30. júlí 2007

Klukk

Æ, blessunin hún dóttir mín klukkaði mig einhvern tímann um daginn, þvílík vitleysa, og þarf ég víst að skýra frá átta staðreyndum um sjálfan mig:

1. Ég hef einungis átt Macintosh tölvur - og er stoltur af
2. Þegar ég lauk doktorsprófi, þá gerðist ég áskrifandi að Andrési Önd á dönsku - og er stoltur af.
3. Ég fæ 4.939 krónur endurgreiddar úr skattinum þetta árið - og er stoltur af.
4. Á iPodinum mínum, fyrirgefiði, tónhlöðunni minni, er ég m.a. með Barnavísur Stefáns Jónssonar, sungnar af Bessa Bjarnasyni - og er stoltur af.
5. Ég kaupi reglulega reiðhjólablöð, þótt hjólið mitt safni ryki - og er stoltur af.
6. Ég á ekki gasgrill - og er stoltur af.
7. Ég á ein sólgleraugu - og er stoltur af.
8. Þarf að mæta í jakkafötum í vinnuna á morgun - jæja, er reyndar ekkert sérstaklega stoltur af því...

Svo má ég víst klukka einhvern...

...Maja mágkona í Norge - þú ert klikkuð, nei, ég meina klukkuð!!!

Babb í bátinn

Eftir geysilegar sviptingar í íbúðartilboðsmálum í gærdag, þar sem tilboðin gengu á milli á tveggja tíma fresti eða svo, þá hrundi allt í morgun. Við sögðum fasteignasalanum að því miður gætum við ekki sætt okkur við tilboðið frá seljendum íbúðarinnar sem við buðum í. Enn bar of mikið í milli, og ekki virtist mögulegt að finna hinn gullna milliveg.

Þannig fór um sjóferð þá.

Við Gulla sátum síðan til langt gengin í tvö síðustu nótt að skoða íbúðir á netinu. Enda var ég hálfslæptur í vinnunni í dag. Komst ekki í gang fyrr en á þriðja kaffibolla.

En núna er sem sagt vandræðaástand - náum við að kaupa og fá afhenta íbúð áður en þarf að tæma Stillholtið?

28. júlí 2007

Tengslanet...

Í morgun fórum við Rúnar Atli og Dagmar Ýr út á flugvöll. Von var á Þórdísi, vinkonu hennar Dagmarar. Hún kom á réttum tíma eins og til var ætlast.

Í biðsalnum kom allt í einu lítil svört stúlka, eitthvað yngri en sonur minn, og hafði mikinn áhuga á Rúnari Atla. Tók hún meira að segja í hönd mér eins og skot og var mjög tilbúin að ræða við okkur. Sonur minn, hins vegar, hafði greinilega megnustu óbeit á hvers konar samskiptum af þessu tagi og endaði með því að fara að gráta. Fór stúlkan því til móður sinnar að lokinni þessari fýluför.

Þarna var líka kona sem virtist þekkja þá stuttu og brosti mikið að þessum leikþætti sem þarna fór fram.

Kom svo í ljós að faðir stúlkunnar litlu var að koma með flugvélinni frá London og urðu miklir fagnaðarfundir er þau tvö hittust. Benti ég Rúnari Atla á þetta, hversu gaman væri þegar pabbi manns kæmi í flugvélinni. Hann samþykkti það alveg.

Konan, sem fyrr var nefnd, tók eftir að við vorum að fylgjast með og segir í óspurðum fréttum að faðirinn sé barnabarn Pohamba.

Pohamba, fyrir þá sem ekki til þekkja, er forseti Namibíu.

Þarna fór sonur minn aldeilis illa að ráði sínu. Hefði geta komist í gott samband við eina af helstu fjölskyldum landsins, en nei, ónei, það var ekki á dagskránni...

