Það hafðist að komast alla leið frá Akranesi til Windhoek. Gekk bara vel, svona almennt. Í Flugleiðavélinni sofnaði Rúnar Atli skömmu fyrir lendingu - yfir Hollandi nánar tiltekið - og var ekki mjög sáttur við að mega ekki sitja í fanginu á mér þegar farið var að lækka flug. Við komum okkur svo á hótelið. Fórum fyrst í sjoppu og keyptum okkur vatn og pitsusneið og samloku. Síðan upp á herbergi. Hann sonur minn tók stúlkurnar í hótelmóttökunni og vafði um fingur sér. Svo kvaddi hann þær meira segja með -bæ- og ég heyrði aðra segja -ó, þessi drengur bjargaði deginum mínum :-) Góður gaur.
Við sváfum síðan á þriðja klukkutíma, fórum í bað og sturtu - alveg fílefldir að því loknu. Rúnar Atli sá síðan McDonald's skilti á meðan við röltum um flugvöllinn og við fórum þangað og fengum okkur að borða. Hann var alveg með á hreinu að þetta McDonald's merki þýddi matur og það góður matur. Ekki veit ég hvernig hann er búinn að komast að þessu, því ekki er McDonald's í Namibíu.
Svo erum við að sýna brottfararspjöldin okkar einhvers staðar á flugvellinum og stúlkan sem skoðar þau fer allt í einu að tala við Rúnar Atla. Á þýsku. Ég held hún hafi spurt hvort hann hefði það ekki bara gott, en er þó ekki viss. Guttinn lítur niður á tær sér og svarar - Ja. Bara upp á þýskuna! Það virtist sem hann skildi hvað hún sagði. Ótrúlegt. Hér bögglast maður sjálfur við að reyna að skilja hvort verið sé að bjóða manni að hita pitsusneiðina eða ekki, en sá stutti - ekkert mál. Bara svara - ja.
Annars varð hann hræddur einu sinni. Við erum búnir að fara í gegnum vopnaleitina í Frankfurt og ég er með handtöskuna í hendinni og færi mig að öðru borði sem er þarna. Ég þurfti nefnilega að setja aftur á mig beltið, en það var greinilega var mjög grunsamlegur hlutur. Rúnar Atli áttar sig ekki á hvert ég fór og rak upp þvílíkt skaðræðisöskur að ég tók alveg undir mig stökk. Þarna var svo margt að sjá fyrir hann og svo þegar hann lítur þar sem ég hafði staðið, þá er bara allt í einu annar maður þar. Auðvitað krossbrá drengnum. Hann róaðist nú fljótt.
Flugið frá Frankfurt gekk mjög vel. Um mig fór kannski ekki mjög vel, enda sætin eru nú ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég náði kannski þremur og hálfum tíma með hléum, en Rúnar Atli svaf sjö tíma í striklotu. Gott í tæplega tíu tíma flugi. Missti hann meira að segja af morgunmatnum. Svo komumst við strax í gegnum vegabréfsskoðunina. Konan þar, sem var mjög þurrkuntuleg á svip, var farin að brosa út í annað út af Rúnari Atla. Oft gott að hafa svona gaur með sér. Töskurnar okkar tvær voru svo númer fjögur og fimm - kannski fimm og sex - á færibandinu þannig að engin bið var. Ég skellti Rúnari svo á háhest til að forðast tollinn, og viti menn, það svínvirkaði.
Krakkargemlingarnir hafa sína kosti.
28. nóvember 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
1 ummæli:
Ertu búinn að gleyma passwordinu á þessa síðu þína eða ertu kannski hreinlega búinn að gleyma slóðinni?
Skrifa ummæli