28. desember 2007

Námshestar

Þann 21. des. sl. útskrifaðist Dagmar Ýr nýstúdent. En fleiri í fjölskyldunni hafa stundað nám á síðustu mánuðum og í gærkvöldi fengum við Gulla viðurkenningu fyrir að hafa lokið námskeiðinu Táknmál 1 hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, SHH.

Í tilefni þessa áfanga var fámennt, en góðmennt, boð haldið í Æsufellinu. Þar var setið fram eftir kvöldi (les: nóttu) við hámenningarlegar umræður. Tókst okkur Gullu að nýta örlítið okkar táknmálskunnáttu, en ekki skal neita að hófleg neysla hvítvíns og rauðvíns liðkaði aðeins til.

Verður að viðurkennast að við eigum langt í land með að geta tjáð okkur almennilega á táknmáli, enda er táknmál ekkert öðrum vísi en önnur tungumál og því tekur langan tíma að læra það. En ótrúlega gaman er að fylgjast með umræðum á táknmáli og er ekki spurning að þetta mál ættu sem flestir að ná sér í grunnþekkingu á.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að læra táknmál, þá má finna stundaskrá táknmálskennslu SHH á netinu. Þarna sjást námskeið næstu annar.

Heyrt í bílnum

„Pabbi, ég vil ekki hlusta á ensku í útvarpinu, bara íslensku!“

Þar með var svissað yfir á rás tvö, sem til allrar hamingju var að spila íslenska tónlist.

25. desember 2007

Rólegheit, mikil rólegheit

Já, ekki er ofsögum sagt að lífinu hafi verið tekið með mikilli ró í dag, sjálfan jóladag. Allir sváfu út og lítið hefur verið um snöggar hreyfingar. Eina afrekið var að fara út í hressan skafrenning og dusta snjóinn af bílnum. Síðan var mamma sótt, en til stóð að hafa hangikjöt og alles í mat. Hins vegar var ástandið þannig eftir köku- og nammiát að ákveðið var að fresta þeirri máltíð til morguns...

Segi ekki meira í bili.

Aðfangadagskvöld

Þetta árið eins og önnur ár þá runnu jólin í garð kl. sex að kvöldi 24. desember. Nokkur spenningur ríkti fram eftir degi, eins og eðlilegt er. Hamborgarahryggurinn fór í pottinn um fjögurleytið og smátt og smátt barst ilmurinn af honum um alla íbúð.

Til siðs er að taka mynd af matarborðinu áður en sest er við það. Brá svo við í ár að einn fjölskyldumeðlimur var svo svangur að hann lenti með á myndinni. Var víst lítið búinn að borða yfir daginn fyrir spenningi og nennti því ekkert að bíða eftir hinum.


Maturinn brást ekki þessi jólin. Kjötið bókstaflega bráðnaði í munnum okkar. Eins og oft áður var erfitt að kunna sér magamál, þótt nokkur pressa væri frá börnunum að drífa þetta nú af og setjast inn í stofu.

Auðvitað beið uppvaskið þó. Nú brá svo við að dæturnar tvær tóku verkið að sér. Man ég bara ekki eftir sambærilegum atburði fyrr og var hann því festur á filmu. Einhverja sönnun verður að hafa. Kannski er hér vísir að nýrri hefð, hver veit?


Ekki má bregða út af vananum og voru teknar myndir af börnunum við jólatréð áður en rifið var utan af pökkum. Fylgja hér tvær þess háttar myndir.Loksins, loksins var farið að opna pakka. Rúnar Atli fékk það mikilvæga hlutverk að velja pakka undan trénu. Hann afhenti þá síðan Tinnu Rut sem las á merkimiðann. Síðan tók Rúnar Atli aftur við pakkanum og færði þeim sem pakkann átti. Fyrirkomulagið gekk nokkuð snurðulaust fyrir sig, nema þegar Rúnar Atli var svo önnum kafinn við nýju gröfurnar sínar að hann hreinlega mátti ekki vera að þeim hégóma að sækja fleiri pakka.

Tók eitthvað yfir tvo tíma að opna alla pakka. Kunnum við öllum þeim sem gáfu okkur gjafir hinar bestu þakkir fyrir. Vonandi áttu allir okkar vinir jafnnotalegt aðfangadagskvöld og við.

Í lokin fylgir hér mynd af gleði Tinnu Rutar þegar hún opnaði pakka frá systur sinni. Með innihaldi pakkans mun gamall draumur rætast, gat í naflann!Gleðileg jól öllsömul!