27. júlí 2007

Land lagt undir fót

Á þriðjudaginn var lögðum við af stað í svolítið ferðalag suður á bóginn. Ég þurfti að fara til Lüderitz á fund og ákvað svona einu sinni að taka fjölskylduna með. Ja, þó ekki hana Tinnu Rut, því prófin eru að byrja hjá henni. Auk fjölskyldunnar var nýi starfsneminn, hún Arndís með í för.

Fyrsta daginn lá leiðin til Keetmanshoop, en þangað eru um 500 kílómetrar. Lítið markvert gerðist á leiðinni, þar til um 50 km voru eftir. Þá ákvað bílstjórinn að víkja úr alfaraleið og taka smáaukahring. Þetta var ekki í eina skiptið í ferðalaginu sem bílstjórinn tók þessháttar ákvörðun, og voru þær misvel heppnaðar.

En í þetta sinn var heppnin með. Við ókum fáfarinn veg þar sem fólk býr í hreysum algerum. Ekki skilur maður alveg hvað fólk hefur sér til lífsviðurværis á svona stöðum, en það er líklega ekki margt. Undir lok aukahringsins, þá komum við að hinum svonefnda leikvelli tröllanna. Þar ber ekki á öðru en tröll hafi farið í lególeik með risavaxna steinhnullunga. Auðvitað er einhver þurr skýring jarðfræðinga til á þessu fyrirbæri, en skemmtilegra er að hugsa sér tröll í legó.


Við kíktum síðan á fæðustund nokkurra blettatígra sem búa á sveitabæ einum í grennd vð tröllaleikvanginn. Mátti klappa sumum blettatígrunum, sem aðeins dró úr ógnvænleika augnabliksins.


Við skráðum okkur þvínæst inn á gljúfrahótelið í Keetmanshoop, en Gulla mælir tvímælalaust með hótelinu. Rúnar Atli stakk sér síðan á barinn og sat þar í góðu yfirlæti. Og það þrátt fyrir 18 ára aldurtakmark á barinn.


Næsta morgun var dagurinn tekinn snemma og þeir 350 km sem eftir voru til Lüderitz tæklaðir. Fyrstu 60-70 km á þessari leið eru ægifagrir. Ekið er um fjalllendi og yfir Fiská, í hverri næststærsta gljúfur heims er að finna. Landslagið þarna er nokkuð fjölbreytilegt og því enginn asi á okkur. Við stöðvuðum auðvitað til að skoða villihestana sem búa þarna í eyðimörkinni. Eru þetta víst afkomendur þýskra herklára sem sleppt var í kringum fyrri heimstyrjöldina þegar fækkað var í þýskum hersveitum staðsettum í Namibíu. Minna hestarnir mig nokkuð á íslenska hestinn, en þó eitthvað stórvaxnari. En þarna lifa þessir hestar í eyðimörkinni og lifa á þeim örfáu stráum er þar finnast.

Til Lüderitz komum við um hádegisbilið.


Ekki var slegið slöku við, heldur ekið út á Diazarodda, en þar er minnisvarði um Diaz nokkurn er fyrstur Evrópubúa kom á þessar slóðir. Þarnar beljast brimið á strandklettum og oft má koma auga á seli á smáskeri þarna fyrir utan.


Að þessu loknu fór ég að vinna, en um kvöldið settist Rúnar Atli á barinn...

Næsta dag, eftir að skrá okkur út af hótelinu og kaupa helstu nauðsynjar kíktum við á draugaþorpið Kolmannskop. Þarna byggðist upp þorp við upphaf síðstu aldar. Var þetta vegna demantavinnslu og bjuggu þarna eitthvað yfir 1.000 Þjóðverjar á gullaldarárum þorpsins, frá 1908 til 1928. Þá fluttust flestir í burtu vegna þess að demantar fundust nokkru sunnar. Lagðist þorpið svo alveg í eyði 1956. Bjuggu menn þarna við ótrúlegar allsnægtir og var ekkert til sparað til að halda uppi háum lifistandard og menningarstigi. Konur gengu víst um í nýjustu Parísartískunni og menn púuðu vindla í vindlastofu samkomuhússins á meðan konurnar löptu kampavín í kvennastofunni. Þarna var tveggja brauta keiluhöll og eitthvað fullkomnasta sjúkrahús í allri Afríku. Var þarna víst fyrsta röntgentæki sem notað var í álfunni, en það var nú aðallega hugsaði til að hindra menn í að smygla demöntum út af svæðinu í iðrum sér.


