28. júní 2006

Ferðalagið - þriðja og lokafrásögn

Við fórum í aðra hristingsferð á fimmtudeginum og síðan á föstudeginum
ókum við norður í land, nær alla leið til Angóla, og fikruðum okkur svo
í austurátt. Hef nú litlu frá að segja frá þessum dögum sem heima á
hér. En síðan á laugardeginum þá fórum við í Etosha þjóðgarðinn. Nóg
komið af vinnu hjá mér og tími til kominn að slaka aðeins á. Við mættum
í garðinn klukkan ellefu og vorum síðan í góða fjóra tíma að aka til
baka í vestur þar til við komum að næturstað.En eitt er á hreinu núna eftir þessa ferð. Uppáhaldsdýrin hans Rúnars
Atla eru ekki fílar eða gíraffar eða antílópur eða sebrahestar. Nei,
uppáhaldið hans er „muuh.“ Já, beljur. Jæja, kannski ætti ég frekar að
segja nautgripir. Í þessari ferð sáum við mýgrút af nautgripum og
alltaf fannst drengnum þeir jafnspennandi. Leiðsögumanninum okkar í
Etanga fannst allt jafnmerkilegt að hann skyldi þekkja nautgripi og það
úr mikilli fjarlægð. Og ef hann sá önnur dýr, asna eða geitur, þá vissi
hann að þetta var ekki „muuh.“

Í Etosha ókum við fram á einn fíl, eins og myndin hér gefur til kynna.
Við stöðvuðum bílinn og horfðum okkur máttlaus, ja, við Gulla, en Rúnar
Atla fannst þetta frekar lítið spennandi. A.m.k. gaf hann lítið út á
þennan grip. Fíllinn var þarna rétt við veginn að narta í laufblöð og
grasstrá og skipti sér lítið af okkur. Alltaf finnst mér jafnlygilegt
að sjá fíla og gíraffa. Sér í lagi ef þau taka upp á því að skokka af
stað. Það sér maður gíraffana gera oft. Og síðan þegar þeir glenna í
sundur framfæturna til að fá sér að drekka. Ótrúlegt að fylgjast með
þessu.Við komum síðan að gististaðnum. Við fengum fínan kofa, rétt hjá
vatnsbólinu, svo það var stutt að fara til að sjá hvort eitthvað
spennandi væri í gangi. Við komumst að því að Rúnar Atli er eiginlega
aðeins of ungur fyrir svona vatnsbólagláp. Hann nefnilega skilur ekki
af hverju maður á endilega að hvísla þegar verið er að fylgjast með
villtum dýrum við vatnsból. Öðru ferðafólki þótti ekkert spennandi
þegar það hélt niðri í sér andanum og allt í einu heyrðist skærri
barnaröddu: „mamma“, eða „pabba.“ Mjög lítill húmor fyrir svona löguðu.
Hann fór því snemma að sofa þetta kvöldið.

Við kíktum öðru hverju á vatnsbólið. Sáum fílahjörð og ýmis fleiri dýr.
En hápunkturinn voru ljón sem mættu allt í einu á svæðið. Við misstum
nú af aðalstuðinu, þegar ljónin tvö nældu sér í eina antilópu þarna við
vatnsbólið, springbok var þetta. Ég hins vegar sá þegar þau voru að
gæða sér á þessu í mestu makindum. Ég hef ekki séð ljón áður svona úti
í náttúrunni og ótrúlegt var hvað þau féllu inn í umhverfið. Þau voru
svona 3-400 metra frá okkur, en maður sá þau varla. Ekki fyrr en ég
náði í sjónauka áttaði ég mig á því hvað þau voru með. Þetta var
svolítið óraunverulegt að sitja þarna öðrum megin við steinvegg og
örfáa metra í burtu hafði antílópan nýlega týnt lífi og var étin fyrir
framan okkur. Undarlegt.

En við áttum fína kvöldstund þarna. Grilluðum okkur mat og höfðum það
bara gott. Lögðum svo snemma af stað á sunnudeginum til baka, komin með
heimþrá, og ókum bara í einni lotu heim á leið. Vorum komin til
Windhoek skömmu fyrir hádegi.

