22. júní 2017

Það er nú þetta með gps-tækin

Fyrir einhverju síðan keyptum við okkur gps-tæki fyrir bíl. Við höfum iðulega tekið bíla á leigu í Jóhannesarborg og fengið gps-tæki með. Þau hins vegar voru iðulega ekki góð, bæði illa uppfærð kort  og bara léleg og gömul tæki. Því keyptum við okkur eitt og höfum ekki séð eftir því. Fyrir tæknisinnaða er þetta Garmin Drive tæki, týpa 60LM. Virkilega gott tæki sem við tökum með okkur í ferðalög á framandi slóðir.

Þegar við komum til Svíþjóðar á sunnudaginn var þá var tækið með í handfarangrinum. Um leið og lykillinn að bílaleigubílnum var kominn í okkar hendur þá var Garmin tækið fest innan á framrúðuna og þar með var allt tilbúið.

Sumir vita að Rúnari Atla þykja McDonald's hamborgarar hnossgæti og er einn af hápunktum hvers ferðalags að komast á svoleiðis eðalstað. Var búið að lofa drengnum að það fyrsta sem við myndum gera í Svíaríki væri að fara og kaupa hamborgara. Því sló ég inn „McDonald's“ í gps-inn og, viti menn, slatti af stöðum birtist á skjánum. Sá nálægasti í ríflega fjögurra kílómetra fjarlægð frá Arlanda flugvellinum.

Ég ýtti á „Go“ og við af stað. Gps-daman, þessi elska, fór að lóðsa mig um göturnar. Slæmt var þó að Gulla, Dagmar Ýr og Rúnar Atli voru komin í hrókasamræður, enda hafði Dagmar ekki hitt þau hin lengi. Drukknaði yndisfagra rödd gps-dömunar því stundum í hávaðanum. Ég, eins og aðrir karlmenn, á erfitt með að fylgjast með mörgu í einu og því fór það þannig að þegar um 800 metrar voru eftir á McDonald's staðinn að ég tók of krappa beygju. Í stað þess að renna ljúflega til hægri út af hraðbrautinni og upp á hæð og yfir, þá fór ég yfir á hægri beygjuakrein og var allt í einu kominn á aðra hraðbraut, sem lá þvert á þá fyrri.

Úpps!

Var ég svolítið gramur út í sjálfan mig fyrir þetta klúður en hugsaði nú að gps-daman myndi nú, eins og venjulega, redda mér einn, tveir og þrír út úr vandanum. Jú, jú, hún sagði mér að aka áfram og taka u-snúning ... eftir ... 14 kílómetra!

Æ, æ, þetta varð aðeins lengra ferðalag en til stóð. 800 metrar urðu í einu vetfangi að 28 kílómetrum...

En nú er ég búinn að redda þessu skal ég segja ykkur:


Máltækið segir jú að betur sjái augu en auga - sem ég yfirfæri þá að betur vísi veginn leiðsagnir en leiðsögn.

Eða hvað?

20. júní 2017

Alvöru sumarfrí!

Þá á að taka almennilegt sumarfrí! Yfirleitt eru „sumarfríin“ okkar tekin um jólin og að mestu eytt á Fróni. En, ekki í þetta sinn. Nú er komið að sjö vikna fríi, hér og þar um Evrópu. Rúsínan í pylsuendanum verður í Lundúnum undir lok júlí. Ég skrifa kannski um það síðar. Ísland er auðvitað í Evrópu - þótt ekki í Evrópusambandinu sé - svo við komum þar við líka.

En, við lögðum af stað á sunnudaginn var. Flugum með Flugleiðum Katar frá Mapútó til Dóha og svo þaðan með sama flugfélagi til Arlanda flugvallar í Stokkhólmi. Við erum sem sagt í Svíþjóð núna og ætlum að vera hér í viku, eða svo.

Alltaf gaman á flugvöllum - að þessu sinni í Mapútó

Hér er svo ein flugvél frá Flugleiðum Katar
Eins og margir vita þá er smávegis diplómatískur taugastrekkingur í Mið-Austurlöndum og hefur Katar - að eigin sögn - lent í einelti nágranna sinna. Ég ætla nú ekkert að tjá mig um þau mál, nema að vegna þessa strekkings þá varð flugið okkar frá Mapútó til Dóha klukkustund lengur en annars. Í kringum níu tíma í stað um átta. Þarf að taka smá krók út af þessu veseni öllu. Í stað þess að flúga eins og rauða línan á myndinni hér að neðan, þá sýnir sú græna flugleiðina. En í staðinn var þá styttri bið á flugvellinum. Ævinlega að sjá björtu hliðarnar.

Neibb, rauða leiðin er úr sögunni í bili, en betri er krókur en kelda

Þrátt fyrir lengri leið þá var bara gaman í vélinni
Sumir voru nú þreyttir í Dóha, enda lentum kortér yfir eitt að morgni og flugum aftur af stað rétt fyrir klukkan átta sama morgun.

Ha, vakna?
En á leiðarenda komumst við.

Á Arlanda beið Dagmar Ýr eftir okkur, en hún kom frá Íslandi u.þ.b. 40 mínútum fyrr en við. Þar urðu fagnaðarfundir. Svo sóttum við bílaleigubíl og ókum til Oxelösund, þar sem Doddi mágur býr jú. Við ákváðum að forðast hraðbrautina og fórum lengri leið um sveitavegi, sem var gaman, enda Svíþjóð fallegt á að líta. Og við fundum húsið.

Húsið er sem sagt fyrir aftan póstkassann
Ekki er hægt að segja annað en við höfum sofið vært fyrstu nóttina í Svíþjóð, eftir langt ferðalag. Svo í dag var skroppið í bíltúr um sveitirnar, en ekki fyrr en búið var að fá sér hádegismat.

Stuð í hádeginu. Ellen er þarna líka en faldi sig - myndatökumótþróaskeið
Já, er þetta vinnan? Ég er veikur í dag...
Nei, nei, hann tók sér frídag.

Í alvörunni.

En eins og ég sagði - fallegt land hún Svíþjóð

Búsældarlegt og ægifagurt

Sumum leist nú reynda ekkert á blikuna...

Ha?! Á ég að vera í bíl með Dodda? Þykir foreldrunum ekkert vænt um mig??

... á meðan aðrir voru í sólskinsskapi.

Sko, sólgleraugun hjálpa til, látiði ekki svona
Dagurinn var fínn. Og er það reyndar enn. Sit núna úti á svölum með gin og tónik í glasi. Einhver að elda kvöldmat.

Hversu betra gæti þetta verið?

24. janúar 2017

Hitabylgja í vændum

Úff!

Veðurstofan mósambíska spáir hitabylgju í dag og á morgun í Mapútó-fylki og Gasa-fylki, sem liggur norðan við Mapútó. Á bilinu 36 til 39 gráður á Selsíus.

Aftur úff!

Í gær var hitinn í kringum 32 gráður yfir hádaginn. Loftið var kyrrt og mikill raki. Enda var maður ekkert mikið í líkamsrækt og átökum. Nei, maður liggur í híði eins og birnirnir.

Ég efast þó um að birnirnir hafi loftkælingar til að liggja undir...

11. janúar 2017

Vatn eða ekki vatn

Þá er maður kominn úr jólafríinu. Mættur til vinnu og allt að hrökkva í gírinn. Skólinn byrjaði í gær hjá Rúnari Atla. Honum þótti það skemmtilegt. Gulla er þessa vikuna í afleysingakennslu í skólanum hans Rúnars. Sem sagt nóg að gera.

Svolítil voru viðbrigðin að koma úr vitleysisveðrinu á Fróni. Hér í Mapútó náðu selsíusgráðurnar upp í þrjátíu-og-eina í dag. Samt var skýjað fram eftir degi. Eitthvað rigndi á meðan við vorum í burtu, því tréin eru grænni og laufmeiri en fyrir rúmum mánuði. Svo eru miklu fleiri holur í malbikinu en þá.

Þrátt fyrir rigninguna er vatnsskortur í höfuðborginni og nágrenni. Uppistöðulónið sem sér okkur fyrir vatni er nefnilega að verða tómt. Mig minnir að hafa séð einhvers staðar að vatnsmagnið sé 14% af því mesta mögulega. Svona hefur ekki sést frá því uppstöðulónið var fyrst tekið í notkun 1987. Meginorsök vandamálsins er að Úmbeluzi áin, sem skaffar lóninu vatnið, á upptök sín í Svasílandi, en þar hefur sáralítið rignt undanfarin tvö til þrjú ár.

