28. febrúar 2008

Smíðar

Rúnar Atli hefur stækkað nokkuð á þessum tíma sem við höfum búið í Namibíu. Þrátt fyrir það hefur hann alltaf verið í sama rúminu. Rimlarúm, ja, í raun bara rúm fyrir lítil börn. Hann er sko ekkert lítið barn lengur.

Fyrir einhverju síðan fékk ég þá flugu í höfuðið að smíða rúm handa honum. Ég eyddi nokkrum kvöldum á veraldarvefnum og fann loks teikningu af fínu rúmi og fjárfesti í leiðbeiningunum. Síðan lá leiðin í timburverslun og efnið keypt. Frá því þetta var er liðinn nokkur tími. Hmm, ég myndi ekki mæla hann í dögum og ekki heldur vikum. Ætli
séu ekki einhverjir mánuðir síðan verkið hófst.

En nýlega fór allt í einu að komast skriður á málin. Höfum við Rúnar Atli eytt góðum hluta kvölda í þessum mánuði í bílskúrnum að dunda okkur við þetta. Hann var nú ekki alltof sáttur þegar einhver hávaðastarfsemi var í gangi. Þá vildi hann frekar leika sér í dótinu sínu. En þegar kom að málingarvinnu, þá var hann til í að hjálpa.

Tinna Rut átti það stundum til að kíkja á okkur, en eins og sést þótti henni ekkert sérstaklega spennandi að horfa á okkur.


Jafnskemmtilegt og horfa á málningu þorna, gæti hún verið að hugsa.

En svo fékk hún myndavélina í hendur og það fannst henni gaman. Hér erum við feðgarnir á fullu í málningarvinnunni. Höfum engan tíma til að líta upp.


Syninum fannst málingarvinnu eitthvað það skemmtilegast sem hann hefur gert og náði hann að mála stóran hluta af afskurðinum. Bar hann sig fagmannlega við þetta. Reyndar tókst honum í eitt skipti að sulla slatta af málningu yfir fótinn á sér, en það kvöldið var hann berfættur. Var hann eins og með eldrautt naglalakk í nokkra daga þangað til ég sá aumur á honum og þvoði honum upp úr terpentínu.


Svo skarst auðvitað Tinna Rut í leikinn...

En í dag var svo rúmið endanlega sett saman. Í dag kom nefnilega sérsniðna dýnan í hús og þá var jú gaman. Hér sést Rúnar Atli í nýja fína rúminu.


Já, bílarúm var það, hvorki meira né minna. Ég er ósköp ánægður með útkomuna. Alltaf gaman þegar tekst að gera eitthvað sem vekur ánægju og gleði hjá börnunum.

Sængurfötin eru síðan Leiftur McQueen og Krókur - hvað annað?


Ekki var mikið mál að koma drengnum í rúmið í kvöld. Vonandi sefur hann vel fyrstu nóttina.

9. febrúar 2008

Ég berst á fáki fráum...

Stundum tek ég Rúnar Atla á háhest. Finnst honum það mjög þægilegt, sér í lagi þegar búið er að labba mikið. Móðir hans, hins vegar, er ekki þekkt af því að gefa oft á sér „háhestafæri.“

Í morgun gafst þó Rúnari Atla einstakt tækifæri sem hann greip fegins hendi. Var hann nýkominn úr sturtu og sat mamma hans á rúmstokknum. Stökk hann þá af stað og áður en hendi væri veifað var hann búinn að klifra upp á axlir hennar.

Gobbedí, gobb og hott-hott!

Þau taka sig nú vel út og má vart á milli sjá hvort er ánægðara með sig.


„En, Rúnar Atli, hvernig ferðu niður?“


„Maaammmmaaaa, ertu alveg brjáluð? Pabbi gerir ekki svona!“


En allt er gott sem endar vel og hægt að hlæja að þessu. „Heyrðu, mamma, ekki kremja mig...“

8. febrúar 2008

Flóð

Þar til fyrir rúmri viku hefur ríkt þurrkaástand í Namibíu. Sáralítið hefur rignt, og bændur hafa ekki geta hafið gróðursetningu á mahangu, sem er maístegund er miklu máli skiptir í fæðu hins almenna Namibíumanns. Búpeningur hefur fallið í stórum stíl vegna vatns- og grasskorts.

En svo fór að rigna.

Og það ekkert smá.

Langt er síðan annað eins úrhelli hefur komið á jafnstuttum tíma. Á ferð okkar norður í land sáum við með eigin augum þvílíkt hörmungarástand ríkir. Alls staðar er vatn og er ekki skemmtilegt að reyna að komast gangandi á milli staða.


Ekki bætti úr skák á mikil flóð sem verið hafa í Angóla hafa náð suður fyrir landamærin, svo ekki er einungis um rigningar að ræða, heldur streymir vatn frá Angóla.