Allt í allt ókum við 2.400 kílómetra á þessari viku. Enda vorum við
þreytt þegar heim kom.

27. júní 2006

Ferðalagið - önnur frásögn

Svo hófst vinnan. Fundur sem átti að vera klukkan níu frestaðist fram
yfir hádegi, en í staðinn var farið með okkur í sýnistúr um bæinn. Við
byrjuðum á því að rekast á þorpshöfðingann úr þorpinu sem við erum að
vinna í, Etanga heitir það, svo við hann var spjallað. Alltaf undarlegt
að tala við fólk þegar þarf túlk. Ég á alltaf í erfiðleikum með að nota
aðra persónu í svoleiðis samtali, því ég hef á tilfinningunni að ég sé
að tala við túlkinn og nota því þriðju persónu um viðmælandann. Sama
hvað ég einbeiti mér að því að breyta þessu þá gengur það mjög illa.

Hvað um það, síðan hittum við nokkrar konur frá Etanga. Þær klæðast á
hefðbundinn Himba hátt, og búnar að smyrja á sig kreminu rauða. Þessar
konur voru að koma með lasið barn á spítalann og höfðu búið um sig í
kofaskrifli á lóð sem þorpshöfðinginn á. Kofinn samanstóð af
trjágreinum og ullarteppum. Þarna voru þær búnar að búa í einhvern tíma
og sáu fram á að vera í viku til tvær til viðbótar. Þær báðu túlkinn
okkar fyrir alla muni að biðja fjölskylduna sína í Etanga að senda sér
eina geit með næstu bæjarferð. Geitina er nefnilega hægt að selja og
kaupa síðan mat og aðrar nauðsynjar. Fyrir góða geit fást um 300
Namibíudalir, u.þ.b. 3.300 krónur.

Síðan fórum við aðeins útfyrir Opuwo og gengum á fjöll. Ja, aðeins upp
í hlíðarnar. Þar hittum við fólk sem var langt að, býr í 2-300 km
fjarlægð frá bænum. Þeirra ættbálkur er flinkur í að búa til skartgripi
og koma þeir því alla leið að heiman, búa til skartgripi úr járnarusli
og selja. Síðan þegar hagnaðurinn er orðinn nægur, þá er verslaður
matur fyrir hann og síðan farið heim með matinn.

Síðan hittum við það sem hér kallast „hefðbundinn læknir,“ gætum kallað
grasalækni, eða jafnvel skottulækni. Þessi hafði öðlast sínar
læknagáfur þegar frændi hans, sem verið hafði læknir, lést. Eftir það
varð þessi maður læknir. Hann var nú ekki mjög gamall, kannski rúmlega
þrítugur og hálfu höfði hærri en ég. Athygli mína vakti að undir
hefðbundnum himbaklæðunum var hann í Inter Milan treyju. Hann varð nú
hálffúll út í mig þegar ég færði honum ekki neitt að gjöf. En svo er nú
það.

Næsta dag, miðvikudag, var svo lagt af stað til Etanga. Það var nú
meira ferðalagið. Vegalengdin var eitthvað rúmir 100 km, en þvílíkan
tíma sem ferðalagið tók. Vegirnir voru, ja, ég veit ekki alveg hvernig
ég á að lýsa þeim, nema kannski að á stórum köflum voru þetta eiginlega
ekki vegir. Mikið af grjóti og holum og sums staðar vantaði bara í
veginn. Iðulega vorum við að drattast þetta á 30-40 km hraða og fannst
stundum að fullhratt væri ekið. Sem betur fer er Hiluxinn góður í svona
hluti.Við skoðuðum fjóra færanlega leikskóla, þ.e.a.s. 25 fermetra tjöld sem
eru notuð fyrir leikskóla. Himbarnir eru hirðingjar og færa sig því oft
úr stað. Þá þarf leikskólinn að færast líka. Rúnari Atla leist ekki
alveg á þessa hluti í byrjun, en svo þegar hann sá leikföng, þá hægt og
rólega færði hann sig upp á skaftið. Var frábært að sjá glókollinn hann
umkringdan 20-30 hörundsdökkum börnum.En ekki væri þetta líf mikið fyrir okkur. Við einn leikskólann kom
kvennasendinefnd sem bað um aðstoð við borun eftir vatni. Þær þurfa
nefnilega á hverjum degi að arka langar leiðir og fylla 25 lítra brúsa
af vatni og koma honum aftur til baka í húsið sitt. Langar þeim í
vatnsbrunn með dælu og vatnsleiðslu inn í þorpið. Munið þetta næst
þegar þið burstið tennurnar eða farið í sturtu.

