18. ágúst 2009

Ferðin til Simbabve: 1. hluti

Þá er loksins tími til að segja aðeins frá ævintýraferðinni til Simbabve. Nóttina áður gistum við í Namibíu eins norð-austurlega og hægt er. Þaðan eru ekki nema um 70 km til landamæra Namibíu og Botsvana. Frá þeim landamærum ókum við í gegnum smáhluta af Botsvana, líklega 80 km eða svo. Þá komum við að landamærum Botsvana við Simbabve. Frá landamærunum eru um 70 km til bæjarins sem heitir eftir Viktoríufossum, og var heimili okkar næstu þrjár nætur.

Ekki er hægt að segja annað en að ferðalagið þennan daginn hafi gengið vel. Ekki þó laust við að skriffinnskan væri fullmikil. Ætli hafi ekki tekið okkur vel á sjötta tíma að komast milli gististaða. Síðan lentum við í smáævintýri, enda hvað er ferðalag án þess?

Þannig var að í Botsvana voru engar merkingar hvar landamærastöðvarnar væru. Við komum þó að stað þar sem var endalaus röð af flutningabílum, 37 stykki taldist Gullu til. Við ókum framhjá þeim og komum að landamæraskrifstofunni. Förum þar inn og skriffinnskan byrjar. Þarna þurfti að fylla út brottfararblöð út úr Botsvana og síðan þurfti tímabundið útflutningsleyfi fyrir bílinn. Loksins kláraðist þetta svo við skriðum af stað í áttina til landamæranna. Þarna komu einhverjir gaurar hlaupandi, æstir í að hjálpa okkur hinumegin við landamærin. Við sjáum að þarna þurfum við að fara með lítilli ferju yfir Sambesi-á. Mér leist ekki alveg á það, gat ekki munað eftir að hafa lesið um ferju. Fer síðan að tala við mann, sem virðist vinna við ferjuna og hann fer að tala um hvað við verðum að gera Sambíumegin við ána.

Sambíumegin?

Haldiði að við höfum ekki verið á rangri landamærastöð!

Við þurftum því að snúa við og fara aftur inn á landamærastöðina. Stutt ferðalag úr landinu það... En sem betur fer voru botsvanskir landamæraverðir mjög skilningsríkir. „Aktu 500 metra til baka og beygðu til vinstri, þá kemurðu að réttum stað,“ var mér sagt. Og mikið rétt, hægt var að beygja til vinstri, engin skilti, og þar kom í ljós önnur landamærastöð. Aftur þurfti að fylla út brottfararspjöldin, en tollvörðurinn var til í að nota sama skammtímaútflutningsvottorðið fyrir bílinn.

Þá var bara ein landamærastöð eftir. Simbabve. Ekki var laust við smáhjartaslátt: skyldu allir pappírar vera í lagi?

Jú, jú, allir pappírar voru í lagi, en þarna var mikið peningaplokk. Dagmar Ýr var sú eina sem var ekki komin með vegabréfsáritun áður en við lögðum af stað, og fyrir hana þurfti að borga. Síðan þurfti innflutningsleyfi fyrir bílinn. Fyrir það þurfti að borga. Síðan var mengunarskatturinn. Hann þurfti að borga. Ekki má gleyma bílaleigubílagjaldinu. Það kostar að koma á erlendum bílaleigubíl. Og það þurfti að borga. Að lokum þurfti að kaupa skammtímakaskótryggingu þar sem bíllinn var útlendur. Fyrir hana þurfti að borga.

Já, það voru ekki fáir bandaríkjadalirnir sem skiptu um eigendur þarna.

Næsta skref var að tala við hliðvörðinn.

