12. janúar 2013

Tvö yfir móðuna miklu

Þær voru ekki skemmtilegar fyrstu fréttir sem okkur bárust eftir að koma heim til Lílongve. Tveir af hvolpunum okkar fjórum höfðu nefnilega dáið. Já, hann Depill og hún Prinsessa.

Reyndar var erfitt að skilja frásögn vinnufólksins, þ.a. eitt af fyrstu verkum okkar Rúnars Atla var að fara til dýralæknisins, því ein útgáfa sögunnar var að Prinsessa lægi þar veik. En, því miður var það ekki rétt. Hins vegar var sagan enn óskýr, því dýralæknirinn sem við hittum hafði ekki haft með hvolpana okkar að gera.

Svo í dag fórum við aftur til dýralæknisins og hittum lækninn sem stóð í þessu stússi. Sagan var víst þannig að fyrir jól þá fer einn hvolpur inn með einhverja sýkingu. Flóki. Hann fékk aðhlynningu og náði sér. Svo eftir áramótin er farið með tvo til dýralæknisins, Prinsessu og Bjart. Bjartur náði sér, en ekki Prinsessa. Einhvern tímann í millitíðinni deyr svo Depill. Líklega hefur verið farið með Prinsessu og Bjart til dýralæknis eftir að Depill deyr.

Verst var að vita þetta ekki áður en við komum heim, því Rúnar Atli stuðaðist auðvitað svolítið yfir þessu öllu saman.

En, þeir tveir sem eftir eru, Bjartur og Flóki, virðast hressir.

Það er þó bót í máli.

10. janúar 2013

Raftækjavæddur og grunsamlegur, en hættulaus

Vopnaleitin á Heathrow tók smátíma. Lengri en venjulega. Handtaskan mín var greinilega eitthvað vandamál. Hún bara kom ekki út úr gegnumlýsingarvélinni. Ekki fyrr en eftir dúk og disk.

Þá kom ábúðarfullur öryggisvörður til mín og spurði hvort hann mætti kíkja ofan í töskuna. Jú, jú, það var auðsótt mál, enda ég með hreina samvisku.

Þótt taskan sé lítil eru á henni mörg hólf. Opnaði ég hvert hólf samviskusamlega og öryggisvörðurinn tíndi allt út og renndi svo litlum sprota inn í hvert hólf fyrir sig. Pokinn með nærbuxunum og sokkunum (hreinum, vel að merkja) var tekinn varlega upp og lagt, ásamt öllu öðru, í tvo bakka. Í öðrum bakkanum voru græjur og raftæki, allt annað fór í hinn. Þegar taskan var orðin tóm, þá var henni rennt aftur inn í gegnumlýsingarvélina sem og græju- og raftækjabakkanum.

„Þegar svona mikið af tækjum er í töskunum þá er illmögulegt að sjá á röntgenmyndinni hvaða hlutir þetta eru,“ sagði öryggisvörðurinn mér.

Sem sagt, erfitt að sjá hvort ég væri með eitthvað varhugavert.

Ekkert athugavert fannst við seinni gegnumlýsingu.

Öryggisvörðurinn þakkaði mér þolinmæðina, hikaði síðan örlítið, og spurði hvort hann ætti að setja allt aftur í töskuna. Ég afþakkaði boðið og raðaði öllu eftir mínu flotta röðunarkerfi.

Sá svo aðeins eftir að afþakka. Forvitnilegt hefði nefnilega verið að sjá hvernig honum hefði tekist til að koma öllu aftur fyrir.

Skyldu menn fara á námskeið hvernig eigi að taka allt upp úr töskum og raða ofan í á nýjan leik? Kannski taka menn próf?

En, ég er allavegana vottaður hættulaus.

Í bili.

Lagður af stað „heim“

Sit núna ásamt Gullu og Rúnari Atla í eðalstofu á Heathrow. Eftir tvo tíma verðum við á leið út í vélina sem flýgur með okkur til Jóhannesarborgar. Stutt bið þar eftir flugvélinni sem kemur okkur síðasta spölinn til Lílongve. Ættum að vera komin heim um tvöleytið á staðartíma, tólf á hádegi að íslenskum tíma.

Ferðalagið hefur gengið vel sem af er. Við vorum meira og minna búin að pakka í töskur um kaffileytið í gær. Ég man ekki hvenær síðast við vorum ekki að pakka niður langt fram eftir kvöldi. Ó, nei, ekki í þetta sinn, vorum „gegt“ skipulögð. Og allt eftir bókinni, ein taska á mann, hver rétt rúmlega tuttugu kíló. Einhvern veginn tókst að láta allt smella ofan í töskurnar.

Svo er maður orðinn svo vanafastur. Eiginlega skelfilega. Í Leifsstöð keyptum við okkur nýjustu bók Arnaldar í kilju. Þetta höfum við gert í mörg ár. Nema reyndar í fyrra þegar við eyddum jólunum í Lílongve. En, nú bíður kiljan þess að vera lesin í Afríku. Annars var Leifsstöð með rólegasta móti. Og vélin til Lundúna minna en hálffull. Kannski full að þriðjungi.

En, sem sagt, verðum komin heim á morgun.

Hvar er þó heima?

Þegar við förum til Íslands, þá erum við á leiðinni heim. Þegar við förum út erum við líka á leiðinni heim. Er nokkuð skrýtið þótt börnin manns ruglist aðeins í ríminu?

7. janúar 2013

Börnin bera gleði

Áður en lengra er haldið vil ég óska lesendum gleðilegs árs og friðar.

Ég tók daginn snemma í dag.

Svona á íslenskan mælikvarða, a.m.k.

Þurfti að fara með bílinn á verkstæði. Hann þarf endilega að komast í gegnum aðalskoðun áður en við höldum aftur suður á bóginn. Þetta er reyndar þriðja verkstæðisferðin á stuttum tíma, enda er kagginn aðeins kominn til ára sinna. Þessi fjöldi ferða hefur leitt til þess að ég kann núna að ferðast í strætisvagni milli Æsufells og verkstæðisins. Leið fjögur er vagninn sem þarf að kunna á. Ekki kallast hann lengur Hagavagninn...

Í morgun sat ég sem sagt í vagninum á leið frá verkstæðinu og var kominn eitthvert áleiðis í gegnum Hólahverfið. Rétt fyrir framan mig sátu mæðgur og var dóttirin á að giska tveggja ára gömul. Svo ætluðu þær úr vagninum. Ja, móðirin ætlaði í það minnsta út, en dóttirin var ekki á því. Hékk á einni súlunni og var ósátt yfir einhverju. Mér datt í hug að hún væri ekki ánægð með að fara í leikskólann, en ekki var það nú raunin.

Eftir smáþjark, gafst móðirin upp. Trítlaði sú stutta þá fram eftir öllum strætisvagninum, alveg til bílstjórans og sagði „bæ, bæ.“ Bílstjórinn svaraði auðvitað með blessi, og svo trítlaði hnátan skælbrosandi aftur til baka að útgöngudyrunum þar sem móðirin beið. Fóru þær svo út.

Eftir sátu farþegarnir, allir með bros á vör.

Já, börnin bera gleði.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...