24. desember 2007

Jólatréð

Þannig er að frá 1991 höfum við ætíð skreytt jólatréð okkar viku fyrir jól. Sem næst afmælisdeginum mínum, sem sagt.

Eitthvað klikkaði þetta hjá okkur í ár, en við keyptum ekki tré fyrr en 18. des. og skreyttum ekki fyrr en næsta dag. Svona svipað og með hangikjötssuðuna í gær, við virðumst bara vera svo afslöppuð að hefðirnar fá að fjúka...

En, tréð var keypt í heimabyggð, í Garðheimum. Það virkaði nú frekar temmilegt í skemmunni hjá þeim, svona tæplega tveggja metra hátt og nokkuð þétt og fínt.

Svo kom tréð heim...

Greinilegt var að mér hafði hlaupið kapp í kinn við valið. Ég ætti líklega að taka fram að ég sá einn um valið í ár. Ja, spurði reyndar Rúnar Atla hvort þetta tré væri ekki flott og fékk samsinni við því. Veit ekki hvort það dregur eitthvað úr ábyrgð minni.

En í sínu tilvonandi umhverfi var tréð kannski svona obbolítið smáræðis ofurlítið í stærra lagi. Hæðin var í lagi, en fullbomsamikið var tréð. Á tilætluðum stað gerði tréð að verkum að erfitt var að komast inn í eldhúsið.

Þ.a. nú þurfti að grisja. Engar fundust trjáklippurnar. Jú, reyndar fann ég klippur sem ég notaði á aspirnar á Stillholtinu, en þær eru með metralöngu skafti og því ekki vel til þess fallnar að snyrta og snurfusa jólatré innandyra. Því var aftur brunað í Garðheima og fjárfest í litlum handklippum. Svo var farið að grisja.

Smátt og smátt tók tréð á sig mynd, en hrúgan af greinaafklippum á gólfinu stækkaði og stækkaði. Að lokum mátti varla á milli sjá hvort fleiri grenigreinar voru á trénu eða á gólfinu. Afskurðurinn fyllti einn svartan ruslapoka leikandi létt.

En að þessari snyrtingu lokinni var tréð orðið fantafínt og tekið til við að skreyta. Sumir voru í frekar óhefðbundnum klæðnaði við verkið, en áhuginn og einbeitingin skein engu að síður úr andlitinu.

Þorláksmessa

Dagurinn tekinn snemma á Þorláksmessu. Aðallega svona til að lesa blöðin og sötra tebollann í ró og næði. Við Rúnar Atli fórum síðan í smákökubakstur en Gulla skrapp í verslunarleiðangur. Okkur fannst nauðsynlegt að geta sagst hafa bakað fyrir jólin og því fundum við tvær uppskriftir í kökublaði Vikunnar.

Síðan eftir hádegið fórum við feðgar í göngutúr. Ákváðum að heimsækja Loga Snæ og aðra meðlimi hans fjölskyldu og röltum okkur því niður í hið neðra.

Neðra-Breiðholt þ.e.a.s.

Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Litlu frændurnir hurfu inn í herbergi og léku sér sem bestu vinir. Boðið var upp á graflax og Davíð dró upp eina af mörgum rauðvínsflöskum sem hann hefur sankað að sér. Veit víst ekki tölu á flöskunum skilst mér.

Síðan var farið í Just4Kids að leita að gjöfum handa syninum. Ekki var laust við að hægt væri að finna eins og eina eða tvær þarna inni... Eins gott að guttinn var skilinn eftir heima, segi nú ekki meira.

Um kvöldið fórum við feðgarnir í Smáralindina í smáútréttingar. Á leiðinni út í bíl fékk Rúnar Atli að setjast upp í „Lightning McQueen“ og pabbinn átti meira að segja hundraðkall í vasanum til að koma græjunni í gang. Mikil lukka þar.


Rétt fyrir klukkan ellefu um kvöldið uppgötvaðist að gleymst hafði að sjóða jóladagshangikjötið, en það gerum við ætíð á Þorláksmessu. Ekki mikið verið að stressa sig á hlutunum, eða hvað?

En kjötinu var bara skellt í pott og svo kom suðan upp og síðan fylltist íbúðin af hangikjötsilmi. Nokkuð skárri en skötulyktin í stigaganginum í Eyjabakkanum...

Að lokum var farið að pakka inn gjöfum, og nú er tími til að fara í háttinn.