Síðan lentum við í sjúkraflutningum. Vorum við spurð hvort við gætum
keyrt ungabarn og móður þess til Etanga, en þar er heilsugæslustöð. Jú,
jú, ekki var það neitt vandamál. Farið var að búa um hana aftur á
pallinum á bílnum og áður en ég vissi af voru fimm manneskjur komar um
borð, innan um allt okkar hafurtask. Síðan var þjösnast yfir holt og
hæðir, steina og holur, með þetta fólk innanborðs. Voru þau ósköp ánægð
yfir því hversu ferðin tók stuttan tíma. Þarna er lítið um bílaferðir,
oft líða dagar án þess að bíll keyri um þessa vegi. Engir símar eru
þarna og bara mest lítið samband við umheiminn.

Til baka komumst við á gistiheimilið um kvöldmatarleytið og vorum við
alveg búin eftir ferðalagið. Held ég við höfum öll verið steinsofnuð
fljótlega upp úr átta um kvöldið.

26. júní 2006

Ferðalagið - fyrsta frásögn

Við lögðum af stað nokkuð eftir hádegi á sunnudegi fyrir viku. Tinna
Rut kom ekki með, bæði vegna skóla og eins hafði hún takmarkaðan áhuga,
svo ekki sé sterkar kveðið að orði. Flora tók að sér að vera í húsinu á
meðan, þ.a. Tinna yrði nú ekki alein. Fyrsta daginn ókum við u.þ.b. 350
km. Lítið markvert gerðist á leiðinni, við kíktum þó í eina heimsókn á
stað sem heitir Otjiwarongo, og um kvöldmatarleytið komum við á fyrsta
næturstað, Ombinda heitir gististaðurinn, rétt utan við bæ sem ber
nafnið Oujto. Þar var flott þjónusta, heljarinnar matseðill, og vorum
við hrifin af þessu stað. Flott villibráðarsteik og fleira nammigott.

Að loknum morgunverði næsta dag, var síðan haldið af stað á ný. Ókum
við svipaða vegalengd og deginum áður, en nú var meirihluti leiðarinnar
malarvegur. Síðan var um 50 km. kafli sem miklar framkvæmdir eru í
gangi, sennilega á að leggja bundið slitlag fljótlega, og gekk ferðin
frekar hægt. Við komum að lokum til áfangastaðar, Opuwo, um miðjan
eftirmiðdag. Opuwo er sérkennilegur staður. Svipað og á Íslandi virðist
alltaf vera rok þarna og þar sem flestar götur eru ekki malbikaðar, þá
þyrlast oft upp sandurinn og berst yfir allt. En þarna úir og grúir af
fólki, allskonar fólki. Opuwo er þjónustumiðstöð nærliggjandi sveita og
því er mikill erill og fólk kemur hvaðanæva að. Þarna rekst maður á
fólk í jakkafötum, fínpressuðum. Reyndar er lítið af þess háttar
fuglum. Og síðan fólk í hefðbundnum himbaklæðum, og svo bara er öll
flóran þar á milli. Þessi fjölbreytileiki í útliti fólks gerir Opuwo
mjög sérstakan bæ fyrir utanaðkomandi. En í augum heimafólks er ekkert
undarlegt við þetta. Á þessu svæði Namibíu býr fátt af hvítu fólki.
Rúnar Atli vakti því nokkra eftirtekt og sýndist manni að margir, sér í
lagi krakkarnir, hefðu varla nokkurn tímann séð barn af okkar
litarhætti, og einnig virtist ljós háralitur hans vekja eftirtekt. Ekki
dró úr athyglinni, að drengurinn var nokkuð pirraður þegar við fórum í
matvörubúð og tók smáraddbandaæfingu, foreldrunum til mikillar ánægju.
Var guttinn orðinn það reiður, að hársvörðurinn varð rauður... stuð.
Þetta jafnaði sig nú síðan allt að lokum.

