31. ágúst 2010

Fiðrildið flogið á braut

Þá er hún Tinna Rut lögð af stað. Komin svona hálftíma áleiðis til Jóhannesarborgar. Aðeins verður rólegra í kofanum núna.

Við tókum þessa mynd í tilefni þess að hún var að fara.

Svo hefst bara daglega stritið á nýjan leik.

Fer að fækka í fjölskyldunni

Þá líður að því að hún Tinna Rut mín haldi aftur til Kanada í háskólanámið sitt. Kortér yfir þrjú á morgun að staðartíma eftir hádegi flýgur hún frá Windhoek.  Þaðan til Jóhannesarborgar og þaðan til Lundúna og svo áfram til Keflavíkur. Þar lendir hún klukkan þrjú á miðvikudagseftirmiðdag. Á föstudaginn leggur hún svo af stað til Kanada.

Langt og strangt ferðalag.

Enginn veit hvenær hún kemur aftur til Namibíu, því vera okkar allra styttist hér.

En hún er sem sagt búin að vera hér í fjóra mánuði í þetta sinn. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt.

Mér finnst eins og í gær þegar ég var að kveðja hana fyrir utan skólann hennar í Prince George. Þó var það í fyrstu viku janúar (í tæplega 30 stiga gaddi - brrr). Og nú þarf að kveðja hana á nýjan leik.

Æ, það verður leiðinlegt.

29. ágúst 2010

Verðlag á aukahlutum fyrir tölvur

Eftir að tölvan hennar Tinnu Rutar var endanlega send í ruslið, eins og lesa má um hér, þá erfði hún gamla Makkafartölvu sem systir hennar átti einu sinni. Sú verður þolanleg fyrir Tinnu Rut í sínu háskólanámi, a.m.k. í bili.

Vandamál var þó að rafhlaða tölvunnar er á síðasta snúningi og svo tók spennubreytirinn á því að gefast upp. Þ.a. Gulla og Tinna Rut hafa þurft að deila spennubreyti síðustu vikur.

Ég hef vafrað um netið undanfarið að leita að þessum tveimur aukahlutum fyrir tölvuna. Þá er hægt að kaupa af Makkaumboðinu heima, epli.is, en rafhlaðan kostar þar 28.491 kr - með afslætti - og spennubreytirinn 14.241 kr. Samtals nærri því 43 þúsund krónur.

Aðeins.

Mér fannst þetta svolítið blóðugt.

Um helgina fór ég því að leita á kanadískum vefsíðum. Tinna Rut er jú í háskóla í því fína landi.

Er skemmst frá að segja að ég datt niður á þessa fínu vefsíðu, BattDepot.ca, og fór að leita þar. Endaði ég á að kaupa bæði rafhlöðuna og spennubreytinn í gegnum þetta fyrirtæki og láta senda heim að dyrum til Tinnu Rutar. Með sendingargjaldi og söluskatti greiddi ég tæpa 78 Kanadadali fyrir þetta.

Hvað er það mikið í íslenskum krónum?

Jú, rétt innan við 9.000 krónur!

Rétt rúmlega fimmtungur af því sem þetta kostar á Fróni.

Ég átti von á að kanadíska verðið væri 50-70 prósent af því íslenska. En 21%?

Hvernig má þetta vera?

Stór dagur. 6 ár að baki.

Rúnar Atli hefur beðið lengi eftir þessum degi. Dagurinn sem aldrei virtist ætla að koma, rann loks upp. Sex ára afmælisdagurinn.

Allt við fimm árin var orðið þreytt og leiðinlegt. Meira að segja var bókstafurinn f farinn að fara í taugarnar á þeim litla. Þess vegna var ómögulegt að vera fimm ára.

En í dag, loksins. Loksins kom langþráða augnablikið. Sex ára.

Ég man ekkert eftir mínum sex ára afmælisdegi. Er það illskiljanlegt miðað við hversu miklu máli þessi áfangi skiptir son minn. En kannski er þarna eitthvað kynslóðabil sem gerir vart við sig. Eitthvað sem skipti engu í gamla daga er mjög mikilvægt í dag.

Auðvitað er þó eitt sem er alltaf mikilvægt á afmælisdegi. Pakkarnir!

Og að sjálfsögðu er skemmtilegt að opna:

Einn pakkinn var stærri en aðrir:

Playmó er aðaldótið og hefur verið lengi. Legókubbar eru reyndar líka í miklu uppáhaldi. En risaeðlu-playmó og safarí-playmó er mest leikið sér við í dag.