Jólin koma „næsta dag“ eins og Rúnar Atli segir.

23. desember 2007

Nýstúdentinn!

Föstudagurinn var „bissí“ dagur hér á bæ. Eldsnemma farið á fætur, en klukkan tíu var mæting á Ljósmyndastofu Gunnar Ingimarssonar í Suðurveri. Þar voru teknar stúdentamyndir og síðan var smásyrpa í lokin af börnunum öllum þremur. Frá Gunnari hafa alltaf komið pottþéttar myndir og eigum við ekki von á öðru núna frekar en áður. Sumir biðu stilltir og þægir eftir myndatökunni...


Vatnsgreiddur og sykursætur


Að þessu loknu var arkað heim til að undirbúa veisluna. Ýmislegt sem gera þurfti, en planið okkar stóðst nú nokkuð vel og ekkert meiriháttar stress í gangi.

Þannig.

Síðan nálgaðist klukkan tvö, en þá hófst útskriftarathöfnin í Háskólabíói. Eitthvað var ég ekki alveg með tímann á hreinu, því allt í einu kom upp úr kafinu að klukkuna vantaði 25 mínútur í og ég ekki kominn í jakkafötin. Tókum við nú út stressskammtinn, en náðum í bíóið svona sjö mínútur fyrir tvö, Dagmar Ýr segir örugglega að klukkuna hafi vantað tvær mínútur í...

Athöfnin gekk vel fyrir sig. Ræður haldnar og heyrðum m.a. sögu um krókódíla og tvær ástralskar systur. Ég áttaði mig nú ekki alveg á skilaboðum þeirrar sögu. Enda langt síðan ég varð stúdent.

En útskriftin gekk að öðru leyti mjög vel og Dagmar Ýr fékk hvíta kollinn, eins og sést.

Dagmar Ýr í hópi samstúdenta


Nýstúdentinn


Svo var farið heim á leið. Sú ferð tók nú tímann sinn. Reykavík var hreinlega í lamasessi, því allir sem vettlingi gátu valdið virtust hafa ákveðið að skreppa í bíltúr. Tók okkur góðan klukkutíma að komast upp í Æsufellið, en það hafðist að lokum.

Um kvöldið var síðan veislan haldin. Rúmlega 30 manns mættu á svæðið. Ýmsar kræsingar voru á borðum og tókst allt meiriháttar vel. Gaman að fá tækifæri til að halda veislu þegar komið er til Íslands. Sumt fólk þarna hafði ég ekki hitt í þónokkuð mörg ár.

Nýstúdentinn tók síðan upp gjafirnar sínar og allir fóru ánægðir að sofa.

20. desember 2007

Sitt lítið af hverju

Nú er að verða liðin vika á Íslandi.

Og alltaf jafnskemmtilegt.

Þó var svolítið vesen þegar myndlykillinn fraus allt í einu, kl. 20:16 á laugardagskvöldið. Netaðgangur gufaði upp í leiðinni og í þrjá daga var ekki hægt að komast á netið, né horfa á sjónvarp í gegnum myndlykilinn. Ekki var ég nú sáttur við þjónustuna hjá Símanum í það skiptið. Æsti mig meira að segja í símann, sem gerist víst ekki oft.

Nóg um þetta. Ýmislegt hefur verið brallað, flest í tengslum við nýju íbúðina. Hillur voru settar upp í búrinu, skipt um uppþvottavél, nýja þvottavélin tengd, rúmið hans Rúnars Atla sett saman og eitthvað fleira. Svo er búið að flækjast milli búða og Gulla og Tinna Rut búnar að skreppa upp á Skagann.

Næst á dagskránni er útskriftin hennar Dagmarar. Föstudagurinn er sá stóri. Í dag sóttum við stúdentahúfuna og á morgun þarf að klára allt sem gera þarf. Þýðir víst ekki að sofa frameftir á morgun...

13. desember 2007

Ástkær fósturjörð

Við erum komin í Æsufellið. Loksins leit ég augum íbúðina sem ég er búinn að eiga helming í síðan á miðju ári. Er bara sáttur. Sit núna við borðstofuborðið og horfi út yfir Reykjavíkina. Ægifagurt útsýni.

Ýmislegt þarf að gera í þessari íbúð, en þó ekkert sem er bráðnauðsynlegt í skyndi. Helst að eldhúsið sé áberandi slappast.

