22. ágúst 2009

Forskot á sæluna

Eftir rétta viku rennur upp stór dagur. Þá verður Rúnar Atli fimm ára. Merkisdagur verður það. En um síðustu helgi var tekið forskot á sæluna. Þar sem bæði Doddi og Dagmar Ýr fóru aftur til sinna heima áður en afmælisdagurinn skall á, var ákveðið að halda litla afmælisveislu fyrir þau. Ég skellti í eina súkkulaðitertu og Gulla útbjó tartalettur og meira gúmmelaði.

Auðvitað fékk drengurinn pakka frá systur sinni og frænda. Mikil var gleðin þegar legókubbar komu í ljós og síðan græjur eins og Benni tíundi (Ben 10) notar óspart í teiknimyndum í sjónvarpinu. Gaman að því hversu fölskvalaus gleðin er á þessum aldri: „Vá, vá, vá, vá,“ heyrðist frá drengnum trekk í trekk.
Síðan verður jú veisla á laugardaginn kemur - á sjálfan afmælisdaginn. Svo verður ábyggilega þriðja veislan helgina þar á eftir. Leikskólinn er nefnilega í frí næstu viku og ákváðum við því að reyna ekki að bjóða vinum hans þaðan fyrr en eftir að skólinn byrjar á nýjan leik.

Þrjár veislur - ekki slæmt.

21. ágúst 2009

Ferðin til Simbabve: 2. hluti

Annar dagur var tekinn snemma. Átti að sækja þrjú okkar fyrir klukkan sjö. Ég, Doddi og Dagmar Ýr ætluðum á kanó. Báðum við um að morgunmatur væri tilbúinn snemma og var það auðsótt. Til að komast á byrjunarreit kanóferðarinnar þurfti að hristast tvo tíma í bíl í þjóðgarði sem liggur meðfram Sambesi-ánni. En við vorum ekki komin út úr bænum þegar við ókum fram á stærðarinnar hjörð af buffölum. Man ég ekki eftir að hafa séð buffala áður, en þarna voru þeir í tugatali. Bara í rólegheitum rétt innan bæjarmarka að tyggja gras.

Að öðru leyti var bíltúrinn tíðindalítill. Þegar við komum í áfangastað þá voru dregnar fram veitingar, rúnnstykki og einhverjir drykkir. Gátum við þá aðeins spjallað við leiðsögumanninn og bílstjórann. Þeim fannst að ferðamennskan væri aðeins farin að taka við sér á nýjan leik, en þó væri enn langt í land miðað við áður fyrr. Ég spurði þá út í gjaldmiðilsbreytinguna og sögðu þeir að innistæður allra væru frystar í bönkunum. Enginn gæti tekið út neitt og enginn vissi hversu mikið fengist fyrir innistæðurnar þegar opnað yrði fyrir bankaviðskipti á nýjan leik. En að spjalli loknu tók alvaran við.

Frekar var kalt svona snemma morguns, eins og bersýnilegt er. Náttúrufegurðin var þó mikil, eins og annars staðar nálægt Viktoríufossum.

Hér er Dagmar Ýr svo til í allt.
Ég og Dagmar Ýr vorum saman í báti og Doddi var með bandaríkjamanni nokkrum. Síðan var leiðsögumaðurinn einn á báti. Ég var stýrimaður og sat því fyrir aftan dóttur mína. Það var ágætt, því hún sá þá ekkert þegar ég nennti ekki að róa...

„Pabbi, ert'ekk'a'róa?“

Doddi og Kaninn

Túrinn var mjög skemmtilegur. Við sáum nokkra litla krókódíla og heilmikið af flóðhestum. Sumir þeirra voru meira að segja uppi á bökkum að éta, þ.a. við sáum meira en bara nasir og augu standa uppúr vatninu. En ótrúlega eru þessi stóru, og að virðist klunnalegu, dýr snögg í hreyfingum. Eitt skiptið laumuðumst við að þar sem fjórir flóðhestar voru á eyju einni. Eitthvað vorum við komin of nálægt, að þeirra mati, því einn rumdi og á augabragði ruku þeir allir ofan í ána. Eldsnöggir. Svo sáum við nokkra fíla á árbökkunum.

Ferðin var nokkuð þægileg. Fórum þó í gegnum tvennar sæmilega straumharðar flúðir. „Annars stigs flúðir,“ sagði leiðsögumaðurinn. Á skalanum einn til fimm. Fyrir þá sem vilja, þá er hægt að fara í „alvöru“ flúðasiglingar þarna, en við gerðum það ekki að þessu sinni. Enginn tími til þess. Bara næst.

