20. maí 2012

Níu holur í fyrsta sinn

Þessa dagana er staddur hér vinnufélagi minn frá Íslandi, Hannes að nafni. Hann er mikill golfáhugamaður og heldur því fram sem staðreynd að inni í mér sé dulinn golfspilari. Ég hef ekki látið glepjast af þessu rausi.

Ekki enn.

En þar sem Rúnar Atli hefur stundað golfíþróttina af miklum móð síðan í haust var ákveðið að hann og Hannes færu saman níu holur á vellinum hér í Lílongve og að ég kæmi með sem kylfusveinn sonarins og myndatökumaður. Rúnar Atli hefur aldrei spilað þetta margar holur í einu. Tekið eina eða tvær á sumum æfingum. Ég var svolítið forvitinn að sjá hvernig hann stæði sinn, skal ég viðurkenna.

Í gær mættum við því hjá golfklúbbi Lílongve og ætluðum að leggja af stað. Ekki var nú kálið sopið þótt í ausuna væri komið. Kom í ljós að hvorugur golfspilaranna uppfyllti kröfur um klæðaburð. Annan vantaði kraga á bolinn og hinn vantaði sokka. Kylfusveinninn, þ.e. ég, þurfti því að stökkva upp í bílinn, bruna heim og ná í viðeigandi klæðnað. Fyrsta lexía mín var því að kylfusveinninn er eins og rótari hjá hljómsveit; allsherjar reddari.

En svo var haldið út á fyrstu braut og farið að slá.

Hér er Rúnar Atli að slá upphafshögg. Ekki kann ég að dæma stílinn, en mér þótti guttinn almennt bera sig flott að á golfvellinum.

Svo þurfti að pútta.

Hér er golffélaginn, Hannes. Ekkert dregið af sér, höggkrafturinn þvílíkur að kylfan náðist ekki á mynd. Takið svo eftir sokkunum flottu sem kylfusveinninn reddaði.

Hér er Rúnar Atli á öðru höggi á miðri braut. Með kylfu númer fimm. Ein af mínum lexíum var að læra muninn á kylfum númer fimm, sjö og níu. Kylfusveinninn þarf jú að veita kylfingnum góð ráð öðru hvoru. Þá verður að kunna skil á mismunandi kylfum. Annars er allt í tómu tjóni og kylfusveinninn missir vinnuna.

Ég hef lítinn samanburð, en mér þótti þessi golfvöllur skemmtilegur og umhverfið fallegt. Takið t.d. eftir stóra trénu sem er á miðri braut hér á myndinni að ofan. Það setur skemmtilegan svip á brautina. Og svo þarf að komast framhjá því.

Hér á næstu mynd sést að sonurinn komst framhjá trénu. Ekki nóg með það, heldur náði að vippa yfir sandgryfjuna sem er fyrir aftan hann á myndinni. Svo er að vippa boltanum inn á flötina. Til þess er kylfa númer níu hentugust. Að áliti kylfusveinsins, a.m.k.

Svo þurfti auðvitað að pútta. Einbeitingin mikil og spenna skín úr augum þeirra sem á horfa.

Á endanum komumst við allar níu holurnar. Tók það tvo tíma. Kylfingurinn ungi var orðinn nokkuð þreyttur þegar þar var komið sögu. En rétt er að taka fram að fyrr um daginn var hann á tveggja tíma fótboltaæfingu. Líklega hefðu sex holur verið mátulegar að þessu sinni.

Þetta var skemmtilegt, verður að viðurkennast. Hvort ég láti undan pressu og fari að leggja stund á þessa íþrótt skal ósagt látið. En ég skil þó betur en áður hvert aðdráttaraflið er.

16. maí 2012

Vísir að nagla?

Í karate þykir flott að gera armbeygjur á hnefunum.

En það er ekki auðvelt.

Í hópnum sem æfir með Rúnari Atla eru nokkrir krakkar með brúna beltið. Þau þurfa að gera armbeygjurnar á hnefunum.

Það þykir syni mínum flott.

Því verður að reyna. Hann réðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Reyndi þetta á grjóthörðum flísum

 

Er þetta vísir að grjóthörðum nagla framtíðar?

Vonandi kemur síðar myndband sem sýnir framfarir.

 

10. maí 2012

Þá er komið að körfunni

Alltaf er maður að leita að einhverjum íþróttum til að stunda. Þótt maður sé orðinn miðaldra. Er það ekki einmitt þá sem maður vill halda í ungdóminn og fer að gera allskyns hluti sem maður gerði í kringum tvítugt? Og stórslasar sig í kjölfarið. Einhvern tímann hef ég heyrt svoleiðis vitleysu haldið fram.

Í mínu tilviki er ég alltaf að leita að einhverju til að gera með ungum syni mínum. Hvað annað? Hafa ofan af fyrir honum. Hann er jú ágætlega aktívur. Æfir karate þrisvar í viku og golf einu sinni í viku. Við tökum stundum fótboltaspretti í garðinum og nýlega fór hann að mæta á fótboltaæfingar á laugardagsmorgnum. Og ég elti eins og rogginn hani.

Ekki má gleyma hjólreiðunum. Reyndar hefur orðið aðeins minna úr þeim en til stóð, en mér tókst fyrir endemis klaufaskap að skemma annan petala-arminn á nýja hjólinu mínu. Í miklu ofboði tókst að finna nýjan í S-Afríku og koma hingað, en strandað hefur á nauðsynlegu verkfæri. Ég hef nokkuð góða von til þess að verkfærið komi í leitirnar á morgun og þá verði hægt að hjóla á ný.