Ekki var verra að fá svo jólasnjó. Skaust með Tinnu Rut í Kringluna áðan, þar sem hún hitti vinkonur af Skaganum. Snjónum kyngdi niður. Á leiðinni til baka tók Breiðholtsbrautin töluvert lengri tíma en venjulega útaf sumardekkjabílum sem komust ekki spönn frá rassi. En sem betur fer virðist nóg af jeppakörlum sem fá ánægju af því að bjarga náunganum. Kræsslerinn fór létt með þetta á sínum heilsársdekkjum.

Seinnipartur gærdagsins í Lundúnaborg var frekar tíðindalítill. Við fórum öll fjögur í verslanamiðstöðina og eyddum drúgum tíma þar. Hellingur af fólki. Síðan lagði ég mig í svona tvo tíma. Þreyttur eftir flugferðina. Hraut víst, heyrði ég utanaðmér, en veit ekki hvort ég tek það trúanlegt...

Við Rúnar Atli fórum svo í þriðja verslunarleiðangurinn um kvöldmatarleytið. Hann hefur mikið gaman af peningaplokksbílunum, sem juggast fram og til baka í eina mínútu eða svo.

Síðan var farið að sofa. Fínt hótelherbergi, og ef einhverjir þurfa að gista nálægt Gatwick flugvellinum, þá getum við alveg mælt með Arora hótelinu. Svolítið dýrt, en allt pottþétt.

Já, við fórum að sofa, en síðan vakna ég við eitthvað brambolt í henni Gullu. Hún var eitthvað mikið að stússast og var búin að kveikja öll ljós. Ég lít á klukkuna og kalla í frúna: „Þú veist að klukkan er einungis að nálgast þrjú um miðja nótt?“

Löng þögn...

„Ertu viss? Er ekki klukkan að verða fimm?“

Gulla hafði sem sagt ekki áttað sig á því að farsíminn hennar var enn stilltur á Namibíutíma...

Við þurftum að vakna klukkan fimm til að ná út á völl í tíma. Henni fannst því vel til fundið þegar hún vaknaði tuttugu míntútum fyrr - skv. sinni klukku - að fara að mála sig. Þ.a. klukkan þrjú var hún orðin stórglæsileg og til í allt.

Nema að sofna aftur. Hver skyldi fara að sofa nýmáluð?

Já, ýmislegt skondið á sér stað í okkar ofurvenjulega lífi.

12. desember 2007

Fyrsti verslunartúrinn

Við Rúnar Atli gáfumst upp á svefnpurkunum tveimur, sem ferðast með okkur, og fórum í verslunarleiðangur. Mættum í County Mall á slaginu klukkan níu, en þá opnar allt. Þarna eru allar mögulegar og ómögulegar verslanir, sjálfsagt einhverjar í eigu útrásaríslendinga. Við röltum okkur þarna um í einn og hálfan tíma og keyptum skó handa pilti, því skóbúnaður hans er ekki alveg við hæfi á Fróni um miðjan vetur.

Eitt vakti eftirtekt okkar beggja. Ótrúlegur fjöldi fólks hér ekur um í rafknúnum hjólastólum. Ekki finnst mér það tiltökumál fyrir eldra fólk, en þó nokkuð er hér af fólki á miðjum aldri sem notar svona tæki. Undarlegt að sjá fólk lítið eldra en maður sjálfur á þessum apparötum.

Sinn er siður í landi hverju.

Lundúnir

Þá er fjölskyldan komin til Lundúna, búin að koma sér fyrir á hótelherbergi og allt í góðu.

Ferðin og flugið hingað gekk mjög vel. Ja, fyrir utan það að Rúnari Atla tókst á einhvern undarlegan hátt að losa sig úr sætisbeltinu og velta sér yfir arminn á sætinu og steypast niður á ganginn. Allt þetta steinsofandi. Ég hrökk upp við dynk, og bara enginn Rúnar Atli við hliðina á mér. Nokkrar ægilangar sekúndur fóru í að losa beltið mitt og síðan náði ég honum upp af gólfinu. Enginn skaði skeði og ekki man hann neitt eftir þessu núna.

Að öðru leyti gerðist lítið markvert á leiðinni.

Í Lundúnum var fimm stiga gaddur þegar við lentum. Frískandi svalt.

Byrjuðum á því að fara á kaffihús þegar töskurnar voru komnar. Biðum síðan í nokkra stund eftir skutlunni á hótelið. Tinnu Rut var orðið nokkuð kalt á tánum, en ekkert sem hlý sæng á hótelherberginu reddar ekki.

