28. nóvember 2006

Komnir aftur út

Það hafðist að komast alla leið frá Akranesi til Windhoek. Gekk bara vel, svona almennt. Í Flugleiðavélinni sofnaði Rúnar Atli skömmu fyrir lendingu - yfir Hollandi nánar tiltekið - og var ekki mjög sáttur við að mega ekki sitja í fanginu á mér þegar farið var að lækka flug. Við komum okkur svo á hótelið. Fórum fyrst í sjoppu og keyptum okkur vatn og pitsusneið og samloku. Síðan upp á herbergi. Hann sonur minn tók stúlkurnar í hótelmóttökunni og vafði um fingur sér. Svo kvaddi hann þær meira segja með -bæ- og ég heyrði aðra segja -ó, þessi drengur bjargaði deginum mínum :-) Góður gaur.

Við sváfum síðan á þriðja klukkutíma, fórum í bað og sturtu - alveg fílefldir að því loknu. Rúnar Atli sá síðan McDonald's skilti á meðan við röltum um flugvöllinn og við fórum þangað og fengum okkur að borða. Hann var alveg með á hreinu að þetta McDonald's merki þýddi matur og það góður matur. Ekki veit ég hvernig hann er búinn að komast að þessu, því ekki er McDonald's í Namibíu.

Svo erum við að sýna brottfararspjöldin okkar einhvers staðar á flugvellinum og stúlkan sem skoðar þau fer allt í einu að tala við Rúnar Atla. Á þýsku. Ég held hún hafi spurt hvort hann hefði það ekki bara gott, en er þó ekki viss. Guttinn lítur niður á tær sér og svarar - Ja. Bara upp á þýskuna! Það virtist sem hann skildi hvað hún sagði. Ótrúlegt. Hér bögglast maður sjálfur við að reyna að skilja hvort verið sé að bjóða manni að hita pitsusneiðina eða ekki, en sá stutti - ekkert mál. Bara svara - ja.

Annars varð hann hræddur einu sinni. Við erum búnir að fara í gegnum vopnaleitina í Frankfurt og ég er með handtöskuna í hendinni og færi mig að öðru borði sem er þarna. Ég þurfti nefnilega að setja aftur á mig beltið, en það var greinilega var mjög grunsamlegur hlutur. Rúnar Atli áttar sig ekki á hvert ég fór og rak upp þvílíkt skaðræðisöskur að ég tók alveg undir mig stökk. Þarna var svo margt að sjá fyrir hann og svo þegar hann lítur þar sem ég hafði staðið, þá er bara allt í einu annar maður þar. Auðvitað krossbrá drengnum. Hann róaðist nú fljótt.

Flugið frá Frankfurt gekk mjög vel. Um mig fór kannski ekki mjög vel, enda sætin eru nú ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég náði kannski þremur og hálfum tíma með hléum, en Rúnar Atli svaf sjö tíma í striklotu. Gott í tæplega tíu tíma flugi. Missti hann meira að segja af morgunmatnum. Svo komumst við strax í gegnum vegabréfsskoðunina. Konan þar, sem var mjög þurrkuntuleg á svip, var farin að brosa út í annað út af Rúnari Atla. Oft gott að hafa svona gaur með sér. Töskurnar okkar tvær voru svo númer fjögur og fimm - kannski fimm og sex - á færibandinu þannig að engin bið var. Ég skellti Rúnari svo á háhest til að forðast tollinn, og viti menn, það svínvirkaði.

Krakkargemlingarnir hafa sína kosti.

19. nóvember 2006

Erfiðisvinna

Þá er líkamsræktin mín fyrir vikuna búin. Fór út - á sunnudagsmorgni - að skófla snjó. Ákvað að vaða í þetta áður en færi að frysta á nýjan leik. Mokaði frá innkeyrslunni, en byrjaði þó á því að hreinsa frá sorptunnunni. Ekki vill maður hafa sorphirðina á móti sér, svo mikið er víst.

Fór varlega í moksturinn. Enn er í fersku minni Þorláksmessa fyrir nokkrum árum, en þá var ég í Grundarfirði þegar fór að snjóa. Ég út að moka, eins og lífið ætti að leysa. Endaði ekki betur en svo að ég fór í bakinu. Komst ekki til hnykkjara fyrr en milli jóla og nýárs, enda var ég orðinn eins og vinkill í laginu. Tók marga mánuði að verða góður á nýjan leik.