Sonurinn er sem sagt aktívur og ég reyni svona eitthvað að hökta með ef tækifæri gefst.

Um skeið hef ég leitað að körfuhring og -spjaldi. Það er ágætis stétt fyrir framan húsið okkar og ég sé fyrir mér hvar hægt er að festa körfuspjald upp. En erfiðlega hefur gengið að finna svoleiðis. Reyndar ýmis staðir sem selja hringinn, en spjaldið er hins vegar vandfundið. Körfuboltahugmyndin hefur því ekki gengið upp.

Þar til í dag.

Eða reyndar í gær. Þá sá ég auglýsingu frá fólki sem er að flytja aftur heim til Bandaríkjanna. Þarf það að selja ýmsa hluti. Þar á meðal var frístandandi karfa. Einhver eðalgripur fluttur hingað frá Bandaríkjum Norður Ameríku. Með NBA merkinu og alles. Ég tvínónaði ekkert við þetta, brunaði heim til fólksins, skoðaði gripinn og festi kaup á honum. Sótti hann svo í dag, eftir vinnu.

Þessi karfa er alveg brillíant. Hægt er að hækka hana og lækka eftir vild á mjög auðveldan hátt. Þetta er svona alvöru. Við Rúnar Atli fórum í asna, en þann leik þekkti hann ekki. Svo dunduðum við okkur við að skiptast á að skjóta á körfuna. Mjög skemmtilegt.

Við verðum örugglega orðnir svakalega góðir eftir ár. Eða tvö. Verðum líklega svona mulningsvél, feðgarnir saman. Þessir guttar úr neðra-Breiðholtinu munu ekki eiga séns. Ísak Máni hvað? Logi Snær? Aldrei heyrt á hann minnst...

En hér er guttinn að taka skot. Með boltanum sem hann fékk frá Óskari á sínum tíma í Namibíu. Augnabliki eftir að myndavélin smellti af þá söng í netinu. „Nothing but net!“ eins og sagt er á ameríkönskunni.


7. maí 2012

50% gengisfall

Nú í morgun tilkynnti seðlabanki Malaví um 50% gengisfall malavíska kvakans. Jæja, bankinn sagði reyndar 49%, en tölurnar eru þvílíkar að mér finnst betra að rúnna þær. Fyrstu fréttir benda líka til að gjaldeyrissalar muni færa gengið enn neðar.

Stærsti peningaseðillinn er 500 kvakar. Það jafngilti um 400 krónum ef ég tók pening úr hraðbanka. Nú er hann jafnvirði 200 króna.

Ekki veit ég hvernig áhrif 50% gengisfelling hefur á manns daglega líf. En ég kemst sjálfsagt að því á næstu dögum. Stóra spurningin er auðvitað hvað gerist fyrir verðlag.

Fróðlegt fyrir hagfræðimenntaðan manninn að fá að fylgjast með þessu.

5. maí 2012

Hjólandi á villigötum

Um síðustu helgi skruppum við Rúnar Atli í okkar fyrsta hjólatúr saman hér í Malaví. Vildum nú ekki fara neitt sérstaklega langt. Ekki svona í fyrsta sinn. Ég var búinn að sigta út mátulega leið á Google maps. Byrja í vesturátt, út úr borginni, en við búum við suðvestur útjaðar hennar. Þaðan moldarstíg til suðurs, svo til austurs í smástund og að lokum til norðurs til baka heim. Ágætis hringur og tvisvar farið yfir Lílongve-ána sem liggur rétt hjá húsinu okkar.

Þetta var mjög skemmtilegt. Holóttir moldarstígar, stundum upp í móti, stundum niður í móti, en mest þó jafnsléttir. Stundum lentum við í sandi og teymdum hjólin og stundum vorum við á einstigi.

Einu sinni endasteyptist Rúnar Atli, þegar hann missti afturdekkið ofan í skorning. Smárispur á annað hnéð og lófa, en það gleymdist fljótt. Einu sinni þurftum við að vaða yfir lækjarsprænu, en það var gaman. Stundum hjóluðum við í gegnum húsaþyrpingar og vöktum þá oft athygli barna. Þau komu oft hlaupandi, hrópandi og kallandi, til að sjá þessa sjaldséðu hrafna sem þarna voru á ferð.

Þegar við vorum búnir að vera á ferð góða stund var mig farið ad lengja eftir síðustu beygjunni. Þessari í norður. Sá aldrei neinn stíg sem mér leist á. Að lokum beygðum við þó. Létum flakka. Komum loks að brú, þ.a. við vorum komnir réttu megin við Lílongve-á. Eftir nokkra stund komum við að malbikaðri alfaraleið. Á vegamótunum hvíldum við auma afturenda á meðan ég reyndi að ná áttum. Fannst mér ég þekkja mig, en fannst staðsetningin þó ekki passa, því þá værum við komnir svo óralangt framyfir planaða beygju. Til að gera langa sögu stutta var staðsetningin rétt hjá mér. Við hjóluðum sem sagt um sex km lengra í austur en áætlað var. Vorum við vel rassaumir þegar túrnum lauk. Þremur og hálfum tíma eftir að ferðin hófst.

Eins gott við vorum í buxum með púðum á réttum stöðum...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...