28. september 2011

Smíðavinna

Jæja, kominn af stað í smíðar. Eftir þónokkurt hlé, verður að segjast. Ég hef varla gert nokkuð af viti síðan ég útbjó sjónvarpsskáp fyrir Tinnu Rut hér um árið. En nú þarf að smíða hænsnakofa á næstunni.

Fyrsta skrefið á nýjum stað var að finna út hvar hægt væri að kaupa timbur. Malavískir samstarfsmenn mínir horfðu grunsemdaraugum á mig þegar ég spurði þá. „Hvað vill hann með timbur?“ hugsuðu menn greinilega. Kannski lít ég ekki mjög smiðslega út í mínum daglega vinnufatnaði. Hvað um það, mér var bent á einhverja búð og fór þangað.

„Timbur?“ sagði afgreiðslumaðurinn, og mældi mig með augunum hátt og lágt, „við seljum ekki svoleiðis.“

„...og hvar skyldi vera hægt að kaupa það?“

„Nú, á markaðnum,“ var svarið og bent um leið í suðvestur.

Ég þakkaði fyrir og rölti af stað. Í hverfinu sem ég var, indverska hverfinu sem kallað er, úir og grúir af alls konar smáverslunum. Selja þær allt milli himins og jarðar. Verst að skiltin og búðarheitin eru oft ekki mjög lýsandi um það sem er innan dyra.

Ég fór inn í aðra búð, en af skilti utan við hana mátti ráða að hægt væri að kaupa krossvið þar.

„Timbur?“ hváði afgreiðslumaðurinn. Hann hafði greinilega ekki heyrt neitt jafnfyndið lengi. „Það fæst á markaðinum!“ og benti í svipaða átt og fyrri afgreiðslumaðurinn. Hristi hausinn og sagði eitthvað á arabísku við kollega sinn. Ég var feginn að kunna ekki arabísku.

Ég ákvað að þetta þýddi ekki lengur. Ég yrði bara að finna þennan markað. Ég rölti því af stað í þá átt sem mér vart bent.

Endalausar búðir og sölubásar eru í þessu indverska hverfi. Skrýtin nöfn á sumum fyrirtækjum. Mest sló í augun Niggarafarsímaviðgerðir. Nefnilega.

Í því sem ég geng framhjá litlu sundi, að mér sýndist, þá sé ég nokkra spýtustafla þar inni. Beygi því inn í sundið, sem reyndar var ekki sund, heldur inngangur að þeirri stærstu timbursölu sem ég hef á æfinni séð. Þarna eru timburstaflar eftir timburstafla, alveg endalausir.

Auðvitað hrúguðust strax að mér sölumenn, og voru mjög forvitnir að vita hvaða plankastærðir mig vantaði. Urðu hálfhneykslaðir að ég væri bara að skoða. En tóku mér þó vel og fræddu mig í allan sannleik um timbrið þarna.

Hér kaupir maður ekki spónaplötur eða MDF. Nei, plankar er það sem allt snýst um. Auðvitað hlýtur einhvers staðar hægt að vera að fá plötur, en eftir að hafa séð þennan sæg af timbri, þá fer maður ekkert að kaupa manngerðar plötur.

Næsta dag fór ég og fjárfesti í nægu timbri til að smíða vinnuborð. Ég verð jú að hafa borð til að geta byggt hænsnakofa.

Annað gengur ekki.

En þetta er svolítið meira mál eða að kaupa tilbúið smíðatimbur í Bykó eða Húsasmiðjunni. Hér þarf að rétta af horn og hefla og meira vesen. En ég er kominn af stað og reikna með að borðið verði tilbúið um helgina.

Þá styttist í hænsakofann.

Teikningin er tilbúin.

11. september 2011

Kvalakofinn

Síðusta eina og hálfa árið okkar í Namibíu þá var ég nokkuð duglegur í heilsuræktinni. Byrjaði þó frekar með hangandi hendi. Var orðinn svo slæmur í baki að eitthvað varð að taka til bragðs. Fór á stað sem er einhvers konar sambland af heilsurækt og sjúkraþjálfun. Kallast „biokinetics“ á engilsaxnesku, en ég veit ekki hvert íslenskt heiti gæti verið. Fyrstu sex mánuðina af þessu tímabili varð ég smátt og smátt áhugasamari. Síðasta árið stundaði ég leikfimina grimmt. Mætti iðulega hálfsex á morgnana. Enda bar þetta árangur. Lesturinn af vigtinni varð skemmtilegri og jafnvel spennandi, og síðan varð ég líkamlega styrkari og þolnari en ég hef verið í a.m.k. 15 ár. Er þetta orðið þannig að ef ég fæ í bakið þá lagast það yfirleitt af sjálfu sér á nokkrum dögum.

Eftir að koma til Íslands í ársbyrjun þá velti ég því fyrir mér hvernig ég gæti haldið áfram að hreyfa mig. Ekki heilluðu líkamsræktarstöðvarnar mig. Endaði ég á að flikka upp á reiðhjólið mitt og fór að hjóla í tíma og ótíma. Fékk algjörlega nýja sýn á höfuðborgina okkar. Fannst mér þetta mjög skemmtilegt, en gjörsamlega yfirkeyrði hjólið. Endaði ég með að skilja það eftir í Keðjuverkun hjólanýting á Skólavörðustíg daginn áður en við flugum af stað til útlanda á ný.

En, hvað skal svo gera í Lílongve?

Við Rúnar Atli vorum reyndar komnir með plan fyrir löngu síðan. Að útbúa okkar eigin leikfimiaðstöðu. Við vorum búnir að sanka að okkur ýmsum gagnlegum hlutum fyrir svona lagað. Nokkur lóð, tvo pilates-bolta, tvo þunga æfingabolta, tvær dýnur, stigpall (frá Gullu) og, rúsínuna í pylsuendandum, boxpoka og hanska.

„Og, pabbi, við setjum upp miða á vegginn þar sem stendur We love pain!

Nefnilega. Við viljum kveljast!

House of Pain heitir aðstaðan því.

Kvalakofinn!

Í dag gengum við í að koma aðstöðunni í gagnið. Bak við húsið okkar er lítið yfirbyggt svæði sem við notum ekkert og ákváðum við að þetta væri tilvalinn staður. Ég dró upp höggborvélina og útbjó traustar festingar fyrir boxpokana og svo röðuðum við græjunum okkar upp. Enn vantar ýmislegt. Bekk til ýmissa nota og betri geymsluaðstöðu fyrir allt dótið. En það kemur.

Svo þurfti generalprufu.

Hvað annað?

Upphitunin fólst í göngutúr með hundinn. Ja, göngutúr fyrir mig en hjólatúr fyrir Rúnar Atla. Síðustu 4-500 metrana hlupum við Snúlla meira að segja. En, um leið og við komum inn á lóðina snarhemlaði hún og neitaði að hreyfa sig meir. Enda líklega í kringum áttrætt í mennskum árum...

Svo var tekið á!

Kveljast! Og kveljast svo meir!

Kallinn góður. Vel að merkja, litli boltinn í útréttum stálörmum er 5 kg að þyngd. Geri aðrir betur.

Hnefaleikar. Góðir taktar ef tekið er tillit til þess að hnefaleikar voru bannaðir öll mín uppvaxtarár. Kannski mætti ég þó vera aðeins fjaðurmagnaðri í fótunum. En bara aðeins...

En hér er meistarinn mættur. Alvörutaktar, enda karate-þjálfaður náungi hér á ferð. Boxhanskar, hvað? Svoleiðis nokk er bara fyrir vælukjóa.

Fylgt eftir alveg út í það ýtrasta.

Og hafðu það! Einbeitingin allsvakaleg.

6. september 2011

Alþjóðavæðing í Malaví

Alþjóðavæðingin lætur ekki að sér hæða. Þessi mynd var tekin 7 km fyrir utan bæinn við Apaflóa.

Vöruúrvalið var reyndar örlítið annað en í þeim verslunum með þessu nafni sem ég hef komið í annars staðar.



Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...