14. júlí 2010

Ég fell alveg í skuggann...

Ég er alveg viss að tryggir lesendur muna vel þegar Rúnar Atli komst á forsíðu Namibian í mars sl.

Það hef ég enn ekki afrekað.

Nú í morgun var svo komið að Gullu að heilla land og þjóð. Hún fór í sjónvarpsviðtal hjá NBC, hvorki meira né minna.

Áður en þið, kæru lesendur, farið að hringja í vini og kunningja í Bandaríkjunum Norður Ameríku, þá er líklega rétt að nefna að að NBC er skammstöfun fyrir Rúv þeirra Namibíumanna. „Namibian Broadcasting Corporation“ upp á engilsaxnesku.

Þannig er að samtök maka diplómata, sem Gulla er í forsvari fyrir, halda hátíðarkvöldverð seinna í mánuðinum. Tilgangurinn er að safna peningum sem renna til góðgerðarmála. Til að auglýsa kvöldverðinn fór Gulla, ásamt gjaldkera samtakanna, í viðtal í sjónvarpsþætti sem nefnist „Góðan daginn, Namibía“. Þáttur þessi hefst kl. sex á morgnana og stendur í tvo tíma. Gulla þurfti því að fara framúr fyrir allar aldir í morgun, því mæting var rétt fyrir sex.

Því miður vorum við Rúnar Atli uppteknir við annað, en sem betur fer erum við með afruglara sem hægt er að taka efni upp úr sjónvarpinu. Stillti ég því á upptöku og horfði síðan á viðtalið núna í kvöld.

Skemmst er að segja frá því að frúin stóð sig glimrandi vel. Ég er því núna að rifna af stolti yfir hversu vel giftur ég er.

Ég vissi það auðvitað, en alltaf gaman að fá staðfestingu á hversu sterkur leikur þetta var í Klúbbnum sáluga fyrir, ja, tuttuguogsex árum... aðeins.

Sællar minningar.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...