Sá skoðaði alla pappíra í bak og fyrir og tók í sína vörslu smápappírsstubba sem hann bar ábyrgð á. Svo sagði hann allt í einu: „Hún var að taka mynd af mér - ætlið þið ekki að borga mér fyrir?“ Við komum alveg af fjöllum - Gulla kannaðist ekkert við að hafa tekið myndir og ekki Dagmar Ýr heldur. Komumst við seinna að þeirri niðurstöðu að konan væri Doddi! Enda lengi þótt kvenlegur í vexti og töktum, ha-ha. Hann hafði tekið einhverjar myndir fyrir utan landamæraskrifstofuna og líklega tók hliðvörðurinn eftir því og álitið okkur álitleg fórnarlömb. Við þóttumst bara ekkert vita hvað maðurinn var að tala um og sögðumst aldrei taka myndir af fólk án leyfis. Hann hleypti okkur síðan í gegn með semingi.

Og við þar með komin til Simbabve.

Hér er skiltið sem bauð okkur velkomin. Greinilega komið aðeins til ára sinna.



Ókum við svo af stað. Ekki vorum við komin nema einn, tvo kílómetra þegar við rákumst á fyrstu simbabvísku íbúana. Þrír fílar. Sem betur fer rákumst við ekki á þá í bókstaflegri merkingu. Hér er mynd af einum þeirra:


En þetta var eiginlega eina lífsmarkið sem við sáum þar til við komum til bæjarins. Ekkert fólk og engin skilti - ég veit ekki ennþá hver hámarkshraðinn í Simbabve á þjóðvegunum er.

Svo komum við til bæjarins og fundum gistiheimilið án vandræða. Mikið var gott að fá gin og tónik, skal ég segja ykkur. Gistiheimilið, Amadeus Garden Guesthouse, leit virkilega vel út. Við fengum hlýjar móttökur. Reyndar var allsstaðar tekið vel á móti okkur og greinilegt að Simbabvebúar kunna að meta ferðamenn. Katrín hét gestgjafinn okkar og vildi allt fyrir okkur gera. Við settumst niður með henni til að skoða hvað við gætum gert okkur til dundurs þessa þrjá daga. Sáum við fljótt að þrír dagar er alveg í það minnsta, enda margt hægt að gera. En þarna var útbúið prógramm fyrir dagana og sá Katrín síðan um að panta allt. Stóðst allt eins og stafur á bók.

Um kvöldið fórum við á veitingastað sem nefnist Boma. Þvílíkur staður. Ég er ekki viss um að hafa nokkurn tímann komið á veitingastað þar sem jafnmikið var í gangi. Ætli hafi ekki verið á sjötta tug gesta og sá ég ekki annað en allir hefðu skemmt sér þrælvel.

Þarna svignuðu borð undan mat. Vörtusvínarif voru æðislega góð. Sjást hér yfir hægum eldi.


Rúnar Atli hámaði í sig reyktan krókódíl og við Dagmar Ýr fengum okkur mopane-orma og hlutum viðurkenningar fyrir. Hér sést Dagmar Ýr taka við sinni viðurkenningu.


Öll fengum við andlitsmálningu og Dagmar Ýr lét gera nokkrar fléttur í hárið. Allir gestir fengu trommu í hendur og var frábær skemmtanastjóri sem tók okkur á stutt trommunámskeið.

Hér sést hluti af trumbusveitinni...

...og hér er Gulla í „full swing“


Þvílík stemming.

Það var varla að maður hefði tíma til að borða. Svo var sönghópur og síðan voru gestir dregnir út á dansgólfið.

Líklega tók kvöldmaturinn um þrjá klukkutíma og þetta var sannarlega peninganna virði.

Þeir lesendur sem eiga eftir að fara til Viktoríufossa: Ekki sleppa því að fara á Boma veitingahúsið. Alls ekki.

2 ummæli:

Jóhannan sagði...

hahhaaaa.... skemmtileg ferðasaga ég bíð spennt eftir framhaldinu en fyrst verð ég að spyrja og vænti þess að fá svar Hvaða ógurlegur kjólar eru þær mæðgur í ? og var Doddi hinn kvenlegi líka settur í kjól ?? :)

Nafnlaus sagði...

Hvað þá kvennlegur? Mannlegari maður er ekki til :-)
Doddi

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...