Húsin eru flest farin að láta allmikið á sjá. Hér eru t.d. tvær myndir af húsi bæjarstjórans, önnur að utan en hin að innan. Má húsið muna sinn fífil fegri, en greinilegt engu að síður að engu hefur verið til sparað.


Hugviti Þjóðverjanna var greinilega engum takmörkunum háð. Þarna var stærðarinnar apparat sem útbjó ísklumpa og á hverjum degi fékk hver fjölskylda sinn klump. Var klumpurinn notaður í ískáp þeirra tíma, en auðvitað þurfti að halda hvítvíninu og kavíarnum köldum. Sést Gulla hér dást að einum af þessum galdragripum.


Að lokinni þessari mjög svo skemmtilegu heimsókn var ekið af stað áleiðis til baka. Eftir hádegisverð í smákrummaskuði er heitir Helmeringshausen fórum við að skoða Duwiseb kastalann, sem er einn af þessum undarlegu hugdettum Þjóðverja fyrr á árum.


Einum þeirra datt sem sagt í hug, fyrir um einni öld síðan að byggja kastala handa sér og amerískri eiginkonu sinni. Var ekkert til sparað, efniviður og iðnaðarmenn fluttir hálfa leið yfir hnöttinn, en því miður fengu þau lítið að njóta kastalans. Sá fyrri heimstyrjöldin til þess. Eftir stendur þessi furðulega bygging í landi þar sem flestir búa í strá- og leirkofum. Enn eru ýmsir af upprunalegu mununum varðveittir þarna eins og sjá má.


Í lok dagsins var ekki úr vegi að smella rembingskossi á kinn móður sinnar...


Við lukum síðan ökuferð dagins í Maltahöhe, smáplássi þar sem hótelherbergi beið. Auðvitað fór Rúnar Atli á barinn...

Í morgun, ákvað bílstjórinn að halda stystu leið til Windhoek. Stystu, samkvæmt korti og loftlínu. Fyrsti hluti leiðarnnar er milli 60 og 70 km skv. korti. Er skemmst frá að segja að fljótlega þrengdist vegurinn allnokkuð og varð þannig að stundum var erfitt að sjá hvar vegurinn lá og hvar ekki. Stundum kvíslaðist hann og þá varð hyggjuvitið að ráða hvort farið var til hægri eða vinstri. Endalausan fjölda hliða þurfti að opna, og síðan loka. Tíminn leið og þar sem hraðinn var milli 5 km/klst og 35 km/klst, var ekki farið mjög hratt yfir. Þótti sá mikli tími sem fór í þetta ekki mjög æskilegur og spurt hvort ökumaður væri villtur. Ekki vildi sá bekenna það, en laut þó svo lágt að spyrja tvisvar til vegar. „Jú, ert á réttri leið,“ var viðkvæðið í bæði skiptin. Þegar loksins síðan náðist til byggða, þá voru 70 km að baki samkvæmt kortinu, en hvorki meira né minna en fjóra og hálfan klukkutíma tók að ferðast þessa vegalengd!

Skyldi þetta vera met af einhverju tagi?

Voru því nokkuð slæptir ferðalangar sem renndu inn til Windhoek rúmlega fjögur í dag.

En þetta var skemmtilegt...

...svona eftir á.

23. júlí 2007

Sala frágengin!

Þá er búið að staðfesta sölu á húsinu, bankaheimild komin fyrir kaupandann!