Meira síðar.

25. júní 2006

Komin heim

Rétt að láta vita að við erum komin heim eftir vikuferðalag. Erum ánægð
en þreytt. Mun skella inn einhverjum ferðasögum á næstunni.

18. júní 2006

Gulla komin

Í gærmorgun lenti Gulla heilu og höldnu hér í Windhoek. Flugið gekk
ágætlega, þótt ekki væri mikil hvíld á langa fluginu. Miklir
fagnaðarfundir urðu, en Rúnari Atla fannst greinilega undarlegt að
mamma hans væri bara allt í einu komin. En sú undrun hvarf fljótlega og
nú límir hann sig við mömmu sína.

Að sjálfsögðu var byrjað að fara á kaffihús, enda eldsnemma morguns.
Já, ég ætti kannski að nefna að ég, Tinna Rut og Rúnar Atli vorum mætt
út á völl tíu mínútum áður en vélin lenti. Bara svo það sé nú allt á
hreinu.

Haldið var upp á 17. júní hér í Windhoek, en allir fjórir íslenskir
starfsmenn ÞSSÍ í Namibíu áttu fjölskyldumeðlimi í flugvélinni sem
Gulla kom með og því þótti tilvalið að hittast seinnipart dags og halda
upp á lýðveldisdaginn. Ekki fór mikið fyrir rigningu og roki hér. Ef
einhver vildi vita það.

Í dag á síðan að leggja af stað í langan leiðangur. Ég þarf að skoða
verkefni lengst norður í landi og ákváðum við að gera túristaferð úr
þessu að hluta. Hugmyndin er að enda í Etosha þjóðgarðinum og leyfa
Rúnari Atla að sjá fíla, gíraffa og fleira í þeim dúr. Við komum ekki
til baka fyrr en eftir viku, svo líklega verður þessi dagbókarsíða
þögul næstu vikuna.

Þar til næst.

16. júní 2006

Útungunarparadísin Namibía

Oft hefur nú verið rætt um að gera Ísland að einhvers lags skattaparadís til að draga að erlenda kaupahéðna og ríkisbubba. Einstaka sinnum hefur vaknað svona umræða hér í Namibíu líka. En nú virðast mál vera að þróast þannig að öðrum vísi paradís verði hér: útungunarparadís.

Mér kom þetta í hug þegar ég hlustaði á útvarpsfréttirnar á leiðinni í vinnuna í morgun. Fór þulurinn að segja frá því að söngfuglinn síkviki, Britney Spears, hefði haft samband við aðstoðarráðherra ferðamála í Namibíu og spurt hvort hún mætti ekki koma til Namibíu og fæða sitt annað barn hér. Á hún víst von á sér í október.

Varla vissi ég hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég heyrði þessa frétt. Undanfarið hef ég verið duglegur við lestur slúðurblaðanna sem hún dóttir mín kaupir í viku hverri, og verð ég að viðurkenna að af öllum þeim stjörnum sem skrifað er um þá vorkenni ég henni Britney einna mest. Virðist vera almennt eineltisleyfi á hana og þeim mun verr sem hún lítur út á myndum, þeim mun betra. Man ég ekki eftir einni einustu slúðurgrein sem rakkar hana ekki niður, hvort sem er fyrir að vera slæm móðir, að hugsa ekki um útlitið eða bara að vera einfaldlega sú ömurlegasta af öllu ömurlegu.

En forvitnilegt verður að sjá hvort einhver alvara er í þessu, eða hvort þetta er einfaldlega gabb. Ferðamálaráðuneytið er núna í óðaönn að reikna út efnahagslegan ágóða landsins af komu Jolie og fylgdarliðs. Er álitið að fjöldi bandarískra ferðamanna muni snaraukast í kjölfar veru þeirra hér.

Mun Britney hafa sömu áhrif?

