28. júlí 2010

Stífari ganga en ráð var fyrir gert

Um síðustu helgi brugðum við okkur í Waterberg þjóðgarðinn. Hann er svona í 280 km fjarlægð frá Windhoek. Því ekki of langt til að skjótast í burtu í eina nótt. Aðeins að bregða útaf venjulegu helgarrútínunni. Waterberg, sem gæti heitað Vatnafellið á því ylhýra, er heljarinnar stórt fjall. Reyndar ekki mjög hátt, en nær yfir stórt landsvæði. Það fyrsta sem tekið er eftir er hversu flatt það er að ofan. Er hreinlega eins og einhver hafi sneitt ofan af því í beinni línu. Jarðfræðikunnátta mín var nú betri í þriðja bekk MR heldur hún er í dag, þ.a. ég ætla nú ekki að reyna að giska á bergtegundir eða þess háttar. Hins vegar er svolítið af fjöllum af þessu tagi í Namibíu. Hnarreistir hamravegir og svo sléttur toppur.

Við fórum á laugardegi að heiman, og grilluðum þessar fínu svínasteikur og búapylsu í kvöldmatinn. Jú, og fyrir Rúnar Atla voru grilluð svínarif, en hann er mikill rifjaaðdáandi um þessar mundir.

Þegar við skráðum okkur inn í þjóðgarðinn, þá fengum við landakort af svæðinu og hljóp þjóðgarðsvörðurinn á hundavaði yfir ýmsar gönguleiðir. Um kvöldið skoðaði ég svo kortið frekar og ákvað að taka sunnudaginn snemma og fara í göngutúr. Svona rölta smáhring. Þá myndi ég komast á stað þar sem hægt var að sjá yfir svæðið. Skv. þjóðgarðsverðinum var þetta ekki erfið leið.

Rúnar Atli brást pabba sínum að þessu sinni og nennti ekki með. Gulla þurfti þá að vera með honum, þ.a. ég fór einn í leiðangurinn. Var vopnaður myndavél og einni vatnsflösku.

Arka ég svo af stað og gengur bara vel til að byrja með. Minnti fyrsti hluti leiðarinnar mig á háskólasvæðið í Vancouver, þar sem ég stundaði nám margt fyrir löngu. Mjúkur stígur og slútandi trjágróður. En svo fer gamanið að kárna. Þarna fara að verða grjóthnullungar á vegi mínum og dregur því aðeins úr gönguhraðanum. Á endanum var farið að sækja allmikið á brattann fyrir mig. Og enn fjölgaði hnullungunum.

Er skemmst frá að segja að þetta varð hálfgert klettaklifur hjá mér. Skemmti ég mér vel, en var feginn að Rúnar Atli kom ekki með. Það hefði orðið erfitt að toga fimm ára guttann yfir þetta grjót. Að ég tali nú ekki um á leiðinni niður. Að öllum líkindum hefði hann heimtað að fara á háhest og þá hefði sennilega farið illa fyrir okkur.

Ég læt fylgja tvær myndir með sem sýna „göngustíginn“.

Svona frekar groddalegur stígur, að mínu áliti. Kannski erfitt að sjá leiðina?

Ja, ég verð nú að viðurkenna að hafa einu sinni villst af leið. Tafði það mig um kortér á meðan ég labbaði fram og til baka í skóginum leitandi að leiðinni réttu.

En allt hafðist þetta nú að lokum. Ég fann leiðina og komst alla leið upp á topp Vatnafellsins. Og útsýnið var fagurt, það vantaði ekki.

Á myndinni hér að neðan sést langt yfir víðan völl. Þarna sést vel hversu þráðbeinir namibískir vegir eru yfirleitt. Ekkert verið að skella inn óþarfa beygjum.
Ég komst sem sagt á toppinn. Og fór létt með. Er kominn í ágætis form, en meira um það síðar. Göngutúrinn, sem ég hafði áætlað svona hálftíma langan, reyndist klukkutími og korter.

Að honum loknum smakkaðist morgunmaturinn vel.