Svo erum við búin að skrá okkur inn á hótelið og snúum okkur við frá afgreiðsluborðinu. Standa þar tveir flugmenn sem heilsa Rúnari Atla á íslensku! Þetta voru sem sagt flugmenn frá Flugleiðum. Rúnar Atli varð steinhissa en eftirá þótti spennandi að hafa hitt flugmenn. Við Gulla fórum hins vegar að velta því fyrir okkur hvort við hefðum nú sagt eitthvað á íslensku í þeirra áheyrn sem sé ekki fyrir eyru allra...

Þegar birta fer af degi munum við fara að kíkja í kringum okkur og sjá hvað hægt er að gera hér í nágrenni hótelsins. Vonandi eitthvað skemmtilegt.

8. desember 2007

Íslandsför

Nú styttist í Íslandsförina. Rúnar Atli hefur undanfarnar vikur samviskusamlega komið með mér út á flugvöll að keyra hina ýmsu Íslendinga sem á ferðinni hafa verið. Honum er þó farið að lengja í að fara sjálfur, en nú fer að koma að því.

Við yfirgefum Namibíu kl. 20:40 að staðartíma á þriðjudag og lendum í Lundúnum um fimm að morgni næsta dags. Ætlum að stoppa þann daginn í heimsborginni og förum síðan til Íslands á fimmtudagsmorgninum. Áætlaður lendingartími í Keflavíkinni er 11:20.

Á Fróni verðum við í u.þ.b. fjórar vikur. Leggjum af stað til baka 11. janúar.

Helsti viðburður ferðarinnar er stúdentaútskrift Dagmarar Ýrar. Hinn 21. desember verður hún stúdent. Búið er að panta tíma hjá ljósmyndara þennan morguninn og síðan er sjálf útskriftin klukkan tvö. Stefnt er að smákaffisamsæti um kvöldið, en skipulagning þess bíður heimkomunnar.

Við höfum verið að kíkja á leikhúsferðarmöguleika. Erum að spá í að panta okkur miða á Gosa og fara í leikhús rétt eftir áramótin. Alltaf gaman að gera sér glaðan dag og fara á leikrit.

Síðan verður líklega merkileg upplifun að koma í nýtt húsnæði, sem ég hef aldrei séð áður, og allt manns hafurtask komið á staðinn á undan manni. Skyldi manni standa einhverslags áfallahjálp til boða?

Sjóræningjar

Í dag fór Rúnar Atli í sitt fyrsta afmælispartí, svona alvörupartí. Besti vinur hans af leikskólanum, Sanjeev, varð þriggja ára 3. des. og hélt upp á það í morgun. Sanjeev er bandaríkjamaður af indverskum ættum og eru þeir Rúnar Atli óaðskiljanlegir á leikskólanum. Alveg lygilegt að heyra þá tala saman, því Sanjeev slettir á íslensku og Rúnar Atli slettir víst á Hindí. „Let's do svona,“ er eitt dæmi.

Nóg um það. Afmælið hófst klukkan níu og var búið um hádegi. Ekki þýðir að hafa veislur um eftirmiðdaginn vegna hita, svona ef þið eruð að velta tímasetningunni fyrir ykkur. Eins og sönnum Könum sæmir var búið að skipuleggja partíið út í ystu æsar. Sjóræningjaþema, og voru margir skemmtilegir leikir á dagskránni. Skipulagið var þvílíkt að í pabbanum heyrðist: „Tíu mínútur í tertuskurð.“ Ekta amerískt.

En, það verður nú að viðurkennast að partíið tókst virkilega vel og allir skemmtu sér konunglega, hvort sem um var að ræða börn eða fullorðna.

Fyrsti leikurinn snerist um að gefa hákarli að éta. Sést hér Rúnar Atli í maga hins ógnvænlega hákarls.


Ekki var nóg með að vera étinn af hákarli, heldur þurftu menn líka að ganga plankann. Eins og sést var Rúnari Atla um og ó, en lét sig hafa það.


Alvöru sjóræningjar þurfa húðflúr og hér er Rúnar Atli kominn með eitt slíkt á upphandlegginn. Hann þarf þó aðeins að æfa sig í vöðvahnyklingum, en það kemur allt.


Eins og áður sagði skemmtu allir sér vel, en nú er spurning hvort við Íslendingarnir þurfum ekki að fara að plana partíð sem halda þarf í ágúst á næsta ári...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...