Nýi tankurinn sem hlýtur að fylla
klósettkassa eða tvo
Nú er búið að tilkynna að vatn verði skammtað næstu vikurnar, þ.a. maður fær vatn annan hvern dag. Vatnsveitan birti tilkynningu um þetta í vikubyrjun og fylgdi með tafla með tveggja vikna skömmtunaráætlun. Í töflunni voru listuð hin ýmsu hverfi borgarinnar og annar hver dagur er hvítur og hinn dagurinn blár. Hins vegar var ekki sagt hvor liturinn þýddi að maður hefði vatn og hvor þýddi að maður hefði ekki vatn. Nú ríkir því svolítill spenningur um þetta.

Samkvæmt tilkynningunni hófst skömmtunin í gær, en þá höfðum við vatn. Í dag höfum við líka vatn, svo maður lifir enn í „litaóvissu.“ En ekki þýðir annað en að hafa vaðið fyrir neðan sig og því fjárfestum við í 210 lítra forðatanki. Maður verður nú að geta sturtað niður úr klósettinu...

Undanfarin ár höfum við nokkrum sinnum upplifað bæði vatns- og rafmagnsleysi. Verður að segjast að vatnsleysið er töluvert verra. Engin spurning. Að komast ekki í sturtu þegar maður vill er virkilega pirrandi. Að ekki sé talað um klósettmálin. Við vonum hins vegar að skipulag vatnsveitunnar haldi, því það er nú ólíkt betra að vita hvenær ekki er vatn, heldur en að vakna upp við vondan draum.

Svo vonum við auðvitað að fari að rigna í Svasílandi!

19. ágúst 2016

Komnir gestir

Haldiði ekki að það séu komnir fyrstu gestir til Mapútó! Já, 20 dögum eða svo eftir að við mætum á svæðið, þá eru komnir gestir. Geri aðrir betur.

Gestirnir koma frá Svíaríki, Doddi mágur og Ingela, heitmey hans, svo maður noti nú fína íslensku. Þau eru búin að vera í Suður Afríku í tíu daga eða svo. Skoða dýralífið í Kruger þjóðgarðinum og svoleiðis. Núna í morgun renndu þau yfir landamærin og voru komin til Mapútó skömmu fyrir hádegi. Hér verða þau fram á fimmtudag, en þá fetja þau sig aftur til Jóhannesarborgar og fljúga undir lok mánaðar til Svíaríkis.

Þau lentu reyndar í löggunni, sem sagði að Doddi hefði ekið yfir á rauðu ljósi. Hann hefur ekki hugmynd um hvort það var rétt eða ekki. Þetta gerðist um það leyti sem þau komu inn í borgina og umferðin þótti Dodda frekar ævintýraleg og snerist aksturinn mikið um að forðast aðra bíla. Þ.a. kannski sá hann ekki umferðarljósin. Nú, eða kannski sáu löggurnar tækifæri í bíl með suður afrískar númeraplötur. Hvað veit maður?

13. ágúst 2016

Það er þetta með sængurverin

Yfirleitt er nú ágætishiti í henni Afríku. Reyndar finnst manni stundum nóg um. Stærstan hluta ársins er sæng engin nauðsyn. Oft sofum við bara með sængurver ofan á okkur, svona bara af því að manni finnst óþægilegt að hafa ekkert ofan á sér á nóttunni. Skrýtið, en svona er það samt.

En, núna er vetur. Þá er í kaldara lagi á nóttunni og gott að hafa sæng. Við skildum sængurnar okkar eftir í Lílongve þegar við fluttumst til Mapútó. Enda frekar þunnar og orðnar hálfslappar. Eitt af fyrstu verkunum á nýjum stað var því að kaupa sængur og kodda. Ekkert mál var að finna svoleiðis.

Svo þarf auðvitað sængurver. Fyrir Rúnar Atla var það ekkert mál. Stjörnustríðssængur- og koddaver. En, fyrir okkur Gullu varð þetta svolítið meira mál. Við keyptum okkur sitthvora einbreiða sæng. En sængurverin? Öll í tvöfaldri breidd eða drottingarbreidd.

Ég held við séum búin að fara í fjórar búðir að leita. Og spyrja. Fólk heldur að við séum fávitar. Að hægt sé að fá sængurver fyrir mjórra en tvíbreidd? Neeeeiiii, svoleiðis er bara ekki til. Og enginn virðist nokkurn tímann hafa heyrt um svoleiðis lagað.