26. júlí 2010

Meira af hátíðarkvöldverði

Grein úr Namibian í morgun. Þar er aðeins fjallað um hátíðarkvöldverðinn og er fyrirsögnin tekin úr ræðunni hennar Gullu: „Sælla er að gefa en þiggja.”

24. júlí 2010

Hátíðarkvöldverður með stæl

Í gærkvöldi fór ég á hátíðarkvöldverð sem samtök maka diplómata héldu. Þarna var um að ræða fjáröflunarkvöldverð, en samtökin styðja við ýmis verðug málefni, sér í lagi sem tengjast konum og börnum.

Eins og kannski einhverjir dagbókarlesendur muna, þá er Gulla hvorki meira né minna en forseti þessara samtaka. Það er því búið að vera nóg að gera hjá henni undanfarnar vikur í undirbúningi. Ekki er ofsögum sagt að í mörg horn þurfi að líta þegar undirbúinn er 150 manna kvöldverður.

Skemmst er frá að segja að kvöldið var geysilega vel heppnað. Dagskráin rann í gegn sem margæfð væri og er varla hægt að benda á nokkuð sem betur hefði mátt fara. Mín heitelskaða hélt þessa líka mergjuðu ræðu sem kallaði fram tár í hvörmum eiginmannsins. Var ég svo bergnuminn að ég tók ekki mynd af frúnni í ræðustólnum... en held þó í þá von að mynd muni fást annars staðar frá.

Þarna var ýmislegt sér til gamans gert, annað en að hlusta á Gullu halda ræðu og borða fíneríis mat. Þarna var haldið uppboð á nokkrum fínum hlutum og svo var tombóla. Var ég svo heppinn að vinna mat fyrir tvo á einu af veitingahúsum bæjarins. Keypti reyndar slatta af tombólumiðum, því eitthvað átti að vinna! Kom víst út á sléttu. Lagði út 200 Namibíudali en það var einmitt verðmæti vinningsins.

Svo voru skemmtiatriði. Tróð upp indónesískur tónlistarhópur, sem söng nýmóðins lög, en undirspilið var á hefðbundin indónesísk hljóðfæri. Virkilega flott og skemmtilegt.


Skipuleggjendur svona hátíðarkvöldverðar þurfa í mörg horn að líta. Hér eru Gulla og Marikka, finnskur meðlimur samtakanna, að finna lausn á vandamáli sem upp kom. Lausnin var auðvitað bráðsnjöll og tók enginn eftir að vandamál hefði skotið upp kollinum, nema stöllurnar tvær.


Ekki voru bara indónesísk skemmtiatriði. Þjóðdansahópur, namibískur, tróð einnig upp og vakti mikla gleði hátíðargesta. Er alltaf svo mikil gleði og kátína í fasi namibískra þjóðdansahópa að ekki er hægt annað er hrífast með.


Eins og ég sagði áðan, þá hefur undirbúningurinn verið strembinn. Til að öllu sé nú haldið til haga, þá stóð Gulla engan veginn ein í þessu. Skemmtinefndin samanstóð af sjö kjarnakonum og var ég svo heppinn á ná þeim öllum saman á mynd undir lok kvöldsins. Þreyttar voru þær, en virkilega ánægðar með afraksturinn.


Kvöldinu lauk með dansi. Þriggja manna hljómsveit sá um að halda uppi fjöri og gerði það svikalaust. Ekki man ég hvenær við Gulla dönsuðum síðast jafnmikið og við gerðum í gær. Mikið var það skemmtilegt. Ekki er laust við að þreytu hafi gætt í mannskapnum í morgun. Og einnig voru tær forsetans eitthvað eftir sig eftir háhæluðu skóna.

En kvöldi var skemmtilegt og eftirminnilegt. Þungu fargi var af skemmtinefndinni létt, því auðvitað er fólk alltaf með í maganum þegar svona atburður er skipulagður.

Ég er stoltur af eiginkonunni.

