11. nóvember 2006

Genin

Stundum veltir maður því fyrir sér hvað sé í genum barnanna manns.
Hversu mikið læra þau af umhverfinu og hversu mikið bara er hreinlega
til staðar.

Við Rúnar Atli fórum í verslun í morgun. Ég sé þar ágætis hatta til
verjast sólinni. Svonefndir krikkethattar, með stærðarinnar börðum
allan hringinn. Ef þið hafið einhvern tímann álpast til að sjá brot
af krikketleik þá kannski munið þið eftir svona höttum. Ég spyr
drenginn hvort hann vilji nú ekki svona hatt, en við höfum rætt það
svolítið að hattar séu nauðsynlegir þegar verið sé úti hér.

Neeeiii, hann virtist ekki fíla þetta alveg. Lái honum hver sem vill,
þetta eru ekki beint hattar sem sjást í tískublöðum. Kannski er í
genunum að líka bara ekki við krikket og allt sem þeirri íþrótt
tengist. Gæti verið.

Drengurinn rekur hins vegar augun í húfur úr einhvers konar ullar-
eða bómullargarni. Þær leist honum á. Endaði ég á því að kaupa tvær
húfur handa honum. Hvor kostaði svo sem ekki nema 70 krónur. En ég
fór að velta þessu fyrir mér. Ekki eru þetta mjög sniðugar húfur í
því veðri sem hér ríkir núna, en þær munu áreiðanlega gangast í næstu
viku þegar við komum til Íslands. Kannski eru einhver Íslendingagen á
ferðinni hér.

Veit það ekki.

Kannski hefur hann bara séð einhverjar rapparamyndir hjá Tinnu Rut en
þessir blessuðu rapparar hafa jú oft svona húfur dregnar niður í augu.

Veit ekki meir.

En drengnum verður vonandi ekki kalt á eyrunum í næstu viku.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...