22. júlí 2007

Guttinn hressist

Rúnar Atli er allur að hressast. Hann er meira að segja orðinn duglegur að taka dropana sína, og þá er nú fokið í flest skjól.

Í dag var hann að hjálpa mér við ljósmyndaverkefni og urðu þessar myndir þá til:21. júlí 2007

Líkamsræktartröllið

Hvurslags spurningar eru þetta eiginlega frá mínum kæru systkinum?

Hætta í ræktinni? Ó, nei, ó nei. Smáhlé þessa vikuna en svo verður farið af stað á nýjan leik. Nú verður bara tekið tillit til þátta eins og tognaðra bakvöðva...

Nokkur kíló hafa þegar farið svo maður er kominn á skrið.

Þegar Vilhjálmur kemst á skrið þarf töluvert til að stöðva hann...

20. júlí 2007

Slælegt heilsufar

Já, heilsan er ekki alveg upp á það besta þessa dagana hjá fjölskyldunni. Allir eru með kvef, en það þykir nú kannski ekki merkilegt. Pirrandi er það nú samt fyrir þá sem eru sífellt að snýta sér.

Í ljós kom í vikunni að veikindi Rúnars Atla um síðustu helgi enduðu í lungabólgu. Vægri, sem betur fer. Hann fékk svo háan hita um helgina og ef vökvatap líkamans verður of mikið, þá er víst hætta á lungnabólgu. Þetta lærir maður á þriðja barni :-(

Svo er ég búinn að vera stífur í baki síðustu daga og bara orðinn nokkuð kvalinn um miðja vikuna. Ekki þessi vanalegi bakverkur niður við mjaðmir, heldur verkur í miðju baki og rifbeinum. Fór ég í gær til hnykkjara og aftur í dag. Er hann kominn á þá skoðun að vöðvi í bakinu hafi tognað. Líklegt er að mín skrifstofuvinna og sjálfsagt ekki réttar stellingar við skrifborðið hafi eitthvað angrað vöðvana og síðan gæti líkamsrækt undanfarinna vikna hafa ýft þetta upp.

Hnykkjaratíminn í morgun var einhver sá kvalafyllsti sem ég man eftir. Hnykkjarinn potaði og nuddaði og lá við að ég æpti af kvölum og sársauka. En, ég beit á jaxlinn til að tapa nú ekki karlmennskuímyndinni...

Síðan fékk ég eitthvað kvalastillandi og bólgueyðandi og hefur liðið ágætlega seinnipartinn. Á að mæta aftur á mánudag og vona að það verði ekki eins miklar kvalir.

Það versta er að svona lagað tekur góðan tíma að lagast :-(

17. júlí 2007

Gleraugu

Þá er síðast kvenkynsmeðlimur fjölskyldunnar kominn með gleraugu. Já, hún Tinna Rut fylgir í fótspor móður sinnar og systur. Hún hefur stundum farið í augntékk, en ekki verið nógu mikið að sjóninni til að réttlæta gleraugu. Núna, hins vegar, kom að þessu.

Í dag er lítið mál að þurfa á gleraugum að halda. Gleraugnaglámur heyrist ekki oft, og reyndar virðist vera nauðsynlegt tískunnar vegna að hafa gleraugu. Hún tekur sig nú ágætlega út með gleraugun, ekki satt?

15. júlí 2007

Matgæðingar

Margir vita að ég er ekkert mjög hrifinn af ostum. Fínt er að fá bræddan ost ofan á samloku og hamborgara. Jú, og auðvitað er nauðsynlegt að hafa ost á pitsu.

En snobbostum er ég lítt hrifinn af. Á erfitt með að skilja þessa áráttu að setja illa lyktandi kvoðukenndan ost ofan á ritskex og eitt vínber með. Gulla skilur ekkert í þessum kúltúrskorti hjá mér, en hún nýtur reyndar góðs af, því ekki stelst ég í ostana hennar.