19. júlí 2010

Ferðalangar

Þá erum við Rúnar Atli í Tsumeb, góða 400 km fyrir norðan Windhoek. Við erum í góðu yfirlæti á nýjum gististað í útjaðri bæjarins, Kupferquelle nefnist hann. Einhver flottasti gististaður sem ég hef lent á hér í Namibíu. Hérna er m.a.s. sex brauta 50 metra löng sundlaug. Reyndar alltof köld á þessum árstíma, en ábyggilega flott að fara í hana í desember þegar heitast er.

Ég er að fara á morgun að heimsækja leikskóla sem verið er að byggja á svæðum Sana, en eitthvað gengur erfiðlega að klára bygginguna. Því fer ég til að komast að því hvaða vandamál valda þessu. Hér lendir maður stundum í því að enginn vill segja manni beint hvert vandamálið er, þ.a. maður verður að mæta sjálfur á svæðið. Ekki að það sé leiðinlegt, því miklu skemmtilegra er að fara í vettvangsskoðanir heldur en að sitja við skrifborðið í Windhoek.

Síðan datt mér í hug að ekki væri úr vegi að fá Rúnar Atla með í för. Hann er jú miklu meiri sérfræðingur í leikskólum heldur en ég...

Við lögðum af stað frá Windhoek rétt fyrir tvö leytið og renndum í hlað hér rétt rúmlega sex. Rétt eftir myrkur. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig. Rúnar Atli er einstaklega góður og rólegur í bíl. Hann horfir á bíómyndir ef sá gállinn er á honum, en ef ekki, þá dundar hann sér með eitthvað dót. Alveg með ólíkindum hvað hann nennir að sitja.

Í Otjiwarongo kíktum við á kaffihús, Bäckerei O. Carstensen, heitir það. Er eitt af þessum frábæru þýsku bakaríum sem maður rekst á sumsstaðar í sveitum Namibíu. Þarna úir og grúir allt í fínum þýskum marsípankökum og alls konar gúmmelaði sem ég kann ekki að nefna. Síðan, fyrir heilbrigða fólkið, er heilmikið af hollum brauðum, s.s. þriggjakornabrauð, bóndabrauð, mjólkurbrauð og ég veit ekki hvað og hvað. Áreiðanlega á annan tug brauðtegunda. Ekki má gleyma þessum flottu frönsku vöfflum, sem nefnast skósólar á þýskunni. Annar af tveimur stöðum í landinu sem ég veit til þess að það fínerí fæst.

Er eins og að hverfa aftur um fjóra áratugi eða svo að koma þarna inn. Mér er sagt af traustum heimildamanni að innréttingum hafi ekki verið breytt frá því bakaríið var stofnað. Svo er ótrúlega gamaldags að horfa á eigandann standa bakvið búðarborðið reykjandi sígarettu.

En, bakkelsið er gott, því er ekki hægt að neita.

Annars erum við Rúnar Atli að spá í að skreppa í túristaleiðangur á leiðinni heim á morgun. Taka á okkur smávegis krók og kíkja á steingerð risaeðluspor. Við höfum aldrei skoðað þau, sem er nú eiginlega skömm frá að segja. Ef þetta er flott þá koma myndir seinna.

15. júlí 2010

Bévítans „ekki Macintosh“ tölvurusl

Ég er Makkamaður.

Svo mikill að það nálgast trúarbrögð. Einu sinni var mér sagt að ef ég yrði atvinnulaus hagfræðingur, þá gæti ég alltaf farið að selja Makka. Og myndi standa mig ofurvel, því ég tryði á söluvöruna.

Því miður man ég nú ekki nákvæma dagsetningu. En í október 1990 settist ég í fyrsta sinn fyrir framan Makka. Um leið og ég fattaði muninn á einföldum og tvöföldum músarsmelli, þá varð ég forfallinn aðdáandi. Munið, á þeim tíma voru „ekki Makkar“ músarlausir.

Mér hefur í gegnum tíðina tekist að sannfæra eitthvað af fólki að Makkinn það eina sanna. Ekki veit ég til þess að það hafi valdið neinum vinslitum, nema síður sé.