Hefur mikið af fólki þurft að yfirgefa húsnæði sitt, sér í lagi í Oshakati. Myndin hér að neðan er af vegi milli húsa. Já, vegi.


Ég hef aldrei séð þvílíkt vatn í Namibíu áður. Ekki eru íbúar norðurhéraðanna öfundsverðir.


Fyrirtæki fara ekki varhluta, en hér er mynd af plani fyrir utan bílapartasölu í Oshakati.


Síðan fylgir mikill harmleikur. Nú deyja skepnur í hrönnum, því þær hreinlega drukkna. Og mannfólkið drukknar líka. Vitað er um 13 manns sem hafa drukknað í flóðunum, allt frá því að lítil börn detta í tjarnir til að menn sem hafa fengið séð aðeins of mikið í staupinu ætla að stytta sér leið.

Síðan er búist við að sjúkdómar brjótist út í kjölfarið. Mikið vatn þýðir gósentíð fyrir moskítóflugur, og þá er viðbúið að malaríutilfelli aukist. Einnig kólera og fleiri sjúkdómar sem berast í vatni.

Alveg ömurlegt ástand.

Gengið gegnt rauðu...

Við Gulla sáum þessa konu í Oshakati í fyrradag, og ég gat ekki annað en myndað hana. Með barnið á bakinu og sittlítið af hverju í körfu á höfðinu arkandi yfir gatnamótin í rólegheitum. Gegnt rauðu ljósi, en hverju skiptir það?

Matarvenjur í Namibíu

Í fyrradag lögðum við Gulla í ferðalag. Ég þurfti að funda á tveimur stöðum norður í landi og bauð ég Gullu með. Við komum svo aftur heim í dag, litlum 1.850 km seinna. Engar venjulegar vegalengdir í Namibíu.

Á miðvikudaginn stoppuðum við í litlum krúttlegum námabæ, Tsumeb að nafni. Ýmislegt skemmtilegt sem fyrir augu ber, eins og þessi litlu lestarvagnar með pálmatrjám. Áreiðanlega hafa vagnar þessir farið margar ferðir inn í koparnámurnar sem þarna eru.


En ég ætlaði nú að ræða matseldina hér í Namibíu. Við stöðvuðum nefnilega í Tsumeb um hádegisbilið og skelltum okkur inn á sérlega huggulegan „bjórgarð“ eins og Namibíumenn nefna litla veitingastaði sem oft eiga þýskar rætur.

Eftir að skoða matseðilinn bið ég um hamborgara. Spyr hvort hann komi með frönskum. „Nei,“ er svar þjónustustúlkunnar. „Er hægt að kaupa franskar aukalega?“ álpast ég til að spurja. „Nei, við bjóðum ekki upp á svoleiðis!“

Ók, hugsa ég, en panta nú borgarann samt og datt í hug að kannski kæmi eitthvað annað með, salat t.d.

Og viti menn, með borgaranum var þetta fína salat...


...ekki verður af Namibíumönnum skafið að þeir vilja kjöt og eru lítið fyrir græna dótið...

Gulla komin í gang!

gulla-gulla.blogspot.com/

3. febrúar 2008

Rúbbí

Við Rúnar Atli skruppum á rúbbíleik í gær. Rúbbítímabilið í Suður-Afríku fer að hefjast og er undirbúningstímabilinu að ljúka. Mættu hingað tvö af betri rúbbíliðum deildarinnar s-afrísku, bláu nautin og gullnu ljónin, og hefur ríkt mikil eftirvænting hér í Windhoek vegna þessa. Við feðgarnir ákváðum að kíkja. Keyptum miða í gærmorgun, svona um 10-leytið. Okkur var sagt að leikurinn hefðist klukkan fimm, upphitunarleikir og skemmtiatriði klukkan tvö og byrjað að hleypa inn klukkan tólf á hádegi.

Við tókum þessu nú bara með ró og mættum svona korteri fyrir leik. Allt var stútfullt útúr dyrum og greinilega var þetta svona tveimur tímum of seint til að fá þokkaleg sæti. Við settumst niður fyrir aftan aðra endalínuna og sátum þar á jörðinni. Sáum mjög vel þegar eitthvað var í gangi nálægt okkar enda, en ekki nokkurn skapaðan hlut þegar leikurinn var á hinum vallarhelmingnum.


Nokkuð þótti Rúnari Atla koma til vélhjólasýningar sem var nokkrum mínútum fyrir leik. Þar voru mættir meðlimir allra vélhjólaklúbba bæjarins og þöndu vélar sínar til hins ýtrasta.


Við skemmtum okkur vel þrátt fyrir að vera ekki í ákjósanlegum sætum. Borðum nestið okkar og æstum okkur þegar skorað var og eins þegar slagsmál hófust milli leikmanna.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...