Skildi því nokkur trúa því að í gærdag stóð ég í biðröð í næstum fimmtán mínútur til að fá mér svona illa lyktandi osta? Þannig var málum háttað að í gær var Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka, og var okkur boðið í móttöku hjá franska sendiherranum hér í borg. Þegar nokkuð var liðið á teitið var tilkynnt að búið væri að bera á borð gæðaosta frá Frakklandi. Brást á nokkurs konar múgæsingur og allir þutu í röð eftir þessum kræsingum. Gat ég ekki staðið eins og illa gerður hlutur utan raðar og tók því þátt í athöfninni. Röðin lá inn í hús og upp stiga og fyrir horn og inn í borðstofu nokkra þar sem ostarnir voru á borði. Þegar ég komst inn í húsið þá kom þessi líka svakalegi fnykur á móti okkur. Lá við að liði yfir eina namibíska konu sem næst mér var í röðinni. Greip hún fyrir vit sér og þurfti greinilega að beita öllum sínum viljastyrk að leggja ekki á flótta.

Fnykurinn smájókst eftir því sem ofar dró í stigann og var jú allnokkur þegar í borðstofuna kom. Valdi ég mér tvo litla ostbita, sem voru ekki kvoðukenndir og alls ekki með blágrárri myglu utan á. Gat ég ekki betur séð en myglan á sumum ostunum hreyfðist... gæti verið missýning, þið skiljið, ég var með tárvot augu af fnyk.

Greip svo nokkrar brauðsneiðar og stökk niður stigann - þrjú þrep í hverju skrefi - og náði svo út í fríska loftið. Nartaði aðeins í ostinn og með því að drekkja honum í hvítvíni bragðaðist hann ágætlega.

Enn skil ég ekki þessa snobbáráttu.

Sjúkralega

Rúnar Atli er búinn að vera lasinn síðan á fimmtudag. Þá um kvöldið varð hann allt í einu heitur sem glóandi kolamoli. Var þá kominn með vel yfir 39 stiga hita. Síðan þá er hann búinn að vera með háan hita, sem dofnar við að fá hitastillandi, en kemur svo aftur með látum. Í gærdag fór hitinn nokkuð yfir fjörutíu stigin. En eitthvað virðist vera að brá af drengnum núna. Eftir að sofa tvær nætur í röð „á milli“ þá svaf hann alla síðustu nótt í sínu rúmi og í morgun var hann einungis með fimm kommur.

Illa hefur gengið að halda mat niðri síðan á fimmtudag, en núna í morgun bökuðum við feðgarnir vöfflur og hámaði hann í sig svolítið af þeim. Núna er hann meira að segja búinn að draga móður sína framúr rúminu.

Vonandi eru þessi veikindi á braut.

13. júlí 2007

Skyldi eitthvað vera að gerast?

Jæja, á föstudaginn 13. samþykktum við tilboð í húsið okkar! Við erum búin að vera að prútta í sjálfsagt tvær vikur núna og virðumst búin að teygja tilboðsgjafann eins hátt og frekast er unnt. Hefðum viljað einn til tvo hundraðþúsundkalla í viðbót, en ákváðum að ekki hefði neinn tilgang að bíða lengur. Nú bíðum við eftir að bankinn gefi tilvonandi kaupanda grænt ljós á fasteignalán og þá fer allt ferlið af stað.

Það er víst búið að vera töluvert rennerí af fólki að skoða, en ekkert komið út úr því fyrir utan þennan eina. En, það þarf jú bara einn til að kaupa.

Nú erum við farin að skoða íbúðir í bænum, á netinu þ.e.a.s., og erum strax komin með eina í sigtið. Erum núna með alla anga úti til að fá fulltrúa okkar til að skoða hús. Vonandi fáum við fyrstu skýrslu núna um helgina.