En, og alltaf skal þurfa að vera undantekning..., hún Tinna Rut, elskuleg dóttir mín, hefur hins vegar þurft að ergja karl föður sinn þegar kemur að tölvumálum.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tók hún ástfóstri við Windows tölvur. Windows af öllum hlutum.

Úff, ég fæ tár í augun við að skrifa þetta... Liggur við að maður fari hreinlega að halla sér að flöskunni...

Nema hvað, maður reynir jú að vísa börnunum sínum á rétta veginn, en auðvitað styður maður við bakið á þeim þótt maður sé ekki endilega sammála. Í fyrra fékk Tinna Rut því „ekki Macintosh“ fartölvu.

Þetta var nokkuð góð tölva, a.m.k. voru „spekkurnar“ fínar, eins og nördarnir myndu sjálfsagt segja. „Acer TravelMate“ heitir gripurinn og svo eitthvað númer sem ég man ekki. Það hefði mátt kaupa fína Makka fartölvu fyrir verð þessarar.

Svo fyrr í vikunni, 18 mánuðum eftir framleiðsludag tölvunnar, koma þau skemmtilegu skilaboð á skjáinn að „harði diskurinn er alveg að gefa sig, vinsamlegast taktu afrit af gögnunum þínum!“

Það var og.

Ég mæli ekki með „Acer TravelMate“ nó-sör-í.

Sjúkdómsgreiningin var síðan staðfest af tölvusérfræðingi fyrr í dag. Harði diskurinn ónýtur. Þar liggur fjörutíuþúsund kall í valnum.

Ekki nema.

En þvílíkt og annað eins endingarleysi. Tölvur eru ekki gefins. Og að skuli þurfa meiriháttar viðgerð einu og hálfu ári eftir framleiðsludag, það er nú alveg ótrúlega skítt.

Það versta er að engum finnst þetta neitt skrýtið. „Svona eru bara tölvur,“ er svarið sem gefið er ef maður álpast til að rífast yfir svona hlutum. „Já, mjög algengt að fá 15-18 mánaða gamlar tölvur með ónýta diska.“ Hvað getur maður sagt við svona löguðu? Hvers konar rusl er eiginlega verið að selja manni?!

Tölvan sem ég skrifa þetta dagbókarbrot á var keypt 2001. Síðla árs, minnir mig. Makki auðvitað, iMac hálfkúla. Hún virkar vel, enn þann dag í dag. Níu ára gömul. Er reyndar hægvirk í myndvinnslu, en annars bara ágæt. Hélt reyndar um daginn að hún væri að gefa sig, en er núna að hallast að því að sökudólgurinn sé utanáliggjandi harður diskur, ekki Makkinn sjálfur. Ég keypti þessa tölvu eftir að hella óvart hvítvíni yfir lyklaborðið á fartölvunni minni - líka Makki - og sú var úrskurðuð ónýt. Hafði keypt hana 1998 og vitiði hvað? Hún virkar enn í dag. Já, þurfti bara nokkura mánaða hvíld inni í skáp, rétt á meðan hvítvínið var að gufa upp, og fór svo í gang á nýjan leik.

Töggur í Makkanum.

Nei, ég mun ekki kaupa annað en Makka héðan í frá.

14. júlí 2010

Ég fell alveg í skuggann...

Ég er alveg viss að tryggir lesendur muna vel þegar Rúnar Atli komst á forsíðu Namibian í mars sl.

Það hef ég enn ekki afrekað.

Nú í morgun var svo komið að Gullu að heilla land og þjóð. Hún fór í sjónvarpsviðtal hjá NBC, hvorki meira né minna.

Áður en þið, kæru lesendur, farið að hringja í vini og kunningja í Bandaríkjunum Norður Ameríku, þá er líklega rétt að nefna að að NBC er skammstöfun fyrir Rúv þeirra Namibíumanna. „Namibian Broadcasting Corporation“ upp á engilsaxnesku.

