10. janúar 2013

Lagður af stað „heim“

Sit núna ásamt Gullu og Rúnari Atla í eðalstofu á Heathrow. Eftir tvo tíma verðum við á leið út í vélina sem flýgur með okkur til Jóhannesarborgar. Stutt bið þar eftir flugvélinni sem kemur okkur síðasta spölinn til Lílongve. Ættum að vera komin heim um tvöleytið á staðartíma, tólf á hádegi að íslenskum tíma.

Ferðalagið hefur gengið vel sem af er. Við vorum meira og minna búin að pakka í töskur um kaffileytið í gær. Ég man ekki hvenær síðast við vorum ekki að pakka niður langt fram eftir kvöldi. Ó, nei, ekki í þetta sinn, vorum „gegt“ skipulögð. Og allt eftir bókinni, ein taska á mann, hver rétt rúmlega tuttugu kíló. Einhvern veginn tókst að láta allt smella ofan í töskurnar.

Svo er maður orðinn svo vanafastur. Eiginlega skelfilega. Í Leifsstöð keyptum við okkur nýjustu bók Arnaldar í kilju. Þetta höfum við gert í mörg ár. Nema reyndar í fyrra þegar við eyddum jólunum í Lílongve. En, nú bíður kiljan þess að vera lesin í Afríku. Annars var Leifsstöð með rólegasta móti. Og vélin til Lundúna minna en hálffull. Kannski full að þriðjungi.

En, sem sagt, verðum komin heim á morgun.

Hvar er þó heima?

Þegar við förum til Íslands, þá erum við á leiðinni heim. Þegar við förum út erum við líka á leiðinni heim. Er nokkuð skrýtið þótt börnin manns ruglist aðeins í ríminu?

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...