31. ágúst 2007

Margt ber að varast

Nokkuð þurrkaástand ríkir hér í Namibíu núna, en lítið rigndi á síðasta regntímabili og hefur það leitt af sér að mörg vatnsból eru tóm. Ein afleiðing af þessu er að dýr eru meira á ferli að leita sér að drykkjarvatni.

Hefur nú ráðuneyti umhverfis- og ferðamála gefið út fílaviðvörun. Fílar drekka mikið vatn, þurfa svona 120-180 lítra á dag, og nú eru þeir mikið á ferðinni. Því hefur fólki í Kaprívísýslu, sér í lagi, verið ráðlagt að halda sig innan dyra eftir að fer að skyggja.

Áætlað er að í Namibíu séu milli 23 og 25 þúsund fílar, en 2004 voru um 16 þúsund fílar í landinu, þ.a. aukningin er mikil. Því hefur fjölgað mikið tilvikum þar sem fílar ráðast á fólk. Fyrir um tveimur vikum tróðst fíll yfir konu nokkra og lést hún í kjölfarið. Konugreyið var víst á leið heim úr kirkju ásamt manni sínum og átti sér einskis ills von.

Maður einn var á leið hjólandi til vinnu snemma morguns þegar hann rakst á fíl, sem reiddist svo að hann kastaði manninum til hliðar. Afleiðingarnar voru heilahristingur, en lífi hélt þó maðurinn.

Fleiri svona sögur heyrast. Síðan er daglegt brauð að fílar skemmi hús, girðingar, vatnsdælur og fleira þar fram eftir götunum.

Í næstu viku mun ráðherra umhverfis- og ferðamála senda frá sér tilkynningu vegna fílavandans.

Leyfi ykkur að fylgjast með.

Styttist í jól?

Rúnar Atli fékk í jólagjöf í fyrra mynddisk sem heitir Jólasveinarnir - syngja og dansa. Ég hef nú ekkert verið voðalega hrifinn af þessum diski, finnst hann frekar illa unninn og svo er dauðasyndin að í einu laginu skuli vera sungið margoft: „Mig hlakkar svo til.”

Mig hvað?

Ég hlakka til!

Nú vildi svo til um daginn að Rúnar Atli rekst á þennan disk og tekst að plata einhvern til að setja hann í spilarann. Nema hvað, vinsældir þessa disks urðu um leið gríðarlegar, ekki minni en Simpson's eða Bjarnabóls.

Nú heyrir maður í sífellu Adam átti syni sjö, jólahókípókí, gekk ég yfir sjó og land og þar fram eftir götunum.

Síðan þegar verið er að keyra í bílnum og eitthvað lag kemur í útvarpinu sem mér dettur í hug að raula með, þá heyrist án undantekninga úr aftursætinu: „...hann sáði, hann sáði...”

Eini ljósi punkturinn er að drengurinn mun þekkja íslensku jólalögin mörg hver þegar við komum til Íslands um næstu jól.

En stundum er of mikið af því góða...

30. ágúst 2007

Hversu mikils virði er farsíminn?

Fyrir átta dögum þá tók ungur maður sig til hér í Windhoek og hrifsaði farsíma af 16 ára stúlku og hljóp á braut. Sá líklega fyrir sér auðveldan ránsfeng. Þvílík mistök. Töluverður hópur fólks var þarna á ferli og tók fjöldi þeirra sig til og hófu að elta þjófinn uppi. Eltingarleikurinn barst meira en kílómetra í burtu og þegar þjófurinn kom að stóru uppistöðulóni grýtti hann símanum frá sér, reif sig úr bolnum og stakk sér til sunds.

Sást hvorki tangur né tetur til hans, þó lengi væri beðið.

Nú, átta dögum síðar, kom í ljós að þjófurinn var ekki syndur. Lík hans rak nefnilega að landi í gær, nær alveg á sama stað og hann steypti sér út í lónið.

Hversu mikils virði er farsíminn?

29. ágúst 2007

ÞRIGGJA ára!!

Þá kom loksins að því! Höfuðdagur rann upp, sólbjartur og fínn. Og Rúnar Atli þar með orðinn þriggja ára.

Þegar hann var sóttur af leikskólanum í gær fylgdi sú beiðni frá kennurunum að eitthvert góðgæti kæmi með honum í dag til hátíðarbrigða.