Í dag gætti ég mín því á að pústa oftar en ekki, rétta úr bakinu og horfa til himins. Enda í fínu lagi núna.

Skellti líka upp spegli og veggljósi í baðherberginu. Bar líka silíkon meðfram sturtubotninum, en eitthvað virtist farið að leka þar.

Nóg að gera hjá húseiganda.

Nú er það svart...

... ja, eða hvítt...

Hvað er eiginlega í gangi? Kafsnjór á Akranesi í morgun þegar stigið var framúr rúminu. Skaginn sem er einhver snjóléttasti staður landsins. Rúnar Atli á bara ekki orð yfir þetta. Starði agndofa og opinmynntur á gröfu sem var á fullu að ryðja Stillholtið og Brekkubrautina. Við skruppum síðan í bakaríið og guttinn vildi sko engan veginn ganga í snjónum. Hallala - í lauslegri þýðingu: halda á mér.

Nú væri fínt að hafa namibíska jeppann. Ég renni um götur Akraness á fjölskyldukagganum, Chrysler Caravan, sem fer reyndar létt með snjóinn, enda á splunkunýjum vetrardekkjum. En það væri nú gaman að vera á fjórhjólajeppa, neita því nú ekki.

Annars er Rúnar Atli með einhverja óværu. Háan hita og kastaði upp í gærkvöldi. Vonandi nær hann að sofa þetta úr sér á næsta degi eða tveimur.

18. nóvember 2006

Jólamatur

Fór á jólahlaðborð í gær. Kannski fullsnemmt, en það kom ekki að sök. Staðurinn var Skíðaskálinn í Hveradölum. Ég hef nú ekki komið þangað í mörg ár. Fyrir bruna. Mjög flott þarna inni og maturinn góður. Kostur var að ekki voru langar biðraðir, þ.a. ég fór nokkrar ferðir og þurfti ekki að hrúga öllu á diskinn í einni ferð.

Kom svo heim um hálfeitt um morguninn og þá var standandi partý heima. Nei, ekki hún Dagmar Ýr, heldur Gulla... Fullt af barnaskólakennurum sem skemmtu sér vel, ekki vantaði það. Heldur var þetta óvænt, en bara gaman.

Nú er kominn morgunn, og enn kolniðamyrkur.

17. nóvember 2006

Frost á Fróni

Úff, það er kalt á klakanum þessa dagana. Rúnar Atli, kallanginn, fékk alveg áfall í gær þegar við komum út úr Leifsstöð. Ekki nóg með að væri kalt, heldur líka brjálað rok. Hann vissi bara ekki hvaðan á sig stóð veðrið - í bókstaflegri merkingu.

En ferðalagið gekk mjög vel. Við sváfum mestan tímann af fluginu til Frankfurt. Ég svaf svosum ekki vel, en svaf þó. Rúnar Atli sofnaði klukkan tíu að kvöldi að þýskum tíma og ég þurfti að vekja hann hálffimm - klukkutíma fyrir lendingu. Síðan tók ég dagherbergi á flugvallarhótelinu og þar sváfum við í góða tvo tíma. Fórum í bað og sturtu og vorum alveg endurnærðir þegar biðröðin hjá Flugleiðum hófst. Hún var auðvitað lengi þ.a. við verðlaunuðum okkur með MacDonald's.

Spes fyrir Tinnu Rut.

Síðan var Rúnar Atli ekki alveg sáttur við öryggiseftirlitið. Þegar öryggisvörðurinn mundaði málmleitartækið í áttina að honum, þá missti minn maður alveg sjálfstjórnina. Ekki var betra meðan var verið að skoða mig. En það hafðist nú.

Flugleiðaflugið var fínt, rúsínur og cheerios fyrir Rúnar Atla. Hann var mjög imponeraður með allar þær flugvélar sem hann sá. Flugvél - Ísland, var viðkvæðið hjá honum í tvo daga fyrir brottför. Nú er hann sem sagt kominn.

Síðan fórum við snemma í rúmið í gærkvöldi og sváfum frameftir að namibískum tíma.

En skidekoldt...

12. nóvember 2006

Hreinlæti

Rúnar Atli fór í bað áðan. Þykja nú ekki stórar fréttir, því það
gerir hann flesta daga. En núna var að renna í baðið og hann að
striplast á baðherbergisgólfinu, þegar ég þarf að hlaupa eftir
einhverju. Kem til baka og heyri að það rennur vatn í klósettkassann.
Minn hafði sem sagt sturtað niður.

