10. júlí 2010

Avatar og óskhyggjan um hið dásamlega líf frumbyggjans

Fyrir nokkrum kvöldum horfði ég á kvikmyndina Avatar. Reyndar í annað skipti sem ég sé þessa mynd. Mér finnst þetta skemmtileg mynd. Ágætis söguþráður sem heldur manni við efnið allan tímann. Síðan eru tæknibrellurnar alveg stórkostlegar. Með ólíkindum hvað brellutæknin er orðin háþróuð.

En ég man þegar myndin kom út fyrir jólin í fyrra hversu mikið húllumhæ var í kringum hana. Las ég um ungmenni úti í hinum stóra heimi sem íhuguðu sjálfsmorð eftir að sjá myndina. Af hverju þá? Jú, líf hins bláa Nu'vi fólks í myndinni var svo dásamlegt og fallegt að hið daglega strit í heimi nútímans sýndist algjörlega merkingar- og tilgangslaust. Litlaust líf og grátt. Má t.d. lesa um þetta á síðu Daily Mail hérna. Virtust þó nokkuð margir sammála þessari skoðun.

Fyrir þá sem hafa ekki séð myndina, þá lifir Nu'vi fólkið á fjarlægri plánetu í fullri sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Þegar ég sá kvikmyndina í fyrra skiptið, þá sá ég strax mikla samsvörun milli lífs Nu'vi fólksins og Himba ættflokksins í norður Namibíu. Himbarnir lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og lifa meira og minna á sama hátt og forfeður þeirra hafa gert í hundruðir ára. Þeir hugsa um sína nautgripi og lífsgæði okkar hinna eru fjarlæg þeim flestum.

Væri þá bara ekki ráð fyrir þá sem sjá líf Nu'vi fólksins í rósrauðu ljósi að skella sér til Namibíu og ganga í Himba-hópinn?

Jú, kannski. En þó held ég að fólk gæfist fljótt upp. Líf Himbanna er nefnilega enginn dans á rósum. Stanslaust strit. Næst þegar þið horfið á Avatar, teljið hversu oft þið sjáið einhvern undirbúa málsverð. Hversu oft þið sjáið einhver vinna. Enginn gerir þvílíkt hjá Nu'vi fólkinu.

Draumaheimur kvikmyndanna er nefnilega samur við sig. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða frumbyggjaheim eða einhvern annan heim. Verst er hversu margir virðast ekki gera greinarmun á draumaheiminum og hinum raunverulega.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...