Ég skil þetta bara ekki. Af hverju selja einbreiðar sængur, en engin sængurver sem passa?

Við höfum því sofið undanfarið með sængurnar án sængurvera. En það er ekki gott. Hreint út sagt óþægilegt.

Við sáum sæng okkar því upp reidda...!! (sáuð þið þennan brandara nokkuð fyrir???)

Í dag gáfumst við upp og fórum í nýjan leiðangur. Við Gulla höfum verið gift það lengi að við vitum að það þýðir ekkert að vera með sömu sængina. Tvær tvíbreiðar voru því keyptar - og það besta - ný sængurver!

Sængurverin fóru í þvottavélina áðan og svo þurrkarann. Eru núna komin utan um sængurnar.

Við hlökkum þvílíkt til að fara upp í rúm!

11. ágúst 2016

Allt fram streymir

Jæja, einhvers lags rútína er að komast á hjá okkur. Vaknað skömmu eftir klukkan 5 á morgnana. Ég stekk á fætur, nú eða dröslast framúr, fer í sturtu og útbý morgunverð fyrir okkur feðgana. Skömmu eftir klukkan sex erum við tveir sestir við morgunverðarborðið og spilum kasínu og ólsen-ólsen á meðan við borðum. Gulla stendur í nestisgerð á meðan. Svo rétt fyrir klukkan sjö leggjum við tveir af stað í skóla og vinnu. Það tekur nú ekki nema góðar fimm mínútur að komast í skólans hans Rúnars Atla, kannski átta mínútur. Hann á að vera mættur 7:15 í skólann og kennsla hefst hálfátta. Um það leyti er ég að leggja bílnum fyrir utan sendiráðið.

Já, lífið er í raun ekkert öðrum vísi í Afríku en á Íslandi. Ja, nema kannski að veðrið er yfirleitt þægilegra hjá okkur á suðurhvelinu. En kannski er það afstætt.

Í skólanum var „Stuðdagur“ síðasta klukkutímann eða tvo. Allskonar leikir og þess háttar til að „hrista hópinn saman“ eins og sagt er. Fór þetta fram í splunkunýju íþróttahúsi sem er við skólann. Þvílíkt gímald að það hálfa væri heljarinnar hús.


Í hádeginu í dag rölti ég í sælkerabúð sem er rétt hjá sendiráðinu. Eftir fimm ár í Lílongve er maður enn að venjast að hafa aðgang að þessum líka fínu sérverslunum sem eru hér í Mapútó. Þarna skoðaði ég mygluosta, snobbkex og mexíkóskar salsasósur. Já, og ekki má gleyma fínu guðaveigunum. Í þessari búð eru risavaxnar Dom Perignon kampavínsflöskur í efstu hillu og eldgamalt Hennessy koníak þar við hliðina. Ég hef nú ekki enn lagt í að spurja hvað þær dásemdir kosta.

Líka kíkti ég í bókabúð sem er á svipuðum stað í bænum. Þar fann ég fína portúgalska orðabók og líka sagnbeygingabók. Þarna inni voru allskonar bókmenntir á portúgölsku, frá teiknimyndasögum upp í heimsbókmenntir. Ætli maður kíki eftir oftar þarna inn þegar maður fer að slípast í málinu.

Við flutning eins og okkar er ýmis konar skriffinnska sem þarf að sinna til að fá landvistarleyfi og hin og þessi skilríki. Dagurinn í dag var góður í þeim skilningi að skírteini streymdu í hús. Bæði fengum við nafnskírteini sem eru nauðsynleg til að geta sótt um hina og þessa þjónustu og svo fékk Rúnar Atli skólaskírteinið sitt. Í gær fékk ég eitthvert kort sem er nauðsynlegt fyrir fjársýslu. Já, það er bjart inn á milli þess sem maður rífur hár sitt og skegg yfir að skilja ekki fólk og það ekki mann.

Svo fer að styttast í gáminn sem við sendum frá Lílongve með okkar persónulegu munum. Þegar hann kemur hættir vonandi að bergmála í húsinu.

Það er nú þetta með gps-tækin

Fyrir einhverju síðan keyptum við okkur gps-tæki fyrir bíl. Við höfum iðulega tekið bíla á leigu í Jóhannesarborg og fengið gps-tæki með. Þa...