21. október 2011

Nappaður!

Í síðustu viku lá leið mín sem oftar til Apaflóa. Varla í frásögur færandi, því líklega eru færri vikur sem ég hef ekki ekið þessa 200 km leið.

En í þetta sinn lenti ég í löggunni. Já, var nappaður fyrir of hraðan akstur af malavísku löggunni.

Leiðin til Apaflóa liggur í gegnum bæ sem heitir Dedza. Þjóðvegurinn liggur yfir litla hæð og þar sem maður ekur niður hæðina þá er fallegt skilti við vegarkantinn. Býður það mann velkominn til bæjarins. En, neðst á skiltinu stendur smáum stöfum að ekki skuli aka hraðar en á 50 km hraða í gegnum bæinn. Hins vegar blekkir mann að vegurinn sjálfur breytist ekkert þarna. Er beinn og breiður og engin hús við veginn. Bærinn liggur að mestu leyti norðan við veginn og því er lítið sem bendir til að maður sé kominn inn í þéttbýli.

Þetta veit auðvitað löggan og situr hún þarna flesta daga með hraðabyssuna sína. Veit ég ekki fyrir en lögreglukona stígur út á veginn og gefur mér merki að stöðva bílinn.

„Þú ókst of hratt,“ tjáði hún mér, alvarleg í fasi.

Ja, hvað gat ég sagt. Var á rúmlega 80 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Ég gekkst auðvitað við öllu, enda ekki gáfulegt að rífast við lögregluna.

Í Malaví er það þannig að ökumenn þurfa að punga út fyrir sektum á staðnum. Sem betur fer var ég með pening í vasanum. Fimm þúsund kvatsa hljóðaði sektin upp á. Þætti nú vel sloppið heima á Fróni að borga um 3.500 krónur fyrir að vera 30 og eitthvað kílómetra yfir hámarkshraða.

Ég borgaði, hélt á brott og hét því að gæta mín í framtíðinni á þessum stað.

En sögunni lauk ekki þar.

Næsta dag lá leið mín frá Apaflóa til bæjar sem nefnist Mangotsí. Sá liggur við syðri enda Malaví-vatns og er rúmlega 60 km frá Apaflóa. Samskipti mín við lögguna höfðu vakið smávegis kátínu meðal innlendra samstarfsmanna minna deginum áður. Var ég varaður við því að löggan ætti sér tvo uppáhaldsstaði á leið minni þennan dag og liði varla sá dagur að hún dúkkaði ekki upp á öðrum hvorum þeirra.

Ég passaði mig. Um leið og ég sá 50 km hraðaskilti þá lagðist fótur minn með miklum þunga á bremsuna og svo var lullað á meðan sá hraði var í hámarki.

Nema hvað, ég sé lögguna vera að mæla. Ekki vandamál, hugsa ég, enda á 50 eins og leyfilegt er.

Nei, nei, haldiði ekki að ein löggan gangi út á götuna og stöðvi mig.

„Þú ókst of hratt, vinur minn,“ sagði löggan.

„Ha!“

Ég hváði og kannaðist ekki við neitt.

„Jú, þú ókst á 52!“

52!!!

Hver skyldu eiginlega skekkjumörkin vera á svona hraðamælingu?

„En, ég sleppi þér með viðvörun í þetta sinn,“ tjáði góðhjörtuð löggan mér.

Viðvörun!

Núna fer ég niður í 45 km hraða þegar ég nálgast hættusvæðin.

Hef ekki verið tekinn síðan.

15. október 2011

Draumur ungs drengs

Sonur minn ungur tjáði mér rétt í þessu að sig langi til Havaí.

Nú, af hverju, vildi ég vita.

Þar er strönd og stelpur sem dansa, sagði hann ábúðarfullur.

Það var nefnilega það.

Ég held ég fari örugglega með rétt mál er ég segi að sjö ára gamall hafi ég ekki velt mikið fyrir mér dansandi stelpum.

Svona breytist allt.

9. október 2011

Sum hjörtu brostin, önnur ekki

Í morgun brustu mörg suður-afrísk hjörtu. Stökkhafrarnir þeirra töpuðu nefnilega fyrir Áströlum í fjórðungsúrslitum á heimsmeistaramótinu í rúbbíi.

Ekki kæmi á óvart að nöldrað verði yfir frammistöðu dómarans á kaffistofum þar syðra á morgun.

Frakkar hins vegar eru í skýjunum eftir að vinna sigur í gær á erkifjendunum frá Englandi í gær. Rúnar Atli fór í afmæli í gær til fransks bekkjarbróður síns. Pabbi hans var í skýjunum yfir sigri Frakka. Ekki skemmdi fyrir að hann horfði á leikinn í breska sendiráðinu hér í borg. Greinilega var sú upplifun algjör rúsîna í pylsuenda.

Já, hvernig væri lífið ef engar væru íþróttirnar?

8. október 2011

G en ekkert T

Á þessum sjö, átta vikum sem við höfum búið í Lílongve erum við búin að átta okkur á tvennu í sambandi við innkaup. Hægt að kaupa allflest það sem hugurinn girnist hér í borginni. En, og það er hinn lærdómurinn, vandamálið er að finna búðina sem býður upp á það sem hugurinn girnist þá stundina.