Svo var öllum þakkað fyrir. Þá náðist mynd af sætum systkinum:

Annars hefur vinsælasta setning afmælisbarnsins í dag verið: ,,Ég ræð í dag!'' Kemur þetta til vegna þess að fyrir einhverjum dögum var hann spurður hvað hann vildi í morgunmat á afmælisdeginum sínum. Íslenskar pönnukökur urðu fyrir valinu. Síðan var hann spurður hvað hann vildi í kvöldmat. Eftir nokkra umhugsun var svarið: ,,Kjúkling með beini.'' Á hann þar við kjúkling bakaðan heilan.

En, sem sagt, þessar spurningar urðu til þess að hann sá að auðvitað ætti hann að ráða öllu á afmælisdeginum sínum. Þó þurfti aðeins að skerpa á þessu við suma fjölskyldumeðlimi (les: föðurinn) eins og meðfylgjandi mynd ber með sér:

Sumir eru bara þyngri í taumi en aðrir.

En svo sá faðirinn að sér og bakaði afmælistertuna, sem drengurinn bað um. Kringlótt súkkulaðiterta:

Mikil átök voru við að blása á kertin. Blásið var af afli. Var atgangurinn þvílíkur að fætur voru á lofti eins og sést á meðfylgjandi mynd. En á öllum kertunum slökknaði í kjölfarið.

Gestir í dag voru fáir. Bara fjölskyldan. Þannig er að núna er skólafrí í Namibíu. Annarfrí milli annarrar og þriðju annar. Því var ákveðið að halda afmælisveislu handa bekkjarsystkinum um miðjan ágúst. Áður en skólinn færi í frí.

Var þetta fyrsta alvöru afmælisveisla Rúnars Atla og var því öllu tjaldað til. Fengum við inni á einu kaffihúsa bæjarins, en þar er mikið gert úr barnaafmælum. Nær 20 krakkar mættu í veisluna og skemmtu sér vel. Enda var stærðarinnar hoppukastali á svæðinu og svo var hægt að föndra undir leiðsögn. Hópurinn var stór:

Takið eftir fótabúnaðinum. Langflestir berfættir, en þannig finnst krökkum hér best að vera. Rúnar Atli er annar frá hægri í fremstu röð.

Auðvitað þurfti að baka tertu líka fyrir veisluna. Textinn á henni var á þýsku, því það er móðurmál stórs hluta barnanna og svo eru þau líka í þýskum skóla.

Þessi afmælisdagur mun ábyggilega lifa lengi í minningunni, enda skemmtilegur með afbrigðum.

21. ágúst 2010

Meira af heilsuvöfflum

Hérna er stödd í borginni íslensk kona sem er að vinna að táknmálsverkefni sem stutt er af vinnunni minni. Þær eru reyndar tvær konur staddar hér í þessum tilgangi, en þessi fyrrnefnda berst við hveitióþol eða eitthvað þess háttar. Útaf henni er þessi dagbókarfærsla. Einhvern tímann í fyrri heimsókn ætlaði ég að bjóða henni upp á vöfflur, en komst þá að þessu með hveitivandamálið. Hún fékk sem sagt ekki vöfflur hjá mér þá.

Núna þótti mér tilvalið að reyna að bæta um betur og bjóða upp á vöfflur sem hún gæti notið með okkur hinum. Er henni boðið í vöffluveislu á morgun, ásamt ýmsum öðrum.

Í gær fór ég því á stúfana til að komast að því hvernig maður ber sig eiginlega að við að útbúa svona vöfflur. Fyrst var auðvitað gúgglað. Þá kemur upp þetta sígilda gúgúl-vandamál, nefnilega alltof mikið af upplýsingum. Blaðsíða eftir blaðsíðu af uppskrifum. Glúteinlausar vöfflur í massavís.

Eftir að plægja mig í gegnum einhverjar síður var ég kominn með innkaupalista. Þá var farið í Súper-Spar, en það er snobb-matvörubúðin hér í borginni. Þar er nefnilega heilsuhorn, allskonar heilsuvörur sem ég veit ekkert til hvers eru. Venjulega þegar ég álpast út í heilsuhornið þá er ég án markmiðs og horfi bara ráðvilltur í kringum mig.

Ekki núna.

Núna var ég með heilsuhornsinnkaupalista.

Það sem mest kom á óvart var að allt sem ég þurfti var til þarna. Hvort sem um var að ræða heilsuvöru úr íslenskri, breskri eða bandarískri uppskrift; allt var til. Já, svona er lífið í henni Afríku, skal ég segja ykkur.

Svo áðan gerði ég baksturstilraun. Ekki þýðir að hafa ekki prófað áður en gestirnir koma.

Ég notaði glúteinlaust hveiti, sojamjólk, kókosfitu, vínsteinslyftiduft, agave-sýróp, egg og gusu af vanilludropum. Deigið var allt öðruvísi en ég er vanur. Miklu meiri teygja í því en í venjulegu vöffludeigi og rann það því ekki vel út á vöfflujárninu. En engu að síður litu vöfflurnar vel út.