Styttist biðin

Þá er að styttast í hana Gullu. Nú er hún sjálfsagt komin langleiðina til Keflavíkur. Hún lendir hér korter fyrir
átta í fyrramálið og þá verður gaman. Mikill spenningur hérna megin.
Meira að segja Rúnar Atli veit að eitthvað mikið er í gangi sem tengist
mömmu hans.

Annars er hann farinn að tengja tölvuna og mömmu sína saman. Undanfarna
daga höfum við spjallað saman í gegnum Skype og Rúnar Atli hefur
iðulega verið á staðnum. Nú, ef ég sest við tölvuna, kemur hann
hlaupandi, bendir á tölvuna og hrópar „Mamma, mamma."

13. júní 2006

Bati gengur vel

Svona rétt að láta vita að Rúnar Atli braggast vel. Hann er farinn að nota handlegginn á fullu og sést varla að nokkuð hafi verið að. Gott mál.

11. júní 2006

Góður endir

Allt virðist nú vera að komast í lag hjá honum Rúnari Atla. Við mættum
á spítalann rétt fyrir klukkan eitt eftir hádegi, og fljótlega þar á
eftir vorum við komin á dagdeildina. Þar fékk Rúnar Atli aðgang að
þessu fína skærgula rimlarúmi. Það versnaði nú í því þegar átti að
skipta um föt á drengnum. Hann harðneitaði spítalanærfötum, barðist um
á hæl og hnakka, svo ég hreinlega gafst nú upp. Þetta voru nú ekkert
mjög sexí nærur þannig ég skildi drenginn nú ósköp vel.

Eftir einhverja stund fórum við inn á skurðdeildina. Þar var ég klæddur
upp í grænan slopp, hárnet og skóhlífar sem hefðu hæft ágætlega á
norðurskautinu. Meira að segja Rúnar Atli fór að hlæja þegar hann sá
múderinguna á mér. Góður með sig, losna við spítalanærurnar og hlæja
svo að mér.

Svona um korter yfir tvö var svo kallað í okkur inn á skurðstofuna og
svæfingalæknirinn útskýrði allt fyrir okkur. Ég sat með Rúnar Atla í
fanginu og setti grímuna fyrir andlitið á honum og svo bara sofnaði
hann þarna í fanginu á mér. Auðvitað sýndi hann mótþróa fyrst, en það
dugði nú skammt. Hann fékk sínu framgengt með nærurnar, en hér var sko
ekkert elsku mamma neitt.

Síðan fór ég fram og beið. Biðið var nú ekki nema örfáar mínútur, því
læknirinn var snöggur að þessu. Hann sagði að þetta hefði gengið vel,
en hann var búinn að segja mér að ef illa gengi gæti þurft að opna
handlegginn. Sem betur fer þurfti ekkert svoleiðis. Hann sagði mér að
áður en hann byrjaði þá gat hann sett olnbogann í 90 gráðu horn, þá
læstist allt. Þegar hann var búinn að smella þessu á sinn stað, þá var
hægt að beygja olnbogann alveg eins og ætlast er til.

Síðan var bara að bíða eftir að drengurinn vaknaði. Þegar mér var
farinn að lengja biðin fór ég að tala við hann og viti menn, opnar hann
bara augun. Góð tilfinning það. Síðan fórum við aftur á dagdeildina og
vorum þar í einhverja stund á meðan hann var að jafna sig. Útskrifaður
klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú.

Svo var bara að labba og borga, litlar 45 þúsund krónur. Svo er bara að
senda reikninginn til Íslands og vona að einhver sé til í að taka þátt
í þessu ævintýri.

En það varð strax mikill munur á Rúnari Atla. Svona klukkutíma eftir að
við komum heim var hann farinn að nota hendina, auðvitað ekki eins og
hún ætti að vera en mikil framför samt. Svo er hann allur krambúleraður
eftir lækninn, verður sjálfsagt marinn og blár næstu daga.

En allt er gott sem endar vel.