Ef allt fer sem horfir, þá verðum við brátt komin á mölina og orðnir Reykvíkingar. Jafnvel Breiðhyltingar... og ég sem hef svo oft skotið á hana Gullu mína fyrir að hafa alist upp í villingahverfinu...

Sá hlær best sem síðast hlær, segir máltækið.

8. júlí 2007

Fyrsta bíóferðin

Stór dagur í dag. Fyrsta ferð Rúnars Atla í kvikmyndahús. Öll fjölskyldan að Tinnu Rut undanskilinni fór á Shrek hinn þriðja. Ástæðan fyrir því að sú fimmtán ára sat heima var að hún sá þessa mynd þrjá daga í röð fyrir skömmu...

Rúnar Atli vissi nú ekki alveg hvert við vorum að fara eða hvað var í gangi. Hann var nú ekkert á því að koma með fyrr en honum var sagt að hann fengi popp og kók. Það gerði gæfumuninn.


Við vorum með skipulagða aðgerðaáætlun ef hann færi að gráta eða yrði ókyrr, en ekki þurfti að hrinda þeirri áætlun af stað. Guttinn sat bara ósköp kyrr nær alla myndina og var bara til fyrirmyndar.

Undir lok mánaðarins kemur víst Simpson bíómyndin hingað. Ætli við förum ekki aftur þá...

4. júlí 2007

Óperutónar

Í kvöld hlustuðum við á óperutónlist. Spænska sendiráðið hér í borg hafði milligöngu um að fá hingað tvö söngvara og einn píanóleikara og héldu þau sem sagt tónleika í kvöld í þjóðleikhúsi þeirra Namibíumanna.

Tenórinn, hann Jesús, leit út eins og týpískur óperusöngvari, þéttur á velli með miklar kinnar og undirhöku. Síðan var barítónsöngvari, Alfredo heitir hann, en sá leit frekar út eins og knattspyrnustjarna, spengilega vaxinn og með slöngulokka niður á herðar. Ekki má síðan gleyma íðilfögru senjórítunni, henni Söru, sem undir lék á píanó.

Er skemmst frá að segja að við Gulla skemmtum okkur geysivel. Lögin voru svona frekar í léttum dúr, reyndar á illskiljanlegum tungumálum, og liðu tveir tímar áður en við vissum af. Lófaklappið var mikið og tókur spanjólarnir tvö aukalög.

Svona uppákomur eru frekar sjaldgæfar hérna og því um að gera að skella sér þegar tækifæri gefst.

Smáferðalag

Í morgun flugum við til staðar austarlega í Namibíu, sem heitir Tsumkwe. Fórum í lítilli rellu, sem var nú ekkert sérlega rúmgóð. En með því að fljúga spöruðust tveir akstursdagar. Gulla hefur nú aldrei verið sérlega hrifin af því að fljúga í minni vélum en Boeing 737, en hún lét sig hafa það eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. En hún fékkst engan veginn til að koma nær myndavélinni, hún konan mín.


Í Tsumkwe og nágrenni býr mikið af búskmönnunum svokölluðu og vorum við í skoðunarleiðangri. Ekki er nú mikið við að vera í Tsumkwe, enginn hraðbanki einu sinni. Þó var bensínstöð, en sá galli var á gjöf Njarðar að allt bensín var uppurið. Þarf því að aka 304 km vegalengd til að komast á bensínstöð.

Þarna er nýbúið að opna lítinn veitingastað. Ja, svona afgreiðslulúgu. Þar fengum við spjóthafur (oryx) og kartöflusalat fyrir heilar 100 íslenskar krónur. Ekki tók mjög í budduna að borða þar.

Eins og venjulega var okkur tekið fagnandi. Krakkar úr fyrsta til þriðja bekk dönsuðu fyrir okkur og skemmtu þau sér ekki síður er við.


Þrátt fyrir ólýsanlega fátækt ríkir alltaf gleði hjá börnunum.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...