Glúteinlausar vöfflur. Mér skilst að svona megi kalla glútán-vöfflur. Án glúteins, þ.e.a.s.

Stóri dómur í vöfflumálum er Rúnar Atli.

Hann tók einn bita.

„Nammi-nammi,“ var niðurstaða hans. Hámaði hann svo vöfflurnar í sig.

Meira að segja Gullu þóttu þær ágætar. Annað en með heilhveitivöfflurnar um daginn.

Mér fundust þessar vöfflur alveg þrælgóðar. Öðruvísi á bragðið en venjulegar vöfflur, en ekki verri.

Vöffluveisla morgundagsins lítur því vel út.

Nú er bara spurning hvað maður prófar næst.

14. ágúst 2010

Popp í skál - nei, vilja frekar hrísgrjón

Stundum þegar horft er á skemmtilegar bíómyndir í sjónvarpinu, þá finnst mér við hæfi að fá mér kartöfluflögur í skál, nú eða poppkorn. Skyldu börnin mín hafa sama smekk?

Nei, öðru nær.

Þau fá sér frekar hrísgrjón í skál!

Er merkilegt hvað öllum börnunum okkar Gullu þykja hrísgrjón góð. Stundum höfum við velt því fyrir okkur hvort einhver asísk gen hafi einhvern veginn slæðst inn í blönduna hjá okkur hjónunum. Veit ekki hvernig það gæti gerst, en svo mikið er víst að hrísgrjón þykja þeim góð.

13. ágúst 2010

Risaeðluspor - þó ekki mjög svo „risa“

Á leiðinni heim frá Vatnafellinu um daginn, þá kíktum við á sveitabæ sem heitir því ekki mjög svo þjála nafni Otjihaenamaparero.

Þvílíkur tungubrjótur. Og svo kvarta Namibíumenn yfir því lipra nafni Vilhjálmur...

Otjihaenamaparero er merkilegur staður. Þar fundust nefnilega risaeðluspor á öðrum eða þriðja áratug síðustu aldar. Eru spor þessi víst um 219 milljóna ára gömul. Aðeins.

Ríkti spenningur hjá Rúnari Atla yfir að sjá risaeðluspor. Ég var nú líka svolítið spenntur yfir þessu, enda höfum við feðgarnir horft nokkuð oft síðustu mánuði á kvikmyndirnar um Júragarðinn.

En það verður að segja eins og er að við urðum fyrir smávegis vonbrigðum. Sporin voru nefnilega alltof lítil fyrir okkar smekk. Þarna eru spor eftir tvær risaeðlutegundir. Sú fyrri nefnist smákollur og var víst ekki nema 1,4 metrar á hæð, fullvaxin. Það er ekki miklu hærra en Rúnar Atli. Sporin voru hins vegar miklu minni er spor Rúnars. Á myndinni sjást tvo spor, annað milli þumal- og vísifingurs Rúnars Atla og hitt efst í hægra horni myndarinnar.

Já, ekki mjög tilkomumikið, að okkur tveimur fannst. Þó er reyndar merkilegt að sjá sporaslóðina, en hún er um 30 metra löng.

Síðan fórum við að leita að sporunum eftir hina risaeðluna. Vonuðum við að þau spor væru nú eitthvað stærri. Hornnefja nefnist risaeðlan sem skildi þau spor eftir sig. Hún var nokkuð stærri en smákollurinn, gat víst verið nálega níu metrar frá nefi til hala.

Þrátt fyrir þessa miklu lengd, þá voru sporin nú ekkert rosalega stór. Við Rúnar Atli erum búnir að átta okkur á því að risaeðlur virðast hafa verið frekar smáfættar. Eins og sést af myndunum tveimur, þá er sporið ekkert svakalega mikið stærra en höndin á Rúnari Atla. Merkilegt hvernig níu metra flykki hefur haldið jafnvægi á ekki stærri fleti.

Sýnist okkur á öllu að „playmo“ risaeðlan sem fylgdi með í heimsóknina sé ekki í réttum hlutföllum hvað fótastærð varðar. Einnig erum við líka á því að sporastærðin sem sést í Júragarðinum sé nú frekar ýkt.
En þrátt fyrir vonbrigðin um „skóstærð“ risaeðlanna, þá er merkilegt að skoða þessi spor. Alveg þess virði. Í fyrsta lagi er ótrúlegt að þessi spor skuli hafa varðveist jafnvel og raun ber vitni. Síðan er jú gaman að reyna að gera sér í hugarlund hvernig dýralífið hafi verið í Namibíu fyrir 219 milljónum ára. Áreiðanlega myndum við ekki þekkja okkur um, svo mikið er víst.

Ó, og svo voru bæði smákollurinn og hornnefjan kjötætur, þ.a. við hefðum sjálfsagt reynt að láta lítið fyrir okkur fara...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...