Birtir til

Jæja, þá birtir nú aðeins til í málum Rúnars Atla. Hann fór úr
olnbogaliði er nýjasta sjúkdómsgreiningin. Réttara sagt fór mjóa beinið
í framhandleggnum úr liði. Þetta er víst langt frá því að vera óalgengt
með börn á þessum aldri. Gerist oft þegar foreldrar rykkja í hönd eða
úlnlið barnins. T.d. ef barnið hrasar þá kippir maður oft á móti, þá
getur þetta gerst. Síðan ef börnunum er lyfti upp úr rúminu á
handleggjunum, þá getur þetta komið fyrir líka. Það finnst mér líklegt
að hafi gerst í tilviki Rúnars Atla, því hann var rétt kominn upp úr
rúminu þegar ég kem heim. Og þá sást þetta fyrst. Karlanginn.

Læknirinn reyndi að kippa honum í liðinn í morgun, en það tókst ekki.
Hann sagði að þegar liðnir væru tveir sólarhringir væri þetta orðið svo
stíft og bólgið að erfitt væri að koma beininu aftur til baka. Því þarf
að svæfa drenginn og gera þetta síðan.

Eigum við tíma núna klukkan tvö eftir hádegi, eitt að íslenskum tíma,
og mæting klukkutíma fyrr. Við vonum það besta, að sjálfsögðu, en
léttirinn er mikill að komið skuli vera á hreint hvað sé í gangi.

Úrslit 4-2!

Nei, ekki er nú átt við opnunarleik HM í Þýskalandi, þótt úrslitin séu
þau sömu.

Hún Tinna Rut hefur um nokkura mánaða skeið stundað knattspyrnuæfingar
með stúlknaliði framhaldsskóla heilags Páls. Fyrir nokkrum vikum hófst
síðan keppni milli framhaldsskóla landsins og er þar um að ræða stúlkur
undir 17 ára aldri. Tinna Rut ætti reyndar, sem og margar stöllur
hennar, að vera í undir 15 ára hópi, en þar vantar lið til að keppa
við. Fyrstu tveir leikirnir töpuðust án þessa að valkyrjur heilags Páls
næðu að koma knettinum í mark mótherjanna. Þriðji leikurinn vannst
síðan, en það kom til vegna þess að mótherjinn mætti ekki. Síðan kom að
fjórða leik. Það var gegn hinum svonefnda þýska skóla, en leikskólinn
hans Rúnars Atla er deild innan þess skóla. Er skemmst frá að segja að
nú small sóknarleikur okkar stúlkna saman og vannst leikurinn með
fjórum mörkum gegn tveimur. Mikil var gleðin í herbúðum heilags Páls.

Tinnu Rut finnst þetta nokkuð skemmtilegt. Keypti sér knött um daginn
til að æfa sig heima fyrir. Hún spilar vinstra megin á miðjunni og
finnst því að æfa þurfi upp knatttækni vinstri fótar sem er ekki hennar
aðalfótur.

Svo er bara að taka næsta leik!

10. júní 2006

Kúkur á klaka...

Æ, ekki leið mér nú vel í gær. Kom heim í hádeginu og þá var Rúnar Atli
eitthvað svo undarlegur. Ég fór að fylgjast betur með honum og sá þá að
hann hlífði alveg hægri hendinni, hreyfði hana bara ekki neitt. Þarna
var hann nývaknaður, svo mér datt nú í hug að hann hefði legið illa, en
þetta lagaðist ekki og hvein í honum ef eitthvað var komið við
handlegginn.

Ég ákvað að bíða ekkert, enda föstudagseftirmiðdagur, og fór beint til
læknis með drenginn. Heimilislækninum fannst þetta allt mjög undarlegt
og sendi mig til barnalæknis. Ég ætti kannski að nefna að fyrir svona
tíu dögum stakk mænusótt sér niður hér í fátækrahverfi borgarinnar. Eru
tíu ár síðan síðasta tilfelli fannst. Tókst nú ekki að greina hana fyrr
en á miðvikudaginn var og eru allir mjög taugaveiklaðir vegna þessa.
Eitt einkennið er lömun útlima og því þótti nú réttara að skoða þetta
betur. Barnalæknirinn skoðaði Rúnar Atla frá toppi til táar, en fannst
ekkert benda til mænusóttar, því engin önnur einkenni er drengurinn
með. Hann er líka bólusettur upp í topp fyrir þessari óáran svo ekki á
hann að geta fengið þetta næstu tíu árin eða svo.

Drengurinn er ekki með neina áverka, en auðvitað detta manni ýmsir
möguleikar í hug þegar svona gerist, sumir verri en aðrir. Við fórum
svo aftur til læknisins í morgun, en hann er á vakt á slysavarðsstofu
hér á besta spítalanum í bænum. Þar var í morgun ekki þverfótað fyrir
foreldrum með lítil börn sín. Allir með miklar áhyggjur vegna
mænusóttarinnar. Rúnar Atli hafði ekki tekið neinum breytingum frá í
gær, svo læknirinn bað mig að koma með saursýni frá drengnum, tvö með
a.m.k. 24 tíma millibili. Þau eru notuð til að prófa fyrir
mænusóttinni. Mikil áhersla var lögð á að kæla sýnin niður og koma með
þau vel kæld. Því fyrirsögn þessarar dagbókarfærslu. Þetta var mjög
athyglisvert að nota hálfa klemmu til að skammta úr bleyjunni ofan í
glasið sem ég fékk. Síðan að ganga frá þessu tryggilega innan um ísmola
og koma þessu á slysadeildina. Skemmtilegt.

En segjast verður að Rúnar Atli er þrælhress. Þetta virðist ekkert fara
í skapið á honum. Stundum gleymir hann sér reyndar og þá finnur hann
til. En þó virðist hann nú aðeins vera farinn að nota hendina til að
styðja við hluti, svo ég vona nú það besta. Mér virðist þetta líkjast
einna helst tognun. Þetta er nú heldur öfgakennd leið til að gera
drenginn örvhentan.

Við eigum að mæta í fyrramálið á nýjan leik og síðan verða sjálfsagt
teknar röntgenmyndir á mánudag ef allt er óbreytt. Sú deildin er lokuð
um helgar nema í neyðartilvikum og þetta telst nú ekki alveg svoleiðis.
Sem betur fer.

6. júní 2006

Afmælissöngur

Kæra Dagmar Ýr.

Ég er nú ekki söngmaður mikill. Var reyndar um tíma í skólakór MR og
varð svo frægur að syngja á sviðinu í Háskólabíói. Hætti auðvitað á
toppnum eins og allir þeir langbestu.

En hvað um það, hvað um það.

Í dag syng ég ekki fyrir marga, ja, bara fyrir múttu þína. Skoðaðu
bloggið 20. apríl - enginn afmælissöngur þann daginn.

Hún móðir þín er sérstök og einstök og ...

Þinn faðir

Tölvufælni og símatap

Eitthvað hef ég verið latur að sitjast niður við tölvuna undanfarna
daga. Tinna Rut er eitthvað farin að færa sig upp á skaftið og farin að
liggja í tölvunni kvöld eftir kvöld. Æ, það pirrar mig reyndar ekki,
þegar ég nenni eiginlega ekki að setjast við hana hvort sem er. Stór
hluti vinnudagsins fer fram andspænis tölvuskjá, og stundum er því
ágætt að fá sér frí þegar heim er komið.

Í kvöld hins vegar er annað upp á teningnum, Tinna Rut búin að liggja í
símanum í allt kvöld inni í herberginu sínu og tala við einhverja vini
sína. Hún er hálffúl í skapinu því hún varð fyrir því að gemsanum
hennar var stolið í dag. Jamm, stolið. Hún var á fótboltaæfingu og
þjálfarinn, sem venjulega geymir símann hennar, mætti aðeins of seint.
Hún vafði gemsanum því inn í upphitunartreyjuna og setti við
hliðarlínuna. Mundi svo ekkert eftir símanum þegar þjálfarinn mætti
loksins. Svo í lok æfingar þá var gemsinn horfinn. Greinilega er búið
að taka kortið úr, því ekki næst í númerið ef prófað er að hringja.
Útaf þessu er stúlkutetrið nokkuð niðurdregið í kvöld. Skal engan
undra.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...