24. mars 2008

Skattframtalið


Húrra, húrra, þá er búið að skila skattframtalinu. Ég hef nú verið óvenjusnemma á ferðinni núna, hófst handa við þessa árlegu kvöð í byrjun mars og var síðan að dunda mér kvöld og kvöld í þessu. Þetta er nú ekki mjög flókið hjá okkur hjónunum, en þó þarf að skella inn ýmsum upplýsingum varðandi fasteignaviðskipti, dagpeninga og sitt lítið af hverju.

Ég útbjó framtalið líka fyrir Dagmar Ýri og skilaði hennar framtali kl. 20:47 að íslenskum tíma, en okkar framtali kl. 21:14. Sem sagt 27 mínútur liðu á milli. Skv. móttökunúmerinu sem uppgefið er við skil, þá skiluðu 234 framtali á þessum tíma, þ.e. næstum níu manns á mínútu. Greinilega gaman hjá Íslendingum þessa stundina.

En alltaf er ósköp gott þegar þetta er búið.

Akstur á ferðalagi

Ekki er laust við að ýmislegt komi upp á þegar eknir eru nær 3.000 kílómetrar á nokkrum dögum. Ekkert alvarlegt gerðist, þótt reyndar hefði litlu mátt muna að Elli lenti aftan á okkur þegar hann kom fljúgandi yfir hæð nokkra. Hinumegin við hæðina hafði ég nefnilega snarhemlað því beljandi stórfljót var yfir veginn og fannst mér skynsamlegra að skella í fjórhjóladrifið áður en lagt væri af stað. Ella hafði hins vegar tekist að ná Nissan brakinu sínu á sæmilega ferð, aldrei þessu vant, og brá því nokkuð þegar hann kom yfir hæðina og sér mig vera að baksa eitthvað við framhjólin á bílnum. Hann ætlar að skella bílnum niður í annan gír, en þar sem hann var ekki alveg kominn á hreint með það að sitja hægra megin í bílnum fór hann að fálma í hurðinni sinni, því honum fannst að gírstöngin ætti að vera hægra megin við sig... En hann náði nú að sveigja framhjá og stöðva bílinn með látum.

Haft er fyrir satt að hann Ari hafi sagt eitt orð á meðan þessu stóð... : „Shittt!“

Ekki veit ég hverslags uppeldi er á þessum dreng að kenna honum ekki að nota kjarnyrt íslensk blótsyrði við svona aðstæður.

En allt fór þetta nú vel.

Hér sést Elli vera að skríða yfir eina á. Þarna situr einn bíll fastur, en fjórhjóladrifið dugði okkur í allar þær torfærur sem við lentum í. Ekki hef ég tölu á þeim ám sem við þurftum að fara yfir á þennan hátt. Þær voru margar. En krakkarnir skemmtu sér þeim mun betur sem meira vatn sullaðist upp á glugga.


Ekki er fjarri lagi að við Elli höfum skemmt okkur ágætlega líka þegar vatnið sullaðist.

Um tíma voru konur í öðrum bílnum og karlmenn í hinum. Gulla og Allý voru nokkuð góðar með sig, eins og sjá má. Ætluðu að vera búnar að snúa sér nokkrum sinnum í sólbaði áður en karlpeningurinn mætti í Etosha.


Okkur hinum leist nú ekki alveg á blikuna, því sama hvað reynt var að koma Nissan brakinu áfram þá var þessi sýn alltaf fyrir augunun: afturendi á Toyota pallbíl út við sjóndeildarhringinn.


Góð ráð voru dýr. Okkur leist þannig á að eitt áhlaup mætti gera rétt áður en til Etosha kæmi. Ein tilraun og aðeins ein. Svona svipað og þegar ljón eru á veiðum, koma bráðinni á óvart.

U.þ.b. 5 km fyrir utan Etosha, þá setti Elli aftansönginn í gang (þetta orð aftansöngur kemur frá Allý, og ætla ég ekkert að útskýra það frekar). Síðan notuðum við Elli aðferð Stuðmanna úr Með allt á hreinu og fórum að róa í gráðið. Taktfast.

Og viti menn. Smátt og smátt fór Nissaninn að auka hraðann og bilið milli bílanna minnkaði jafnt og þétt. Náðist síðan að rúlla fram úr rétt við hliðið að Etosha og þar með sat kvenfólkið eftir með sárt ennið.

Börnin voru nokkuð góð á meðan á öllum akstrinum stóð. Þó kom fyrir að eitthvað heyrðist og þá var bara farið að ráðum Namibíumanna og öllum óþekktargemlingum hent í skottið. Hér sést þegar þeim er hleypt út, skömmustulegum, í Etosha.


Dýr eru nokkuð fyrirferðarmikil á vegunum í norðanverðri Namibíu. Nautgripir eiga það til að vera á þjóðveginum og þykir undarlegt að við mannfólkið seum að æsa okkur eitthvað yfir því.


Svo eru það geiturnar...


...og svo fleiri nautgripir.


En heim komumst við heilu og höldnu að lokum.

