31. ágúst 2013

Tilvonandi félagsmálatröll?

Einhvern tímann í fyrra átti að kjósa í nemendaráð, einhvers lags, í skólanum hans Rúnars Atla. Einn fulltrúi er valinn úr hverjum bekk og einn til vara. Rúnar Atli lagði töluvert á sig að útbúa framboðsræðuna, en ekki hlaut hann kosningu. Mér fannst svolítið merkilegt, og reyndar flott, að hann kaus ekki sjálfan sig heldur einhverja stúlku. „Ræðan hennar var betri en mín,“ sagði hann, „og þess vegna kaus ég hana.“

Núna í vikunni voru kosningar í nemendaráðið, enda komið nýtt skólaár. Rúnar Atli fór í framboð og útbjó aðra ræðu, sem hann flutti svo á miðvikudaginn var.

Aðspurður sagði hann að vel hefði gengið að flytja ræðuna.

„Og kaustu sjálfan þig?“ spurði ég.

„Nei,“ var svarið. „Mér finnst eigingjarnt að kjósa sjálfan sig.“

Þá veit maður það. Hversu margir pólitíkusar skyldu nú hugsa á þennan hátt?

Svo í gær voru niðurstöður kosninganna kynntar.

Rúnar Atli vann!

Bekkjarforseti, hvorki meira né minna.

Ég var alveg steinhissa, en auðvitað rígmontinn.

Nú þarf hann að fórna a.m.k. einum frímínútum í viku til að funda með öðrum bekkjarfulltrúum og tveimur kennurum sem stýra starfinu. Ég veit satt að segja ekki alveg hvað felst í starfi nemendaráðsins, en það kemur í ljós.

Ekki hefur drengur þennan félagsmálaáhuga frá mér, svo mikið er víst. Móðir hans var víst eitthvað í svona stússi í grunnskóla á sínum tíma, svo kannski kemur þetta þaðan.

Hver veit?

29. ágúst 2013

Níu ára klassapiltur

Stór dagur í dag.

Níu ára afmæli sonarins.

Lengi hefur verið beðið eftir þessum degi. En eins og aðrir dagar kom hann að lokum.

Að sönnum Afríkusið var dagurinn tekinn snemma, sest niður við morgunverðarborðið upp úr klukkan sex til að opna pakkana.

Móðir piltsins unga var búinn að hóta honum að hann fengi annað hvort nærbuxur eða sokka í pakkanum frá sér. Eins og góðra mæðra er siður stóð hún við loforðið og upp úr fyrsta pakkanum komu ... sokkar.


Piltur er búinn að skrá sig í þríþraut í eftir-hádegis-námskeiðum í skólanum. Ætlar sér greinilega að verða járnkarl. Þar sem góðan reiðhjólahjálm vantaði þá kom einn slíkur úr pakka.


Systur pilts brugðust ekki frekar en fyrri daginn. Í öðrum pakkanum sem frá þeim barst var hvorki meira né minna en hlaupabretti. Foreldrarnir krossuðu sig í bak og fyrir, en sem betur fer var líka hjálmur í pakkanum og olnboga- og hnéhlífar.

Eins gott.

Nú er semsagt hægt að „skeita“ og verða gegt góður „skeitari.“


Svo var síðasti pakkinn. Uppúr honum kom gítar! Drengur hefur sýnt áhuga á að glamra á svoleiðis hljóðfæri og er einmitt að læra gítargrip í tónmennt í skólanum.

Flottur er hann með gítarinn sinn nýja.


Í skólann var svo farið með helling af skúffukökum. Var víst gerður góður rómur að þeim og afmælisbarnið sjá til þess að ýmsir kennarar fengu köku líka. Eins gott að hafa kennarana með sér í liði.

Á morgun koma svo þrír góðir vinir og fá að gista eina nótt. Bíómaraþon og eitthvað álíka skemmtilegt. Það verður partíið þetta árið. Reyndar verður svo Íslendingaafmæliskaffi á laugardaginn. Þá hljóta að verða ástarpungar í boði.

Piltur er sáttur með daginn.

 

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...