Þannig er að samtök maka diplómata, sem Gulla er í forsvari fyrir, halda hátíðarkvöldverð seinna í mánuðinum. Tilgangurinn er að safna peningum sem renna til góðgerðarmála. Til að auglýsa kvöldverðinn fór Gulla, ásamt gjaldkera samtakanna, í viðtal í sjónvarpsþætti sem nefnist „Góðan daginn, Namibía“. Þáttur þessi hefst kl. sex á morgnana og stendur í tvo tíma. Gulla þurfti því að fara framúr fyrir allar aldir í morgun, því mæting var rétt fyrir sex.

Því miður vorum við Rúnar Atli uppteknir við annað, en sem betur fer erum við með afruglara sem hægt er að taka efni upp úr sjónvarpinu. Stillti ég því á upptöku og horfði síðan á viðtalið núna í kvöld.

Skemmst er að segja frá því að frúin stóð sig glimrandi vel. Ég er því núna að rifna af stolti yfir hversu vel giftur ég er.

Ég vissi það auðvitað, en alltaf gaman að fá staðfestingu á hversu sterkur leikur þetta var í Klúbbnum sáluga fyrir, ja, tuttuguogsex árum... aðeins.

Sællar minningar.

11. júlí 2010

Búfénaður við morgunverðarborðið

Við hjónin fengum okkur morgunverð úti á verönd þennan sunnudaginn. Kanadískar pönnukökur, beikon og te. Ekkert heilhveiti eða önnur heilsuvitleysa í þetta skiptið. Það er aðeins byrjað að hlýna á nýjan leik og því aftur hægt að sitja úti við á morgnana.

Húsið okkar er miðsvæðis í nokkuð brattri hlíð og sjáum við því niður til sumra nágranna okkar. Blasir þak eins hússins við okkur af veröndinni. Merkilegt finnst okkur að íbúar þessa húss eiga tvær geitur. Geitur þessar eru iðulega á vappi ofan á þaki hússins. Koma stundir þar sem þær jarma alveg endalaust. Þannig stund var núna í morgun. Skiljum við engan veginn af hverju nokkrum dettur í hug að hafa geitur í garðinum sínum, hvað þá ofan á bárujárnsþaki.

Kannski einhver sem gengur með sveitamanninn í maganum.

10. júlí 2010

Avatar og óskhyggjan um hið dásamlega líf frumbyggjans

Fyrir nokkrum kvöldum horfði ég á kvikmyndina Avatar. Reyndar í annað skipti sem ég sé þessa mynd. Mér finnst þetta skemmtileg mynd. Ágætis söguþráður sem heldur manni við efnið allan tímann. Síðan eru tæknibrellurnar alveg stórkostlegar. Með ólíkindum hvað brellutæknin er orðin háþróuð.

En ég man þegar myndin kom út fyrir jólin í fyrra hversu mikið húllumhæ var í kringum hana. Las ég um ungmenni úti í hinum stóra heimi sem íhuguðu sjálfsmorð eftir að sjá myndina. Af hverju þá? Jú, líf hins bláa Nu'vi fólks í myndinni var svo dásamlegt og fallegt að hið daglega strit í heimi nútímans sýndist algjörlega merkingar- og tilgangslaust. Litlaust líf og grátt. Má t.d. lesa um þetta á síðu Daily Mail hérna. Virtust þó nokkuð margir sammála þessari skoðun.

Fyrir þá sem hafa ekki séð myndina, þá lifir Nu'vi fólkið á fjarlægri plánetu í fullri sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Þegar ég sá kvikmyndina í fyrra skiptið, þá sá ég strax mikla samsvörun milli lífs Nu'vi fólksins og Himba ættflokksins í norður Namibíu. Himbarnir lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og lifa meira og minna á sama hátt og forfeður þeirra hafa gert í hundruðir ára. Þeir hugsa um sína nautgripi og lífsgæði okkar hinna eru fjarlæg þeim flestum.

Væri þá bara ekki ráð fyrir þá sem sjá líf Nu'vi fólksins í rósrauðu ljósi að skella sér til Namibíu og ganga í Himba-hópinn?

Jú, kannski. En þó held ég að fólk gæfist fljótt upp. Líf Himbanna er nefnilega enginn dans á rósum. Stanslaust strit. Næst þegar þið horfið á Avatar, teljið hversu oft þið sjáið einhvern undirbúa málsverð. Hversu oft þið sjáið einhver vinna. Enginn gerir þvílíkt hjá Nu'vi fólkinu.

Draumaheimur kvikmyndanna er nefnilega samur við sig. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða frumbyggjaheim eða einhvern annan heim. Verst er hversu margir virðast ekki gera greinarmun á draumaheiminum og hinum raunverulega.

Mörkin dregin

Villi, ég dreg mörkin við heilsuvöfflur! mælti mín elskulega eiginkona í morgun.

Þá veit ég það.

Heilhveiti er víst bannað í vöfflur...

3. júlí 2010

Fyrsta tönnin farin!

Stór stund áðan. Rúnar Atli missti fyrstu tönnina. Framtönn í neðri gómi.

Mikill dýrðardagur, því biðin hefur verið löng og stundum nær óbærileg. Tönnin sem um ræðir var orðin laflaus og hékk bara á lofti að því er virtist. Svo áðan var guttinn eitthvað að snúa tönninni og þá bara datt hún úr.

Já, menn færast nær fullorðinsárum.

Svo er bara að setja hana undir koddann og sjá hvort tannálfurinn mætir á svæðið í nótt.

Sameiginlegt svekkelsi Afríkubúa

Er hægt að upplifa meiri spennu? Átta liða úrslit í heimsmeistarakeppni, leikar standa jafnir, lokamínúta framlengingar og vítaspyrna dæmd. Að vítapunktinum gengur Gyan, ganverska hetjan úr leiknum við Bandaríkin, og býr sig undir að taka spyrnuna. Tekur tilhlaup og þrumar knettinum í þverslána og yfir. Um alla Afríku hrópuðu menn „Neiiiiii“ á öllum þeim óteljandi tungumálum sem í álfunni finnast.

Undraði mig ekki ef jarðskálftamælar hefðu tekið kipp við þetta sameiginlega svekkelsi íbúa Afríku.

Afríka er næststærsta álfa heims. Í henni eru 53 lönd, ef mig misminnir ekki. Í hverju landi er aragrúi ættbálka og ekki óalgengt að margir tugir tungumála séu við lýði. Borgarastyrjaldir eru vel þekktar í álfunni og óöld á mörgum stöðum.

Engu að síður held ég að í engri annarri álfu heims sé jafnmikla samkennd að finna yfir uppruna sínum. Allir eru Afríkubúar. Og eru stoltir af því. Lýsir þetta sér líklega hvað best í íþróttum. Á yfirstandandi heimsmeistaramóti þá halda bókstaflega allir Afríkubúar með öllum Afríkuliðunum. Allir vildu sjá Nígeríu, Gana, Fílabeinsströndina, Kamerún, S-Afríku og Alsír ná upp úr riðlakeppninni. Engu máli skiptir hvaða liði þú heldur með - Afríkuliðin áttu að komast upp.

Uppskeran var hins vegar rýr, því aðeins Gana náði að komast áfram. Mikið skúffelsi var yfir slöku gengi hinna liðanna. Hafa ýmsir spekingar rætt þetta fram og til baka og benda á ýmis afrísk vandamál sem þurfi að leysa til að álfuliðin standi sig betur næst. Ekki vandamál bundin við Nígeríu eða Fílabeinsströndina o.s.frv. Nei, afrísk vandamál.

Mér er sem ég sæi Hollendinga verða fúla ef Þýskaland dytti snemma úr leik. Ekki mjög líklegt. Ætli Bretar almennt hafi grátið mikið þegar Frakkar urðu sér til háborinnar skammar á HM? Varla.

Nei, við Evrópubúar höldum ekki sjálfkrafa með liði af því að það er evrópskt. Ég held að sömu sögu megi segja um aðrar heimsálfur.

Í Afríkunni, hins vegar, þá er haldið með Afríku.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...