Svo lenti ég í því óhappi að missa myndavélina hennar Tinnu, sem ég hafði fengið lánaða hjá Dagmar Ýr, ofan í kanóinn. Hefði verið í lagi, nema fyrir ökkladjúpt vatn. Var ég þó eldsnöggur að veiða vélina upp og virðist hún vera í lagi. Sem betur fer.

Við komum aftur á gistiheimilið um hálftvö. Frekar þreytt og dösuð, en ánægð.

Ekki var nú slakað mikið á. Rúmlega þrjú vorum við sótt og farið með okkur á búgarð nokkra km fyrir utan bæinn. Búgarður þessi er litlar 6.000 ekrur, sem er víst langleiðina í 2.500 hektara. Ýmis dýr búa þarna og þar á meðal 16 afrískir fílar sem búið er að þjálfa sem reiðfíla. Við fórum sem sagt á fílabak.

Ekki vorum við ein um hituna, heldur voru þarna ábyggilega hátt í 20 manns að okkur meðtöldum. Eftir að klappa fílunum og hlusta á leiðbeiningar var farið á bak. Tveir á hverjum fíl að viðbættum stýrimanni. Gulla og Rúnar Atli fóru saman og ég og Dagmar Ýr. Þurfti að ganga upp stiga áþekkum flugvélastiga til að komast á bak. Fílar eru heldur engin smásmíði. Síðan sest maður klofvega á fílinn í einhvers konar stól sem útbúinn hefur verið í þessum tilgangi. Síðan var lagt af stað - „einn fíll lagð'af stað í leiðangur, lipur var hans fótgangur, takturinn fannst honum heldur tómlegur, svo hann tók sér einn til viðbótar.“ - sönglaði í kollinum á mér.

Rúnar Atli og Gulla á leið upp landgöngustigann

Mæðginin komin á bak

„Mamma, fer þetta ekki að verða búið?“

Feðginin, sitjandi á Miss Ellie

Við vorum á rölti þarna í u.þ.b. klukkutíma. Ekki var farið hratt yfir, rétt gönguhraði. Athygli okkar vakti að einn maðurinn í fylgdarliðinu var með riffil. Spurði ég stýrimanninn okkar hverju þetta sætti. Jú, eitthvað er af buffölum á búgarðinum og þeim og fílum kemur víst frekar illa saman. Ef buffalar sjást þá er skotið upp í loftið til að hræða þá í burtu.

Hmm.

Hvernig skyldu fílar bregðast við riffilskoti?

Sem betur fer reyndi ekki á það.

Ég verð nú að viðurkenna að þetta var ekki með skemmtilegustu klukkutímum lífs míns. Tíu mínútur hefðu verið alveg nóg fyrir mig. Reyndar voru stuttir lærvöðvar mínir að angra mig því fílar, verður að segjast, eru frekar sverar skepnur. Ég er alls óvanur að sitja jafnútglenntur og nauðsynlegt er til að haldast á fíl. Reyndi ferðin því mikið á mína stuttu lærvöðva. Þegar túrnum lauk átti ég síðan í mestu erfiðleikum með gang. Hlæ að því núna, en mér var ekki hlátur í hug fyrsta kortérið eftir að ég komst aftur niður á jörðina.

En, ég hef farið á fílsbak, sem er fyrir mestu.

Síðan gáfum við fílunum að borða og síðan fengum við eitthvað smávegis í gogginn áður en farið var með okkur í kvikmyndasal nokkurn. Þar var okkur sýnd stuttmynd af ferð okkar, en hana var hægt að kaupa fyrir þrjátíu bandaríkjadali. Auðvitað gerðum við það. Hvað annað?

„Gjörðu svo vel“

Þegar við komum aftur á gistiheimilið var ég gjörsamlega magnþrota. Nennti engan veginn út að borða, svo við fengum okkur bara samlokur á gistiheimilinu. Sofnaði ég snemma og var þannig um fleiri.

20. ágúst 2009

Sá á kvölina sem á völina

Í gær fékk Tinna Rut bréf í póstinum. Var það frá Dalhousie háskólanum í Halifax, sem er á austurströnd Kanada. Í bréfinu var henni tilkynnt að hún fengi inngöngu í skólann frá og með janúar á næsta ári.

Við feðginin settumst því niður í gærkvöldi og skoðuðum námið sem hún hefur áhuga á og fleiri þætti í skólastarfinu. Er skemmst frá að segja að nú er dóttir mín á báðum áttum. Upphaflega langaði hana mest í háskólann í norður bresku Kólumbíu, sem hún fékk líka inngöngu í.

En, Dalhousie er líka spennandi. T.d. býður deildin sem hún færi í upp á þann möguleika að eyða einu sumri við háskóla á Kúbu. Er það hluti af náminu. Annar möguleiki er að fara til Afríku í nokkra mánuði, t.d. Senegal eða Rúanda.