23. mars 2008

Gestagangur og ferðalag

Fyrir góðri viku þá birtust hér á tröppunum gestir frá Íslandi. Þar voru Elli og Allý mætt ásamt barnahópi sínum. Næsta dag var lagt af stað í langt ferðalag, sjö nátta ferð þar sem eknir voru a.m.k. 2.700 kílómetrar. Nálægt því tvær hringferðir um Ísland!

Ýmislegt gerðist í ferðinni og kemur ferðasagan í smáskömmtum næstu daga. Svona rétt til að vekja forvitni ykkar þá mun verða rætt um ormaát, ástæðuna fyrir því að Himbafólkið rífur úr sér framtennur í neðri góm, flóð, dýrasögur, akstur á namibískum malarvegum, loftbelgjaflug, drottningarvígslu og líklega sitthvað fleira.

Ég þarf bara fyrst að sortera í gegnum þær 600 myndir sem teknar voru í ferðalaginu svo hægt sé að sýna svart á hvítu að hlutirnir áttu sér virkilega stað.

En, ætli ég byrji ekki á einni mynd af gesti okkar. Ekki veit ég hvort hún lýsi einhverju um hversu skemmtilegir gestgjafarnir eru... Dæmi hver fyrir sig.

9. mars 2008

Ævintýri á vettvangsför

Alla síðustu viku var ég á ferðalagi í norðurhluta Namibíu. Var að koma til mín nýr starfsmaður og einnig var hér starfsfélagi frá aðalskrifstofu. Því var farið í vettvangsferð til að sýna verkefni okkar hér og skoða möguleg framtíðarverkefni.

Reyndar styttist ferðin um tvær nætur því á einn stað komust við ekki. Hafa verið svo gríðarlegar rigningar sem og flóð frá Angólu að ár eru stútfullar af vatni og vel betur. Einn Namibíumaður sem vinnur með okkur var búinn að bíða í þrjá daga við á eina sem hann þurfti að komast yfir. Var loksins lagt í ána, en þá vildi ekki betur til en að straumurinn hreif bílinn með sér. Stöðvaðist hann loksins á tréi og náðu ferðalangarnir með snarræði að binda bílinn við tréð þar til hjálp barst. Leist mér ekki alveg á að hætta mér úti í svona ævintýramennsku og því héldum við heim á leið fyrr en áætlað.

Lentum þó í okkar eigin ævintýri. Það tók reyndar bara þrjár klukkutíma, ekki þrjá daga. Við vorum að skoða nokkra leikskóla í Omusatisýslu, og þurftum að víkja af alfaraleið. Ekki vill betur til en að leiðsögumaðurinn festir bílinn sinn. Ætla ég því að kippa í hann, en þegar ég er að koma mínum bíl í rétta stöðu þá finn ég allt í einu að bíllinn tekur að síga! Já, hann sökk bara niður og lagðist á „magann“ og hreyfðist ekki hvorki fram né til baka.

Þarna var landið orðið gegnsósa af vatni og ef ég stappaði niður fæti þá kom vatn upp. Í raun vorum við í hálfgerðu feni þarna, en ekkert sást fyrr en bíllinn var sokkinn.

Nú voru góð ráð dýr. Smátt og smátt kom fólk þarna að og fór að hjálpa okkur. Ekki gekk nú vel til að byrja með, enda var bíllinn þungur og djúpt sokkinn. Sem betur fer var ég ágætlega búinn tækjum. Var t.d. með stærðarinnar tjakk sem gerður er fyrir nákvæmlega svona aðstæður. Verst var þó að bíllin sem ég var á er úr ótrúlega miklu plastdrasli og því erfitt að finna stað fyrir tjakkinn. En hér er þó búið að tjakka kaggann upp að aftan og farið að hlaða greinum undir dekkin.


Í upphafi voru einkum karlmenn sem voru að aðstoða, en eftir því sem á leið bættust konur í hópinn. Þær höfðu sig lítið í frammi til að byrja með, stóðu hjá og fylgdust með.


En smátt og smátt færðu þær sig upp á skaftið. Þótti greinilega ekki að aðferðir karlanna væru að skila neinu. Hér sjáið þið hóp fólks sem var að gera sig tilbúið til átaka og ófáar konur eru þar á meðal.


Síðan var ýtt og ýtt og svo tjakkað og tjakkað og málin rædd og rædd enn frekar. Alltaf bættist í hópinn og reiknast mér að á fjórða tug manna hafi verið kominn í málið áður en yfir lauk. Eins og sést gjörla lágu konurnar ekki á sínu liði við ýtingarnar.


Bíllinn náðist að lokum upp og má segja að fólkið hafi hreinlega borið hann úr feninu. Svo var bara gefið í til að ná á fast.

En mikill samtakamáttur var í fólkinu og var virkilega gaman að sjá hvernig allir lögðust á eitt að hjálpa bláókunnugu fólki.

Mikið var hlegið á meðan á þessu stóð og efast ég ekki um að ýmsar glósur hafi fokið til mín án þess að ég skildi. En kannski átti ég þær alveg skilið. Hver veit.

En lífsgleði er hér allstaðar og enda ég á einni mynd sem sýnir kátt fólk rétt utan við Opuwo í norðvesturhluta landsins.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...