Einn daginn svigna mjólkurhillur undan endalausum tegundum af jógúrt, svo dæmi sé tekið. Tveim dögum seinna eru sömu hillur eins og eyðimörk. Þá hefst leit að annarri verslun með svignandi hillum.

Nú í dag lenti ég í smávanda.

Við kíktum í matvörubúðina og ég ákvað að grípa með mér einni flösku af Malaví gini.

Já, hér er áfengi selt í matvörubúðunum og engum þykir neitt merkilegt við það. Ja, reyndar ekki í búðum sem eru í eigu múslíma.

Malaví gin er ágætis drykkur. Reyndar nokkuð frábrugðið því gini sem maður kaupir annars staðar, en alveg ágætt engu að síður.

En út í gin þarf auðvitað tónik.

Og þar vandaðist málið.

Ekki tónikflösku að sjá í búðinni.

Ekki einu sinni tómt gler, hvað þá meir.

Ég fór í aðra búð.

Sama saga.

Það verður því freyðivín í glasi hjá mér í kvöld við grillið, ekki gin og tónik.

En á morgun hlýt ég að finna einhvers staðar tónik.

Þjóðarstolt eða sölumennska

Var að skoða hjólbörur í búð einni í indverska hverfinu hér í Lílongve. Þarf eiginlega að fjárfesta í þannig grip. Í búðinni voru til þrjár tegundir.

Kínversk framleiðsla, indversk framleiðsla og suður-afrísk framleiðsla.

Og hvernig þekkir maður svo gæðin?

Þær kínversku kosta 10 þúsund kvatsa (u.þ.b. 7.500 kr).

Þær inversku 12.500 kvatsa og þær s-afrísku 15.000 kvatsa.

Þetta er yfirleitt standardinn hér, kínverskt lélegast, inverskt þokkalegt og s-afrískt best.

Allir sölumenn búast við að útlendingur eins og ég kaupi bestu gæðin, þ.e. það dýrasta.

En svo hvíslaði afgreiðslumaðurinn, af indverskum ættum, laumulega í eyra mér: „Þær indversku eru alveg jafngóðar og þær s-afrísku.“

Þarna varð þjóðarstoltið yfirsterkara sölumannseðlinu.

4. október 2011

Húrra, rigning!

Núna eftir hádegið fór að rigna í Lílongve.

Hér hefur ekki rignt síðan við komum fyrir tæpum tveimur mánuðum. Og þá var ekki búið að rigna í einhverja mánuði.

Regntímabilið fer bráðum að hefjast, en ég held reyndar að þetta sé smáforskot á sæluna.

Rigningin var ekta. Alveg eins og í Windhoek. Núna dembist hún niður með hávaða og látum.

Og sama lykt og í Windhoek fyllir hér vitin. Lykt af þurrum jarðvegi sem verður blautur á svipstundu.

Lykt gróðurs.

Lykt gleði.

A.m.k. fylgdi ávallt gleði rigningu í Windhoek.

Á morgun kemst ég vonandi að því hvort gleði fylgi líka rigningu í Lílongve.

1. október 2011

Kvenfélagsbasar í Lílongve

Enn runninn upp laugardagur. Og nýr mánuður í leiðinni. Tíminn líður, um það þarf ekki að deila.

Í morgun var árlegur basar alþjóðakvenfélagsins í Malaví. Gulla er auðvitað komin í þennan hóp og sem eiginmaður hennar var ég munstraður í djobb þarna. Var við einn innganginn að rukka aðgangseyri. 

Hálfgerður handrukkari, kannski.

Þarna stóð ég í nær tvo tíma og rukkaði 500 kvatsa fyrir fullorðna og 300 fyrir börn. Gulla var með mér megnið af tímanum, enda mér varla treystandi fyrir peningum annarra.

Hagfræðingur, sjáiði til.

En þetta var fínt. Fullt af fólki mætti. Sumir reyndu að svindla sér inn á barnagjaldi, en handrukkararnir tóku hart á slíkri vitleysu. Enda verið að safna fyrir góð málefni.

Létt var yfir fólki, enda alltaf gaman þegar skemmtilegur viðburður brýtur upp daglega mynstrið. 

Eftir að vinnunni lauk, þá röltum við um svæðið. Keyptum við Rúnar Atli okkur norskar vöfflur með jarðaberja og hindberjasultum. Mjög góðar, þó mínar vöfflur slái þeim auðvitað við. En norsku konurnar önnuðu varla eftirspurn, enda fátt betra en nýbökuð sultuvaffla.

Svo keyptum við okkur indverskt naan-brauð með einhverri frábærri kjúklingabitasósu. Indverskur matur er ótrúlega góður. 

Þetta væri auðvitað ekki hægt á Íslandi. Að elda mat ofan í fólk án þess að nota stimpluð og vottuð iðnaðareldhús...

Æ, hvað við Íslendingar sem hópur erum óendanlega misheppnaðir. 

En, ég nenni ekki að velta mér upp úr því. Ekki núna.

Við rákumst á golfkennarann hans Rúnars Atla. Hann sagði mér að sonur minn væri áhugasamasti nemandinn sinn. Þá veit maður það. Ætli maður verði ekki að fjárfesta í golfsetti handa drengnum eftir áramótin.

Basarinn var skemmtilegur og ábyggilega mikið af peningum sem safnaðist. Það var fyrir mestu í dag.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...