Af hverju sturtaðirðu?, spyr ég.

Fávitaleg spurning, greinilega, því hann svarar: pissa.

Nú varstu að pissa? spyr ég.

Jah, segir hann.

Og hvar pissaðirðu?, spyr ég.

Hann fer með mig að hliðinni á klósettinu og sýnir mér hróðugur poll
sem er þar. Ekta karlmaður að hitta ekki oní.

En, hann sturtaði. Og setan var niðri.

Alveg eins og á að gera þegar búið er að pissa.

Snilld veðurfréttamanna

Heitt, heitt, heitt.

Síðustu þrjá daga verður veðrinu hér best lýst á einn hátt: heitt.

Skv. weather.com er 32 stiga hiti í Windhoek í dag. Og, já, það
fylgir með að ekki sé nóg með að það sé 32 stiga hiti, heldur finnst
fólki hitinn vera 32 stig.

???

Hvaða viska er nú þetta? Eru ekki 32 gráður 32 gráður?

Þetta kallar maður að gera einfalt mál flókið.

Ég ætla að skella loftkælingunni í gang í svefnherberginu og leggjast
ofaná sængina mína og gá hvort mér líði ekki betur eftir svona
hálftíma hraðkælingu.

11. nóvember 2006

Genin

Stundum veltir maður því fyrir sér hvað sé í genum barnanna manns.
Hversu mikið læra þau af umhverfinu og hversu mikið bara er hreinlega
til staðar.

Við Rúnar Atli fórum í verslun í morgun. Ég sé þar ágætis hatta til
verjast sólinni. Svonefndir krikkethattar, með stærðarinnar börðum
allan hringinn. Ef þið hafið einhvern tímann álpast til að sjá brot
af krikketleik þá kannski munið þið eftir svona höttum. Ég spyr
drenginn hvort hann vilji nú ekki svona hatt, en við höfum rætt það
svolítið að hattar séu nauðsynlegir þegar verið sé úti hér.

Neeeiii, hann virtist ekki fíla þetta alveg. Lái honum hver sem vill,
þetta eru ekki beint hattar sem sjást í tískublöðum. Kannski er í
genunum að líka bara ekki við krikket og allt sem þeirri íþrótt
tengist. Gæti verið.

Drengurinn rekur hins vegar augun í húfur úr einhvers konar ullar-
eða bómullargarni. Þær leist honum á. Endaði ég á því að kaupa tvær
húfur handa honum. Hvor kostaði svo sem ekki nema 70 krónur. En ég
fór að velta þessu fyrir mér. Ekki eru þetta mjög sniðugar húfur í
því veðri sem hér ríkir núna, en þær munu áreiðanlega gangast í næstu
viku þegar við komum til Íslands. Kannski eru einhver Íslendingagen á
ferðinni hér.

Veit það ekki.

Kannski hefur hann bara séð einhverjar rapparamyndir hjá Tinnu Rut en
þessir blessuðu rapparar hafa jú oft svona húfur dregnar niður í augu.

Veit ekki meir.

En drengnum verður vonandi ekki kalt á eyrunum í næstu viku.

10. nóvember 2006

Þungir þankar


„þér finnst mjög stutt síðan þú varst 22 ára?“ spyr minn elskulegi bróðir. Við mikinn fögnuð minnar enn elskulegri systur.

Hmm, já, ekki finnst mér langt síðan. Steinn Steinarr orti einhvern tímann ljóð sem heitir Barn. Þar lýsir hann því hvernig ævi manns rennur hjá. Síðasta versið hljóðar svo:

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöld!

Sem sagt, sögumanni finnst hann enn vera lítið barn þegar hann í raun er orðinn gamall maður. Páll Rósinkrans syngur þetta ljóð á plötunni Tónmilda Ísland.

Um 22 ára aldur gifti ég mig, vann í Teppalandi, bjó í lítilli kjallaraíbúð á Kambsvegi 11, átti sjálfskiptan Mitsubishi Tredia (reyndar átti Gulla hann), var barnlaus, hafði einu sinni farið til útlanda í þrjár vikur, fór í ljós reglulega, gekk um í mittissíðum leðurjakka og skóm með litlum dúllum á ristinni, átti til að fara á böll í Hollywood og á Broadway, hafði aldrei átt tölvu og kunni ekki á svoleiðis grip, lagði bleikt uppúrklippt teppi á svefnherbergið og gólfdúk með danssporum á eldhúsgólfið, átti bankareikninga í Búnaðarbankanum, Verslunarbankanum og Útvegsbankanum.

