En svo fór að rigna.
Og það ekkert smá.
Langt er síðan annað eins úrhelli hefur komið á jafnstuttum tíma. Á ferð okkar norður í land sáum við með eigin augum þvílíkt hörmungarástand ríkir. Alls staðar er vatn og er ekki skemmtilegt að reyna að komast gangandi á milli staða.

Ekki bætti úr skák á mikil flóð sem verið hafa í Angóla hafa náð suður fyrir landamærin, svo ekki er einungis um rigningar að ræða, heldur streymir vatn frá Angóla.
Hefur mikið af fólki þurft að yfirgefa húsnæði sitt, sér í lagi í Oshakati. Myndin hér að neðan er af vegi milli húsa. Já, vegi.

Ég hef aldrei séð þvílíkt vatn í Namibíu áður. Ekki eru íbúar norðurhéraðanna öfundsverðir.

Fyrirtæki fara ekki varhluta, en hér er mynd af plani fyrir utan bílapartasölu í Oshakati.

Síðan fylgir mikill harmleikur. Nú deyja skepnur í hrönnum, því þær hreinlega drukkna. Og mannfólkið drukknar líka. Vitað er um 13 manns sem hafa drukknað í flóðunum, allt frá því að lítil börn detta í tjarnir til að menn sem hafa fengið séð aðeins of mikið í staupinu ætla að stytta sér leið.
Síðan er búist við að sjúkdómar brjótist út í kjölfarið. Mikið vatn þýðir gósentíð fyrir moskítóflugur, og þá er viðbúið að malaríutilfelli aukist. Einnig kólera og fleiri sjúkdómar sem berast í vatni.
Alveg ömurlegt ástand.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli