27. júní 2008

Á flakki

Sitjum á barnum í Opuwo og njótum útsýnisins


Hr Gin&tónik er til aðstoðar.

Vorum í Etosha í gær og sáum 77 fíla. Aðeins. Í morgun sáum við 20 gíraffa í hóp. Ferðin tókst s.s. vel. Himbar á morgun

17. júní 2008

Róleg þjóðhátíð í Windhoek

Ekki fer mikið fyrir þjóðhátíðarlátum hér í Windhoek. Ekki nema þrír Íslendingar sem ég veit af í borginni. Ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Þau tvö fóru í skólann í morgun, en ég tók lífinu með ró, enda skrifstofan lokuð á þjóðhátíðardaginn.

Veðrið er hálfleiðinlegt. Aldrei þessu vant er skýjað á júnídegi, leiðindarok og ekki nema rétt yfir 20 gráðunum. Þ.a. ég sit bara við tölvuna og hlusta á kósíkvöldið með Baggalútsmönnum. Ég þarf eiginlega að fara að skrá mig á tónlist.is og sækja fleiri lög með þessum köppum.

Óska öllum sem álpast til að lesa þetta ánægjulegan þjóðhátíðardag.

Útlitsdýrkun

Jahá, merkilegt hvaða dagbókarfærslur fá flestar athugasemdir.

En vegna mikillar pressu kemur hér ein uppstillt mynd af mér, svona rétt til að minna á að ekki eru alltaf fíflalæti og hamagangur...

Gapastokkur

Við Rúnar Atli vorum á rölti í bænum um helgina. Hann hefur mikið spáð í undirgöng sem við keyrum stundum í gegnum á leið okkar um bæinn. Ákváðum við því að kíkja á þau frá gangstéttinni svo hann gæti áttað sig á því hvað ég var að meina þegar ég sagði að við værum að ganga ofan á bílunum.

Auðvitað var ekki bara hægt að kíkja yfir grindverkið - nei, hausnum þurfti að stinga í gapastokk. En núna veit hann a.m.k. hvar við göngum ofan á bílunum.


14. júní 2008

Hvaðan kemur fegurðin?

Hún þarna þessi norska er eitthvað að tuða um að fagurleiki sonar míns sé allur úr móðurættinni.

Þvílík della.

Kona mín er auðvitað ægifögur, en systkini hennar eru nú ekkert til að hrópa húrra fyrir...

En ég mótmæli hér með formlega þessari móðurættisdellu og legg hér gögn fram máli mínu til stuðnings. Þ.e. myndir af mér teknar fyrir nokkru síðan...


Systir og bróðir

Hann Rúnar Atli á það til að vera kvikindislegur við systur sína. Stundum þegar við sækjum hana í skólann þá fær hún eftirfarandi kveðju um leið og hún sest inn í bílinn:

„Þú er ekki besti vinur minn, þú ert ekki systir mín og ekki bróðir minn!“

Og þá höfum við það. Skemmtilegar móttökur eða hitt þó heldur.

En svo eru dagar sem þau eru alveg óaðskiljanleg, systkinin. Hér er mynd tekin rétt áðan þar sem þau eru að „labba saman,“ sem sagt hann stendur á fótum hennar þegar hún labbar.

8. júní 2008

Dugleg heimasæta

Okkur er öllum frekar gjarnt á að horfa á það sem aflaga fer. Ekki gildir það síður þegar maður ræðir um unglingsbörnin sín. En nú verður breyting á og kemur lofræða um hana Tinnu Rut.

Áðan tók hún sig til og bakaði smákökur. Og það ekki neinar pakkasmákökur, ó, nei, heldur var allt blandað frá grunni. Mjög góðar súkkulaðibitasmákökur. Síðan þegar þetta var búið þá fór hún að elda kvöldmat. Bjó til kjúklingaborgara, franskar og hrísgrjón handa sér og bróður sínum.

Og til að kóróna allt var hún að læra þegar hlé varð á bökunarstörfum og eldamennsku.

Hvar var pabbinn á meðan? Jú, að horfa á Evrópukeppnina í knattspyrnu...

Sandur

Eftir pönnukökubakstur í morgun, þá fórum við Rúnar Atli í sandleiðangur með hinni íslensku fjölskyldunni í borginni. Þau vantaði sand í nýjan sandkassa, og ég veit um stað sem hægt er að ná sér í sand, hér rétt utan við borgina.

Hér sitja íslensku guttarnir fjórir og dunda sér í náttúrunni, þótti það miklu skemmtilegra en að moka sandi í stóra fötu.


Svo þurfti auðvitað að slappa af að erfiði loknu, en við skruppum á bændagistingu í hádegismat.

7. júní 2008

Hvítir gegn svörtum, eða rauðir gegn bláum?

Við Rúnar Atli tókum laugardaginn snemma. Vorum komnir út í bíl um sjöleytið og ókum tæplega 70 km leið til Okahandja. Tilefnið var skólaskákmót, en ég var að afhenda kennslubækur í skák fyrir hönd vinnunnar og hélt smáræðustúf í leiðinni.

Þarna var líka fulltrúi frá einum namibískum banka. Bankinn sá gaf 1.000 skákborð og skákmenn fyrir þessi skákborð. Eiga þessi borð að fara í skóla landsins. Smáalmannatengslafnykur var af þessu, enda kannski ekki óeðlilegt. T.d. var rauður broskarl á öllum hvítu reitunum á skákborðunum, en þessi broskarl er notaður í auglýsingum þessa banka. Reyndar var broskarlinn sjálfur mættur á svæðið, svona rétt eins og lukkudýr á íþróttaleik, og hoppaði og skoppaði þarna um.

Eins og skákþjóðin Ísland veit snýst skák um baráttu hvítra gegn svörtum. Í Afríku velta menn þessum litum svolítið meira fyrir sér en gert er heima á Fróni. T.d. er spurt hvers vegna hvítu mennirnir fá alltaf að hefja leikinn. Annað viðkvæmt mál er að það þykir verra að hafa svart.

Bankinn leysti þetta vandamál léttilega. Skákmennirnir sem fylgdu skákborðunum 1.000 voru nefnilega ekki svartir og hvítir. Ó, nei. Rauðir gegn bláum! Valur gegn Fram, Liverpool gegn Everton, danskurinn gegn okkur Frónverjum, og auðvitað kommar gegn íhaldi.

Snilldarbragð.

En hver fær að hefja skákina?

Námshestar

Tinna Rut að heiman í dag. Í sjálfu sér er það ekki nýtt. Hins vegar er tilefnið kannski annað en gengur og gerist.

Lærdómur.

Já, svei mér þá. Þrjár stelpur, þ.m.t. Tinna Rut hittust í morgun um hálfellefuleytið heima hjá einni þeirra og markmiðið er að fara yfir allar spurningar í kennslubókunum og verkefnum! Ekki slæmt helgarverkefni það.

Tinna Rut mætti með kók og snakk handa liðinu og hinar komu með birgðir af einhverju öðru lífsnauðsynlegu.

Batnandi fólki er víst best að lifa segir einhvers staðar.

6. júní 2008

Celtics eða Lakers?


Datt í hug í gærkvöldi að stilla afruglarann til að taka upp fyrsta leikinn í NBA úrslitunum milli Boston Celtics og Los Angeles Lakers. Það er ekki alveg á dagskránni að vakna klukkan tvö og horfa til hálffimm þegar vinna er næsta dag. Reyndar væri séns að vakna þegar leikirnir færast til vesturstrandarinnar.

Jæja, en ég settist niður áðan og horfði. Fínt að horfa á upptöku því hægt er að spóla yfir auglýsingar og kjaftablaður. Í fyrsta skipti á ævinni ætla ég að halda með Boston Celtics. Að mínu viti er ekki hægt að halda með náunga eins og Kobe Bryant.

Gaurinn hér á myndinni, nr. 34, heitir Paul Pierce og var besti maður Celtics í gær. Gaman að því að hann er frá Los Angeles og ólst upp rétt hjá Lakers höllinni sem þá var. Hann hataði Celtics eins og pestina, og sér í lagi leikmann þar sem hét Danny Ainge. Núna, er hann sem sagt ein aðalstjarna Celtics og hver skyldi framkvæmdastjóri Celtics vera? Enginn annar en fyrrnefndur Danny Ainge...

Auðvitað vann Boston fyrsta leikinn.

1. júní 2008

Sætur sigur

Æ, æ, æ, mikið var sætt að horfa á Svíana liggja. Ég tengdi tölvuna við sjónvarpið svo ég gat horft á þetta næstum eins og heima. Gæðin ekki alveg hundrað prósent en nokkuð góð.

Gat skeð að Svíaræflarnir ætli að senda inn kæru. Geta ekki sætt sig við að vera bara verri en Íslendingar.

Nú er bara spurningin hvort handbolti á ólympíuleikunum sjáist í Namibíu.

Verð á matvöru

Skaust í matvörubúð áðan. Rakst þá á vöruna sem er á meðfylgjandi mynd:


Jamm, arabíska á umbúðunum. Reyndar er enska á hinni hliðinni. En þetta er sem sagt undanrenna, flutt inn til Namibíu frá Egyptalandi, líklega með viðkomu í Suður Afríku.

Einn lítri af þessum drykk kostar sem svarar 117 krónum. Inni í því er 15% virðisaukaskattur.

En ég fór að hugsa um vegalengdina sem þessi undanrennulítri er búinn að ferðast. Nú er jú svo oft talað um hversu flutningskostnaður vara til Íslands leiði til hás verðs. Frá Egyptalandi til Suður Afríku eru litlir 7.200 km. loftleiðina. Töluvert lengra með sjó. Síðan frá Höfðaborg eru um 2.000 km til Windhoek þar sem ég kaupi vöruna.

Ætli megi ekki kvarta yfir háum flutningskostnaði? Heyri aldrei talað um svoleiðis hér.

Önnur vara sem ég keypti áðan, var örbylgjupoppkorn. Okkar heildsölufjölskyldumeðlimur hlýtur að geta hjálpað okkur aðeins með íslenskar upplýsingar. En popp þetta - sjá mynd - er framleitt í Bretlandi, skv. umbúðunum.


Ég skrapp á netið og mundi eftir Grimsby sem útskipunarhöfn á Bretlandi. Vegalengdin frá Grimsby til Reykjavíkur er 1.700 km. í loftlínu, skv. Google. Frá Grimsby til Höfðaborgar... 9.878 km... Munar um minna.

Þetta poppkorn hlýtur auðvitað að kosta formúu hér í Windhoek, ekki satt?

Kr. 251,-

Hvað kostar svona pakki á Fróni?

Verslunarleiðangur

Nokkuð er um liðið síðan ég keypti mér föt. Ekki er það að mér finnist leiðinlegt að vera í nýjum fötum. Nei, þvert á móti finnst mér yfirleitt gaman að vera í fötum sem nýbúið er að versla. Hins vegar finnst mér hundleiðinlegt að flækjast í fatabúðum, og reyna að meta hvort einhver flík sem hangir á herðatré eða liggur samanbrotin í hillu passi mér. Svo er það þetta með hvaða litir passa saman og hvaða litir ekki.

Í nokkrar vikur er ég búinn að vera að telja í mig kjark til að fara út og kaupa mér einar eða tvennar buxur, og kannski einhverjar skyrtur. Í morgun var svo haldið af stað. Sem betur fer fékkst Tinna Rut til að koma með. Reyndar á fölskum forsendum að nokkru leyti, en ætli hún skrifi ekki færslu um það sjálf.

Ég er síðan í einni af fínni búðum bæjarins og kominn með einar fínar gallabuxur á arminn, ekki kúrekastíll heldur eitthvað nýmóðins - ítalskt merki, og að skoða aðrar. Álpast til að spurja afgreiðsludömuna hver síddin á buxunum sé. „34 tommur,“ hélt hún - „æ,“ sagði ég, „ég þarf 32 tommur,“ og hengdi buxurnar aftur upp.

Fór svo að máta þessar ítölsku. Blótaði í sand og ösku (í hljóði þar sem Rúnar Atli var inni í mátunarklefanum) þegar ég sá að buxurnar voru alltof síðar. Datt þó í hug að fara í skóna líka, en þótti þetta ekki alveg í lagi. Fékk þó þann hugstorm að kalla í dóttur mína og spurja hana álits.

„Pabbi, þetta á að vera svona,“ sagði hún, og tókst glettilega vel að fela þreytuna yfir þessari vankunnáttu karls föður síns. „Nú?“ sagði ég, „ertu alveg viss?“ Þetta var nú eiginlega ekki svaravert.

En aðra hugljómun fékk ég og sendi telpuna eftir buxunum sem ég hafði skömmu fyrr hengt upp (34 tommur í stað 32ja), og eftir að máta og fá staðfestingu dótturinnar að ég liti ekki út eins og alltof stuttur lúði, heldur væri þetta hátíska, þá lét ég slag standa og keypti báðar buxurnar.

Rúnar Atli brá sér svo í hlutverk ljósmyndara þegar heim var komið og smellti af mynd af fæti mínum.


© Rúnar Atli Wiium



Svalur er ég víst orðinn, en dæmi hver sem vill.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...