Rúnar Atli vildi „brúna köku“ svo pabbinn bakaði súkkulaðitertu bæjarstjórans úr gömlum Gestgjafa. Tertan vakti mikla lukku á leikskólanum og ekki var einn mylsnubiti eftir handa bakaranum...

En það var þónokkuð gert úr deginum á leikskólanum. Rúnar Atli fékk fína kórónu sem hann tók ekki af sér allan daginn. Síðan fékk hann bók frá leikskólakrökkunum. Í bókinni eru málingarför lófa allra krakkana á leikskólanum. Mjög skemmtileg hugmynd.

Hér sést afmælisbarnið með kórónuna góðu og lófabókina.


Síðan í hádeginu voru opnaðir pakkar frá systrum hans Rúnars Atla. Eins og sést var einbeitingin mikil. Það minnkar ekki spenningurinn þótt bætist við pakkana.



Hér sést bílaflutningabíllinn sem Dagmar Ýr gaf honum,


og síðan Benz pallbíllinn frá Tinnu Rut.


Að lokum var Tinnu Rut rekinn rembingskoss fyrir pakkann sinn, en kossinn til Dagmarar Ýrar bíður betri tíma.

27. ágúst 2007

Meiri framtakssemi

Honum Rúnari Atla þótti orðið fullmikið af skítugu leirtaui og tók til sinna ráða...

Litlu börnin

Eins og ég hef sagt frá þá var ég í fundarferð norður í landi fyrir u.þ.b. 10 dögum. Þar voru eftirfarandi tvær myndir teknar. Fékk ég að halda á einu litlu kríli af Ovazemba ættbálkinum, en heilmikið var þarna af ungabörnum frá svona tveggja til sex mánaða.


26. ágúst 2007

Framtakssamur gutti

Dagurinn byrjaði rólega í morgun. Feðgarnir bara tveir einir heima. Þó var vaknað til að fylgjast með ferðalagi Gullu. Sms tæknin notuð til þess.

Að loknum vöfflubakstri og -áti héldum við tveir í rólegheitum niður í bílskúr. Smátt og smátt er nefnilega verið að hefja smíðar hér í Namibíunni. Í gær var fjárfest í hillum til að hafa í bílskúrnum og vorum við langt fram eftir morgni að skrúfa saman rær og bolta.

Eins og sést var mikil hjálp af syninum, en honum þótti samsetningin skemmtileg, en nokkuð strembin.

25. ágúst 2007

Afmælisveisla

Í dag héldum við upp á afmælið hans Rúnars Atla. Jú, nokkrum dögum fyrir tímann, en þar sem Gulla verður á Íslandi á sjálfan afmælisdaginn var ákveðið að taka forskot á sæluna.

Bakaðar voru tvær tertur og eins og sjá má náði Rúnar Atli að slökkva á öllum þremur kertunum í fyrstu tilraun.


En aðalstuðið var þó að opna stóra pakkann, og mikil var einbeitingin...


Pappírtætlur flugu í allar áttir, svo við hin áttum fótum fjör að launa


Fljótlega kom í ljós að í pakkanum var þríhjól, og minnkaði ákafinn ekki við það.


Hins vegar gekk erfiðlega að ná öllum pappírnum af, þrátt fyrir hetjulega baráttu.


Að lokum tókst þó að ná hjólinu út og fyrsta verk var að ná í Lubba svo hann gæti komið með í jómfrúarferðina.


Hér er ánægður gutti, og hundurinn hans, að tæta upp flísarnar á veröndinni.


Smáerfiðleikum var bundið að samræma fótahreyfingarnar til að fá þríhjólið til að fara í rétta átt, en það horfir allt til betri vegar.

24. ágúst 2007

Sitt lítið af hverju

Úff, það er svo langt síðan ég skrifaði dagbókarfærslu síðast að ég var næstum því búinn að gleyma lykilorðinu til að komast inn að skrifa.

En bara næstum því.

Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð strembnar. Ég tók upp á því í annarri viku ágústmánaðar að veikjast. Fékk hita og beinverki og leiðindahósta. Þetta kom ekki á góðum tíma, akkúrat í viku sem ég átti þrjá kvöldverði skipulagða í vinnunni, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Ég hékk því í vinnunni eitthvað fram yfir hádegi, fór síðan heim í bælið og skalf í 2-3 tíma og síðan út að borða. Ég skal alveg viðurkenna að hafa oft verið duglegri að skófla í mig mat á veitingahúsum. Síðan í vikunni á eftir var heljarinnar reisa skipulögð norður í land, heimsækja verkefni og halda fundi með hinum og þessum. Síðan átti að nýta ferðina til smátúristaferðar og leyfa Dagmar Ýr og Þórdísi vinkonu hennar að sjá aðrar hliðar á Namibíu en sjást í Windhoek. Ferðin gekk alveg þokkalega, en heilsan var ekki alveg upp á það besta. Lá í hóstaköstum fram eftir nóttum, en var þó þokkalegur að deginum til. Ekki veit ég hvað margir kílómetrar lágu að baki þegar ferðinni lauk, en við höfum líklega verið kominn vel á annan hring á hringvegi okkar Íslendinga. Vegirnir voru nú frekar misjafnir og fylgir hér mynd af einum vegi sem við þurftum að fara, ef veg skyldi kalla.


Við fórum í Etoshaþjóðgarðinn á bakaleiðinni. Tók okkur sex og hálfan tíma að komast í gegnum hann, en við sáum líka mikið af dýrum í ferðinni. Fíla og gíraffa og milljón sebrahesta og allskonar antílópur. Við sjáum líka nokkur ljón við tvö vatnsból, en þau hef ég aldrei séð áður í þvílíku návígi. Hér fylgja myndir af gíraffa og fílum.

Mér fannst þetta sjónarhorn af fílunum nokkuð skemmtilegt. Hálfgerður perraháttur kannski að taka myndir af afturendunum þeirra. En ég get fullvissað ykkur um að ég á helling af myndum af framendunum líka...

Gíraffinn þessi leit með þessum líka ótrúlega yfirlætissvip á okkur. Eins og honum finndist algjör óþarfi að við værum að trufla hann í matmálstímanum. Hann hafði sjálfsagt rétt fyrir sér.


Svo er Dagmar Ýr kominn heim til Fróns eftir að eyða sumrinu hér í Namibíu. Hún stóð sig alveg ágætlega í fjarnáminu, en hún lauk fjórum námskeiðum í sumar. Nú er hún byrjuð í Fjölbraut í Ármúla, en ég hef nú ekki heyrt hvernig henni líkar. En um jólin útskrifast hún sem stúdent, gaman, gaman.

Hér er ein mynd af henni þar sem himbakona nokkur er að leyfa henni að fá smáprufu af kreminu sem þær himbakonur bera á sig. Það er ótrúlega sterkur litur í þessu kremi. Ég hugsa að ef Dagmar bæri svona á sig alla, þá væri enginn litamunur á henni og himbakonunum, þrátt fyrir að þær séu bikasvartar undir kreminu en Dagmar hvít.


En ferðalagið gekk almennt séð vel, þrátt fyrir hóstaköst. Þær Dagmar og Þórdís virtust ánægðar og sáu margt sem kom þeim spánskt fyrir sjónir.

Síðan á morgun fer hún Gulla heim til að flytja af Stillholtinu í Æsufellið. Stendur til að hafa forafmælisveislu á morgun fyrir Rúnar Atla og er ég núna að baka tvær tertur. Gulla verður heima í um þrjár vikur, en eftir viku fáum við lyklana að Æsufellinu. Þykist ég nokkuð viss um að Gullu þætti ekki verra að fá nokkra sjálfboðaliða til að hjálpa sér með flutningana.

Ég læt þetta duga í bili. Heilsan er öll orðin skárri, síðasta nótt var sú fyrsta í langan tíma sem ég vakna ekki upp í hóstakasti.

Batnandi manni er best að lifa...

13. ágúst 2007

Hún berst á fáki fráum...

Loksins, loksins var látið verða af því að kaupa bíl í Namibíu.

Á miðvikudaginn í síðustu viku, 8. ágúst, eignaðist hún Gulla kolsvartan Daihatsu Sirion Sport 1,3.

Hér sést stoltur bílaeigandi ásamt honum Blakki sínum:

2. ágúst 2007

Breiðhyltingar!!

Þá er búið að landa húseign!

Æsufell 4, 111 Reykjavík

Hér sést dýrðin, ja, þar til fasteignasalinn tekur hana í burtu af síðunni sinni.

Sendum inn tilboð í dag og því var tekið eins og skot. Allir bara himinlifandi að þetta vesen sé að verða yfirstaðið.

Afhending verður eftir u.þ.b. mánuð, svo nú fer hún Gulla að skreppa til Íslands til að gera þetta skemmtilega - pakka og svoleiðis.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...