28. júní 2006

Ferðalagið - þriðja og lokafrásögn

Við fórum í aðra hristingsferð á fimmtudeginum og síðan á föstudeginum
ókum við norður í land, nær alla leið til Angóla, og fikruðum okkur svo
í austurátt. Hef nú litlu frá að segja frá þessum dögum sem heima á
hér. En síðan á laugardeginum þá fórum við í Etosha þjóðgarðinn. Nóg
komið af vinnu hjá mér og tími til kominn að slaka aðeins á. Við mættum
í garðinn klukkan ellefu og vorum síðan í góða fjóra tíma að aka til
baka í vestur þar til við komum að næturstað.



En eitt er á hreinu núna eftir þessa ferð. Uppáhaldsdýrin hans Rúnars
Atla eru ekki fílar eða gíraffar eða antílópur eða sebrahestar. Nei,
uppáhaldið hans er „muuh.“ Já, beljur. Jæja, kannski ætti ég frekar að
segja nautgripir. Í þessari ferð sáum við mýgrút af nautgripum og
alltaf fannst drengnum þeir jafnspennandi. Leiðsögumanninum okkar í
Etanga fannst allt jafnmerkilegt að hann skyldi þekkja nautgripi og það
úr mikilli fjarlægð. Og ef hann sá önnur dýr, asna eða geitur, þá vissi
hann að þetta var ekki „muuh.“

Í Etosha ókum við fram á einn fíl, eins og myndin hér gefur til kynna.
Við stöðvuðum bílinn og horfðum okkur máttlaus, ja, við Gulla, en Rúnar
Atla fannst þetta frekar lítið spennandi. A.m.k. gaf hann lítið út á
þennan grip. Fíllinn var þarna rétt við veginn að narta í laufblöð og
grasstrá og skipti sér lítið af okkur. Alltaf finnst mér jafnlygilegt
að sjá fíla og gíraffa. Sér í lagi ef þau taka upp á því að skokka af
stað. Það sér maður gíraffana gera oft. Og síðan þegar þeir glenna í
sundur framfæturna til að fá sér að drekka. Ótrúlegt að fylgjast með
þessu.



Við komum síðan að gististaðnum. Við fengum fínan kofa, rétt hjá
vatnsbólinu, svo það var stutt að fara til að sjá hvort eitthvað
spennandi væri í gangi. Við komumst að því að Rúnar Atli er eiginlega
aðeins of ungur fyrir svona vatnsbólagláp. Hann nefnilega skilur ekki
af hverju maður á endilega að hvísla þegar verið er að fylgjast með
villtum dýrum við vatnsból. Öðru ferðafólki þótti ekkert spennandi
þegar það hélt niðri í sér andanum og allt í einu heyrðist skærri
barnaröddu: „mamma“, eða „pabba.“ Mjög lítill húmor fyrir svona löguðu.
Hann fór því snemma að sofa þetta kvöldið.

Við kíktum öðru hverju á vatnsbólið. Sáum fílahjörð og ýmis fleiri dýr.
En hápunkturinn voru ljón sem mættu allt í einu á svæðið. Við misstum
nú af aðalstuðinu, þegar ljónin tvö nældu sér í eina antilópu þarna við
vatnsbólið, springbok var þetta. Ég hins vegar sá þegar þau voru að
gæða sér á þessu í mestu makindum. Ég hef ekki séð ljón áður svona úti
í náttúrunni og ótrúlegt var hvað þau féllu inn í umhverfið. Þau voru
svona 3-400 metra frá okkur, en maður sá þau varla. Ekki fyrr en ég
náði í sjónauka áttaði ég mig á því hvað þau voru með. Þetta var
svolítið óraunverulegt að sitja þarna öðrum megin við steinvegg og
örfáa metra í burtu hafði antílópan nýlega týnt lífi og var étin fyrir
framan okkur. Undarlegt.

En við áttum fína kvöldstund þarna. Grilluðum okkur mat og höfðum það
bara gott. Lögðum svo snemma af stað á sunnudeginum til baka, komin með
heimþrá, og ókum bara í einni lotu heim á leið. Vorum komin til
Windhoek skömmu fyrir hádegi.

Allt í allt ókum við 2.400 kílómetra á þessari viku. Enda vorum við
þreytt þegar heim kom.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig er nú farið að lengja eftir mynd af Rúnari Atla...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...