið til þess að hugsa að kannski sjáist þau aldrei aftur.

En best að sleppa svoleiðis döprum og leiðinlegum hugsunum.

Ég fékk að taka mynd af þeim tveimur.

Hugurinn ber mann hálfa leið

Nú styttist í að Rúnar Atli leggi í langferð með mömmu sinni. Á mánudaginn í næstu viku fljúga þau á braut. Fyrsta stopp verður í Svíaríki hjá frændum og frænkum.

Rúnar Atli er orðinn nokkuð spenntur fyrir ferðalaginu, ekki síst að hitta Ellen og Oliviu, tvíburafrænkur sínar. Í morgun fór hann því í Ljungberg bolinn sinn, föður sínum til lítillar kátínu.

23. nóvember 2010

Skyldi jólaskapið koma brátt?

Nú eru jólaskreytingar komnar í nær allar búðir hér í Windhoek. Allskonar grenigreinar og jólaskraut lafir niður úr loftunum. Afgreiðslufólkið er komið með jólasveinahúfur. Meira að segja er vélrænn jólasveinn í einni matvörubúð hér í nágrenninu. Sá dillar sér í mjöðmum og syngur jólalög, börnum til mikillar ánægju. En fullorðna fólkinu finnst minna til koma, enda hálfgert dósahljóð í sveinka.

Síðan eru jólavörunar auðvitað komnar. Jólatré og allt sem því tilheyrir. 

Einn og einn húseigandi tekur líka þátt í leiknum. T.d. er einn nágranni okkar búinn að festa jólasveinabrúðu utan á skorsteininn sinn. Heldur sveinki dauðahaldi að því er virðist; kannski búinn að innbyrða of mikið af glöggi?

Jólalög heyrast þó ekki enn í útvarpinu. A.m.k. ekki á þeim stöðvum sem ég hlusta á. Ætli það byrji ekki uppúr mánaðarmótum, gæti trúað því.

Ég get nú ekki sagt að ég sé kominn í jólaskap. Alltaf er nefnilega sama vandamálið. Þrjátíu stiga hiti og þar yfir passar bara engan veginn við jólin. Sama hversu lengi maður býr á slóðum sem hásumar er í jólamánuðinum. Spenningurinn er þó aðeins að byrja hjá Rúnari Atla, enda ekki nema sex ára.

Vonandi kemst ég í gott jólaskap þegar ég lendi á Fróni, tæpri viku fyrir jól.

Já, ég er eiginlega alveg viss um það.

22. nóvember 2010

Íslenskan getur vafist fyrir

Þegar ég kom heim úr vinnunni áðan, þá var sonurinn á fullu að leika sér.

„Ja-há,” varð mér að orði, „er verið að drasla út?”

Sonurinn horfði á mig. Greinilega svolítið hissa.

„Nei, pabbi, ég er að drasla inni.”

15. nóvember 2010

Meiri músaraunir

Á fimmtudaginn fór rafmagnið allt í einu af hluta af húsinu okkar. Sama hvað við gerðum, lekaliðnum sló alltaf út. Rafvirki var kallaður til og eftir smástund var sá dómur kveðinn upp að eitthvað væri að þvottavélinni okkar.

Þvottavélin af öllum hlutum. Einmitt það heimilistæki sem maður vill síst missa.

Nú voru góð ráð dýr. Annar viðgerðarmaður var kallaður út og tók hann þvottavélina til viðgerðar á föstudaginn. Engin þvottavél alla helgina, þ.a. nú var aldeilis gætt sín að „endurvinna” föt og þó sérstaklega handklæði. Ómögulegt að verða handklæðalaus, ekki satt?

Svo í morgun fékk ég símtal frá viðgerðarmanninum. Sá sagðist vera búinn að finna bilunina og yrði lítið mál að redda þessu.

Og... hvað gerðist? vildi ég fá að vita.

Jú, líklega hefur mús komist inn í þvottavélina og nagað einangrunina af einhverjum vírum.

Mús!

Líklega ættingja músanna sem við eltumst sem mest við í vetur sem leið.

Einhver hefnigirni líklega á ferð. Hlýtur að vera, því ég skil engan veginn af hverju músarræfill vill naga á einhverri einangrun, þegar nóg matarkyns er til í húsinu.

En málið er þó leyst svo nú er hægt að fara að þvo á nýjan leik.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...