30. nóvember 2010

Einn í koti

Þá er maður orðinn aleinn í landi hinna hugrökku. Gulla og Rúnar Atli eru komin til Svíþjóðar eftir því sem ég kemst næst. Ég sit því einn í kotinu. Þó ætti ekki að hafa ákveðinn greini, því áðan lauk ég við að tæma húsið og snemma í fyrramálið skila ég lyklunum. Ég er fluttur á lítið gistiheimili og er því ekki í kotinu, heldur koti.

Reyndar ágætis gistiheimili, ég er með litla íbúð fyrir mig með eldhúskróki, borðstofu og stofu. Og svo auðvitað svefnherbergi. Þrjú svefnherbergi reyndar. Hér þarf ég að elda ofan í mig sjálfur. Mér líkar það bara ágætlega, því mér leiðast hótel þegar þarf að sofa meira en tvær, þrjár nætur. Kjúklingabringa og hrísgrjón verða í matinn á eftir.

En alltaf er skrýtið að labba síðasta hringinn um húsið þegar verið er að flytja. Allt orðið tómt og húsið virkar sem skel. Maður þekkir húsið, en samt ekki því allt manns hafarí er farið á braut.

Ég verð hér fram í miðjan desember, kem til Íslands 18. des. Þá verður maður ekki lengur einn.

2 ummæli:

Gulla sagði...

Duglegur að klára húsið elskan og við hlökkum til að fá þig heim

Erla perla sagði...

Nóg var nú af dótinu sem kom út úr okkar slotti, ég get rétt ímyndað mér hvernig törnin hefur verið hjá ykkur. Þónokkuð afrek, myndi ég segja. Þú getur svo alltaf komið í karrý hér hjá honum Dabba þegar þú verður leiður á að elda :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...