Já, mér finnst stutt síðan.

8. nóvember 2006

Ha, mamma þín í ljósum?

Fór út að borða með allan krakkaskarann áðan. Rúnar Atla, Tinnu Rut
og vinkonurnar tvær að heiman. Síðasta kvöldið þeirra tveggja hér. Á
meðan við erum þar fæ ég sms frá Gullu: Var í einkaþjálfun, alveg
búin, er að fara í ljós. Eða eitthvað í þessa áttina.

Vinkonurnar horfðu á Tinnu Rut: Fer mamma þín í ljós??? Tinna Rut
horfði á mig: Pabbi, fer mamma í ljós???

Ég rifjaði upp fyrir þeim þegar ég var á að giska 22 ára gamall og
stundaði grimmt, ásamt eiginkonunni, ljósastofur bæjarins. Þetta
fannst stúlkunum vægast sagt ótrúlegt. Mamma þín og pabbi í ljósum???
Tinna Rut gat lítið sagt.

Af hverju er svona erfitt að trúa þessu?

Hvað gerðist eiginlega frá því ég var 22 ára?

5. nóvember 2006

Hvert liggur leið?

Evel Knievel taktar

Tinna Rut lenti í ævintýri á fjórhjóli á laugardaginn. Hún fór ásamt Sölku og Möggu á fjórhjól í eyðimörkinni.
Hún var síðust í röðinni og svo drap hjólið hennar allt í einu á sér. Fararstjórinn tók ekki strax eftir því en skipaði síðan Sölku og Möggu að halda kyrru fyrir og fór að leita. Hjólið fór ekki í gang, þ.a. hann brunaði með hana aftan á til að sækja nýtt. Síðan var þotið til baka til að hitta þær tvær. En á leiðinni þá velti Tinna fjórhjólinu.

Takk fyrir.

Hún gætti sín ekki á að slá nægjanlega af í beygju og rúllaði því um koll. Hún er öll aum í vinstri hliðinni, en ekkert alvarlegt. Hefði getað farið verr, engin spurning. Hann var víst alveg í rusli gaurinn sem var að lóðsa þær. En þær héldu síðan áfram og skemmtu sér mjög vel. En Tinna Rut haltrar svolítið núna og er á fá stóran marblett á lærinu.

Íþróttameiðsl hafa alltaf þótt töff.

4. nóvember 2006

Fílaminni

Oft er sagt að fílar gleymi aldrei. Ég veit ekki hvort sú sé raunin
með Rúnar Atla, en minnugur er hann.

Þannig var að í dag sátum við á veitingastað í Swakopmund. Tinna Rut
og vinkonur hennar voru á trémarkaðnum, en við Rúnar Atli ákváðum að
fá okkur eitthvað í gogginn, enda farið að draga að hádegi. Nema
hvað, allt í einu vindur sér að mér maður og spyr hvort þetta sé ekki
herra Wiium. Ég jánka því auðvitað. Kannast við andlit mannsins
einhvers staðar frá, en kem honum ekki fyrir mig alveg strax. Hann
spyr síðan hvort sé ekki í lagi með handlegg sonar míns. Þá kviknar
allt í einu á perunni hjá mér. Þarna var læknirinn kominn sem kippti
Rúnari Atla aftur í olnbogaliðinn í júní.

Við ræddum nokkur kurteisisorð, eins og gengur. Sé ég þá allt í einu
að skeifa er farinn að myndast á Rúnari Atla og neðri vörin farin að
skjálfa. Fer hann síðan allt í einu að hágráta. Var greinilegt að
líka hafði kviknað á perunni hjá honum. Leist honum greinilega ekki á
blikuna, hefur líklega haldið að læknisskoðun myndi fara fram þarna á
veitingastaðnum. Tók góða stund að ná drengnum niður og tókst ekki
fyrr en læknirinn var horfinn á braut.

2. nóvember 2006

Brottför

Gulla komin út á flugvöll. Ætli sé ekki klukkutími í brottför hjá
henni þegar þessar línur eru skrifaðar. Kveðjustundirnar eru líklega
það erfiðasta við fjarbúðina. En núna huggar maður sig við að stutt
er í að við Rúnar Atli komum til Íslands. Eftir tvær vikur verðum við
líklega að renna í hlaðið á Stillholtinu.

Þangað til...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...