Þ.a. nú stefnir í erfiða ákvörðun.

18. ágúst 2009

Ferðin til Simbabve: 1. hluti

Þá er loksins tími til að segja aðeins frá ævintýraferðinni til Simbabve. Nóttina áður gistum við í Namibíu eins norð-austurlega og hægt er. Þaðan eru ekki nema um 70 km til landamæra Namibíu og Botsvana. Frá þeim landamærum ókum við í gegnum smáhluta af Botsvana, líklega 80 km eða svo. Þá komum við að landamærum Botsvana við Simbabve. Frá landamærunum eru um 70 km til bæjarins sem heitir eftir Viktoríufossum, og var heimili okkar næstu þrjár nætur.

Ekki er hægt að segja annað en að ferðalagið þennan daginn hafi gengið vel. Ekki þó laust við að skriffinnskan væri fullmikil. Ætli hafi ekki tekið okkur vel á sjötta tíma að komast milli gististaða. Síðan lentum við í smáævintýri, enda hvað er ferðalag án þess?

Þannig var að í Botsvana voru engar merkingar hvar landamærastöðvarnar væru. Við komum þó að stað þar sem var endalaus röð af flutningabílum, 37 stykki taldist Gullu til. Við ókum framhjá þeim og komum að landamæraskrifstofunni. Förum þar inn og skriffinnskan byrjar. Þarna þurfti að fylla út brottfararblöð út úr Botsvana og síðan þurfti tímabundið útflutningsleyfi fyrir bílinn. Loksins kláraðist þetta svo við skriðum af stað í áttina til landamæranna. Þarna komu einhverjir gaurar hlaupandi, æstir í að hjálpa okkur hinumegin við landamærin. Við sjáum að þarna þurfum við að fara með lítilli ferju yfir Sambesi-á. Mér leist ekki alveg á það, gat ekki munað eftir að hafa lesið um ferju. Fer síðan að tala við mann, sem virðist vinna við ferjuna og hann fer að tala um hvað við verðum að gera Sambíumegin við ána.

Sambíumegin?

Haldiði að við höfum ekki verið á rangri landamærastöð!

Við þurftum því að snúa við og fara aftur inn á landamærastöðina. Stutt ferðalag úr landinu það... En sem betur fer voru botsvanskir landamæraverðir mjög skilningsríkir. „Aktu 500 metra til baka og beygðu til vinstri, þá kemurðu að réttum stað,“ var mér sagt. Og mikið rétt, hægt var að beygja til vinstri, engin skilti, og þar kom í ljós önnur landamærastöð. Aftur þurfti að fylla út brottfararspjöldin, en tollvörðurinn var til í að nota sama skammtímaútflutningsvottorðið fyrir bílinn.

Þá var bara ein landamærastöð eftir. Simbabve. Ekki var laust við smáhjartaslátt: skyldu allir pappírar vera í lagi?

Jú, jú, allir pappírar voru í lagi, en þarna var mikið peningaplokk. Dagmar Ýr var sú eina sem var ekki komin með vegabréfsáritun áður en við lögðum af stað, og fyrir hana þurfti að borga. Síðan þurfti innflutningsleyfi fyrir bílinn. Fyrir það þurfti að borga. Síðan var mengunarskatturinn. Hann þurfti að borga. Ekki má gleyma bílaleigubílagjaldinu. Það kostar að koma á erlendum bílaleigubíl. Og það þurfti að borga. Að lokum þurfti að kaupa skammtímakaskótryggingu þar sem bíllinn var útlendur. Fyrir hana þurfti að borga.

Já, það voru ekki fáir bandaríkjadalirnir sem skiptu um eigendur þarna.

Næsta skref var að tala við hliðvörðinn.

Sá skoðaði alla pappíra í bak og fyrir og tók í sína vörslu smápappírsstubba sem hann bar ábyrgð á. Svo sagði hann allt í einu: „Hún var að taka mynd af mér - ætlið þið ekki að borga mér fyrir?“ Við komum alveg af fjöllum - Gulla kannaðist ekkert við að hafa tekið myndir og ekki Dagmar Ýr heldur. Komumst við seinna að þeirri niðurstöðu að konan væri Doddi! Enda lengi þótt kvenlegur í vexti og töktum, ha-ha. Hann hafði tekið einhverjar myndir fyrir utan landamæraskrifstofuna og líklega tók hliðvörðurinn eftir því og álitið okkur álitleg fórnarlömb. Við þóttumst bara ekkert vita hvað maðurinn var að tala um og sögðumst aldrei taka myndir af fólk án leyfis. Hann hleypti okkur síðan í gegn með semingi.

Og við þar með komin til Simbabve.

Hér er skiltið sem bauð okkur velkomin. Greinilega komið aðeins til ára sinna.Ókum við svo af stað. Ekki vorum við komin nema einn, tvo kílómetra þegar við rákumst á fyrstu simbabvísku íbúana. Þrír fílar. Sem betur fer rákumst við ekki á þá í bókstaflegri merkingu. Hér er mynd af einum þeirra:


En þetta var eiginlega eina lífsmarkið sem við sáum þar til við komum til bæjarins. Ekkert fólk og engin skilti - ég veit ekki ennþá hver hámarkshraðinn í Simbabve á þjóðvegunum er.

Svo komum við til bæjarins og fundum gistiheimilið án vandræða. Mikið var gott að fá gin og tónik, skal ég segja ykkur. Gistiheimilið, Amadeus Garden Guesthouse, leit virkilega vel út. Við fengum hlýjar móttökur. Reyndar var allsstaðar tekið vel á móti okkur og greinilegt að Simbabvebúar kunna að meta ferðamenn. Katrín hét gestgjafinn okkar og vildi allt fyrir okkur gera. Við settumst niður með henni til að skoða hvað við gætum gert okkur til dundurs þessa þrjá daga. Sáum við fljótt að þrír dagar er alveg í það minnsta, enda margt hægt að gera. En þarna var útbúið prógramm fyrir dagana og sá Katrín síðan um að panta allt. Stóðst allt eins og stafur á bók.

Um kvöldið fórum við á veitingastað sem nefnist Boma. Þvílíkur staður. Ég er ekki viss um að hafa nokkurn tímann komið á veitingastað þar sem jafnmikið var í gangi. Ætli hafi ekki verið á sjötta tug gesta og sá ég ekki annað en allir hefðu skemmt sér þrælvel.

Þarna svignuðu borð undan mat. Vörtusvínarif voru æðislega góð. Sjást hér yfir hægum eldi.


Rúnar Atli hámaði í sig reyktan krókódíl og við Dagmar Ýr fengum okkur mopane-orma og hlutum viðurkenningar fyrir. Hér sést Dagmar Ýr taka við sinni viðurkenningu.


Öll fengum við andlitsmálningu og Dagmar Ýr lét gera nokkrar fléttur í hárið. Allir gestir fengu trommu í hendur og var frábær skemmtanastjóri sem tók okkur á stutt trommunámskeið.

Hér sést hluti af trumbusveitinni...

...og hér er Gulla í „full swing“


Þvílík stemming.

Það var varla að maður hefði tíma til að borða. Svo var sönghópur og síðan voru gestir dregnir út á dansgólfið.

Líklega tók kvöldmaturinn um þrjá klukkutíma og þetta var sannarlega peninganna virði.

Þeir lesendur sem eiga eftir að fara til Viktoríufossa: Ekki sleppa því að fara á Boma veitingahúsið. Alls ekki.

15. ágúst 2009

Tölvuvandræði

Hef átt í vandræðum með tölvuna mína undanfarna viku. Sá allt í einu að myndunum mínum fór hraðfækkandi á tölvunni. A.m.k. skv. forritinu sem heldur utan um myndirnar mínar. Þær voru ekki orðnar nema 4.000, en eiga að vera nær 14.000. Svo voru þær komnar niður í tvö þúsund, síðan níuhundruð og svo bara ekki ein einasta mynd. Ég viðurkenni að hafa fengið nett sjokk við þetta. En eftir að hafa blásið nokkrum sinnum í bréfpoka þá fór ég að leita á tölvunni og fann allar myndirnar. Sem betur fer.

Síðan fóru ýmsir furðulegir hlutir að gerast, þ.a. ég fór að leita aðstoðar mér reyndari tölvugúrúa. Þeir voru nú ekki alltof bjartsýnir, enda tölvan frá árinu 2002. Var sett saman í Quanta verksmiðjunni í Tævan í þrettándu viku þess árs. Hún er því orðin rúmlega sjö ára gömul.

En falleg er hún...


Ég fékk leiðbeiningar og fór að dunda mér í björgunaraðgerðum. Þurfti að „strauja“ tölvuna, þ.e. þurrka allt útaf henni og byrja alveg frá grunni. Þetta hefur tekið nokkrar kvöldstundir, og enn er eitthvað eftir. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ekkert bólar á þeim vandræðum sem voru að hrjá mig. Líklega er tölvan því í góðu lagi og vesenið tengt einhverjum forritsstubbi sem hefur sýkst.

Útaf þessu hefur verið bið á Viktoríufossaferðasögunni, en nú styttist í hana.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...